Nýja-Sjáland hefur verið lofað á heimsvísu fyrir að hafa náð að útrýma COVID-19 smitum með hörðum sóttvarnaraðgerðum, en ekkert innanlandssmit greindist í landinu í 102 daga í sumar. Andstæðingar hafa þó varað við lamandi áhrif slíkra aðgerða á efnahagslífið, en nýlegar hagtölur þar í landi sýna ekki fram á verri samdrátt heldur en í öðrum sambærilegum löndum.
Í eigin búbblu
Þann 19. mars síðastliðinn lokaði ríkisstjórn Nýja-Sjálands landinu fyrir öllum farþegum sem áttu ekki lögheimili þar til að sporna gegn útbreiðslu kórónuveirunnar. Nokkrum dögum seinna lýsti Jacinda Ardern, forsætisráðherra landsins, yfir allsherjarútgöngubanni og sagði öllum íbúum að halda sig heima í eigin „búbblu“.
Ardern sagði á sínum tíma að sóttvarnaraðgerðir ríkisstjórnarinnar væru þær ströngustu í öllum heiminum en að hún myndi ekki afsaka þær með neinum hætti. Þær virðast einnig hafa borið árangur, en ekki greindist eitt innanlandssmit í landinu í 102 daga í sumar. Einnig er heildarfjöldi staðfestra smita af COVID-19 í landinu, sem hefur tæplega 5 milljón íbúa, innan við tvö þúsund, auk þess sem einungis 22 hafa látist þar af völdum veirunnar.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur lofsamað skjótar aðgerðir Nýja-Sjálands og sagt þær vera fyrirmynd annarra þjóða í því hvernig eigi að bregðast við útbreiðslu faraldursins. Ríkisstjórn landsins virðist einnig hafa ákveðið að halda í þær aðgerðir þegar smitum fór að fjölga aftur í landinu, en útgöngubanni var lýst yfir í borginni Auckland eftir að hópsýking greindist þar fyrir þremur vikum síðan.
Umdeildar aðgerðir
Harka ríkisstjórnarinnar í sóttvarnaraðgerðum eru ekki óumdeildar, en stjórnarandstöðuþingmenn hafa gagnrýnt þær fyrir að lama efnahagslíf landsins óþarflega mikið.
Paul Goldsmith, þingmaður nýsjálenska þjóðarflokksins, sagði fyrr í sumar að hagspár bentu til þess að efnahagssamdrátturinn í landinu yrði yfir meðallagi OECD-ríkja, þrátt fyrir að Nýja-Sjáland hefði verið betur statt en mörg önnur lönd til að bregðast við útbreiðslu veirunnar.
Minna atvinnuleysi en á Íslandi
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra, setti hins vegar fram tillögur á ríkisstjórnarfundi í síðustu viku þar sem mælt var með því að taka mið af heildstæðri efnahagsgreiningu á afleiðingum sóttvarnaraðgerða á Nýja-Sjálandi.
Í samanburði við Ísland kemur efnahagsárangur Nýja-Sjálands nokkuð vel út. Um 4,1 prósent af vinnumarkaði landsins þáðu atvinnuleysistengdar bætur þar í landi í júní síðastliðnum, samkvæmt nýrri skýrslu frá nýsjálenska félagsmálaráðuneytinu.
Nýjar tölur benda þó til þess að hlutfallið hafi nær tvöfaldast í ágúst, en búist er við því að það nái hámarki í um 8,1 prósent í vetur. Til samanburðar spáir Seðlabanki Íslands því að atvinnuleysi hér á landi muni ná hámarki í u.þ.b. tíu prósentum í vetur.
Aðstæður á vinnumarkaði hafa verið betri en búist var við á Nýja-Sjálandi á síðustu mánuðum. Í vor spáði hugveita á vegum ríkisstjórnar landsins því að atvinnuleysi þar gæti náð allt að 26 prósentum ef útgöngubönn vörðu í nægilega langan tíma og ekkert væri að gert.
Hins vegar náði atvinnuleysi einungis fjórum prósentum á öðrum ársfjórðungi, ef tekið er tillit til árstíðarbreytinga á vinnumarkaðnum.
Þungt högg í einkaneyslu
Þrátt fyrir minna högg á vinnumarkaði virðist þó kreppa vera óumflýjanleg á Nýja-Sjálandi, rétt eins og í öðrum OECD-ríkjum. Líklegt er að einkaneysla hafi Nýsjálendinga beðið þungt högg á öðrum ársfjórðungi, en smásala dróst þar saman um 14 prósent á tímabilinu. Einnig benda nýjar tölur til þess að mikill samdráttur hafi orðið á kortaveltu í landinu á síðustu vikum eftir að sóttvarnaraðgerðir voru hertar þar fyrir u.þ.b. mánuði síðan.
Mest hefur dregið úr efnahagsumsvifum í Auckland, þar sem útgöngubann var í gildi síðustu þrjár vikurnar, en þar hefur kortaneysla dregist saman um 40%.
Til viðbótar við minni einkaneyslu féll miðgildi heimilistekna um 7,6 prósent á öðrum ársfjórðungi, en þetta er í fyrsta skiptið sem slíkt hefur gerst síðan mælingar hófust þar í landi árið 1998.
Hins vegar virðist landið njóta góðs af hagstæðari vöruskiptajöfnuði en áður, þar sem útflutningur á vöru hefur ekki dregist saman að neinu ráði á meðan innflutningur hefur minnkað verulega.
Á svipuðu reiki og aðrir
Í hagspá OECD, sem kom út fyrr í sumar, var talið að samdrátturinn á Nýja-Sjálandi myndi nema um 9-10 prósentum af landsframleiðslu.
Þessi samdráttur er nokkuð meiri en í Bandaríkjunum, þar sem gert var ráð fyrir að landsframleiðsla muni dragast saman um 7,5-8,5 prósent, en minni en í Evrópusambandinu, þar sem spáð var 9-11 prósenta samdrætti á árinu.
Þá taldi OECD að landsframleiðsla Íslands myndi dragast saman um 10-11 prósent í ár, en Seðlabankinn gerir ráð fyrir 7,1 prósenta samdrætti í landsframleiðslu í nýjasta hefti Peningamála. Hagspár fyrir Nýja-Sjáland eru því á svipuðu reiki og í öðrum löndum.