Twitter tók stórt skref á þriðjudag, þegar samfélagsmiðlafyrirtækið setti í fyrsta skipti tengil á staðreyndir um póstkosningar fyrir neðan tvö tíst Bandaríkjaforseta, þar sem hann hélt því fram að útilokað væri annað en að póstkosningar myndu leiða til víðtæks kosningasvindls og verið væri að senda kjörseðla í Kaliforníu til allra sem þar búa, líka þeirra sem ekki hefði kosningarétt. Ef notendur fylgdu tenglinum fyrir neðan tíst forsetans fengu þeir upplýsingar frá fjölmiðlum og sérfræðingum um að sú væri reyndar ekki raunin.
Samfélagsmiðillinn hefur lengi verið að vandræðast með hvernig eigi að taka á Trump, sem nýtir Twitter stanslaust daginn út og inn til þess að tjá sig um menn og málefni með óbeisluðum hætti. Oftsinnis hefur hann farið á svig við þær reglur sem allir notendur Twitter þurfa að samþykkja þegar þeir stofna þar aðgang, en samfélagsmiðillinn hefur aldrei eytt tístum forsetans eða hreinlega bannað hann, eins og gert hefur verið við fjölmarga notendur sem fara gegn reglum. En á þriðjudag var Trump staðreyndavaktaður.
Viðbrögð forsetans voru fyrirsjáanleg. Hann sakaði Twitter um að hefta málfrelsi sitt og hótaði að grípa til aðgerða gegn samfélagsmiðlafyrirtækjum, sem hann telur vera að stunda pólitík og reyna að skerða málfrelsi íhaldsmanna. Á fimmtudag kynnti Trump svo að hann vildi breyta lögum sem í dag verja samfélagmiðlana fyrir því að þurfa að taka lagalega ábyrgð á flestu því sem notendur þeirra segja.
Lagabreytingin sem Trump vill gera myndi leiða til þess að samfélagsmiðlarnir þyrftu að velja á milli þess að ritskoða gjörsamlega allt sem inn á þá er sett, sökum þess að þeir yrðu gerðir ábyrgir fyrir ummælum notenda, eða stíga alveg til baka – og leyfa Trump og öllum öðrum að spúa falsheitum og rógburði án þess að aðhafast nokkuð.
Miðnæturfundur hjá Jack og félögum
Það er ekki eitt heldur allt í gangi í Bandaríkjunum þessa dagana. Kórónuveirufaraldurinn geisar enn, yfir 100.000 manns eru látin og efnahagurinn er í gjörsömu uppnámi. Trump hjólar sem aldrei fyrr í Kína og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og kennir þeim um faraldurinn og afleiðingar hans. Miklar óeirðir eru í fjölmörgum borgum landsins vegna lögregluofbeldis gegn svörtum manni í Minneapolis að nafni George Floyd, sem leiddi til dauða hans.
Um þetta allt og fleira ræðir forsetinn á Twitter. Á fimmtudagskvöld setti hann inn færslu þar sem hann ræddi átök á milli lögreglu og mótmælenda í Minneapolis. Trump kallaði þá sem að óeirðunum stóðu „þrjóta“ (e. thugs), sagði að þjóðvarðliðinu yrði beitt og bætti við að þegar gripdeildir myndu hefjast, myndi skothríðin einnig hefjast (e. when the looting starts, the shooting starts).
Þegar tístið fór í loftið var klukkan að nálgast miðnætti í San Fransiskó þar sem Twitter er með höfuðstöðvar sínar. Nær samstundis var kallað til fjarfundar fleiri en tíu starfsmanna fyrirtækisins, þeirra á meðal stofnandans og forstjórans Jack Dorsey, til þess að ákveða hvað skyldi aðhafast.
Eftir að hafa rætt málin sín á milli á samskiptaforritinu Slack og í gegnum Google Docs var ákvörðun tekin um að fela tíst forsetans á bak við viðvörun þess efnis að um væri að ræða efni sem „upphefði ofbeldi“ (e. glorified violence) og bryti því gegn reglum miðilsins. Stjórnendur Twitter ákváðu þó að leyfa tístinu að standa, þar sem það gæti varðað almannahagsmuni.
We have placed a public interest notice on this Tweet from @realdonaldtrump. https://t.co/6RHX56G2zt
— Twitter Comms (@TwitterComms) May 29, 2020
Þessi skref sem Twitter hefur tekið í vikunni eiga sér nokkurn aðdraganda, en árum saman hefur staðið yfir umræða innan fyrirtækisins um hvernig skuli taka á ósönnum staðhæfingum Trumps og annarra stjórnmálamanna.
Samkvæmt umfjöllun New York Times, sem byggist meðal annars á upplýsingum frá ónafngreindum núverandi og fyrrverandi starfsmönnum samfélagsmiðilsins, hóf Twitter vinnu sem miðaði að því að gera fyrirtækinu kleift að bregðast við ósönnum eða óviðeigandi tístum frá Trump og öðrum stjórnmálaleiðtogum, án þess að fjarlægja þau af síðunni, árið 2018.
Ráðist var í að hanna úrræði sem miðillinn gæti gripið til í þessu skyni eftir að Trump hótaði því, eftirminnilega, að gjöreyða Norður-Kóreu með kjarnorkusprengjum og réðst sömuleiðis á Omarosu Manigault Newman, fyrrverandi aðstoðarmann sinn, með meiðandi ummælum eftir að hún gaf út bók um störf sín í Hvíta húsinu.
Þessi úrræði voru kynnt síðasta sumar og þeim hefur áður verið beitt til þess að fela tíst stjórnmálamanna, eða til að setja við þau varúðarstimpil um ósannindi. Í byrjun apríl reyndi brasilískur stjórnmálamaður, Osmar Terra, að sannfæra fylgjendur sína um að kórónuveirutilfellum fjölgaði þegar sóttkvíarráðstöfunum væri beitt. Það tíst er nú falið.
Í vikunni hafa svo fleiri verið staðreyndavaktaðir en einungis Trump. Twitter hefur til dæmis sett tengil fyrir neðan tíst frá Lijian Zhao, talsmanni kínverska utanríkisráðuneytis, þar sem hann heldur því fram að kórónuveiran hafi átt uppruna sinn í Bandaríkjunum. „Fáðu staðreyndirnar um COVID-19“ stendur nú fyrir neðan tístið hans, rétt eins og vísað er á staðreyndir fyrir neðan tíst Trumps um póstkosningar.
Facebook ekki sammála þessari stefnu
Twitter virðist ætla að taka þennan slag áfram, þrátt fyrir hótanir forsetans um að grípa til aðgerða gegn samfélagsmiðlunum. En ekki allir eru hrifnir af þessu og þeirra á meðal er stofnandi Facebook, Mark Zuckerberg. Hann sagði við Fox News á miðvikudag að Twitter, Facebook og önnur einkafyrirtæki ættu ekki að taka sér „úrskurðarvald yfir sannleikanum“ varðandi allt það sem fólk segir á netinu.
Afstaða Facebook til þessara mála var til umræðu á innri vef fyrirtækisins í vikunni. Umræðurnar þar láku út og greinir vefmiðillinn Verge frá því að nokkur órói hafi verið á meðal starfsmanna Facebook um þá ákvörðun fyrirtækisins að láta ummæli Trumps, um að skothríðin hæfist þegar gripdeildirnar byrjuðu, óátalin.
Öfugsnúin glíma sem er rétt að hefjast
Áhugavert verður að fylgjast með þessari glímu tæknifyrirtækjanna og Bandaríkjaforseta á næstunni, því Trump er að reyna að neyða einkafyrirtæki til þess að láta flest allt sem fólk segir á miðlunum standa óátalið.
Þetta er öfugsnúið, því eins og bent er á í fréttaskýringu vefmiðilsins Axios um þetta mál þá óttuðust netfrelsisbaráttumenn það á tíunda áratugnum, þegar verið var að setja núverandi lagaramma um internetið, að stjórnvöld myndu reyna að stýra því sem þar mætti segja og gera.
Engum hefði dottið í hug, á þeim tíma, að sitjandi forseti Bandaríkjanna yrði sá sem myndi veina undan ritskoðun og reyna að hefta frelsi einkafyrirtækja sem starfa á netinu til að fá að framfylgja sínum eigin reglum.