Alls voru 81,4 prósent þeirra sem komu nýir inn á skattskrá á árinu 2018 erlendir ríkisborgarar. Þeir voru 8.161 af 10.023 nýjum skattgreiðendum það árið og þeim fjölgaði um 18,4 prósent á skattskrá á meðan að íslenskum ríkisborgurum á henni fjölgaði einungis um 0,7 prósent. Það er svipuð fjölgun og hefur verið undanfarin ár.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein í nýjasta tölublaði Tíundar, fréttablaði ríkisskattstjóra, sem skrifuð er af rekstrarhagfræðingnum Páli Kolbeins.
Þar kemur enn fremur fram að 52.489 erlendir ríkisborgarar greiddu skatta á Íslandi á árinu 2018 sem gerir þá að 17,1 prósent allra framteljenda á skattgrunnskrá á því ári. Tæplega tveir þriðju þessara útlendinga, eða 65,3 prósent, eru á milli tvítugs og fertugs.
Á aldrinum 26 til 30 ára voru 22.205 Íslendingar á skattgrunnskrá en 10.771 erlendir ríkisborgarar. Í þeim hópi eru erlendur ríkisborgararnir því 32,7 prósent allra skattgreiðenda.
það þarf vart að taka fram að erlendir ríkisborgarar á meðal íslenskra skattgreiðenda hafa aldrei verið jafn margir og þeir voru í lok árs 2018. Þeim hélt líka áfram að fjölga í fyrra, þótt að hægt hafi lítillega á þeirri fjölgun. Í greininni í Tíund kemur fram að ef undanskilin eru árin 2006 og 2017 þá hefur fjölgun erlendra ríkisborgara hins vegar aldrei verið meiri en árið 2018. Árið 2017 fjölgaði útlendingum á skattgrunnskrá um 28,2 prósent og frá lokum árs 2016 hefur þeim fjölgað um 17.075 talsins. Það eru örlítið fleiri en bjuggu í Garðabæ í byrjun febrúar 2020, þegar íbúafjöldi þess sveitarfélags var 16.978.
75 prósent allrar fjölgunar vegna aðfluttra útlendinga
Í lok árs 2011 voru erlendir ríkisborgarar sem bjuggu á Íslandi 20.957 talsins. Þeim hafði fækkað árin á undan í ljósi þess að hrunið hafði skilið eftir sig atvinnuleysi sem slagaði upp í tveggja stafa tölu, verðbólgu sem fór hæst upp í um 18 prósent og tugprósenta gengisfall íslensku krónunnar.
Alls voru 49.952 erlendir ríkisborgarar búsettir hér á landi þann 1. febrúar 2020. Þá eru ekki taldir með þeir sem koma hingað á vegum t.d. starfsmannaleiga, sem eru á hverjum tíma að minnsta kosti nokkur hundruð, eða sem hafa tekið upp íslenskt ríkisfang. Þess vegna eru útlenskir skattgreiðendur fleiri en þeir sem eru skráðir sem erlendir ríkisborgarar í skrám.
Alls voru íbúar landsins alls 364.260 um síðustu áramót. Það þýðir að erlendir ríkisborgarar eru um 13,7 prósent íbúa á Íslandi um þessar mundir. Um 75 prósent allrar fjölgunar sem orðið hefur hérlendis síðastliðin þrjú ár er vegna erlendra ríkisborgara sem fluttu til landsins.
Áframhaldandi fjölgun í kortunum
Búist er við því að þessi þróun haldi áfram í fyrirsjáanlegri framtíð. Í nýjustu mannfjöldaspá Hagstofu Íslands kemur til að mynda fram að ef háspá hennar gengur eftir verði erlendir ríkisborgarar hérlendis orðnir tæplega 67 þúsund í lok árs 2023. Þeir yrðu þá allt að 17 prósent landsmanna.
Háspáin gerir ráð fyrir því að aðfluttum fjölgi um 17.291 umfram brottflutta frá byrjun árs 2020 og út árið 2023. Það eru aðeins fleiri en búa í Garðabæ um þessar mundir. Miðspá Hagstofunnar gerir ráð fyrir að þeim fjölgi um 11.748 umfram brottflutta á tímabilinu.
Gangi háspáin eftir verða erlendir ríkisborgarar á Íslandi jafn margir og allir íbúar Kópavogs og Hafnarfjarðar samanlagt.