Stuðningur við rannsókn og þróun verður hækkaður enn frekar
Hlutfall endurgreiðslu vegna rannsóknar og þróunar hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum verður hækkað upp í 35 prósent. Þak á kostnaði sem telja má fram til frádráttar verður hækkað í 1,1 milljarð króna. Einstaklingar fá rýmri skattafslátt fyrir að fjárfesta í nýsköpun.
Efnahags- og viðskiptanefnd leggur til í áliti sínu um svokallaðan bandorm, frumvarp sem lögleiðir þær aðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti í öðrum aðgerðarpakka sínum, að gera breytingar á hlutfalli skattfrádráttar og hámarksfjárhæða vegna endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar.
Þegar aðgerðarpakkinn var kynntur 21. apríl síðastliðinn stóð til að endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar yrðu hækkaðar úr 20 í 25 prósent og þakið á kostnaði sem má telja fram til frádráttar átti að hækka úr 600 í 900 milljónir króna.
Í áliti nefndarinnar kemur fram að með það að markmiði að styðja enn frekar við íslenskt nýsköpunarumhverfi og leggi hún fram nokkrar breytingar á þessum stuðningsgreiðslum. Við útreikning skattfrádráttar verði til að mynda aðeins miðað við eina hámarksfjárhæð, sem verði 1,1 milljarður króna, við álagningu áranna 2021 og 2022 vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar. Þar af verði nýsköpunarfyrirtækjum heimilt, en ekki skylt, að telja til rannsóknar- og þróunarkostnaðar allt að 200 milljónum króna vegna aðkeyptrar þjónustu.
Þá verði komið á þrepaskiptingu sem feli í sér að lítil og meðalstór félög geti átt rétt á skattfrádrætti sem nemur allt að 35 prósent af útlögðum kostnaði vegna staðfestra verkefna á gildistíma bráðabirgðaákvæðisins. Hækkun á endurgreiðslu til stórra fyrirtækja verður þó áfram í takti við fyrri áform ríkisstjórnarinnar, þ.e. að þær verða hækkaðar úr 20 í 25 prósent.
Aukin skattafsláttur til einstaklinga
Í álitinu segir að við umfjöllun nefndarinnar um frumvarpið hafi komið fram tillögur um að aukið yrði við hvata einstaklinga til að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum.
Í umsögnum Samtaka íslenskra leikjaframleiðenda og Samtaka sprotafyrirtækja hafi til að mynda verið lögð áhersla á mikilvægi slíkrar fjármögnunar fyrir lítil félög í þróunarstarfsemi. „Fyrir liggur að hækkun skattaafsláttar til einstaklinga í þessum efnum hefði óveruleg áhrif á ríkissjóð. Með vísan til framgreinds leggur nefndin til að skattafsláttur til einstaklinga vegna fjárfestinga í hlutafélagi eða einkahlutafélagi[...]hækki tímabundið úr 50 prósent í 75 prósent af fjárhæð fjárfestingar að teknu tilliti til annarra ákvæða laganna.“
Jafnframt vill nefndin hækka fjárhæðarmörk heildarfjárfestingar einstaklings tímabundið úr tíu milljónum króna í 15 milljónir króna.
Lengja gildistíma heimildar lífeyrissjóða
Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar var lagt til að heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í svokölluðum vísisjóðum yrði aukin. Í dag mega þeir eiga allt að 20 prósent í slíkum sjóðum og þarf því aðkomu að lágmarki fimm lífeyrissjóða til að stofna vísisjóð. Frumvarpið gerði ráð fyrir að það hlutfall yrði hækkað í 35 prósent. Fyrir efnahags- og viðskiptanefnd komu fram sjónarmið um að almenn tilvísun til laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki væri til þess fallin að takmarka heimildir lífeyrissjóða til fjárfestingar í nýsköpunarstarfsemi og auka flækjustig. Æskilegra væri að vísa til skilgreiningar á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Slík afmörkun væri betur til þess fallin að styðja fyrirtæki sem gætu orðið kjörinn vettvangur fyrir vöxt og nýsköpun. Nefndin tók undir þessi sjónarmið og leggur til í áliti sínu breytingar þess efnis.
Auk þess komu fram sjónarmið fyrir nefndinni þess efnis að heimild sjóðanna til að auka fjárfestingu í vísissjóðum ætti að vera lengri en til þriggja ára, og jafnvel ótímabundinn. Það gæti til að mynda tekið tíma að stofna slíka sjóði. Efnahags- og viðskiptanefnd ákvað að koma til móts við þau sjónarmið og lagði til að gildistími heimildarinnar yrði til 1. janúar 2025.
Sumir nefndarmenn vildu meira
Sumir nefndarmenn vildu ganga enn lengra en gert var. Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, gerði til að mynda sérstaklega grein fyrir fyrirvara sínum við undirskrift álitsins með því að fjalla um stuðning við nýsköpun. Þar kom fram vilji hans til að hækka endurgreiðsluhlutfall lítilla og meðalstórra fyrirtækja enn frekar, eða upp í 45 prósent. „Á sama tíma er þörf á aukinni hækkun á hámarki endurgreiðslna kostnaðar vegna rannsóknar og þróunar. Leggur Viðreisn því til að það verði 1.500 millj. kr. í stað 1.100 millj. kr. Jafnframt að tímabinding úrræðanna verði afnumin, enda eru breytingartillögur Viðreisnar til þess fallnar að styðja við verðmæta- og atvinnusköpun til framtíðar. Með sömu rökum er einnig lagt til að tímabinding heimildar lífeyrissjóða til fjárfestingar í nýsköpunarsjóðum sé felld brott.“
Smári McCarthy, þingmaður Pírata, var á svipuðum slóðum þegar hann gerði grein fyrir sínum fyrirvara. Hann taldi líka til bóta ef að endurgreiðsluhlutfallið fyrir lítil fyrirtæki yrði hækkað upp í 45 prósent. „Kostnaður lítilla fyrirtækja við að sækja fé í opinbera sjóði er vitanlega hærri sem hlutfall af heildarveltu en hjá stærri fyrirtækjum, og því hefði verið gott að koma til móts við þau þar.“
Hugverkarisar hvöttu til „stórsóknar“
Kjarninn greindi frá því um liðna helgi að forsvarsmenn fjögurra af stærstu hugverkafyrirtækjum sem orðið hafa til á Íslandi, Marel, Össur, Origo og CCP, hefðu í sameiginlegri umsögn um frumvarpið fagnað þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefði boðað til að styðja frekar við nýsköpun á Íslandi. Þau hvöttu hins vegar Alþingi til að „stíga skrefinu lengra og ráðast þannig í stórsókn í nýsköpun, það mun skila sér margfalt til baka til ríkissjóðs og í fleiri eftirsóttum störfum á Íslandi.“
Undir umsögnina skrifuðu Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Marel, Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, Finnur Oddsson, forstjóri Origo og Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði