Hlaðvarp, vísanir inn á Hringbraut og myndbönd grundvöllur milljarðakröfu Sýnar
Fyrrverandi eigendur þeirra miðla sem mynduðu einu sinni fjölmiðlasamsteypuna 365 hefur tekist að selja þá frá sér fyrir milljarða króna á síðustu árum. Nýir eigendur hafa lent í rekstrarerfiðleikum með miðlana. Nú ætlar Sýn, sem keypti þorra þeirra, að stefna gömlu eigendunum, og þeim sem keyptu af þeim Fréttablaðið, fyrir að brjóta gegn samkeppnisbanni í kaupsamningi.
Sýn, sem keypti ýmsa fjölmiðla af félaginu 365 miðlum á árinu 2017, telur að seljandinn hafi brotið gegn ákvæðum um samkeppnisbann sem samið hafið verið um í kaupsamningi þeirra á milli. Þess vegna hefur fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið ákveðið að stefna hjónunum Ingibjörgu Pálmadóttur og Jón Ásgeir Jóhannesson, sem eiga og stýra 365 miðlum, seljandanum sjálfum og Torgi ehf., sem er eigandi Fréttablaðsins og tengdra miðla, til greiðslu rúmlega 1,1 milljarða króna fyrir þau brot auk verðbóta.
Í brotunum felast að stjórnendur Sýnar telja að tenging vefmiðilsins frettabladid.is við ljósvakamiðla, bæði útvarp og sjónvarp, sé með öllu óheimil samkvæmt kaupsamningnum frá árinu 2017. Miðillinn haldi hins vegar úti hlaðvarpi, vísi á vef sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar (líka í eigu Torgs) af forsíðu sinni og sýni ýmis konar myndbönd, sem teljist ljósvakaefni.
Sýn gerði umrædda kröfu með bréfi sem sent var 17. desember í fyrra. Hún er óskipt (In solidum) og því sett þannig fram að allir sem krafan beinist að; Ingibjörg, Jón Ásgeir, 365 miðlar og Torg, eiga að bera sameiginlega ábyrgð á tjóninu sem Sýn telur sig hafa orðið fyrir.
Af hálfu Ingibjargar, Jóns Ásgeirs og 365 hf. var kröfunni mótmælt með bréfi 20. desember í fyrra. Í ársreikningi Sýnar, sem birtur var í vikunni, kemur fram að fyrirtækið hafi falið lögmanni að undirbúa höfðun dómsmáls til heimtu þessarar kröfu og má búast við því að það verði höfðað á næstu vikum.
Bankar í lykilhlutverki
Málið allt á sér langan aðdraganda. Upphaf þess má rekja til 10. febrúar 2016 þegar Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hélt kynningu fyrir stjórnendur Sýnar, sem þá hét reyndar Fjarskipti hf., varðandi möguleg ytri vaxtatækifæri. Eitt þeirra fyrirtækja sem kynningin tók til voru 365 miðlar hf., þá stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins sem hafði einnig reynt fyrir sér í fjarskiptaviðskiptum, með takmörkuðum árangri. Það sem 365 áttu voru því sjónvarps- og útvarpsstöðvar auk fjarskiptahluta fyrirtækisins og fréttavefsins Vísir.is. Helstu sjónvarpsstöðvar voru Stöð 2, Stöð 2 Sport, Stöð 3 og Bíórásin. Helstu útvarpsstöðvar voru Bylgjan, FM957 og X-ið. Til viðbótar átti 365 fríblaðið Fréttablaðið og tímaritið Glamour.
Sýn hafði áhuga á að kanna þetta viðskiptatækifæri nánar og í framhaldinu var skrifað undir verksamning milli félagsins og Fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka þann 8. mars 2016, um ráðgjöf vegna fyrirhugaðrar vinnu og ráðgjafar í tengslum við möguleg kaup á eignum 365 miðla.
Samkvæmt samningnum var bankanum meðal annars falið að annast alla milligöngu við seljendur vegna málsins og tók þannig að sér upplýsingaöflun vegna verkefnisins.
Helsti drifkrafturinn á bak við sölu á hluta af eignum 365 til Sýnar var líka banki. Arion banki. Bankinn endurfjármagnaði skuldir 365, nokkuð óvænt, haustið 2015. Áður hafði fyrirtækið verið í bankaviðskiptum við Landsbankann. Við þá breytingu jukust langtímaskuldir 365 miðla úr 3,6 milljörðum króna í 4,8 milljarða króna.
Rekstur 365 hafði ekki gengið vel. Fyrirtækið tapaði 1,4 milljarði króna á árinu 2014 og ef það hefði fært skattaskuld sem það hafði þegar verið dæmt til að greiða í rekstrarreikning 2015 hefði tapið verið 350 milljónir króna það árið. Alls skuldaði fyrirtækið um tíu milljarða króna í lok þess árs.
Keyptu allt nema Fréttablaðið og Glamour
Skrifað var undir kaupsamning 14. mars 2017. Samkvæmt honum keypti Sýn alla miðla 365 nema Fréttablaðið og tímaritið Glamour.
Í kaupsamningnum voru ákvæði sem áttu að tryggja að eigendur 365 miðla myndu ekki hefja samkeppni við Sýn um ákveðin tíma á þeim mörkuðum sem hinir seldu miðlar störfuðu. Undantekningin þar var að setja mætti upp fréttasíðu á netinu til að vera birtingarmynd Fréttablaðsins þar. Sú síða varð á endanum frettabladid.is.
Fréttablaðinu var svo rennt inn í dótturfélag sem fékk nafnið Torg ehf. og 365 miðlum í kjölfarið breytt í fjárfestingafélag sem hefur gert sig gildandi í kaupum á félögum á skráðum markaði með þeim peningum sem fengust fyrir söluna á miðlunum.
365 miðlar fengu enda vel greitt fyrir. Sú greiðsla samanstóð af 10,92 prósent hlut í Sýn, tæplega 1,6 milljarði króna í reiðufé auk þess sem Sýn tók yfir 4,6 milljarða króna af vaxtaberandi skuldum. Eigendur 365 miðla, seldu eignarhlutinn sinn í Sýn í október í 2018 á tvo milljarða króna. Því má segja að þeir hafi fengið um 3,6 milljarða króna í reiðufé út úr sölunni auk þess sem Sýn tók yfir 4,6 milljarða króna af skuldum 365 miðla. Samanlagt er kaupverðið samkvæmt því um 8,2 milljarðar króna.
Helgi Magnússon kaupir fjölmiðil
Í júní 2019 seldu 365 miðlar svo helmingshlut í Torgi ehf. til Helga Magnússonar. Í október keypti Helgi svo þann hluta sem hann átti ekki fyrir fyrir ótilgreinda upphæð og á sama tíma var sjónvarpsstöðinni Hringbraut og tengdri síðu rennt inn í Torg. Þá þegar hafði Fréttablaðið hafið framleiðslu og birtingu á hlaðvarpi á frettabladid.is.
Í desember var svo greint frá því að Torg væri að kaupa DV og tengda miðla af Frjálsri fjölmiðlun. Þau kaup eru nú til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu. Hlutur Helga í Torgi er nú 82 prósent en meðeigendur hans eru Sigurður Arngrímsson, fyrrverandi aðaleigandi Hringbrautar og viðskiptafélagi Helga til margra ára, með tíu prósent hlut, Jón G. Þórisson, nú aðalritstjóri Fréttablaðsins, með fimm prósent hlut, og Guðmundur Örn Jóhannsson, fyrrverandi sjónvarpsstjóri Hringbrautar og nú framkvæmdastjóri sölu, markaðsmála og dagskrárgerðar hjá Torgi.
Rekstur Torgs hefur reynst erfiðari en lagt var upp með og í vikunni var greint var stjórnendabreytingum sem tengdust niðurskurðaraðgerðum sem ráðist hefur verið í hjá fyrirtækinu.
Mikið tekjutap hjá Sýn
Væntanleg stefna Sýnar gegn 365 miðlum, Ingibjörgu og Jóni Ásgeiri, og Torgi snýst um að fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækið telur að frettabladid.is hafi ekki mátt fara í samkeppni við sig í útvarps- og sjónvarpsrekstri samkvæmt kaupsamningi. Það telur að vísun inn á sjónvarpsstöðina Hringbraut af forsíðu frettabladid.is og umfangsmikil hlaðvarpsframleiðsla sé brot á því samkeppnisbanni og krefst rúmlega 1,1 milljarðs króna frá ofangreindum aðilum vegna þessa.
Ingibjörg og Jón Ásgeir hafa þegar hafnað kröfunni og hótað að gagnstefna vegna meints „ tjóns sem tilhæfulausar ásakanir Sýnar hafa valdið félaginu.“ Óljóst er hvers eðlis það tjón er.
Það sem er hins vegar ekki óljóst er að kaup Sýnar á fjölmiðlum 365 miðla hafa ekki reynst þau góðu kaup sem lagt var upp með. Í janúar greindi Sýn frá því að fyrirtækið hefði fært niður alla þá 2,5 milljarða króna viðskiptavild sem fylgdi fjölmiðlunum, en slík eign er virði huglægra eigna fyrirtækis. Með henni er til að mynda sett mat á fjárhagslegu verðmæti þess að eiga hóp fastra viðskiptavina, eins og til dæmis áskrifenda að sjónvarpsþjónustu Stöðvar 2.
Tekjur Sýnar í fyrra voru 19,8 milljarðar króna, eða um milljarði lægri en árið áður, sem var fyrsta heila árið sem fjölmiðlarnir tilheyrðu samstæðunni.
Fjölmiðlun er þó sú tekjustoð sem skilar Sýn mestu, eða tæplega 8,4 milljörðum króna í tekjur í fyrra. Hún dróst hins vegar saman um fimm prósent milli ára eða um 446 milljónir króna.
Mestur var samdrátturinn á fjórða ársfjórðungi, þegar fjölmiðlatekjurnar lækkuðu um 216 milljónir króna. Þar skiptir ugglaust máli að Sýn missti réttinn af sýningu á enska boltanum yfir til samkeppnisaðilans Símans fyrir yfirstandandi tímabil, sem hófst á þriðja ársfjórðungi.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
24. desember 2022RÚV tekur til sín fjórðung allra tekna fjölmiðla og helming auglýsingatekna
-
21. desember 2022Stjórnmála- og fjölmiðlafólk reynir að draga úr áhrifum áreitni á netinu
-
21. desember 2022Kjarninn og Stundin sameinast
-
16. desember 2022Opin bréf til menningar- og viðskiptaráðherra
-
16. desember 2022Framkoma meirihluta fjárlaganefndar „ekkert annað en skandall“