Það ástand sem nú ríkir um víða veröld á sér ekki hliðstæðu, að minnsta kosti ekki á síðari tímum. Götur borga og bæja nánast auðar, flestar verslanir lokaðar, sama gildir um veitingastaðina. Skærin á rakarastofunum liggja ónotuð á borðunum, fáir í strætó, íþróttaiðkun liggur víðast hvar niðri og skólarnir meira og minna lokaðir. Öllum skipað að halda sig í tveggja metra fjarlægð frá næsta manni. Það er sem sé allt breytt og enginn veit hvenær mannlífið verður eins og það var áður en bévítans veiran lagði undir sig veröldina.
Í þekktum dægurlagatexta frá árinu 1969 segir að „fátt sé svo með öllu illt að eigi boði gott“. Þessa dagana taka líklega fáir undir þetta en þeir sem það gera eru þó til. Sá hópur, sem notar hvert tækifæri sem gefst til að notfæra sér aðstæðurnar í eigin þágu, hefur að undanförnu látið til sín taka, víða um lönd. Fyrir þennan hóp hefur illt boðað gott.
Evrópulögreglan, Europol, sendi fyrir nokkrum dögum frá sér tilkynningu og aðvörun til yfirvalda í öllum löndum Evrópu. Þar er varað við svindlurum og bröskurum sem reyni eftir megni að notfæra sér aðstæðurnar til að maka krókinn.
Grímur, töflur og töfradrykkir
Europol sagði í tilkynningu sinni að í byrjun þessa mánaðar hafi starfsfólk stofnunarinnar í sérstakri herferð, í samvinnu við yfirvöld í 90 löndum, lagt hald á tugi þúsunda andlitsgrímna, sem sagðar voru henta starfsfólki sjúkrahúsa og milljónir taflna, auk ýmis konar „lyfja“ í vökvaformi. Grímurnar, töflurnar og vökvablöndurnar áttu það sameiginlegt að vera ómerkilegar eftirlíkingar sem ekki gátu gert hið minnsta gagn.
Í tilkynningunni frá Europol kom líka fram að þessi dæmi sem hér voru nefnd væru einungis dropi í svindlhafið. Í áðurnefndri herferð fundust fleiri en tvö þúsund svindl vefsíður þar sem boðið var upp á alls kyns vörur, grímur og hlífðarfatnað, handspritt og sótthreinsivökva ásamt mörgu öðru, til hjálpar í baráttunni gegn kórónuveirunni Covid 19. Í öllum tilvikum lofað bót og bættri líðan, ýmist með góðum ráðum eða lyfjum sem send yrðu heim til kaupandans hið snarasta. Vel að merkja þegar kaupandinn hefði borgað fyrirfram, inn á bankareikninga viðkomandi söluaðila. Í góðri trú borguðu margir en fengu hinsvegar aldrei neina sendingu með póstinum.
Á sumum áðurnefndra vefsíðna var ennfremur boðið upp á einhverskonar fyrirbyggjandi fjarmeðferð. Hljómar kannski í margra eyrum fremur ótrúverðugt en á þennan vagn hoppuðu ótrúlega margir, að sögn Europol. Til þess eins að komast svo að því að „meðferðargjafinn“ var tilbúningur einn. Í tilkynningu Europol kom fram að margir hefðu greitt háar fjárhæðir fyrir lyf og lækningar, peninga sem væru í langflestum tilvikum tapaðir.
Veirueftirlitsmenn
Europol varaði við fleiru í áðurnefndri tilkynningu. Á undanförnum tveimur vikum hefur talsvert borið á því, víða í Evrópu, að menn íklæddir hlífðarbúningum, með andlitsgrímur og gleraugu hafi bankað upp á hjá eldra fólki í borgum og bæjum. Þeir hafi sagst vera veirueftirlitsmenn og séu komnir til að kanna hvort smit geti leynst í viðkomandi íbúð. Gjarna beðið um að íbúinn eða íbúarnir bíði úti, eða frammi á gangi meðan smitleitin standi yfir. Taki stutta stund.
Alltof margir, segir í tilkynningu Europol, hafi trúað „eftirlitsmönnunum“ sem hafi með þessu móti getað rænt og ruplað saklausa borgara. Líka séu þess dæmi að þeir sem banki upp á, iðulega tveir saman, segist vera heilbrigðisstarfsmenn sem séu komnir til að kanna heilsufarið hjá íbúum hússins. Á meðan annar lýsir í augu og eyru, þykist taka púlsinn og spyr spurninga, stingur hinn á sig verðmætum og peningum. Eftir skamma stund, þegar „heilsufarsrannsókninni“ er lokið hverfa þjófarnir á braut. Síðar uppgötvar svo fólk hver tilgangur heimsóknarinnar var.
Að undanförnu hafa yfirvöld í mörgum Evrópulöndum, með auglýsingum í fjölmiðlum, varað fólk við að gleypa við gylliboðum sem auglýsa töfralausnir í baráttunni við kórónuveiruna. Talsmaður Europol sagðist, í viðtali við breskt dagblað, vonast til að slíkar auglýsingar verði til þess að færri láti glepjast.
Viðurlög
Eins og flestum mun kunnugt eru nú víða um lönd í gildi strangar reglur, í því skyni að hindra útbreiðslu veirunnar. Þessar reglur varða í stuttu máli samneyti fólks, tveggja metra reglan svonefnda, fjöldatakmörk í verslunum o.s.frv. Fram hefur komið að hér á Íslandi hefur almenningur, í heildina, farið að tilmælum yfirvalda og mjög margir halda sig að mestu heima þessa dagana. Ríkissaksóknari gaf sl. föstudag (27.3) fyrirmæli um viðurlög gegn brotum á sóttvarnalögum. Þar er kveðið á um upphæð sekta og lengd fangelsisvistar ef uppvíst verður um brot. Sektarupphæðir eru misháar eftir alvarleika brotanna. Alvarlegustu brot geta varðað sex ára fangelsi.
Á upplýsingafundi Almannavarna síðastliðinn föstudag kom fram að fyrirmæli ríkissaksóknara byggi á norrænni fyrirmynd. Í norsku sóttvarnalögunum er kveðið á um sekt, eða fangelsi vegna brota á lögunum. Fangelsisdómur getur orðið allt að fjórum árum.
Nick Hækkerup dómsmálaráðherra Dana kynnti fyrir nokkrum dögum nýtt frumvarp um refsingar vegna kórónuglæpa, eins og ráðherrann komst að orði. Ráðherrann vill að frumvarpið fái flýtimeðferði í þinginu, Folketinget, og það verði að lögum á næstu dögum. Þótt flestir þingmenn hafi lýst sig fylgjandi hertum viðurlögum vegna ástandsins hafa sumir þeirra lýst efasemdum um sumt sem fram kemur í frumvarpinu.
Danskir fjölmiðlar hafa fjallað talsvert um þetta nýja frumvarp og Mikael Sjöberg formaður Dönsku dómarasamtakanna fann sig knúinn til að skrifa dómsmálaráðherranum vegna frumvarpsins. Formaðurinn segir í bréfi sínu að þótt ráðherrann leggi áherslu á skjóta afgreiðslu megi ekki flýta sér um of. Mikael Sjöberg vekur athygli á að í frumvarpið vanti refsilágmark (bagatelgrænse).
Þannig væri til dæmis hægt að ákæra mann sem hefði stolið einni flösku af handspritti. Ástæða þess að formaður dómarasamtakanna nefnir þetta sérstaklega er að í fylgiskjölum með frumvarpinu er handsprittið sérstaklega nefnt. Kannski vegna þess að talsvert hefur verið fjallað um þjófnaði á þessum varningi í dönskum fjölmiðlum. Formaðurinn nefnir að vegna ástandsins í þjóðfélaginu kæmi dómur í hugsanlegu handsprittsþjófnaðarmáli ekki til með að falla fyrr en seint og um síðir. „Og þá verður Covid-19 vonandi löngu úr sögunni.“