Klukkan var rétt að verða hálf tíu (að norskum tíma) að morgni 12. ágúst árið 2000 þegar mælarnir í NORSAR rannsóknastöðinni í Kjeller, norðvestan við Ósló tóku kipp. Á meðan starfsfólkið, tveimur mínútum síðar, var að rýna í tölurnar, hrukku nálarnar við og nú mun kröftuglegar en í fyrra skiptið. Nú sýndi mælirinn 4,5 á Richter, en fyrri kippurinn var 1,5 á Richter. Upptökin virtust vera í Barentshafi, skammt frá Murmansk. Þótt aldrei sé hægt að fullyrða um slíkt þótti starfsfólkinu í NORSAR ólíklegt að um jarðskjálfta væri að ræða enda kom síðar í ljós að kippirnir á mælunum áttu sér aðra skýringu.
Æfingin Sumar-X
Í ágústmánuði árið 2000 fóru fram miklar heræfingar rússneska flotans. Þetta voru umfangsmestu æfingar flotans í meira en áratug og reyndar fyrstu stóru heræfingar sjóhersins eftir fall Sovétríkjanna. 30 herskip og þrír kafbátar tóku þátt í æfingunum, sem fóru fram á Barentshafi. Einn þeirra þriggja kafbáta sem þarna voru við æfingar var Kursk, krúnudjásn kafbátadeildar rússneska flotans.
Kursk
Kursk, sem var knúinn kjarnorku og bar kjarnavopn, var tekinn í notkun árið 1994. Hann var 154 metra langur (álíka og tvær Boeing jumbo þotur), 18,2 metrar á breidd og hæðin var 9 metrar. Fullyrt hafði verið að Kursk gæti ekki sokkið (frekar en Titanic!). Ytra byrði bátsins var úr 8 sentimetra þykku sérstaklega hertu stáli og í innra byrðinu (hylkinu) var 5 sentimetra þykkt stál. Innra hylkinu var skipt upp í níu aðskilin hólf, það átti að tryggja að þótt gat, eða leki, kæmi að einu hólfi færi sjór ekki um allan bát. Kursk var búinn fullkomnustu vopnum rússneska flotans og fullhlaðinn vó hann 16.400 tonn. Til samanburðar má nefna að fullhlaðin Boeing Jumbo þota vegur í mesta lagi 440 tonn.
Í áhöfn Kursk voru 118 menn. Áhöfnin hafði skömmu fyrir slysið hlotið viðurkenningu sem sú hæfasta í Norðurdeild rússneska flotans.
12. ágúst
Skömmu fyrir klukkan níu (að norskum tíma) óskaði kafteinninn á Kursk eftir heimild til að skjóta æfingatundurskeyti að herskipinu Pétri Mikla sem var eitt þeirra skipa sem tóku þátt í æfingunni. Heimildin var veitt og áhöfn Kursk hóf undirbúning. Tundurskeyti af þessari tilteknu gerð kölluðu Rússar Tolstushka (þá digru) vegna stærðarinnar. Nokkuð dróst að senda þá digru af stað og það var ekki fyrr en hálftíma síðar að tilkynnt var að nú yrði tundurskeytið sent.
Tundurskeytið fór ekki af stað en það var á þessu augnabliki sem skjálftamælarnir í Noregi kipptust við og sýndu 1,5 á Richter. Rúmum tveimur mínútum síðar tóku skjálftamælarnir annan og stærri kipp og sýndu 4,5 á Richter. Margfalt sterkari en sá fyrri.
Ljóst var að óróinn á skjálftamælunum tengdist kafbátnum Kursk, staðarákvörðun hans passaði nákvæmlega við þann stað sem norsku mælarnir sýndu að „skjálftinn“ átti upptök sín. Þar hafði eitthvað gerst en enginn vissi nákvæmlega hvað. Einhverskonar sprenging og að líkindum mjög öflug.
Ringulreið og ráðaleysi
Mikil ringulreið greip um sig meðal yfirmanna rússneska flotans. Það sem þeir vissu var að kafbáturinn Kursk lá á Botni Barentshafsins, á 109 metra dýpi, um borð var 118 manna áhöfn. Enginn vissi á þessari stundu um afdrif hennar, og yfirstjórn flotans vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Bretar og Norðmenn buðu strax fram aðstoð, sem Rússar afþökkuðu í fyrstu. Vladimir Putin, sem hafði tekið við forsetaembættinu nokkrum mánuðum fyrr (1.1. 2000) var í sumarfríi í borginni Sochi við Svarta hafið. Hann var síðar gagnrýndur fyrir að bregðast bæði seint og illa við. Pútín hafði ekki áttað sig á því að víða um heim var fólk að fylgjast með og ekki þýddi að upplýsa um hlutina, með eigin skýringum, seint og síðar meir.
Hvað gerðist?
Yfirstjórn rússneska flotans Vladimir Kurojedov greindi frá því síðdegis 12. ágúst að mikil sprenging hefði orðið um borð í Kursk og fullvíst mætti telja að áhöfnin hefði öll farist. Yfirstjórn flotans kom með ýmsar tilgátur um orsakir sprengingarinnar. Ein var sú að Kursk hefði rekist á gamalt tundurdufl, önnur var sú að kafbáturinn hefði lent í árekstri við kafbát frá NATO ríki. Fleiri möguleika á orsökum slyssins nefndu yfirmenn flotans. Sérstök rannsóknarnefnd, sem skipuð var vegna slyssins komst síðar að þeirri niðurstöðu að mjög eldfimt efni hefði lekið úr tundurskeytinu þegar verið var að flytja það til áður en því skyldi skotið, og eldur orðið laus. Síðan hefði eitt leitt af öðru. Einn nefndarmanna skilaði séráliti. Hann taldi kunnáttu- og æfingarleysi áhafnarinnar, ásamt röngum leiðbeiningum, um að kenna. Í flakinu fannst hálfbrunninn leiðbeiningabæklingur um meðferð tundurskeyta og undirbúning vegna notkunar þeirra. Sá bæklingur var hins vegar um aðra gerð tundurskeyta. Enn fremur benti þessi nefndarmaður, Valery Ryazantsev, á að vegna fjárskorts hefði áhöfn Kursk fengið afar takmarkaða þjálfun, það gilti reyndar um flesta innan flotans.
Áhöfnin
Eins og áður var getið greindi yfirmaður flotans frá því að fullvíst mætti telja að öll áhöfn Kursk, 118 menn, hefði látist í sprengingunni. Síðar kom í ljós að það reyndist ekki rétt. Við sprenginguna tættist fremsti hluti kafbátsins í sundur en í lokuðu rými í skut bátsins voru 23 menn, þeir lifðu allir af sprenginguna. Þeir vonuðu, í fyrstu, að þeim yrði bjargað en sú von dofnaði smám saman og þeim varð ljóst að þeir myndu ekki lifa af. Í fórum sumra fundust bréf þar sem þeir lýsa því hvernig dauðinn nálgast og þeir kveðja sína nánustu. 21. ágúst komust kafarar úr norska flotanum að flaki Kursk og komust að því að enginn úr áhöfninni var þá á lífi. Það var hins vegar ekki ljóst fyrr en 25. október, tveimur og hálfum mánuði eftir slysið, þegar rússneskir kafarar fóru inn í flakið að ljóst var að 23 menn höfðu lifað af og síðar látist vegna skorts á súrefni.
Hefði verið hægt að bjarga þeim sem lifðu sprenginguna af ?
Þessi spurning brann á margra vörum eftir slysið og ljóst varð að 23 úr áhöfninni höfðu lifað af sprenginguna. Yfirstjórn rússneska flotans hefur aldrei svarað þessari spurningu. Það hafa hins vegar ýmsir aðrir gert og til dæmis lýstu breskir sérfræðingar því yfir að breski flotinn hefði á þessum tíma ráðið yfir búnaði sem gerði kleift að komast niður að bátnum og bjarga mönnunum. Búnaður og kafarar hefðu verið komnir á staðinn innan sólarhrings, jafnvel fyrr, ef leyfi hefði fengist.
Eins og áður var nefnt afþökkuðu Rússar alla utanaðkomandi aðstoð fyrstu dagana eftir slysið.
Af hverju, hafa margir spurt. Breskur hernaðarsérfræðingur sem breskt dagblað ræddi við fyrir skömmu sagði að hann teldi einkum þrjár ástæður fyrir þessari ákvörðun Rússa. Í fyrsta lagi hefðu Rússar þá viðurkennt að þeir gætu ekki á eigin spýtur leyst þetta flókna verkefni, í öðru lagi ótti við að „óvinaþjóðir“ kæmust að einhverjum hernaðarupplýsingum, eins og það var orðað, og í þriðja lagi hefði Pútín verið óreyndur sem leiðtogi, og ekki almennilega áttað sig á alvöru málsins. Hann hafi ekki vitað hvað gera skyldi og yfirmenn flotans ekki þorað að taka af skarið. „Hann myndi bregðast öðruvísi við í dag“ sagði breski hernaðarsérfræðingurinn.
Eftirmál
Fjölmargir fréttamenn hafa undanfarið lagt leið sína til Murmansk, þar sem rússneski flotinn hefur höfuðstöðvar sínar og flestir í áhöfn Kursk bjuggu. Þótt liðin séu 20 ár frá slysinu hafa borgarbúar ekki gleymt því sem gerðist og telja sig aldrei hafa fengið fullnægjandi skýringar frá rússneskum stjórnvöldum. Af hverju var ekki brugðist strax við, af hverju var boði Breta og Norðmanna hafnað og af hverju laug yfirstjórn flotans að okkur. Þessar spurningar, og fleiri, brenna enn á vörum íbúa Murmansk. Einn viðmælandi danska ríkisútvarpsins, DR, sagði „við höfum ekki fengið, og fáum örugglega aldrei, svör við spurningum okkar“.
Putin hélt að hann gæti þagað
Eins og áður var Vladimir Putin forseti í sumarleyfi við Svarta hafið þegar Kursk fórst. 18. ágúst, sex dögum eftir slysið kom hann til baka til Moskvu úr fríinu. Hann tjáði sig lítt við fjölmiðla, kom að vísu með yfirlýsingu um að flotinn hefði gert allt sem hægt var til að bjarga áhöfn Kursk, það var allt og sumt. 22. ágúst, tíu dögum eftir slysið, kom hann til Murmansk og hitti ættingja áhafnarinnar á Kursk. Þar lofaði forsetinn bótum til ættingja hinna látnu. Einungis rússneska ríkisútvarps- og sjónvarpsstöðin RTR fékk að fylgjast með fundi forsetans og ættingjanna. Á fundinum gagnrýndi Putin fjölmiðla sem hann sagði hafa flutt rangar og misvísandi fréttir af slysinu. Eigendur þessara miðla væru spilltir lygarar sem ynnu gegn hernum og ríkinu. Í viðtali við danska útvarpið, DR, sagði Jelena Milasjina, blaðamaður á Novaja Gazeta (óháður miðill) að Putin hafi áttað sig á því að til að geta stjórnað að vild, yrði hann að geta ráðið yfir miðlunum og hvað þeir segðu. „Á undanförnum árum hefur mjög verið þrengt að tjáningarfrelsi fjölmiðla, það gagnast forsetanum.“
Það má bæta því hér við að Putin kom í viðtal hjá Larry King á bandarísku sjónvarpsstöðinni CNN tæpum mánuði eftir slysið. Larry King spurði hvað hefði komið fyrir Kursk svaraði rússneski forsetinn með tveimur orðum „hann sökk“.