Hver er staðan á Sundabraut?
Sundabraut hefur verið mikið í umræðunni síðustu vikur, eins og svo oft áður. Ýmsir hópar hafa rýnt í þessa framkvæmd áratugum saman, en hún virðist enn á byrjunarreit. Tillaga enn eins starfshópsins um framtíðarlausn er væntanleg fyrir októberlok.
Sundabraut er ofarlega í huga margra, eins og kom berlega í ljós á opnum nefndarfundi á Alþingi í lok ágústmánaðar þegar Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði frá því að honum þætti bæði „alveg stórundarlegt og ámælisvert“ að ekki væri búið að ráðast í þessa framkvæmd, sem hefur verið á teikniborðinu áratugum saman.
En hvar er Sundabrautin stödd? Kjarninn fór á stúfana og komst að því að tillaga að framtíðarlausn á nú að liggja fyrir 31. október, en þá á starfshópur að vera búinn að meta hvort fýsilegra sé að Sundabraut fari um jarðgöng frá Laugarnesi yfir í Gufunes eða um lágbrú sem þveri hafnarsvæði Sundahafnar við Kleppsvík.
Hópurinn, sem Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra samgöngumála skipaði í vor, átti að skila af sér ágúst, en fékk frest út októbermánuð til þess ljúka störfum. Vinna starfshópsins er í fullum gangi, að sögn G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar.
Vegagerðin leiðir hópinn, en í honum eru líka fulltrúar frá Reykjavíkurborg, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Faxaflóahöfnum. Þeir tveir möguleikar sem hópurinn er núna að velja á milli voru þeir tveir sem fýsilegastir þóttu í mati annars starfshóps, sem skilaði af sér skýrslu í fyrra.
Taka þarf ákvörðun um hvernig eigi að tengjast á milli Sæbrautar og Gufuness áður en hægt verður að taka ákvörðun um hvernig Sundabraut á að liggja alla leið að Vesturlandsvegi í Kollafirði.
Lágbrú sem skerðir hafnarsvæðið eða löng og dýr jarðgöng úr Laugarnesinu
Starfshópurinn sem skoðaði málið og skilaði skýrslu í fyrra lagði til að unnið yrði að frekari undirbúningi Sundabrautar í jarðgöngum. Hópurinn sagði reyndar að jarðgöng væru eini raunhæfi möguleikinn fyrir útfærslu Sundabrautar, miðað við gildandi skipulag, stefnu stjórnvalda (m.a. hvað loftslagsmarkmið varðar) og framtíðaráform Faxaflóahafna og skipafélaganna um hafnarsvæðið.
Jarðgöng eru hins vegar dýr og þau þyrftu að vera mjög löng, þar sem ekki er talið óhætt að gera göng undir sjó nema 30 metra berglag sé fyrir ofan þau. Munnar ganganna þyrftu því að vera í Laugarnesi og nokkuð frá sjávarmáli í Gufunesi. Einnig er talið að jarðgöng myndu laða að sér minni umferð en brú þvert yfir Kleppsvíkina.
Þessi starfshópur skoðaði einnig valkosti sem væru til staðar varðandi þverun Kleppsvíkur og sagði einungis lágbrú koma til greina þar, en bæði botngöng og hábrú voru slegin út af borðinu af hópnum. Fram kom í skýrslu starfshópsins að lágbrú, sem mögulega gæti legið frá enda Holtavegar og yfir í Gufunes, væri ódýrasta lausnin auk þess sem hún væri sennilega sú besta fyrir aðra samgöngumáta.
En á móti kemur að sú framkvæmd myndi kalla á að framtíðarhugmyndir um skipulag hafnarstarfsemi við Sundahöfn yrðu teknar til gagngerrar endurskoðunar, sem hefði í för með sér minnkað umfang, samnýtingu flutningafélaga á uppskipunaraðstöðu og hugsanlegan flutning hluta starfseminnar á önnur hafnarsvæði. Tekið var fram að engar greiningar væru til um heildarkostnað slíkra aðgerða né þjóðhagsleg eða umhverfisleg áhrif.
Samgönguráðherra hefur sagt að honum hugnist lágbrúarleiðin betur, en starfshópur er sem áður segir að skoða kostina og gallana við hvora um sig þessa dagana. En hvað er þessi hópur að skoða?
Verkefni starfshópsins sem nú er að störfum er einkum tvíþætt, samkvæmt því sem fram kom í frétt á vef stjórnarráðsins þegar hann var skipaður í vor.
Í fyrsta lagi á að endurmeta hönnun og legu og gera nýtt kostnaðarmat fyrir bæði jarðgöngin og lágbrúna. Leggja skal fram ný frumdrög fyrir báðar framkvæmdir og taka mið af uppbyggingaráformum sem eru í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.
Í annan stað á að greina þá valkosti sem yrðu fyrir hendi varðandi breytt skipulag Sundahafnar, ef lágbrú yrði fyrir valinu. Í þeirri vinnu þarf að vinna mat á áhrifum á umferð, umhverfisþætt, nærumhverfi, atvinnustarfsemi og þróunarmöguleika Sundahafnar.
Að þessu loknu ætti að vera komin niðurstaða í það, hvor leiðin sé fýsilegri.
Sundabraut er ekki í framkvæmdahluta samgöngusáttmálans
Oft er rætt um Sundabrautina í samhengi við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og stundum virðist sá misskilningur vera uppi í umræðu um málið að framkvæmd Sundabrautar sjálfrar sé hluti af framkvæmdaáætlun samgöngusáttmálans á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins.
Svo er hins vegar ekki, en í sáttmálanum er þó kveðið á um að við endanlega útfærslu framkvæmda verði „sérstaklega hugað að greiðri tengingu aðliggjandi stofnbrauta svo sem Sundabrautar inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins.“
Hvað þetta þýðir nákvæmlega er ansi loðið og virðist vera túlkað með mismunandi hætti af stjórnmálamönnum sem hafa ólíka sýn á framtíð samgangna.
Það kom fremur berlega í ljós í viðtali við þau Jón Gunnarsson þingmann Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi samgönguráðherra og Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur borgarfulltrúa Pírata og formann skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur á Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudaginn.
En hvað sem pólitíkinni líður fæst allavega brátt svar við því hvor kosturinn – jarðgöng eða lágbrú – sé fýsilegri. Þá væntanlega skýrist um leið hvar borgaryfirvöld þurfa sérstaklega að huga að greiðum tengingum Sundabrautar, í Laugarnesinu eða sunnar á Sæbrautinni.
Lestu meira
-
5. janúar 2023Vindorkan áskorun fyrir stjórnkerfi skipulags- og orkumála
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
28. desember 2022Borgarlínan „lykilþáttur“ í samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins
-
27. desember 2022Áttar sig illa á andstöðu hægrimanna við veggjöld
-
1. desember 2022Hugmyndir um kláf upp á Esjuna verða teknar til skoðunar á ný
-
23. nóvember 2022Hátt í 80 íbúðir í nýju fjölbýli á Ármannsreit
-
19. nóvember 2022Þétting byggðar getur aukið losun gróðurhúsalofttegunda
-
9. nóvember 2022Vegagerðin líti ásakanir um óheiðarleg vinnubrögð starfsmanna alvarlegum augum
-
8. nóvember 2022Hafa beðið í rúman áratug eftir að eignast eigið heimili
-
4. nóvember 2022Sameiginleg bílastæðahús fremur en bílakjallarar í Keldnalandinu