Hildur Guðnadóttir, tónskáld, vann í kvöld Óskarsverðlaunin, fyrst Íslendinga, fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker.
Hún hafði áður hlotið Emmy verðlaun, Grammy verðlaun, Golden Globe og BAFTA verðlaunin fyrir tónlistina í Joker og tónlistina í Chernobyl þáttunum, sem hún samdi einnig.
It’s official! #Oscars pic.twitter.com/w4tL4qSIfm
— The Academy (@TheAcademy) February 10, 2020
Árangur Hildar er einstakur, en í þakkarræðu sinni sagðist hún elska fjölskyldu sína og þakkaði af auðmýkt fyrir stuðninginn. Hún þakkaði eiginmanni sínum, syni og mömmu - sem hún sagðist ekki vita hvar væru í salnum. Þá þakkaði hún einnig keppinautum sem tilnefndir voru, og aðstandendum Joker.
Aðrir tilnefndir í flokknum sem Hildur vann, voru Alexandre Desplat, fyrir tónlistina í Little Women, Randy Newman fyrir tónlistina í Marriage Story, Thomas Newman fyrir tónlistina í 1917 og John Williams fyrir tónlistina í Star Wars: The Rise of Skywalker.
#Oscars Moment: Hildur Guðnadóttir (@hildurness) wins Best Original Score for @jokermovie. pic.twitter.com/uwrOuBszuD
— The Academy (@TheAcademy) February 10, 2020
Óskarsverðlaunin eru nú veitt í 92. sinn, en verðlaunin sem Hildur hlaut, voru veitt númer 19 af 24 í röðinni.
Hildur er fædd 4. september 1982 og alin upp í Hafnarfirði, dóttir Ingveldar G. Ólafsdóttur og Guðna Franssonar. Hún hefur frá unglingsárum verið áberandi í íslenskri tónlist, og var meðal annars í hljómsveitunum Woofer, Rúnk og Múm.
Hún hefur gefið út fjórar sólóplötur, en hefur einbeitt sér að tónsmíðum fyrir kvikmyndir og þætti undanfarin misseri.
Hún var náinn samstarfsmaður Jóhanns Jóhannssonar heitins, sem lést í febrúar 2018, 48 ára að aldri, en hann var í tvígang tilnefndur til Óskarsverðlauna á ferli sínum.