Mynd: Bára Huld Beck Samstöðufundur 8. mars 2019 - Verkfall hótelstarfsmanna
Mynd: Bára Huld Beck

Erlendum ríkisborgurum gæti fjölgað um einn Garðabæ út 2023

Útlendingum sem fluttu til Íslands fjölgaði um rúmlega fimm þúsund í fyrra þrátt fyrir efnahagssamdrátt. Þeir hefur fjölgað um 128 prósent frá byrjun árs 2011 og spár gera ráð fyrir að þeim haldi áfram að fjölga á allra næstu árum. Gangi ítrustu spár eftir verða erlendir ríkisborgarar á Íslandi svipaður fjöldi og býr nú í Kópavogi og Hafnarfirði, samanlagt.

Erlendir rík­is­borg­arar gætu orðið tæp­lega 67 þús­und í lok árs 2023 ef háspá Hag­stofu Íslands um aðflutta umfram brott­flutta, sem sett var fram í nýj­ustu mann­fjölda­spá stofn­un­ar­innar í nóv­em­ber síð­ast­liðn­um, gengur eft­ir. 

Erlendir rík­is­borg­arar sem búa á Íslandi voru 49.403 í byrjun árs, án þess að taldir séu með þeir sem hingað koma á vegum starfs­manna­leiga eða þeir sem hlotið hafa íslenskan rík­is­borg­ara­rétt. 

Háspáin gerir ráð fyrir því að aðfluttum fjölgi um 17.291 umfram brott­flutta frá byrjun árs 2020 og út árið 2023. Það eru aðeins fleiri en búa í Garðabæ um þessar mund­ir. Mið­spá Hag­stof­unnar gerir ráð fyrir að þeim fjölgi um 11.748 umfram brott­flutta á tíma­bil­in­u. 

Gangi háspáin eftir verða erlendir rík­is­borg­arar á Íslandi jafn margir og allir íbúar Kópa­vogs og Hafn­ar­fjarðar sam­an­lag­t. 

Und­an­farin ár hefur staðan verið þannig að fleiri íslenskir rík­is­borg­arar flytja frá land­inu en til þess á sama tíma og erlendum rík­is­borg­urum fjölgar hratt. Haldi sú þróun áfram, að fjölgun erlendra rík­is­borg­ara sem hingað koma sé meiri en umfang aðfluttra umfram brott­flutta þá eru ofan­greindar tölur var­lega áætl­að­ar. 

Gætu orðið allt að 17 pró­sent lands­manna í árs­lok 2023

Erlendum rík­is­borg­urum hefur fjölgað um 128 pró­sent frá byrjun árs 2011 og um 63 pró­sent á síð­ustu þremur árum. Alls hefur 75 pró­sent þeirrar fjölg­unar sem orðið hefur á íbúum lands­ins síð­ast­liðin þrjú ár, sem nú eru um 364 þús­und tals­ins, verið vegna erlendra rík­is­borg­ara sem flutti til Íslands. 

Nú eru erlendir rík­is­borg­arar 13,5 pró­sent af þeim sem búa hér­lendis og lang­flestir þeirra sem flytja hingað eru ungt fólk, á þrí­tugs- og fer­tugs­aldri. 

Búast má við því að erlendir rík­is­borg­arar verði á bil­inu 15,7 til 16,9 pró­sent af íbúum lands­ins í lok árs 2023 miðað við mið- og háspá Hag­stofu Íslands. Til sam­an­burðar voru þeir um 6,6 pró­sent lands­manna í byrjun árs 2011. 

Fjölgun í Reykja­vík að uppi­stöðu vegna útlend­inga

Meg­in­þorri þeirra erlendu rík­is­borg­ara sem sest hafa hér að búa í Reykja­vík eða á Suð­ur­nesjum, og þá sér­stak­lega í Reykja­nes­bæ. Frá byrjun árs 2016 hefur íbúum Reykja­vík­ur­borgar fjölgað um 8.615 tals­ins. Erlendum rík­is­borg­urum hefur fjölgað um tæp­lega 9.500 á sama tíma. Rúm­lega öll íbú­a­­fjölgun í Reykja­vík á þessu tíma­bili var því vegna erlendra rík­­is­­borg­­ara sem fluttu til borg­­ar­inn­­ar, en erlendir rík­is­borg­arar eru nú um 16 pró­sent íbúa henn­ar.

Í dag búa tæp­lega 21 þús­und erlendir rík­is­borg­arar í Reykja­vík, eða rúm­lega 40 pró­sent allra útlend­inga sem búa á Ísland­i. ­Fjöldi þeirra hefur tvö­fald­ast frá byrjun árs 2015. Til sam­an­burðar búa til að mynda 811 útlend­ingar í Garða­bæ, en erlendir rík­is­borg­arar þar eru 4,7 pró­sent af öllum íbúum sveit­ar­fé­lags­ins. 

Í byrjun árs 2015 bjuggu 1.590 erlendir rík­­is­­borg­­ar­ar í Reykja­nes­bæ. Þeir erum nú 4.949 og fjöldi þeirra því þre­fald­­ast á örfáum árum. Erlendir rík­­is­­borg­­arar voru 10,6 pró­­sent íbúa í Reykja­­nesbæ í byrjun árs 2015 en eru nú tæp­lega 26 pró­­sent.  

Sam­dráttur en fjölgun hélt áfram

Lang­flestir sem hingað hafa flutt á síð­ustu árum gera það vegna þess að hér hefur verið næg vinna. Þeir hafa mannað flest þau á þriðja tug þús­unda starfa sem orðið hafa til vegna vaxtar í ferða­þjón­ustu og mann­virkja­gerð. Flest störfin eru í þjón­ustu­geirum eða bygg­inga­iðn­aði.

Á Þjóð­ar­spegli Háskóla Íslands, sem fór fram í haust, sagði Gissur Pét­urs­son, ráðu­neyt­is­stjóri í félags- og barna­mála­ráðu­neyt­inu og fyrr­ver­andi for­stjóri Vinnu­mála­stofn­un­ar, að það væri mik­ill kostur að á Íslandi væri svo ein­falt að losa sig við erlent vinnu­afl um leið og sam­dráttur byrj­aði í efna­hags­líf­inu. Þau ummæli hafa verið gagn­rýnd víða, meðal ann­ars af borg­ar­full­trú­anum Sabine Leskopf sem skrif­aði opið bréf til félags- og barna­mála­ráð­herra vegna þeirra.   

Í fyrra var sam­dráttur í efna­hags­kerf­inu. Búist er við því að hann hafi verið um 0,2 pró­sent. Helstu ástæður þess eru gjald­þrot WOW air, aðrir erf­ið­leikar tengdir ferða­þjón­ustu­geir­anum og loðnu­brest­ur. 

Gjaldþrot WOW air hafði mikil áhrif á íslenskt efnahagslíf í fyrra og var meginbreyta í samdrætti.
Mynd: Isavia

Afleið­ing þessa hefur fyrst og síð­ast verið aukið atvinnu­leysi, en það mæld­ist 4,3 pró­sent í des­em­ber 2019 og hef­ur, sam­kvæmt tölum Vinnu­mála­stofn­un­ar, ekki verið meira síðan í apríl 2013. Atvinnu­leysið bitnar mest á erlendum rík­is­borg­urum sem hafa flutt hingað til lands til að starfa, en 40 pró­sent allra sem voru án atvinnu í des­em­ber í fyrra fóru slík­ir. Á Suð­ur­nesjum, þar sem atvinnu­leysið mæld­ist 8,7 pró­sent og það mesta á land­inu, var staðan þannig að fleiri Pól­verjar voru án atvinnu síðla árs í fyrra en Íslend­ing­ar. 

Þrátt fyrir þetta fjölg­aði erlendum rík­is­borg­urum á Íslandi um rúm­lega fimm þús­und í fyrra. Því liggur fyrir að sam­dráttur í efna­hags­kerf­inu hefur ekki hægt á komu erlendra rík­is­borg­ara til lands­ins.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar