Bára Huld Beck/Samsett mynd

Óvissan liggur í loftinu

Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir og blaðamaðurinn Bára Huld Beck fóru í göngutúr um auðar götur miðbæjar Reykjavíkur. Þrátt fyrir gjörbreytta götumynd þá mátti sjá ljós í myrkrinu við hvert fótmál.

Á örfáum dögum hefur Reykja­vík, líkt og margar borgir, breyst úr því að vera iðandi mann­lífspottur yfir í eyði­leg torg og stræti. Þessa dag­ana er sér­kenni­leg upp­lifun að fá sér göngutúr um mið­bæ­inn, nán­ast eins og að rölta um inni í dystópískri kvik­mynd – eða! Kannski minnir nú borgin öllu frekar á ver­öld sem var, sjálfa sig fyrir ein­hverjum ára­tugum síð­an. Göt­urnar tóm­ar, reglu­verkið stíft. Flestir útlend­ingar farnir úr landi og borg­ar­búar halda sig heima.

Auglýsing

Óvissan liggur í loft­inu, nán­ast áþreif­an­leg í tóm­legri götu­mynd­inni. Hvað bíður okk­ar, hvað bíður fyr­ir­tækj­anna, hvað er að ger­ast? Um leið og hætta steðjar að heilsu okk­ar, jafn­vel lífi, blasir við hættan á djúpri kreppu. Það verður kreppa, en hversu djúp hún verð­ur, vitum við ekki enn­þá. Rétt eins og við vitum ekki hversu margir munu veikj­ast alvar­lega.

Samt! Það er byrjað að birta, vorið er á næsta leiti. Úti má heyra fugla­söng. Við erum ennþá lif­andi.

Bára Huld Beck

Ekki er allt svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Nú gefst færi á að dansa einn á torg­inu fyrir framan Hall­gríms­kirkju, torgi sem vana­lega er iðandi af lífi. Krökkt af fólki. Ein­hverju sem er ekki lengur þarna. Kirkjan gnæfir yfir tómum stræt­um.

Við göngum frá Hall­gríms­kirkju niður tóman Skóla­vörðu­stíg­inn, tvö ein­tök af Palli var einn í heim­in­um. Upp­lifunin er ögn óraun­veru­leg, um leið og umhverfið minnir okkur á æsk­una. Þá vorum við báðar vanar að dóla okkur svo mikið ein­ar, nema án síma, tölvu og meira að segja stundum án sjón­varps. Maður spyr sig þó: Hversu lengi á þetta eftir að vara svona?

Verður ver­öldin aftur söm? Við trúum því að hún verði aftur söm við sig. Samt, þegar svona margt breyt­ist á örstuttum tíma verður maður með­vit­aður um hversu litla stjórn mann­eskjan hefur á líf­inu almennt. Nú þegar ósýni­leg veira er búin að koll­varpa háþró­uðum tækni­sam­fé­lög­um heims­ins.

Mæðgurnar Sigríður Halldórsdóttir og Auður Jónsdóttir.
Bára Huld Beck

Næst liggur leiðin á Berg­staða­stræti svo rit­höf­und­ur­inn geti kíkt á mömmu sína, Sig­ríði Hall­dórs­dótt­ur. Mamman er, eins og mæður svo margra, að nálg­ast sjö­tugt og því sjálf­krafa í ákveðnum áhættu­hópi. Þar sem mamman býr mið­svæðis fylgir því líka sú áhætta að fólk droppi við. Það er vant því að detta inn í kaffi og spjall við nota­legt eld­hús­borð­ið. En nú getur það verið lífs­hættu­legt, eins og ýmis­legt annað sem við höfum tekið sem gefnu í hvers­deg­in­um! Samt sem áður er hægt að heilsa upp á fólk, bara svo lengi sem maður stígur ekki inn fyrir dyra­þrösk­uld­inn.

Rit­höf­und­ur­inn reynir að heim­sækja móður sína reglu­lega en gætir þess að hvika ekki frá graffi­tí-­veggnum and­spænis úti­dyr­un­um, jafn­vel þó að móð­irin and­varpi, allt að því þjáð: Ætlarðu í alvör­unni ekki að koma inn!

Bára Huld Beck

Við röltum aftur út Berg­staða­stræt­ið, út á Skóla­vörðu­stíg, og göngum fram­hjá Kaffi­fé­lag­inu. Vana­lega kemur þar saman fjöl­mennur hópur á morgn­ana, ýmsir kjaftaglaðir með ein­dæmum og ósparir á skoð­anir sínar á öllu því sem gengur á í sam­fé­lag­inu. Þarna fáum við okkur stundum morg­un­kaffi því það getur verið svo góð inn­spýt­ing fyrir greina­skrif að heyra ólíkar radd­ir. En núna vita ekki einu sinni mælsk­ustu mann­eskjur hvað er eig­in­lega hægt að segja.

Að vísu mæta ein­hverjir ennþá í morg­un­sopann og gæta að því að standa með fjar­lægð á milli sín. En þeir eru miklu færri en vana­lega og nú, þegar liðið er á dag­inn, er hvergi neinn að sjá. Eina nær­veran sem við skynjum er ilm­ur­inn af góða, ítalska kaff­inu hans Ein­ars í Kaffi­fé­lag­inu. Hættu­lega lokk­andi!

Oft hefur verið líf­legra um að lit­ast í Banka­stræt­inu. Við horfum á eftir einni mann­eskju hraða sér eitt­hvert út í blá­inn. Tóbaks­búðin Björk er þó opin á þessum síð­ustu og verstu. Sýni­lega er til­vilj­un­ar­kennt hvaða búðir eru opnar og þrátt fyrir allt og allt, við­var­anir lækna og heil­brigð­is­yf­ir­valda þess efnis að tóbak auki lík­urnar á hættu­legum veik­ind­um, þá er vina­legt að sjá opna búð.

Rithöfundur stígur dans.

Og reyndar er Ríkið líka opið. Þar fyrir utan húkir ein­mana hundur og bíður eig­anda síns. Von­andi var þó minna um heimapartí þessa helg­ina heldur en þá síð­ustu þegar lög­reglan þurfti að sinna óvenju mörgum útköllum í heima­hús. Það getur vissu­lega verið hjarta­styrkj­andi að fá sér sopa en um leið lúrir hættan á að höml­urnar farist fyr­ir. En það þarf svo sem ekk­ert áfengi þessa dag­ana til að stíga villtan dans á Lækj­ar­torgi, alveg blygð­un­ar­laus. Eini veg­far­and­inn á ferli hefur þó gaman af.

Það er ein­hver heimsendastemn­ing við að sjá Kaffi París svo inni­lega lokað að búið er að stafla öllum stólum upp á borð. Það er af sem áður var, hugsum við.

Svo virðist sem það verði nokkur bið á að þessir lundar verði keyptir.
Bára Huld Beck
Bára Huld Beck

Óneit­an­lega er eitt­hvað ögn list­rænt við að sjá bréf­bera einan á hjóli fyrir framan Lista­safn Reykja­vík­ur. Það leiðir hug­ann að því að víðs vegar í sam­fé­lag­inu er fólk að vinna störf sín og á sinn hátt að halda gang­verki þess lif­andi. Á sinn hátt er allt þetta fólk björg­un­ar­sveit. Það stendur vakt­ina í fremstu víg­línu.

Bára Huld Beck

Og hér er svo allt fólkið – eftir allt sam­an! Allir bara á Bæj­ar­ins bestu! Sama hvað ger­ist í heim­in­um, fólk heldur áfram að fá sér pylsu með öllu. Eða bara með sinn­epi eins og Clinton forð­um.

Í apó­tek­inu er vel tekið á móti okk­ur. Þar má finna hitt og þetta sem er gott og jafn­vel ráð­legt að eiga. Lyfja­fræð­ing­arnir halda sér í öruggri fjar­lægð, við­ræðu­góðir og hlý­leg­ir. Sér­stakt sprittteymi sér um að spritta og þrífa fyrir við­skipta­vini. Tveir menn sem mæta nú í apó­tekið tvisvar í viku til að spritta.

Bára Huld Beck

Það er ekki úr miklu að moða fyrir ein­hleypa þessa dag­ana. Strang­lega bannað að kyssa og knúsa aðra en heim­il­is­með­limi. Þá má halla sér upp að svona dúkku­vini, nema maður búi svo vel að eiga kyn­lífs­dúkku.

Nokkuð þungbúinn himinn yfir stjórnarráðinu. Og þó! Sólin brýst í gegnum skýin.
Bára Huld Beck
Bára Huld Beck

Í dyr­unum af einni af þessum opnu búðum stendur mynd­list­ar­mað­ur­inn og versl­un­ar­eig­and­inn Jóhann Torfa­son. Hann glottir góð­lát­lega framan í dag­inn og segir okkur að hjá sér sé hægt að panta vöru, þó nokkuð sé um að fólk panti Reykja­vík­ur­púsl. Það getur þá stytt sér stundir við að rústa Reykja­vík og púsla henni aftur sam­an.

Sem betur fer er Vínberið opið! Þar má kaupa allskonar girnilegt sælgæti til að grynnka á örvæntingunni.
Heyrst hefur að vandræðaveiran þrífist vel í kulda. Svo allur er varinn góður fyrir þennan ísbjörn.

Okkur líður bara nokkuð vel eftir göngut­úr­inn, enda þjóð­ráð að fara í göngut­úr, þó að borgin sé tóm­leg að sjá. Bara að hafa í huga að passa upp á fjar­lægð­ina og detta ekki á neinn! Göngut­úrar gera okkur gott og eru krafta­verka­meðal í ástandi sem þessu.

Mynd­ir: Bára Huld Beck

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar