Miðað við nýjar tölur Þjóðskrár voru landsmenn um 364 þúsund í upphafi árs 2020. Af þeim voru 231.145 skráðir í þjóðkirkjuna, eða 63,5 prósent landsmanna. Það þýðir að tæplega 133 þúsund manns hafi ekki verið skráð í hana um síðustu áramót, eða 36,5 prósent landsmanna. Þeir íslensku ríkisborgarar sem kusu að standa utan þjóðkirkjunnar voru 30.700 um síðustu aldarmót. Á tveimur áratugum hefur þeim því fjölgað um rúmlega 102 þúsund.
Þetta má lesa út úr tölum um skráningar í trú- og lífsskoðunarfélög sem Þjóðskrá birti í vikunni.
Þeim sem skráðir eru í þjóðkirkjuna fækkaði um 1.501 á milli ára. Auk þess skilaði fjölgun landsmanna um rúmlega sjö þúsund frá upphafi árs 2019 sér ekki inn í þjóðkirkjuna.
Árið 1992 voru 92,2 prósent landsmanna skráðir í þjóðkirkjuna. Síðastliðna áratugi hefur hlutfall þeirra sem tilheyra henni dregist saman og frá árinu 2009 hefur meðlimum þjóðkirkjunnar fækkað á hverju ári.
Trú- og lífsskoðunarfélög hér á landi fá sóknargjöld greidd fyrir hvern skráðan einstakling, 16 ára og eldri. Á árinu 2018 greiddi ríkið 931 krónur á mánuði á hvern einstakling í hverju félagi fyrir sig.
Breytt skráning og meint siðrof
Þeim Íslendingum sem treysta þjóðkirkjunni hefur auk þess fækkað um helming frá aldarmótum, en í könnun sem var birt í lok október 2019 sögðust um þriðjungur landsmanna bera mikið traust til hennar. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, sagði í viðtali við RÚV í kjölfarið, þar sem hún ræddi orsakir takmarkaðs trausts á störfum hennar og kirkjunnar. Þar sagði biskup að á Íslandi hefði orðið siðrof þegar ákveðið var að hætta að kenna kristinfræði í grunnskólum landsins. „Það hefur orðið siðrof, held ég. Fólk áttar sig ekki á því hvaðan hlutirnir koma sem við viljum gjarnan lifa eftir og starfa eftir. Það náttúrulega segir sig sjálft að ef að börnin læra ekki heima hjá sér til dæmis biblíusögurnar eða í skólanum þá verður framtíðin þannig að þau vita ekki að þetta er til. Ef maður veit ekki að eitthvað er til þá skiptir það mann engu máli, -fyrr en kannski allt í einu að eitthvað kemur upp á.“
Þessu var breytt árið 2013 og nú þurfa báðir foreldrar að tilheyra sama trú- og lífsskoðunarfélagi til að barnið sé skráð í félag, annars skráist barnið utan trúfélaga. Á sama tíma var ramminn utan um hvers kyns félög mættu skrá sig sem trú- og lífskoðunarfélög og þiggja sóknargjöld rýmkaður.
Stór hluti utan félaga eða óskilgreindur
Alls voru 26.116 manns skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga í upphafi árs og fjölgaði þeim um 1.245 á einu ári. Fjöldi þeirra var 10.336 í byrjun árs 2010. Þeim sem velja slíka stöðu hefur því fjölgað um 153 prósent á áratug. Þeir sem velja að standa utantrúfélaga eru því næst stærsti hópur þeirra sem taka afstöðu til trúmála með skráningu á Íslandi. Auk þess eru 52.091 manns með ótilgreinda stöðu, en ætla má að uppistaða þess hóps séu erlendir ríkisborgarar sem flutt hafa til landsins á undanförnum árum.
Í umfjölluninni sagði Séra Jakob Rolland, prestur innan kaþólsku kirkjunnar, að hann teldi kaþólikka hérlendis þó vera miklu fleiri, eða hátt í 30 þúsund manns.
Mest var þó fjölgunin síðastliðna rúma árið hjá þeim sem skráðu sig í Siðmennt, félags siðrænna húmanista á Íslandi. Siðmennt hefur verið skráð lífsskoðunarfélag frá árinu 2013. Félagið er það eina sem berst beinlínis gegn sóknargjöldum og fyrir algjöru trúfrelsi. Meðlimir í Siðmennt eru nú 3.509 talsins og fjölgaði um 655 frá því í desember 2018.
Þeim sem skráðir eru í trúfélög múslima á Íslandi hefur einnig fjölgað mjög á undanförnum árum. Árið 1998 voru 78 manns skráðir í Félag múslima á Íslandi. Nú eru 623 skráðir í það félag en auk þess eru tvö önnur trúfélög múslima skráð. Félagar í Menningarsetri múslima á Íslandi eru 378 talsins og félagar í Stofnun múslima á Íslandi alls 281 talsins. Samanlagt eru því 1.282 skráðir í múslimsk trúfélög hérlendis. Inga Auðbjörg K. Straumland, formaður Siðmenntar, skrifaði grein sem birtist í Kjarnanum í lok október í fyrra þar sem hún brást við fullyrðingu biskups Íslands um siðrof þjóðarinnar.
Undið ofan af Zuism
Næst mest fækkun, bæði í rauntölum og hlutfallslega, hefur orðið í trúfélaginu Zuism. Zuistar voru skráðir tveir árið 2014 en fjöldi þeirra rauk upp í rúmlega þrjú þúsund í byrjun árs 2016, eftir að hópur manna taldi sig hafa tekið yfir félagið og ætlaði að endurgreiða fólki þau sóknargjöld sem innheimt yrði vegna þeirra. Síðan stóð yfir áralöng barátta milli þess hóps og þeirra aðila sem áður höfðu farið með yfirráð í félagsskapnum. Sú barátta endaði með sigri hinna síðarnefndu. Zúistar fengu 32 milljónir króna greiddar úr ríkissjóð vega sóknargjalda á árinu 2016.
Lykilmenn í þeim hópi eru tveir bræður, Einar og Ágúst Arnar Ágústssynir. Sá fyrrnefndi hefur hlotið dóm vegna fjársvika.
Íslenska ríkið hefur reynt að koma í veg fyrir að Zuism fái greidd sóknargjöld þar sem óvissa sé uppi um að Zuism uppfylli skilyrði laga um trú- og lífsskoðunarfélög. Forsvarsmenn Zuism hafa stefnt ríkinu vegna þessa. Í vikunni fór fram aðalmeðferð í einum anga þess máls þar sem ríkislögmaður sagði að félagið væri málamyndafélagsskapur og að tilgangur þess væri að komast yfir fjármuni skattgreiðenda.
Í byrjun desember 2019 var svo greint frá því að fjárreiður Zuism væru til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara og að rannsóknin væri vel á veg komin.
Félagsmönnum í Zuism hefur fækkað hratt á undanförnum árum, eftir að óvissa kom upp um hvort bræðurnir ætluðu sér nokkru sinni að endurgreiða sóknargjöldin, eða halda þeim fyrir sig sjálfa. Í upphafi árs í fyrra voru þeir orðnir um 1.600 og hefur því fækkað um tæpan helming frá árinu 2016. Um síðustu áramót voru þeir orðnir 1.212 og hafði þá fækkað um 375 á 13 mánuðum. Zuism er samt sem áður níunda fjölmennasta trú- eða lífsskoðunarfélag landsins í dag.