Viðvarandi atvinnuleysi getur skapað mikinn ójöfnuð
Ísland er í alvarlegri efnahagskreppu. Fyrirliggjandi er mörg hundruð milljarða króna tap á rekstri ríkissjóðs í ár, tugir þúsunda eru án atvinnu að öllu leyti eða hluta og þúsundir fyrirtækja standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau lifi eða deyi. Kjarninn hitti alla þrjá leiðtoga stjórnarflokkanna til að ræða þeirra sýn út úr þeim aðstæðum sem nú blasa við. Síðust í röðinni er Katrín Jakobsdóttir.
Ég held að við getum séð stjórnmálin þróast í hvora áttina sem er. Ef okkur gengur vel í gegnum þetta þá held ég að við gætum séð traust á stjórnmál vaxa. Í skammtímaaðgerðum þá er þessi stemning að fólk sé að gera sitt besta og við stöndum saman í gegnum það. Ef erfiðleikarnir verða langvinnir þá eru meiri líkur á því að upp spretti öfl sem kalla eftir meiri lýðskrumspólitík. Þannig að ég held að það geti farið á hvort veginn sem er.“
Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar hún er spurð hvort hún hafi áhyggjur af þeim lengri tíma áhrifum sem COVID-19 faraldurinn geti haft á stjórnmál á Íslandi. Hún viðurkennir það líka að hafa ekkert hugsað um það undanfarið hvenær næstu kosningar eigi að fara fram, en kjörtímabilinu lýkur í síðasta lagi í október á næsta ári. Forsætisráðherra var búin að gefa það út að samtal myndi eiga sér stað um það á vettvangi Alþingis í sumar hvort þær verði aftur að hausti, sem er óvenjulegt í Íslandssögunni, eða hvort þær verði til að mynda haldnar að vori líkt og hefð er fyrir. Við það ætlar hún að standa þannig að allir stjórnmálaflokkar verði með skýra hugmynd um hvenær næst verði kosið þegar næsti þingvetur hefst.
Katrín segist aldrei kvíða kosningum. Sú gjörbreyting á aðstæðum íslensks efnahags, og að einhverjum leyti samfélags, á örfáum vikum breyti þar engu um. „Hins vegar held ég að þegar ég horfi á undanfarnar vikur – þær hafa verið þannig að þráðurinn hefur oft verið stuttur í okkur öllum og þar af leiðandi hefur reynt samstarf flokka í ríkisstjórn – að það samstarf hefur gengið mjög vel. Það hefur gengið vel að taka ákvarðanir og ná saman á tímum þar sem það er mjög erfitt að taka ákvarðanir.“
Kerfum umbylt til að takast á við faraldur
Þótt faraldurinn og eftirköst hans séu krefjandi þá sér Katrín ýmislegt áhugavert við stöðuna líka. Til að mynda standa allir þjóðir heims nánast á sama stað gagnvart afleiðingum faraldursins og hún telur að það verði áhugavert að sjá hvaða lærdóma heimurinn muni draga af aðstæðunum. „Ég held nefnilega að við munum geta dregið ákveðna lærdóma af því hvernig til dæmis heilbrigðiskerfið birtist okkur í þessum faraldri. Því er auðvitað haldið að stórum hluta uppi af mjög stórum kvennastéttum sem hafa brugðist við þegar á bjátaði af ótrúlegum sveigjanleika og styrkleika og í raun má segja að heilbrigðiskerfinu hafi verið umbylt til að takast á við þennan faraldur.
Við sáum líka að skólakerfið okkar gerði nánast það sama. Nánast yfir nóttu fóru framhaldsskólar og háskólar yfir í það að kenna í fjarkennslu. sem fram að því hafði verið mjög flókið og erfitt verkefni. Grunn- og leikskólar umbreyttu líka sínum kennsluháttum. Þannig að ég held að við getum mjög margt lært af þessum faraldri, séð hvernig okkar samfélagsstoðir reynast.
Síðan höfum við verið að reyna að bregðast við, kannski með snarpari hætti en við gerðum 2008 og 2009, í síðustu kreppu, því sem við vitum að verða alltaf afleiðingar svona ástandi. Þá er ég að tala um félagsleg vandamál og heilbrigðisvandamál sem eru ekki endilega tengd faraldrinum, heldur eru til dæmis geðheilsutengd. Við erum að reyna að bregðast við með því að koma með innspýtingu núna inn í þá málaflokka.“
Með reynslu af tiltekt eftir efnahagsáfall
Katrín sat í ríkisstjórninni sem tók við völdum snemma árs 2009, eftir bankahrunið. Þá var hún menntamálaráðherra.
Ásamt Svandísi Svavarsdóttur, samflokkskonu sinni, og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, sem var heilbrigðisráðherra þegar hrunið skall á, er hún eini ráðherrann við ríkisstjórnarborðið sem hefur reynslu af því að sitja við stjórn þegar efnahagsáfall ríður yfir, eða þegar þarf að ráðast í fyrstu aðgerðir til að taka til eftir það.
Síðast kom stór hluti batans með aukinni landsframleiðslu sem rekja mátti til ótrúlegs vaxtar í umfangi ferðaþjónustu.
Katrín segist muna vel eftir þeim ríkisstjórnarfundi þar sem ákveðið var að ráðast í markaðsherferðina „Inspired by Iceland“ í kjölfar þess að Eyjafjallajökull gaus og kyrrsetti meira og minna flugumferð í Evrópu.
Þá hafi ríkisstjórnin talið að gosið myndi leggja ferðaþjónustu hérlendis í rúst, en það reyndist svo, eftir á að hyggja, verða stærsta markaðssetning hennar. „Það átti kannski enginn von á því þá að ferðaþjónustan myndi fara í þennan veldisvöxt sem hún fór í. Og kannski að einhverju leyti gefur ástandið núna – af því að það er alltaf tækifæri í öllum stöðum – okkur tækifæri til að ígrunda aðeins hvernig við viljum halda áfram með ferðaþjónustuna. Ég held að hún eigi sér framtíð af því að ég held að Ísland sé staður sem fólk muni vilja heimsækja. Það tengi ég fyrst og fremst við náttúruna, en líka við samfélagið sjálft. Ég held að það sé gaman að koma til Íslands.
En þetta mun taka tíma. Ferðaþjónustan hefur sjálf markað sér stefnu í átt að ákveðinni sjálfbærni þegar kemur að umhverfismálum. Hún vill stefna í átt að sérstöðu og læra af þeim þjóðum sem hafa náð árangri í því, þar sem er meiri stýring á ferðamönnum. það eru ákveðin tækifæri í að fara hraðar í átt að þeirri stefnu.“
Ekki þrýst á stóriðju í dag
Katrín segir það þó ekki vera neitt leyndarmál að hún telji að það þurfi fleiri stoðir undir íslenska efnahagskerfið. Þar finnst forsætisráðherra helst skorta á í þekkingargeiranum. Hér megi bæta í grunnrannsóknir, þróun, nýsköpun og vöxt skapandi greina. Í raun alla geira sem eru ekki auðlindaháðir á sama hátt og ferðaþjónusta, sjávarútvegur og áliðnaður eru, heldur byggja fyrst og fremst á hugviti.
Katrín segir að stjórnvöld séu að senda skýr merki um að þau vilji nýta þá stöðu sem nú er uppi til að styrkja þessar stoðir. Feta þurfi ákveðinn milliveg. Þótt vandinn sem við blasi sé til skemmri tíma þá þurfi ekki einungis að fara í skammtímaaðgerðir. Vissulega sé ráðist í þær líka, til dæmis hefðbundnar fjárfestingar í samgöngumannvirkjum, byggingaframkvæmdum og útvíkkun á endurgreiðslu á virðisaukaskatti til að örva þann geira. En það er líka verið að fjárfesta 500 milljónum króna á þessu ári í matvælaframleiðslu. „Þar eru hugmyndir allt frá aukinni áherslu á lífræna ræktun upp í hátæknivædd gróðurhús. Ég held að sumt af þessu mun skila störfum strax, annað mun þurfa lengri meðgöngutíma. En ég held að það sé mikilvægt að aðgerðir stjórnvalda séu ekki bara til skemmri tíma. Að þar séum við líka að leggja inn í framtíðina.
Þar dreg ég líka lærdóm af árunum 2009 til 2013 þegar við fórum í fjárfestingaráætlun árið 2012, eftir að hafa verið í miklum niðurskurði. Við sáum merki þess í hugverkageiranum tiltölulega hratt sem hefur haft raunveruleg áhrif á vöxt hans á Íslandi.“
Þeirri áætlun var þó kippt úr sambandi að mestu þegar ríkisstjórnarskipti urðu vorið 2013 og ný stjórn, með gjörólíkar áherslur, tók við völdum. Katrín segir að það sem hafi breyst frá þessum tíma sé að almennar hugmyndir um lausnir nú eru allt aðrar. „Á þessum tíma var þrýstingurinn á frekari stóriðju og orkufrekan iðnað. Við sjáum allt aðra umræðu í dag. Og miklu meiri áherslu á það sem ég er að tala um. Þennan hugverkageira.“
Mikilvægasta verkefnið að vinna á atvinnuleysi
Það er margt ólíkt með kreppunni sem fylgdi bankahruninu og þeirri sem við stöndum frammi fyrir í dag. Augljósast er að staða ríkissjóðs, heimila og fyrirtækja er allt önnur og betri til að takast á við samdrátt en hún var fyrir rúmum áratug. Efnahagskerfið er sjálfbærara og sterk staða byggir á raunverulegri verðmætasköpun, ekki lántökum eins og þá sem skilaði landinu í ótrúlega skuldasúpu.
Þá lagðist kreppan þungt á launafólk í gegnum mjög þungt verðbólguskot og tug prósenta gengisfall. Þótt margir hafi misst vinnuna þá rættist nokkuð fljótt úr þeim aðstæðum og innan fárra ára var íslenskt efnahagskerfi farið að búa til mun fleiri störf á ári en vinnumarkaðurinn gat staðið undir. Því þurfti til gríðarlega aukningu á innfluttu vinnuafli til að manna störfin.
Nú blasir hins vegar við gríðarlegt atvinnuleysi, enda fyrirliggjandi að hin mannaflafreka ferðaþjónusta verði í besta falli skugginn af sjálfri sér á þessu ári, og líkast til á hinu næsta líka.
Segja má að verðbólga og gengisfall séu vandamál sem lendi jafn þungt á flesta launþega. Atvinnuleysi leggst hins vegar mun þyngra á þá sem missa vinnuna en hina sem mynda samfélagið og halda tekjum sínum. Ein afleiðing af langvarandi atvinnuleysi getur því mjög auðveldlega orðið aukinn ójöfnuður.
Katrín er meðvituð um þessa stöðu. „Ég held að það sé mjög víðtæk pólitísk samstaða um það, þvert á flokka á þingi, að þetta sé mikilvægasta verkefnið. Það er að tryggja að atvinnuleysi verði ekki viðvarandi. Þess vegna hefur verið viðvarandi stuðningur við þessar bæði skammtíma- og langtíma fjárfestingar sem við erum að ráðast í. Ég held að allir átti sig á því að þetta er stóra verkefnið. Ekki bara til að auka verðmætasköpun á nýjan leik heldur vegna þess að viðvarandi atvinnuleysi getur skapað mikinn ójöfnuð.
Það væri mikil afturför á Íslandi, þar sem við höfum haft mesta tekjujöfnuð í hópi OECD-ríkja, meðal annars vegna þess að verkalýðshreyfingin hefur lagt mikla áherslu á að hækka lægstu laun og náð töluverðum árangri í þeim efnum, ef við förum að horfa upp á slíka stöðu myndast.“
Umhverfis- og loftlagsmál líka hörð efnahagsmál
Katrín telur að Íslendingar eigi að nýta sér aðstæður nú til að hraða breytingum í umhverfis- og loftlagsmálum. Það felist til að mynda mikil tækifæri að beina opinberum fjárfestingum sem ætlað er að auka verðmætasköpun í grænar fjárfestingar. „Við erum auðvitað komin af stað í orkuskipti, og fórum af stað í ár að flýta þeim með viðbótarfjárveitingu til orkuskipta í samgöngum. Það eru mikli fleiri möguleikar. Nýju verkefnin þar eru til dæmis rafvæðing hafna, sem er auðvitað stórmál fram í tímann fyrir Ísland. En við þurfum líka að horfa á aðra orkugjafa, til dæmis í þungaflutningum, sem eru mál sem við erum ekki komin nægjanlega langt með en gætum hugsanlega nýtt tækifærið núna til að auka við rannsóknir og þróun þar, til dæmis er varðar nýtingu vetnis, svo ég nefni eitt dæmi, í þungaflutninga.“
Ríkisstjórnin hefur þegar fundað um aðgerðaráætlun sína í loftlagsmálum og rætt hvort hún sé reiðubúin að halda áfram með þau markmið sem hún var búin að setja sér. „Það er fullur vilji til þess. En hins vegar hef ég áhyggjur af þessum málum á heimsvísu. Þau voru auðvitað í ákveðinni kreppu fyrir, þar sem til að mynda Bandaríkin voru búin að segja sig frá Parísarsamkomulaginu. Það sem maður skynjar eru miklar áhyggjur hjá þeim sem hafa verið að berjast fyrir þessum málum, aðallega grasrótarsamtökum, að COVID verði til þess að þessi mál lendi neðar á forgangslista ríkisstjórna. Þetta er dálítið eins og jafnréttismálin. Fólk óttast að þessi mál fari aftar í röðina af því að nú sé verið að fást við hin hörðu efnahagsmál. Á meðan ég segi að loftlags- og jafnréttismálin eigi líka að vera hörð efnahagsmál.“
Vildi ekki stýra landi án atvinnuleysistryggingakerfis
Það blasir þó við að hallinn á ríkissjóði næstu tvö ár hið minnsta verður gríðarlegur. Sviðsmyndir stjórnvalda nú gera ráð fyrir að hann verði 250 til 300 milljarðar króna bara í ár. Á einhverjum tíma gæti þurft að ráðast í aðgerðir til að aðlaga opinbera reksturinn að þeim veruleika, ef ekki tekst að keyra landsframleiðslu upp hratt.
Katrín minnir aftur á að staðan sé þó allt önnur en á árunum 2008 og 2009, þegar hallinn á rekstri ríkissjóðs hljóp líka á hundruðum milljörðum króna. Í dag sé ekki knýjandi þörf á því að aðlaga ríkisreksturinn að tekjum þjóðarbúsins á tveimur til þremur árum, líkt og var þegar Íslandi hafi verið í gjörgæslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. „Nú erum við í sömu stöðu og allar aðrar þjóðir og ég held að flestar þjóðir séu að horfa á stöðuna þannig að þetta sé áfall sem muni taka tíma að vinna niður. Við erum ekki í einhverju kapphlaupi við að ná niður hallanum á sem skemmstum tíma.
Ég sagði áðan að heilbrigðiskerfið, skólakerfið og félagslega kerfið hefðu sannað mikilvægi sitt. Ég myndi ekki vilja sitja í þeirri stöðu núna að stýra landi þar sem ekki væri atvinnuleysistryggingakerfi, svo dæmi sé tekið. Þannig að ég held að þessi kerfi sýni hversu miklu máli það skiptir að vera með velferðarkerfi þótt við deilum um það á okkar daglega vettvangi hvort það sé nægjanlega gott.“
Hægt að auka sjálfvirkni og fækka sveitarfélögum
Að því sögðu þá telur Katrín samt sem áður að það séu tækifæri til að beita aðhaldi í ríkisrekstri. Þar vísar hún í fjárfestingar sem telja má til fjórðu iðnbyltingarinnar og hafa það markmið að skila bættri þjónustu við borgaranna en að sama skapi minni umsvifum ríkisins á þeim sviðum sem þær ná til. „Þar erum við að horfa á verkefni á borð við Stafrænt Ísland, aukna sjálfvirkni í kerfinu og bæta þessi opinberu kerfi okkar. Það má eiginlega segja að þessi faraldur virki dálítið eins og hraðall inn í það umhverfi.“
Hún er líka þeirrar skoðunar að það eigi að stefna að frekari sameiningu sveitarfélaga, sem eru 70 talsins í dag. „Ég held að um leið og við erum að tala um að við viljum færa frekari verkefni til sveitarfélaganna, og þau hafa auðvitað gríðarlega mikilvægum verkefnum nú þegar að gegna, þá sé það eðlileg þróun að þau verði stærri of öflugri til þess að takast á við þetta.
Þingið hefur talað í sinni stefnumótum um að það vilji stefna að færri sveitarfélögum og sterkari. Það er það sem stendur yfir. Og ég er ekki í nokkrum vafa að þessi staða mun virka hvetjandi í þá átt.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars