Mynd: Bára Huld Beck

Væntanlegur halli ríkissjóðs fór úr tíu í allt að 300 milljarða á hálfu ári

Í lok nóvember 2019 voru samþykkt viðspyrnufjárlög fyrir yfirstandandi ár. Reka átti ríkissjóð með um tíu milljarða króna halla til að bregðast við skammvinni niðursveiflu. Um miðjan marsmánuð var farið að reikna með 100 milljarða króna halla. Nú er talið einboðið að hann verði 250 til 300 milljarðar króna. Á hálfu ári hefur íslenskum efnahag verið snúið á hvolf og sviðsmyndirnar versnað nánast dag frá degi síðustu vikur. Hér er þessi saga rakin.

Síð­ast þegar Ísland gekk í gegnum stórt efna­hags­á­fall þá hrundi íslenska banka­kerfið á örfáum dög­um. Það voru mestu ham­farir sem orðið hafa af manna­völdum hér­lend­is. Í kjöl­farið veikt­ist krónan um tugi pró­senta, verð­bólga fór í 18,6 pró­sent, stýri­vextir í 18 pró­sent, atvinnu­leysi í hæstu hæðir og hall­inn sem rík­is­sjóður var rek­inn með á því ári, 194 millj­arðar króna, gerði hann nær gjald­þrota. Áhrifin á sam­fé­lagið allt voru gríð­ar­leg, sér­stak­lega á þá sem skuld­uðu. Leita þurfti til Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóðs­ins eftir aðstoð og rík­is­sjóður var rek­inn með halla út árið 2013. Upp­safn­aður halli á þessu tíma­bili, frá 2008 til 2013, var tæp­lega 658 millj­arðar króna sam­kvæmt tölum frá Hag­stofu Ísland. Kreppan var því langvar­and­i.  

Síðan tók við mesta hag­vaxt­ar­skeið Íslands­sög­unnar sem náði hámarki árið 2016 þegar saman kom gríð­ar­leg aukn­ing í komu ferða­manna og greiðsla stöð­ug­leika­fram­lagi úr slita­búum fall­inna fjár­mála­fyr­ir­tækja. Það árið var afgangur af rekstri rík­is­sjóðs tæp­lega 302 millj­arðar króna. 

Í fyrra stefndi í að því hag­vaxt­ar­skeiði myndi ljúka, þegar WOW air fór í þrot sam­hliða því að Icelandair glímdi við mikla rekstr­ar­erf­ið­leika, meðal ann­ars vegna þess að félagið fékk ekki Boeing 737-Max vélar sínar afhent­ar. Afleið­ing þess varð sú að ferða­mönnum sem heim­sóttu Íslands fækk­aði úr 2,3 millj­ónum í tvær millj­ón­ir. Þvert á allar spár framan af ári end­aði lands­fram­leiðslan þó með því að vaxa lít­il­lega, eða um 0,6 pró­sent, í stað þess að drag­ast sam­an. 

Auglýsing

Árið 2020 átti að verða við­spyrnu­ár. Þegar fjár­lög vegna yfir­stand­andi árs voru sam­þykkt gerðu þau ráð fyrir að rík­is­sjóður myndi verða rek­inn með tæp­lega tíu millj­arða króna halla. Í til­kynn­ingu frá fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­inu sagði að sá slaki væri gefin til að „styðja við hag­kerfið nú þegar það gengur í gegnum skamm­vinna nið­ur­sveiflu.“

Svo skall COVID-19 far­ald­ur­inn á og breytti öllu.

Síðan þá hefur hin efna­hags­lega staða breyst til hins verra nán­ast dag frá degi. Hér að neðan er sú breyt­ing sem átt hefur sér stað á sviðs­myndum og vænt­ingum í efna­hags­málum þjóðar síð­ustu tæpu þrjá mán­uði rak­in.

5. febr­úar 2020: Seðla­banki Íslands birtir hag­vaxt­ar­spá

Hag­vaxta­spá Seðla­banka Íslands kynnt í febr­ú­ar­hefti rits­ins Pen­inga­mál. Spáin gerði ráð fyrir að hag­vöxtur í ár yrði 0,8 pró­sent og hafði spáin þá versnað umtals­vert frá því í nóv­em­ber 2019, þegar hún gerði ráð fyrir 1,6 pró­sent hag­vexti. Þar segir að í stað þess að aukast lít­il­lega sé nú útlit fyrir að útflutn­ingur vöru og þjón­ustu drag­ist saman í ár og yrði það í fyrsta sinn frá því snemma á tíunda ára­tug síð­ustu aldar sem útflutn­ingur dregst saman tvö ár í röð. „Hæg­ari bati í ferða­þjón­ustu, fram­leiðslu­hnökrar í áliðn­aði og loðnu - brestur annað árið í röð vega þar þungt. Þá hækk­aði álag á vexti fyr­ir­tækja­lána nokkuð undir lok síð­asta árs sem veldur því að nú er talið að atvinnu­vega­fjár­fest­ing auk­ist hægar í ár og á næsta ári en áður var spáð.“ 

23. febr­ú­ar: „Við sem ferða­manna­land erum ekki búin að taka neinum breyt­ing­um“

COVID-far­ald­ur­inn var ekki farin að hafa telj­andi áhrif á Íslandi né far­inn að vigta af viti inn í umræð­una hér­lend­is. Stærsta málið í umræð­unni var þvert á móti mögu­leg sala á rík­is­banka og hvort að það ætti að grípa til sér­tækra aðgerða til að lækka arð­semi íslenskra orku­fyr­ir­tækja til að aðstoða alþjóð­leg stór­fyr­ir­tæki sem reka álver á Íslandi að ná fram betri rekstr­ar­af­komu.

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, mætti í við­tal í Silfr­inu og sagði að ríkið væri í „sölugírn­um“ þegar kæmi að sölu Íslands­banka. Það væri gríð­­ar­­legt hags­muna­­mál að ríkið lægi ekki ­með á annað hund­rað millj­­arða í fjár­­­mála­­fyr­ir­tæki á sama tíma og allir væru ­sam­­mála um að það þurfi að auka inn­­viða­fjár­­­fest­ing­­ar. „Þetta er algjör­­lega rakið mál.“

Salan á Íslandsbanka átti að losa fé fyrir hið opinbera.
Mynd: Íslandsbanki

Til lengri tíma litið sagð­ist hann ekki hafa áhyggjur af hag­­kerf­inu. „Við búum hér yfir grænni orku og hún verður eft­ir­­sótt í fram­­tíð­inni og við sem ferða­­manna­land erum ekki búin að taka neinum breyt­ing­­um. Þannig að til lengri tíma hef ég engar áhyggjur af tæki­­færum Íslands.“

10. mars: Aðgerða­pakki núll

Rík­is­stjórn Íslands kynnti áætlun sína um frek­ari aðgerðir til að mæta efna­hags­­legum áhrifum af útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 og almennrar kóln­unar í hag­kerf­inu. Það má kalla hann aðgerða­pakka núll.

Í þeim pakka, sem taldi sjö aðgerð­ir, voru meðal ann­ars aðgerðir sem þegar höfðu verið kynnt­ar, eins og til­færsla á inn­stæðum Íbúða­lána­sjóðs úr Seðla­banka Íslands og yfir til við­skipta­banka til að auka laust fé innan þeirra. Þá hafði áður verið greint frá því að aukin kraftur yrði settur í fjár­fest­ingar hins opin­bera og engar nýjar slíkar voru til­greindar á blaða­manna­fundi rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Þar var hins vegar greint frá því að fyr­ir­tækjum sem gætu lent í tíma­bundnum rekstr­­ar­örð­ug­­leik­um ­vegna tekju­­falls yrði veitt svig­­rúm, t.d. með lengri fresti til að standa skil á sköttum og opin­berum gjöld­um og að gistin­átta­skattur verði felldur nið­ur. Rík­is­stjórnin greindi líka frá því að hún ætl­aði í mark­aðsá­tak erlendis „þeg­ar að­­stæður skap­­ast til þess að kynna Ísland sem áfanga­­stað, auk átaks til að hvetja til ferða­laga Íslend­inga inn­­an­lands.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnir áætlun ríkisstjórnarinnar um að bregðast við efnahagsástandinu 10. mars 2020.
Mynd: Bára Huld Beck

Virkt sam­tal myndi svo eiga sér stað um hvernig bankar ættu að taka á stöðu fyr­ir­tækja sem gætu ekki staðið við greiðslur af lánum né almennar rekstr­ar­greiðsl­ur, eins og launa­greiðsl­ur. Engin nið­ur­staða úr því sam­tali var þó kynnt um hvernig þeim málum verði háttað að öðru leyti en að til stæði að reyna að fleyta „líf­væn­legum fyr­ir­tækj­um“ í gegnum þann kúf sem framundan væri.

12. mars: Banda­ríkin lok­ast

Don­ald Trump, for­seti Banda­ríkj­anna, til­kynnti um ferða­bann milli Evr­ópu og Banda­ríkj­anna. Það átti að standa yfir í 30 daga. Und­an­farin ár hafa flestir þeirra sem heim­sækja Ísland sem ferða­menn komið frá Banda­ríkj­un­um. Í fyrra komu þaðan 464 þús­und manns, sem var þriðj­ungi færri en metárið 2018.

15. mars: Sam­komu­bann tekur gildi á Íslandi

Við­­burðir þar sem fleiri en hund­rað manns koma saman yrðu óheim­ilir sam­­kvæmt til­­lög­unni. Það myndi eiga við til dæmis stóra vinn­u­­staði, íþrótta­við­­burði, versl­­anir og kvik­­mynda­hús. Á fámenn­­ari við­­burðum átti fólk halda tveggja metra fjar­lægð sín á milli­. ­Bannið átti ekki að gilda um flug­­­vélar og skip og náði því ekki til alþjóða­hafna og flug­­valla. Einnig var greint frá því að tak­­mörkun yrði á skóla­­starfi.

16. mars: Evr­ópa lok­ast

Fram­­kvæmda­­stjórn Evr­­ópu­­sam­­bands­ins mælt­ist til þess að öll ríki sam­bands­ins, sem og nágranna­lönd sem standa utan þess, myndu banna öll „ónauð­­syn­­leg ferða­lög“ til Evr­­ópu. Í raun þýddi þetta tíma­bundið ferða­bann sem næði til alls heims­ins. Ein­ungis Evr­­ópu­­búar fengju þá að ferð­­ast til Evr­­ópu, nema í und­an­­tekn­ing­­ar­til­­fell­­um. Með þessum aðgerðum hafði öllum helstu mark­aðs­svæðum íslenskrar ferða­þjón­ustu verið lok­að. 

Auglýsing

17. mars: 100 millj­arða halli

Bjarni Bene­dikts­son fór í við­tal við Bítið á Bylgj­unni og  sagði meðal ann­ars að rík­­is­­sjóður gæti verið rek­inn með hund­rað millj­­arða króna halla á þessu ári en mik­il­vægt væri að fólk haldi störfum sín­um. Aðgerðir rík­­is­­stjórn­­­ar­innar vegna heims­far­ald­­ur­s­ins miði að því.

19. mars: Von­ast til að hluta­bætur kosti tólf til tutt­ugu millj­arða

Kjarn­inn birtir upp­lýs­ingar úr kostn­að­ar­mati sem unnið var vegna hluta­bóta­leið­ar­innar svoköll­uðu. Bjartasta sviðs­myndin gerði ráð fyrir því að ein­ungis fimm þús­und manns myndu nýta sér leið­ina en sú sem stjórn­völd voru að reikna með gerði ráð fyrir að þeir yrðu á bil­inu 20-30 þús­und. Ásmundur Einar Daða­son, félags- og barna­mála­ráð­herra, sagði í fréttum Stöðvar 2 þann dag að „það fjár­magn sem fer í þetta [fer] mjög mikið upp og má gera ráð fyrir því að það verði á bil­inu tólf til tutt­ugu millj­arð­ar, eftir því hversu margir nýta sér úrræð­ið.“

21. mars: Aðgerða­pakki 1.0

Stjórn­völd kynntu fyrsta alvöru aðgerða­pakka sinn vegna aðstæðna í efna­hags­líf­inu. Aðgerð­irnar sagðar vera „stærstu ein­stöku efna­hags­að­gerðir sög­unn­ar“. Kostn­að­ur­inn vegna hluta­bóta­leið­ar­innar þar reikn­aður sem 22 millj­arðar króna fram til 1. júní, og hafði því hækkað frá mati Ásmundar Ein­ars, sem sett var fram tveimur dögum áður. 

Ríkisstjórnin mat umfang fyrsta aðgerðapakka síns á 230 milljarða króna. Mánuði síðar kynnti hún annan pakka.
Mynd: Bára Huld Beck

Aðgerða­pakk­inn fólst utan þess aðal­lega í að Seðla­bank­inn geti veitt ábyrgðir fyrir lánum til fyr­ir­tækja upp á tugi millj­arða króna, að heim­ila frek­ari frestun á greiðslum opin­berra gjalda, afnema gis­in­átta­skatt, lækka banka­skatt og greiða út barna­bóta­auka. Þá átti að leyfa fólki að nota sér­eign­ar­sparnað sinn. Umfang aðgerða í pakk­anum var metið á 230 millj­arða króna.

23. mars: Sex til sjö pró­sent sam­dráttur

Sam­­kvæmt sviðs­­myndum sem unnið væri með liti út fyrir að Ísland gæti verið á leið í svip­aða nið­­ur­­sveiflu og eftir banka­hrun­ið, eða sex til sjö pró­­sent sam­­drátt, sam­kvæmt orðum Bjarna Bene­dikts­sonar í morg­un­út­varpi RÚV. Í sviðs­­mynd­unum væri talið að meðal atvinn­u­­leysi gæti orðið um átta pró­­sent en Bjarni ítrek­aði hversu mikið óvissa væri um allt fram­hald. „Við erum í dálítið mik­illi þoku í augna­blik­in­u.“

Hann sagði ekki gott að segja hvenær við myndum finna botn efna­hagslægð­­ar­inn­­ar. „Ég held að það sé lang­best að vera hrein­skilin með það að við erum á leið­inni inn í krís­una. Þetta er bara rétt að byrja vegna þess að áhrifin af því að það komi ekki ferða­­menn til dæmis smit­­ast víða um sam­­fé­lagið og birt­­ast okkur ekki síður í apríl og maí heldur en menn hafa séð í dag og inn í sum­­­ar­ið. Það er langur tími í að við finnum botn­inn ef við tölum um þetta í ein­hverjum vik­um, og mög­u­­lega í mán­uð­u­m.“

23. mars á mið­nætti: Hert sam­komu­bann tekur gildi

Mörk mann­­fjölda við skipu­lagða við­burði fær­t úr 100 manns niður í 20 manns.

Auglýsing

Sund­laug­um, lík­­ams­­rækt­­­ar­­stöðv­um, skemmti­stöð­um, spila­­söl­um, spila­köss­um og söfn­um lokað og starf­­semi og þjón­usta sem krefst mik­ill­ar ná­lægðar milli fólks eða skap­ar hættu á of mik­illi ná­lægð varð óheim­il. Þar und­ir féll allt íþrótt­a­starf og einnig all­ar hár­greiðslu­­stof­­ur, snyrt­i­­stof­­ur, nudd­­stof­ur og önn­ur sam­­bæri­­leg starf­­sem­i. 

25. mars: Svartasta mynd Seðla­bank­ans reikn­aði með tæpum fimm pró­sentum

Seðla­banki Íslands kynnti sviðs­myndir sínar opin­ber­lega. Sam­kvæmt þeim var reiknað með 2,4 til 4,8 pró­­sent sam­drætti í lands­fram­­leiðslu á árinu 2020. Mild­­ari sviðs­­myndin gerði ráð fyrir 37 pró­­sent fækkun ferða­­manna á árinu 2020 sem myndi leiða til 14 pró­­sent sam­­dráttar í heild­­ar­út­­­flutn­ingi í ár. Dekkri sviðs­­myndin gerði ráð fyrir 55 pró­­sent fækkun ferða­­manna sem myndi leiða að sér 21 pró­­sent sam­­drátt í útflutn­ing­i. 

Sviðs­­mynd­­irnar gerðu ráð fyrir miklum breyt­ingum á atvinn­u­­leysi og að það myndi að með­­al­tali verða á bil­inu 5,7 til 7,0 pró­­sent árið 2020. Þá var búið að taka til­­lit til þess að þús­undir launa­­manna í einka­­fyr­ir­tækjum myndu fara á hluta­bætur úr Atvinn­u­­trygg­inga­­leys­is­­sjóð­i. 

2. apr­íl: Seðla­bank­inn upp­færir svört­ustu sviðs­mynd sína

Í upp­færðum sviðs­myndum Seðla­banka Íslands, sem kynntar voru á fundi pen­inga­stefnu­nefndar þennan dag, gerði mild­ari sviðs­myndin ráð fyrir 3,7 pró­sent sam­drætti í hag­vexti í ár og 18,7 pró­sent minni útflutn­ingi á vöru og þjón­ustu en í fyrra. Hin dekkri gerði ráð fyrir 6,4 pró­sent sam­drætti og að útflutn­ingur myndi drag­ast saman um 27,2 pró­sent. Vert er að minna á að grunn­spá pen­inga­stefnu­nefnd­ar, sem var kynnt í febr­úar og áður en að kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn reið yfir, gerði ráð 1,6 pró­sent hag­vexti. Seðla­bank­inn reikn­aði með því að atvinnu­leysi gæti í versta falli farið upp í 7,5 pró­sent. 

14. apr­íl: AGS spáir meiri sam­drætti en Seðla­bank­inn

Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóð­ur­inn birti spá um 7,2 pró­sent sam­drátt í íslensku efna­hags­lífi í ár en að hag­kerfið myndi bragg­ast hratt á næsta ári og upp­lifa sex pró­sent hag­vöxt. Sjóð­ur­inn spáði einnig átta pró­sent atvinnu­leysi hér­lendis í ár. 

Sviðsmyndir Seðlabanka Íslands hafa verið jákvæðari en flestra annarra. Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri.
Mynd: Bára Huld Beck

16. apr­íl: Spá 17 pró­sent atvinnu­leysi

Atvinnu­leysi mun verða allt að 17 pró­sent í apríl sam­kvæmt áætlun Vinnu­mála­stofn­un­ar, sem er mesta atvinnu­leysi frá því að mæl­ingar hófust árið 1957. Um 14.000 manns þáðu þennan dag atvinnu­leys­is­bætur og um 35 þús­und manns voru í lækk­uðu starfs­hlut­falli í gegnum hluta­bóta­leið­ina sem nam 37 pró­sent að með­al­tali. 

17. apr­íl: Skýrsla segir að 330 millj­arðar króna muni ekki skila sér

Skýrsla sem KPMG vann með Ferða­mála­stofu og Stjórn­stöð ferða­mála er opin­beruð. Í henni eru birtar spár um hvaða áhrif hrunið í ferða­þjón­ustu vegna útbreiðslu kór­ónu­veirunnar muni hafa á tekju­öflun grein­ar­inn­ar. Þar er reiknað með að komur ferða­manna til Íslands muni drag­ast saman um 43 til 69 pró­sent á árinu 2020. Bjart­sýn­asta spáin gerði ráð fyrir að fjöldi erlendra ferða­manna sem komi hingað til lands verði rétt rúm­lega helm­ingur þess sem kom í fyrra, þegar þeir voru um tvær millj­ón­ir. Svart­sýn­asta spáin gerði ráð fyrir að erlendu ferða­menn­irnir verði ein­ungis 600 þús­und. 

Afleið­ingin af þessu yrði kolsvört: reiknað er með að gjald­eyr­is­tekjur drag­ist saman um 275 til 330 millj­arða króna. 

21. apr­íl: Aðgerða­pakki 2.0 kynntur

Rík­is­stjórnin kynnti annan aðgerða­pakka sinn. Lok­un­ar­styrkir til fyr­ir­tækja sem ríkið lét loka með boð­valdi, stuðn­ings­lán með 100 pró­sent rík­is­á­byrgð til lít­illa fyr­ir­tækja, bón­us­greiðslur til fram­línu­starfs­manna og óút­færðar styrk­veit­ingar upp á 350 millj­ónir króna til einka­rek­inna fjöl­miðla voru á meðal aðgerða sem mynd­uðu nýjasta pakka íslenskra stjórn­valda. Stjórn­völd meta heild­ar­um­fang aðgerð­anna sem nálægt 60 millj­örðum króna.

Annar aðgerðapakki ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur var kynntur í síðustu viku.
Bára Huld Beck

Bjarni Bene­dikts­son fór í við­tal við mbl.is eftir á og sagði að ef tekju­­fall rík­­is­ins sé lagt sam­an við út­gjalda­auka þess vegna COVID-19 væri hægt að gera ráð fyr­ir að halli rík­­is­­sjóðs yrði 250 millj­­arðar króna í ár. 

Aðrir stjórn­mála­menn og sér­fræð­ingar í efna­hags­málum sem Kjarn­inn hefur rætt við segja ein­boðið að hall­inn verði yfir 300 millj­arða króna í ár.

27. apr­íl: Reiknað með 13 pró­sent sam­drætti

Í nýju haglík­­ani sem Við­­skipta­ráð Íslands hefur sett fram um þróun lands­fram­­leiðslu til árs­ins 2030 er gert ráð fyrir að sam­­dráttur í lands­fram­­leiðslu á árinu 2020 verði 12,8 pró­­sent. Það sam­svarar því að hún lækki um 379 millj­­arða króna á yfir­­stand­andi ári. 

For­­sendur lík­­ans­ins eru meðal ann­­ars þær að atvinn­u­­vega­fjár­­­fest­ing drag­ist saman um 40 pró­­sent, að þjón­ust­u­út­­­flutn­ing­­ur, sem felur meðal ann­­ars í sér ferða­­þjón­ustu, minnki um 59 pró­­sent og að íbúða­fjár­­­fest­ing drag­ist saman um 25 pró­­sent. Við­­skipta­ráð telur ­sviðs­­mynd­ina sem dregin er upp þegar farið er inn í líkanið sé „afar dökk en raun­­sæ“.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar