Fyrir nokkrum árum kom út bók um sögu sirkussins í Danmörku. Þar segir að í hugum margra Dana tilheyri sirkus sumarkomunni. Þá fari sirkusfólkið á stjá með sín litskrúðugu tjöld og vagna, þannig hafi það verið svo lengi sem elstu menn muna, og reyndar gott betur.
Fyrsta sirkussýning í Danmörku fór fram í skemmtigarðinum Dyrehavsbakken, skammt fyrir norðan Kaupmannahöfn, árið 1795. Dyrehavsbakken, eða Bakkinn eins og hann er oftast kallaður, á sér mun lengri sögu, eða allt aftur til ársins 1583 og er reyndar elsti skemmtigarður í heimi.
Fyrsti sirkushópurinn kom frá Englandi
Sirkushópurinn sem sló upp tjaldi sínu á Bakkanum árið 1795 kom frá Englandi. Eigandi sirkussins var ensk fjölskylda og stjórnandinn var James Price. Hann settist að í Danmörku og eignaðist marga afkomendur. Í þeim hópi eru bræðurnir James og Adam Price, og hafa árum saman verið með vinsæla sjónvarpsþætti í danska sjónvarpinu, DR, þar sem þeir elda alls kyns rétti, og skemmta sér í leiðinni (Spise med Price). Adam er þekktur handritshöfundur ( m.a Borgen) og James er tónlistarmaður. Hann hefur um árabil samið tónlistina og stjórnað hljómsveit hinnar vinsælu Sirkus-revíu á Bakkanum.
Nutu strax vinsælda
Sýningar Price fjölskyldunnar nutu strax vinsælda meðal Dana, sem flykktust í sirkus. Price fjölskyldan sat ekki lengi ein að þessum skemmtunum og nokkrum árum eftir fyrstu sýningarnar á Bakken 1795 fylgdu fleiri erlendir sirkushópar í kjölfarið, flestir frá Frakklandi og Ítalíu. Árið 1830 reis fyrsta húsið sem sérstaklega var byggt til sirkussýninga. Það hús, sem er löngu horfið, stóð á Norðurbrú og rúmaði 1800 manns. 1886 var Sirkushúsið (Cirkusbygningen) í Kaupmannahöfn tekið í notkun, það rúmaði nokkur þúsund manns.
Sirkushúsið skemmdist mikið í eldi ári 1914 en var endurbyggt í sama stíl og gamla húsið. Margir þekkja þetta hringlaga hús, sem er skammt frá Tívolí og Ráðhústorginu. Þekktustu sirkusflokkarnir sem höfðu aðsetur í Sirkushúsinu voru Cirkus Schumann og Cirkus Benneweis, sem báðir sýndu þar um árabil. Fastar sýningar í húsinu lögðust af árið 1990 og síðasta sirkussýning fór þar fram árið 1998. Húsið, sem er friðað, er nú notað til ýmis konar samkomuhalds.
Ljón, tígrisdýr, sæljón, apar, hundar og fílar
Eins og áður var getið var það breskur flokkur sem kynnti sirkusinn fyrir Dönum, skömmu fyrir aldamótin 1800. Bretinn Philip Astley er talinn upphafsmaður sirkussins í þeirri mynd sem við nútímafólk þekkjum hann. Í sýningum hans, sem hófust 1768 í London, komu hestar mjög við sögu og Philip Astley notfærði sér hið gamla form rómverska hringleikahússins þar sem hestarnir gátu tölt hring eftir hring í stað þess að snúa við. Auk hestanna sáu áhorfendur fimleikafólk, töframenn og trúða leika listir sínar. Þessar skemmtanir fengu nafnið circus, sirkus, dregið af hringforminu.
Skemmtanir af þessu tagi urðu mjög vinsælar og auk hestanna komu brátt fleiri dýrategundir við sögu. Fyrir Evrópubúa var það mikil nýlunda að sjá tígrisdýr, ljón, og fleiri ,,framandi“ dýr leika listir sem þau höfðu verið þjálfuð til að sýna á sviðinu. Fílarnir nutu mikilla vinsælda og mörgum þótti ótrúlegt að sjá þessar stóru skepnur, sem fæstir höfðu áður augum litið, leika ýmsar kúnstir.
Breytt viðhorf
Á árunum eftir 1960 átti sér stað ákveðin viðhorfsbreyting. Þá fóru í auknum mæli að heyrast raddir sem áður höfðu lítið heyrst. Raddir sem gagnrýndu notkun dýra sem rifin höfðu verið úr sínu náttúrulega umhverfi til að skemmta mannfólkinu. Þessar raddir urðu smám saman háværari og hægt og rólega hurfu villtu dýrin úr sirkusunum. Sums staðar bönnuðu stjórnvöld beinlínis notkun dýra í þessum tilgangi, ljón og tígrisdýr voru til dæmis bönnuð í Danmörku á sjöunda áratug síðustu aldar. Viðhorf almennings breyttist sömuleiðis. Eigendur og stjórnendur sirkusflokkanna þráuðust við, sögðu að ef engir væru fílarnir og ljónin kæmu færri í sirkusinn. Kannski var það að einhverju leyti rétt en tímarnir voru líka breyttir. Sirkusgestum fækkaði og margir sirkusflokkar í Evrópu lögðu upp laupana.
Fílabannið
Upp úr síðustu aldamótum hafði fílum í dönskum sirkusum fækkað mjög, eins og reyndar sirkusflokkunum í landinu. Þrýstingur frá dönskum almenningi jókst og atvik sem átti sér stað á Enø á Suður-Sjálandi, árið 2015, þar sem óttaslegnir fílar réðust meðal annars á bíl, vakti mikla athygli og fjöldi fólks mótmælti við sýningartjöld Cirkus Arena, eiganda fílanna. Þremur árum síðar tilkynnti Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Dana að þingið, Folketinget, hefði samþykkt að framvegis yrðu dýr, önnur en hefðbundin húsdýr, bönnuð í sirkusum landsins, „þá getur Júmbó litli sofið vært og rótt, vitandi að hann muni ekki ferðast um landið innilokaður í flutningagámi,“ sagði danski forsætisráðherrann í ræðustól í þinginu. Þegar Lars Løkke Rasmussen mælti þessi orð í þinginu voru samtals fjórir fílar í dönskum sirkusum (enginn þeirra heitir reyndar Júmbó). Lara, Djungla og Jenny voru í eigu Cirkus Arena og Cirkus Trapez átti Ramboline. Allir eru fílarnir um þrítugt.
Hvað með fílana?
Eftir að fílabannið hafði tekið gildi þurfti að ákveða tvennt: Annarsvegar hvað yrði um fílana, sem voru á besta aldri, og ná samningum við eigendur fílanna um bætur. Gengið var út frá því að fílarnir yrðu áfram í Danmörku og niðurstaðan varð að þeir færu, allir fjórir, til Knuthenborg dýragarðsins á Lálandi. Samkvæmt alþjóðareglum sambands dýragarða mega dýragarðar ekki borga fyrir dýr en fílafræðingar urðu sammála um að þær aðstæður sem Knuthenborg byði uppá hentaði fílunum best. Þar fá þeir útisvæði, sem er um 140 þúsund fermetrar að stærð.
Samningar um greiðslur til sirkusflokkanna tveggja tóku langan tíma og það var ekki fyrr en í ágúst á síðasta ári að gengið var frá þeim. Danska ríkið borgaði Cirkus Arena og Cirkus Trapes samtals 11 milljónir danskra króna (220 milljónir íslenskar) fyrir fílana fjóra. Það var hlegið hátt í þingsalnum á Kristjánsborg þegar Mette Frederiksen forsætisráðherra greindi frá samkomulaginu.
Komnir á framtíðarheimilið
Fyrir tæpum mánuði voru fílarnir fjórir fluttir til Knuthenborg. Fyrst eftir að þangað kom voru fílarnir frá Cirkus Arena, Djungla, Lara og Jenny hafðir saman í hólfi í stórri skemmu en Ramboline ein og sér í hólfi í sömu skemmunni. „Þeir gátu talað saman,“ sagði yfirmaður Knuthenborg Safaripark. Meðal starfsfólks dýragarðsins ríkti spenningur þegar opnað var á milli hólfanna en Djungla, Lara og Jenny tóku Ramboline opnum örmum, eins og fílasérfræðingur dýragarðsins komst að orði. Þann 1. júní var fílunum svo hleypt út á stóra svæðið, framtíðarheimilið, og ekki varð annað séð en þeim litist vel á allt þar. Fóru strax að leita að einhverju ætilegu. Eins og áður var nefnt eru þeir allir um þrítugt en fílar verða iðulega að minnsta kosti 60 ára gamlir.
Í lokin má nefna að eftir að gengið hafði verið frá samningum við sirkusflokkana tvo og greiðslur inntar af hendi kom í ljós að Cirkus Arena og dótturfélög þess skulduðu danska ríkinu um það bil 20 milljónir danskra króna (400 milljónir íslenskar) í skatta og gjöld. Þetta vissu þingmenn ekki þegar samið var um greiðslurnar til sirkusflokkanna.