Í árshlutareikningum stóru viðskiptabankanna þriggja; Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans kemur fram að bankaskattur á fyrri hluta þessa árs nemi alls 2,3 milljörðum króna, samanborið við rúma 5,7 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Greiðslur bankanna vegna bankaskatts lækka því um 3,4 milljarða króna milli tímabila eða um 60 prósent. Bankarnir þrír birtu allir árshlutauppgjör sín í vikunni.
Bankaskattur er sérstakur skattur sem lagður er á heildarskuldir fjármálafyrirtækja. Í fyrra var frumvarp um lækkun bankaskatts samþykkt. Skatturinn var þá 0,376 prósent og átti að lækka niður í 0,145 prósent í þremur áföngum á árunum 2021 til 2024. Í kjölfar kórónuveirufaraldursins var lækkuninni flýtt og gjaldhlutfallið er því komið niður í 0,145 prósent vegna skulda í árslok 2020. Breytinguna má glöggt sjá í árshlutareikningum bankanna.
Hlutfall bankaskatts af rekstrarkostnaði lægst hjá Arion
Arion banki var sá eini af stóru viðskiptabönkunum þremur sem skilaði hagnaði á fyrri helmingi ársins en uppgjör bankans var birt síðastliðinn miðvikudag. Hagnaður bankans á fyrri hluta ársins nam rúmlega 2,7 milljörðum króna samanborið við rúmlega 3,1 milljarð á sama tímabili í fyrra. Á fyrri hluta þessa árs leggjast 655 milljónir á bankann í formi bankaskatts samanborið við rúmlega 1,8 milljarð í fyrra.
Í árshlutareikningi bankans er bankaskatturinn ekki flokkaður sérstaklega með rekstrarkostnaði líkt og gert er hjá hinum bönkunum. Inni í þeim flokki er launakostnaður og annar rekstrarkostnaður, sem er til að mynda húsnæðiskostnaður, afskriftir, kostnaður vegna tölvukerfa, kostnaður vegna aðkeyptrar þjónustu og framlag í tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta.
Rekstrarkostnaður á fyrri helmingi ársins nam 12,6 milljörðum króna samanborið við tæpa 13,5 milljarða í fyrra og hefur hann því lækkað um tæpan milljarð. Ef bankaskatturinn er lagður saman við rekstrarkostnaðinn og hlutfall bankaskattsins af heildinni skoðað, þá sést að hlutfall bankaskattsins af kostnaði á fyrri helmingi ársins var 4,9 prósent. Í fyrra nam þetta sama hlutfall tæpum 11,9 prósentum.
Helmingur af lækkun rekstrarkostnaðar tilkominn vegna lækkunar bankaskatts
Íslandsbanki birti uppgjör sitt líka á miðvikudag. Afkoma bankans var neikvæð um sem nemur 131 milljón króna á fyrri helmingi ársins, samanborið við 4,7 milljarða hagnaði á sama tímabili í fyrra. Á fyrri helmingi ársins nemur reiknaður bankaskattur 758 milljónum króna samanborið rúman 1,8 milljarð á sama tíma í fyrra.
Í árshlutareikningi er bankaskatturinn flokkaður undir rekstrargjöld ásamt launakostnaði, framlagi í tryggingasjóð innistæðueigenda og fjárfesta og öðrum rekstrarkostnaði. Heildarrekstrarkostnaður á fyrri hluta ársins nam rétt tæpum 12,8 milljörðum í ár samanborið við tæpa 14,8 milljarða á sama tíma í fyrra. Rekstrarkostnaður bankans lækkar um tæpa tvo milljarða, inni í þeim tölum er bankaskattslækkunin sem nemur tæplega 1,1 milljarði. Hlutfall bankaskattsins í heildarrekstrarkostnaði bankans fer úr 12,3 prósentum í fyrra niður í 5,9 prósent í ár.
Lækkun rekstrarkostnaðar öll vegna lækkunar bankaskatts hjá Landsbanka
Landsbankinn birti uppgjör sitt á fimmtudag. Bankinn tapaði 3,3 milljörðum á fyrri hluta þessa árs samanborið við 11,1 milljarðs hagnað á sama tíma í fyrra. Bankaskattur fyrir fyrri helming ársins nemur 875 milljónum samanborið við tæpan 2,1 milljarð í fyrra.
Í tilkynningu frá bankanum til kauphallar vegna uppgjörsins er sérstaklega tekið fram að rekstrarkostnaður bankans hafi lækkað. Í tilkynningunni segir: „Rekstrarkostnaður bankans lækkaði um 1,1 milljarð króna á milli tímabila og nam 13,2 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins 2020, samanborið við 14,3 milljarða króna á sama tímabili árið áður, sem er lækkun um 8%. Þar af var launakostnaður 7,6 milljarðar króna samanborið við 7,4 milljarða króna árið áður. Annar rekstrarkostnaður var 4,6 milljarðar króna samanborið við 4,9 milljarða króna á sama tímabili árið áður.“
Lækkun rekstrarkostnaðar bankans á tímabilinu er því öll tilkomin vegna lækkunar bankaskattsins. Laun og launatengd gjöld hækkuðu milli ára um 277 milljónir en annar rekstrarkostnaður lækkaði um 226 milljónir milli ára. Þannig rekstrarkostnaður, annar en bankaskattur hækkaði um 51 milljón milli ára. Bankaskatturinn lækkaði um 1,2 milljarða en rekstrarkostnaður í heild lækkaði um rúman 1,1 milljarð. Hlutfall bankaskattsins af heildarrekstrarkostnaði bankans á fyrri hluta ársins var 6,6 prósent en á sama tímabili í fyrra var hlutfall hans af heildarrekstrarkostnaði 15 prósent.
Lækkun bankaskatts hefur leitt til vaxtalækkana
Húsnæðisvextir hafa lækkað mikið upp á síðkastið, sérstaklega vegna stýrivaxtalækkunar Seðlabankans. En bankaskattur hefur einnig haft áhrif til lækkunar vaxta. Í lok mars reið Arion banki á vaðið og tilkynnti um vaxtalækkun í kjölfar lækkunar bankaskatts. Í tilkynningu frá bankanum kom fram að áform stjórnvalda um að lækka bankaskatt hafi skapað svigrúm til breytinga á vöxtum. Landsbankinn tilkynnti svo um vaxtalækkun vegna lækkunar bankaskatts í fyrri hluta apríl.
Vegna stýrivaxtalækkunar hafa vextir allra bankanna þriggja lækkað síðan þá. Vaxtakjör bankanna urðu nýlega hagstæðari heldur en vaxtakjör lífeyrissjóða í fyrsta sinn í mörg ár. Mest er ásóknin í óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum þessa dagana og bjóða bankarnir þrír upp á mjög svipuð vaxtakjör á þeim lánum. Hjá Íslandsbanka og Landsbanka eru vextir á slíkum lánum 3,50 prósent en hjá Arion Banka eru vextirnir 3,54 prósent. Hægt er að bera saman lánskjör bankanna hjá Aurbjörgu.