„Enginn hefur sýnt annan eins forkastanlegan ásetning“
Það er til marks um „fúsk“ að Íslensk vatnsorka ehf., sem áformar virkjun við Hagavatn, reyni að „svindla sér fram hjá“ rammaáætlun. Forseti Ferðafélagsins segir fleiri nú reyna sama leik sem sýni að virkjanahugmyndir þeirra þoli ekki faglega skoðun.
Forseti Ferðafélags Íslands segir það „hreina ósvífni“ og til marks um „fúsk og faglegt siðleysi“ að Íslensk vatnsorka ehf. reyni að „svindla sér fram hjá faglegri skoðun“ með því að leggja fram tillögu að Hagavatnsvirkjun rétt undir þeim stærðarmörkum sem kalli á meðferð í rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Á sama tíma sé boðað að aðeins sé um fyrsta áfanga að ræða. Til standi að stækka virkjunina með því að nýta vatnasvið Jarlhettukvíslar sem er á milli Langjökuls og móbergshryggjarins Jarlhetta.
„Jarlhettudalurinn er nýlega laus við jökul,“ segir forsetinn Ólafur Örn Haraldsson í samtali við Kjarnann. „Þetta er eitt af fáum svæðum þar sem enn er að finna þessa einstöku öræfakyrrð sem aðeins verður til fjarri mönnum og þeirra verkum. Yrði framkvæmt á svæðinu væri verið að tala um alveg nýjar víddir í náttúruspjöllum, annað og enn meira heldur en að hækka og lækka vatnsborð Hagavatns.“
Hann segir miklu nær að friðlýsa hinar sérstæðu jarðmyndanir sunnan og austan Langjökuls, Jarlhettur og Hagavatn þar með. „Landmótun við Hagavatn er meðal merkustu ferla í jöklum á Íslandi. Þetta er hin kalda kinn landsins. Hlýnun jarðar og hop jöklanna myndar bakgrunninn og svæðið er eins og opin bók fyrir hvert mannsbarn að skilja áhrifin. Þarna er hægt að skoða söguna, verða vitni að henni. Og í þessu felast gríðarlega mikil verðmæti.“
Verðmætunum sem Ólafur vísar til er kannski best lýst með orðum föður hans, Haraldar Matthíassonar. Í formála árbókar Ferðafélags Íslands árið 1980 sem ber heitið Langjökulsleiðir, mælir Haraldur með Langjökli og umhverfi hans við hvern þann, „er ann óbyggðum Íslands. Þar birtast öll helztu einkenni íslenzkra óbyggða, jöklar, háfjöll, hraun, eldgígir, sandar, ár, lækir og stöðuvötn, öræfin í allri sinni nekt og hrikaleik, en einnig grasflæmi og blómskrúð. Þar í grennd við jökulinn rifjast einnig upp hluti af sögu þjóðarinnar, sókn og sigrar, undanhald og ósigrar, einnig dularheimur þjóðsagna og ævintýra; land og saga renna saman í heild“.
Stærri virkjun í biðflokki rammaáætlunar
Íslensk vatnsorka ehf. áformar að reisa rétt tæplega 10 MW virkjun við Hagavatn sunnan Langjökuls með því að reisa tvær stíflur og breyta vatninu í 23 ferkílómetra miðlunarlón. Framkvæmdin yrði innan miðhálendislínu og að hluta í óbyggðu víðerni. Fyrstu hugmyndir gerðu ráð fyrir stórvirkjun en á síðari stigum og er verkefnið var kynnt fyrir faghópum rammaáætlunar var aflið 20 MW. Í nýrri tillögu að matsáætlun, sem lögð var fram í lok síðasta árs, er það svo komið niður í 9,9 MW. Rannsóknarleyfi, sem Orkustofnun endurnýjaði í fyrra, miðast hins vegar við 18 MW.
Ef uppsett afl er innan 10 megawatta þarf virkjunarkostur ekki að fara í gegnum ferli rammaáætlunar. Í tillögu að þriðja áfanga hennar, sem leggja á fram á vorþingi í þriðja sinn, er hugmyndin um 20 MW Hagavatnsvirkjun enn í biðflokki.
Ólafur bendir á að Íslensk vatnsorka sé ekki eini virkjanaaðilinn sem nú freisti þess að fara þá leið að minnka rafafl fyrirhugaðra virkjana. „Það eru menn að gera til að sleppa undir þessi mörk, til að komast framhjá rammaáætlun. Það er að segja, menn eru með virkjanahugmyndir sem þola ekki faglega skoðun.“
Íslensk vatnsorka gangi hins vegar svo langt að boða að 9,9 MW sé aðeins fyrsti áfangi að stærri virkjun. „Enginn hefur sýnt annan eins forkastanlegan ásetning,“ segir Ólafur
Hann bendir á að hugmyndum um framkvæmdina hafi verið breytt margoft síðustu ár og forsvarsmenn fyrirtækisins meðal annars kynnt hana sem rennslisvirkjun þegar nefnd Alþingis fjallaði um málið er lagt var til að færa hana úr biðflokki rammaáætlunar í nýtingarflokk.
Af því varð ekki.
„Þeir voru gerðir afturreka með þessa fullyrðingu því sýnt var fram á að þetta væri ekki rennslisvirkjun heldur lón með sveiflu á vatnsyfirborði. Þannig að þeir eru margsaga og þetta er mjög ótrúverðug framsetning. Maður veltir því líka fyrir sér af hverju bæði Landsvirkjun og Orkuveitan hafi hætt við Hagavatnsvirkjun en voru áður áhugasöm.“
Ferðafélag Íslands hefur að sögn Ólafs ávallt átt í góðu samstarfi við sveitarfélagið Bláskógabyggð og fólkið þar í sveit. Þau samskipti hafi einkennst af gagnkvæmri virðingu og trausti. Fyrsti skáli félagsins, Hvítárnes, var reistur í afrétti Biskupstungna og síðan þá hefur verið unnið með sveitarfélaginu að fjölmörgum verkefnum, s.s. byggingu skála og hesthúss fyrir fjallmenn, aðstöðu fyrir hestamenn, borun eftir vatni, brúarviðgerðum, vegabótum og svo mætti áfram telja. Þá hefur félagið í áratugi skipulagt ferðir um svæðið.
Traust og vinarhugur
Tveir margfróðir heimamenn, Gísli Sigurðsson frá Úthlíð og Arnór Karlsson frá Gígjarhólskoti skrifuðu árbækur Ferðafélagsins um afréttinn. „Þetta samstarf, traust og vinarhugur á milli Ferðafélagsins og Bláskógabyggðar hefur staðið alla tíð og má minnast þess að hjónin á Vatnsleysu, Sigurður og Sigríður, tóku á móti Ferðafélagsfólki með veislu ár hvert þegar komið var úr frágangsferð í sæluhúsunum á haustin. Þessi góði samstarfshugur stendur enn.“
Skáli Ferðafélagsins við Hagavatn var reistur árið 1942. „Hagavatnssvæðið og næsta nágrenni er heimamönnum mjög kært en það er líka okkur hjá Ferðafélaginu kært,“ segir Ólafur með áherslu. „Við berum mikla virðingu fyrir þeirra hefðbundnu sauðfjárbeit og hefðum og menningu í smalamennsku. Við höfum verið á þessu svæði í meira en 75 ár. Ég held að þessi sameiginlega væntumþykja og virðing fyrir landinu hljóti að vera meira virði en að efna þarna til náttúruspjalla með virkjun.“
Ferðafélagið hefur áhuga á því að vinna að allsherjar stefnumótun svæðisins og um leið verndun í samvinnu við sveitarfélagið. „Við viljum opna augu fólks fyrir því að þetta er mjög verðmætt svæði. Það er hvergi jafn auðvelt að komast að jökli og sjá jafn tröllsleg ummerki landmótunar og það rétt ofan við fjölmennustu ferðamannaleið landsins, Gullna hringinn. Það er enginn vandi að sjá fyrir sér að teygja skynsamlega og sjálfbæra ferðamennsku þarna inn eftir. Í þessu felast fjárhagsleg verðmæti.“
Fleygur í einstakt svæði
Sífellt fleiri eru að átta sig á því að óbyggð víðerni eru hverfandi verðmæti á lands- og heimsvísu. Á stóru svæði við Langjökul er náttúran nær ósnortin af mannanna verkum. „Með því að reka fleyg í gegnum þetta svæði með virkjun væri verið að brjóta upp eitt af einstökustu svæðum landsins,“ segir Ólafur. „Ef horft er á þetta í stærra samhengi þá felast miklu meiri verðmæti í því að láta svæðið í friði. Það er ekki verjandi að fara í þessi náttúruspjöll og lagakróka fyrir ekki stærri ávinning í orku.“
Samkvæmt umsókn Íslenskrar vatnsorku til Orkustofnunar á framlengingu rannsóknarleyfis við Hagavatn kemur fram að í öðrum áfanga verkefnisins sé gert ráð fyrir að nýta vatnasvið Jarlhetta. Ólafur, sem gjörþekkir svæðið, segir að mikil sveifla sé á vatninu í Jarlhettukvísl. Hún ýmist þorni nánast upp eða bólgni mikið.
Til að veita vatninu úr Jarlhettukvísl inn í miðlunarlónið í Hagavatni þyrfti að sækja ána ofarlega í Jarlhettudal með tilheyrandi mannvirkjagerð og raski. „Að halda að þarna sé aðeins fyrirhugað að raska landi við útrennsli Hagavatns er algjör misskilningur.“
Jarlhettur sjást víða af Suðurlandi enda „ber þessa hvassbrýndu tinda við hvíta bungu Langjökuls,“ segir í árbók Ferðafélagsins frá 1998 um hina 15 kílómetra löngu tindaröð. „Jarlhettur eru með sérstæðustu fjöllum á Íslandi og jafnframt myndrænar með afbrigðum,“ segir enn fremur í árbókinni.
Hagafellsjökull, skriðjökull úr Langjökli, er á mikilli hreyfingu. Hopið er meira en víðast hvar annars staðar. En hann hefur líka hlaupið fram í köldum árum. Fyrir nokkrum áratugum lá jökull alveg fram að Jarlhettunum. Er hann hopaði opnaðist merkilegt svæði milli þeirra og Langjökuls. „Þarna er jökullinn á aðra hönd og hinar stórbrotnu Jarlhettur á hina. Það væri miklu nær að sveitarfélagið leitaði eftir friðlýsingu á þessum einstaka móbergshrygg og Hagavatnssvæðinu og lyfti verðmæti þess með þeim hætti.“
Horft á umhverfið í heild
Ólafur segir mikilvægt að hugsa ekki aðeins um afl fyrirhugaðrar virkjunar í þessu samhengi eða hvort þessi foss eða hinn myndi hverfa. „Við verðum að horfa á allt þetta umhverfi í heild, hvar við erum stödd í sögunni.“
Að mati Ólafs hafa sveitarstjórn Bláskógabyggðar og heimamenn í áratugi unnið mikið og lofsamlegt starf á afréttinum, þar á meðal geysimikla uppgræðslu, beitarstýringu, rekstur skála, ferðamannaþjónustu og björgunarstarf svo nokkuð sé talið. Það geri enginn betur. Sveitarstjórnin hefur lagst gegn stofnun hálendisþjóðgarðs og sveitarstjórnarmaður meðal annars lýst því yfir að hann treysti ríkinu ekki fyrir hálendinu.
Ólafur bendir á að meginþemað í umræðu um garðinn sé verndun hálendisins. Hann segir að það geti vel verið að sveitarstjórn Bláskógabyggðar sé betur fallin en ríkið til að vernda svæðið en þá megi ekki gleyma að því fylgi ábyrgð. „Sú ábyrgð er meðal annars sú að ekki sé gengið á náttúruverðmæti eins og óbyggð víðerni með virkjun Hagavatns.“
Í árbók Ferðafélagsins frá 1998, Fjallajarðir og Framafréttur Biskupstungna, er fjallað ítarlega um Hagavatn og þá landmótunarferla sem virkir eru á svæðinu. Þar kemur fram að vatnið hafi verið rannsóknarefni jarðfræðinga meiripart síðustu aldar vegna breytinga sem rekja má til veðurfars. Þær hafi á víxl orsakað framhlaup og hopun skriðjöklanna og þar með haft áhrif á stærð og lögun vatnsins. Hagavatn hafi verið á faraldsfæti vegna þessa.
Vatnið var líklega um 30 ferkílómetrar við upphaf tuttugustu aldarinnar en eftir mikil hlaup á 3. og 4. áratug þeirrar aldar minnkaði það í um 4-5 ferkílómetra. Í bókinni kemur fram að athyglisvert sé að fyrir hlaupið sem varð 1929 virðist ekkert útrennsli hafa verið ofanjarðar úr Hagavatni samkvæmt rannsóknum jarðfræðinga.
Í aðalskipulagi Bláskógabyggðar er gert ráð fyrir 20 MW Hagavatnsvirkjun. Í greinargerð kemur fram að „endurheimt Hagavatns“ sé forsenda þess að hægt sé að ráðast í frekari landgræðsluaðgerðir sunnan vatnsins.
Landgræðslustjóri hefur hins vegar sagt að vegna sveiflu á vatnsborði með stíflun og miðlunarlóni myndi uppblástur aukast á svæðinu en ekki minnka með tilkomu virkjunar.
Undir þetta tekur Ólafur. Í tillögu að matsáætlun virkjunarinnar komi fram að vatnsborðið muni sveiflast um 5 metra. Það hljómi sakleysislega en sé það alls ekki. Um 600 hektarar yrðu ýmist undir vatni eða á þurru. Það skýrist af því að landið er mjög flatt. „Þetta er munurinn á djúpum diski og undirskál,“ segir Ólafur til útskýringar. Á 600 hekturum yrði árlega reglulega nýr leir sem er mun fokgjarnari en eldri leir.
Ólafur gagnrýnir einnig það sem forsvarsmenn verkefnisins hafa haldið fram um að þar sem vatnið leggi á veturna myndi sveiflan ekki koma að sök. Þetta segir hann einfaldlega vitleysu. „Það veit enginn hvenær og hvernig ís leggst yfir vatnið og hvort hann verði svo elskulegur að leggjast yfir leirinn.“
Það sé hins vegar rétt að mikill uppblástur verði af auðnunum við jökulinn við ákveðnar aðstæður. „Hagavatnsbotn er aðeins hluti af miklu stærra uppblásturssvæði sunnan Langjökuls. Nokkrir ferkílómetrar til eða frá munu litlu breyta.“
Ólafur segir að fyrir utan það að yfirvofandi hætta á náttúruspjöllum steðji að svæðinu og því leggist hann gegn virkjuninni séu beinir hagsmunir Ferðafélagsins einnig miklir. Félagið hafi um hríð haft hugmyndir um að stækka litla gönguskálann við Hagavatn enda telur það mikla ferðamöguleika í gönguferðum í nágrenninu.
„Við höfum verið þarna með starfsemi í öll þessi ár og teljum að með tilkomu þessarar virkjunar, ég tala nú ekki um ef farið yrði inn í Jarlhettudalinn líka, þá sé verið að ganga á hagsmuni okkar starfsemi. Við teljum okkur því hafa rétt til að taka til máls.“
Í tillögu að matsáætlun Hagavatnsvirkjunar kemur fram að í frummatsskýrslu standi til að kanna áhrif framkvæmdarinnar á ferðamennsku á svæðinu. Í tillögunni er sérstaklega tekið fram að hugmyndir hafi komið upp um nýjan ferðamannaskála á svæðinu.
Svo segir: „Ýmsir aðilar eru áhugasamir um slíka uppbyggingu en með henni er gert ráð fyrir að streymi ferðamanna um svæðið aukist þar sem aðstaða muni gerbreytast. Til dæmis er hugsanlegt að með slíkum skála yrðu settar upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla, útbúin hestagerði fyrir hestamenn og að gistiaðstaða yrði með nútíma þægindum. Ferðamannaskáli við Hagavatn gæti þannig gegnt lykilhlutverki í aðgangi að hugsanlegum nýjum hálendisþjóðgarði og horfa landeigendur björtum augum til aukningar ferðamanna um svæðið.“
Ekki hagsmunir Ferðafélagsins
Vegagerð er oft notuð sem rök fyrir virkjunum en uppbyggður vegur inn á framkvæmdasvæðið myndi taka „ævintýrið út úr sögunni“, segir Ólafur. Forsvarsmönnum Íslenskrar vatnsorku sé fullkunnugt um andstöðu Ferðafélagsins. „Þeir hafa komið á okkar fund og haldið því fram að með virkjun myndi ferðamannastraumur aukast mikið og að það séu okkar hagsmunir að fá fjöldann. Það eru ekki okkar hagsmunir.“
Félagið bjóði ferðir og sé með skála á ákveðnum svæðum þar sem aðgengi er nokkuð auðvelt, svo sem í Þórsmörk og á Laugaveginum. Á öðrum svæðum sé áhersla lögð á hina óbyggðu náttúru og ekki sé áhugi á því að breyta þeirri ásýnd með mannvirkjum. „Við höfum hvorki áhuga á því að reka drauginn sem sagður er vera í skálanum í Hvítárnesi í burtu né heldur að rífa það hús og byggja annað.“
Úlfgráa hlið landsins
Hann segir það mat Ferðafélagsins að Hagavatn eigi einmitt að sýna „þessa úlfgráu hlið landsins með jökulinn og öll hans áhrif á landmótun og jökulgráa ána sem brýst þarna fram í gegnum klauf og niður gljúfrið. Við lítum ekki svo á að þetta sé svæði þar sem eigi að stunda fjöldaferðamennsku. Við sjáum að það er hægt að auka ferðamennsku en þá til þess að sýna fólki þennan hráa og torsótta stað. Að sýna fólki þá mögnuðu krafta sem þarna eru að verki“.
Ferðafélag Íslands skilaði ítarlegum athugasemdum um Hagavirkjun er hún var til meðferðar hjá verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar. Þær athugasemdir má lesa hér.
Lesa meira
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Möguleg ljós- og lyktmengun af nýju landeldi við Þorlákshöfn þurfi nánari skoðun
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
5. janúar 2023Skipulagsstofnun dregur fram kosti Miðleiðar að Fjarðarheiðargöngum
-
30. desember 2022Áskorun til þingmanna: Takið þátt í Veganúar!
-
30. desember 2022Árið sem Íslendingar hentu minna af fötum en kínverskur tískurisi hristi upp í hlutunum
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
29. desember 2022Vindmyllur við Lagarfoss þurfa í umhverfismat
-
28. desember 2022Vilja nota kopar á kvíar í Arnarfirði – eitrað og jafnvel skaðlegt segir Hafró
-
26. desember 2022Framtíðin er núna