Mynd: Bára Huld Beck Samstöðufundur 8. mars 2019 - Verkfall hótelstarfsmanna

Erlendum ríkisborgurum gæti fjölgað um einn Garðabæ út 2023

Útlendingum sem fluttu til Íslands fjölgaði um rúmlega fimm þúsund í fyrra þrátt fyrir efnahagssamdrátt. Þeir hefur fjölgað um 128 prósent frá byrjun árs 2011 og spár gera ráð fyrir að þeim haldi áfram að fjölga á allra næstu árum. Gangi ítrustu spár eftir verða erlendir ríkisborgarar á Íslandi svipaður fjöldi og býr nú í Kópavogi og Hafnarfirði, samanlagt.

Erlendir ríkisborgarar gætu orðið tæplega 67 þúsund í lok árs 2023 ef háspá Hagstofu Íslands um aðflutta umfram brottflutta, sem sett var fram í nýjustu mannfjöldaspá stofnunarinnar í nóvember síðastliðnum, gengur eftir. 

Erlendir ríkisborgarar sem búa á Íslandi voru 49.403 í byrjun árs, án þess að taldir séu með þeir sem hingað koma á vegum starfsmannaleiga eða þeir sem hlotið hafa íslenskan ríkisborgararétt. 

Háspáin gerir ráð fyrir því að aðfluttum fjölgi um 17.291 umfram brottflutta frá byrjun árs 2020 og út árið 2023. Það eru aðeins fleiri en búa í Garðabæ um þessar mundir. Miðspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir að þeim fjölgi um 11.748 umfram brottflutta á tímabilinu. 

Gangi háspáin eftir verða erlendir ríkisborgarar á Íslandi jafn margir og allir íbúar Kópavogs og Hafnarfjarðar samanlagt. 

Undanfarin ár hefur staðan verið þannig að fleiri íslenskir ríkisborgarar flytja frá landinu en til þess á sama tíma og erlendum ríkisborgurum fjölgar hratt. Haldi sú þróun áfram, að fjölgun erlendra ríkisborgara sem hingað koma sé meiri en umfang aðfluttra umfram brottflutta þá eru ofangreindar tölur varlega áætlaðar. 

Gætu orðið allt að 17 prósent landsmanna í árslok 2023

Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað um 128 prósent frá byrjun árs 2011 og um 63 prósent á síðustu þremur árum. Alls hefur 75 prósent þeirrar fjölgunar sem orðið hefur á íbúum landsins síðastliðin þrjú ár, sem nú eru um 364 þúsund talsins, verið vegna erlendra ríkisborgara sem flutti til Íslands. 

Nú eru erlendir ríkisborgarar 13,5 prósent af þeim sem búa hérlendis og langflestir þeirra sem flytja hingað eru ungt fólk, á þrítugs- og fertugsaldri. 

Búast má við því að erlendir ríkisborgarar verði á bilinu 15,7 til 16,9 prósent af íbúum landsins í lok árs 2023 miðað við mið- og háspá Hagstofu Íslands. Til samanburðar voru þeir um 6,6 prósent landsmanna í byrjun árs 2011. 

Fjölgun í Reykjavík að uppistöðu vegna útlendinga

Meginþorri þeirra erlendu ríkisborgara sem sest hafa hér að búa í Reykjavík eða á Suðurnesjum, og þá sérstaklega í Reykjanesbæ. Frá byrjun árs 2016 hefur íbúum Reykjavíkurborgar fjölgað um 8.615 talsins. Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað um tæplega 9.500 á sama tíma. Rúmlega öll íbúa­fjölgun í Reykja­vík á þessu tímabili var því vegna erlendra rík­is­borg­ara sem fluttu til borg­ar­inn­ar, en erlendir ríkisborgarar eru nú um 16 prósent íbúa hennar.

Í dag búa tæplega 21 þúsund erlendir ríkisborgarar í Reykjavík, eða rúmlega 40 prósent allra útlendinga sem búa á Íslandi. Fjöldi þeirra hefur tvöfaldast frá byrjun árs 2015. Til samanburðar búa til að mynda 811 útlendingar í Garðabæ, en erlendir ríkisborgarar þar eru 4,7 prósent af öllum íbúum sveitarfélagsins. 

Í byrjun árs 2015 bjuggu 1.590 erlendir rík­is­borg­ar­ar í Reykjanesbæ. Þeir erum nú 4.949 og fjöldi þeirra því þre­fald­ast á örfáum árum. Erlendir rík­is­borg­arar voru 10,6 pró­sent íbúa í Reykja­nesbæ í byrjun árs 2015 en eru nú tæplega 26 pró­sent.  

Samdráttur en fjölgun hélt áfram

Langflestir sem hingað hafa flutt á síðustu árum gera það vegna þess að hér hefur verið næg vinna. Þeir hafa mannað flest þau á þriðja tug þúsunda starfa sem orðið hafa til vegna vaxtar í ferðaþjónustu og mannvirkjagerð. Flest störfin eru í þjónustugeirum eða byggingaiðnaði.

Á Þjóðarspegli Háskóla Íslands, sem fór fram í haust, sagði Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri í félags- og barnamálaráðuneytinu og fyrrverandi forstjóri Vinnumálastofnunar, að það væri mikill kostur að á Íslandi væri svo einfalt að losa sig við erlent vinnuafl um leið og samdráttur byrjaði í efnahagslífinu. Þau ummæli hafa verið gagnrýnd víða, meðal annars af borgarfulltrúanum Sabine Leskopf sem skrifaði opið bréf til félags- og barnamálaráðherra vegna þeirra.   

Í fyrra var samdráttur í efnahagskerfinu. Búist er við því að hann hafi verið um 0,2 prósent. Helstu ástæður þess eru gjaldþrot WOW air, aðrir erfiðleikar tengdir ferðaþjónustugeiranum og loðnubrestur. 

Gjaldþrot WOW air hafði mikil áhrif á íslenskt efnahagslíf í fyrra og var meginbreyta í samdrætti.
Mynd: Isavia

Afleiðing þessa hefur fyrst og síðast verið aukið atvinnuleysi, en það mældist 4,3 prósent í desember 2019 og hefur, samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar, ekki verið meira síðan í apríl 2013. Atvinnuleysið bitnar mest á erlendum ríkisborgurum sem hafa flutt hingað til lands til að starfa, en 40 prósent allra sem voru án atvinnu í desember í fyrra fóru slíkir. Á Suðurnesjum, þar sem atvinnuleysið mældist 8,7 prósent og það mesta á landinu, var staðan þannig að fleiri Pólverjar voru án atvinnu síðla árs í fyrra en Íslendingar. 

Þrátt fyrir þetta fjölgaði erlendum ríkisborgurum á Íslandi um rúmlega fimm þúsund í fyrra. Því liggur fyrir að samdráttur í efnahagskerfinu hefur ekki hægt á komu erlendra ríkisborgara til landsins.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar