Forseti ASÍ fékk umboð til að undirrita tvenns konar yfirlýsingar
Eftir umræður á aukafundi miðstjórnar ASÍ í gærmorgun var ákveðið að leggja til atkvæða yfirlýsingu um samkomulag við Icelandair sem myndi binda enda deilur sambandsins við fyrirtækið. Yfirlýsingin var með lítillega breyttu orðalagi frá þeirri sem upphaflega var lögð fyrir fundinn en forseta var einnig gefinn slaki „til að undirrita yfirlýsinguna samkvæmt því sem var birt upphaflega“.
Í gærmorgun, nánar tiltekið klukkan 8 að morgni, hófst aukafundur miðstjórnar Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Fundurinn hafði verið boðaður með skömmum fyrirfara og fór fram í gegnum fjarfundabúnað. Fundurinn stóð yfir í klukkutíma og 21 mínútu.
Tilefni fundarins var að Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, hafði haft samband og óskað eftir fundi með Drífu Snædal, forseta ASÍ, og Berglindi Hafsteinsdóttur, formanni Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ). Samkvæmt fundargerð aukafundarins, sem Kjarninn hefur undir höndum, hafði verið ljóst af þeim fundi að Icelandair vildi síður ganga í gegnum hlutafjárútboð sitt, sem hófst klukkutíma eftir aukafund ASÍ, nema að „sátt ríkti um stöðu félagsins á vinnumarkaði“.
Sú sátt sem þyrfti að nást snýst um ákvörðun Icelandair að segja upp flugfreyjum og -þjónum félagsins 17. júlí síðastliðinn, í miðri kjaradeilu. Auk þess gaf Icelandair það út í kjölfarið að það hygðist semja við annað stéttarfélag en FFÍ. ASÍ hafði sagt að bæði Icelandair og Samtök atvinnulífsins (SA), sem studdu ákvörðun Icelandair, yrði stefnt fyrir Félagsdóm vegna málsins.
Í grein sem birtist í Morgunblaðinu á þriðjudag kallaði Drífa uppsagnir flugþjóna og -freyja eina „grófustu aðför að réttindum vinnandi fólks hér á landi á síðari tímum, aðför sem er þegar skráð á spjöld sögunnar“.
Þurftu að gangast við því að hafa brotið leikreglur
Forseti ASÍ gerði þær skýru kröfur í samtalinu við forstjóra Icelandair að bæði félagið og SA þyrftu að hafa gengist við því að hafa brotið leikreglur á vinnumarkaði. Úr varð að sett voru saman drög að sameiginlegri yfirlýsingu. Kjarninn greindi frá innihaldi hennar í gærmorgun.
Í yfirlýsingunni sem lögð var fyrir fundinn sagði að aðilar væru sammála um að lögmæt og rétt viðbrögð atvinnurekenda og stéttarfélaga í erfiðum og langdregnum kjaradeilum ættu að fara eftir þeim leikreglum og lögum sem gildi í samskiptum aðila vinnumarkaðar samkvæmt lögum.
Síðan sagði: „Það viðbrögð Icelandair, þegar félagið taldi vonlaust um frekari árangur í viðræðum við Flugfreyjufélag Íslands, að segja upp öllum starfandi flugfreyjum og flugþjónum þann 17.7.2020 eru hörmuð enda brutu þau í bága við góðar samskiptareglur sem aðilar vinnumarkaðarins vilja viðhafa. Icelandair telur nauðsynlegt fyrir framtíð félagsins að virða stéttarfélög og sjálfstæðan samningsrétt starfsfólks síns sem tryggir frið um starfsemi félagsins á gildistíma kjarasamninga og á meðan leitað er lausna í kjaraviðræðum. Aðilar munu leggja sig fram um að halda góðu samstarfi og munu leggja sitt af mörkum til þess að endurvinna og efla traust sín á milli.“
Með yfirlýsingunni, yrði hún send út, áttu aðilar hennar að vera sammála um að „með henni ljúki öllum deilum þeirra á milli um þá atburði sem áttu sér stað í samskiptum þeirra þann 17.7.2020 og mun hvorugur aðila gera kröfur á hinn vegna þeirra“.
Verið að veita Icelandair „gott veður“
Á fundinum í gærmorgun las Drífa Snædal yfirlýsinguna upp og opnaði síðan á umræður. Í fundargerð fundarins segir að skiptar skoðanir hafi verið á meðal miðstjórnarmanna um hvort rétt væri að samþykkja yfirlýsinguna og veita Icelandair þar með „gott veður“ í hlutafjárútboði félagsins.
Þar tókust á sjónarmið sem voru annars vegar þau að með yfirlýsingunni væru Icelandair og SA að gangast við því að hafa gengið gegn leikreglum á vinnumarkaði og komið illa fram við starfsfólk sitt. „Slæmt gæti verið fyrir launafólk ef Icelandair færi í þrot og í staðinn kæmu hingað eingöngu lággjaldaflugfélög með enga gilda kjarasamninga og sem eru þekkt fyrir að keyra niður laun starfsfólks.“
Hins vegar kom fram það sjónarmið að með yfirlýsingu væri verið að veita Icelandair einhvers konar syndaaflausn. „Eðlilegra væri að fara með málið fyrir Félagsdóm. Eina ástæðan fyrir því að Icelandair kæmi nú til verkalýðshreyfingarinnar væri að fjárfestar vildu ekki taka þátt í hlutafjárútboðinu og því væri eina von félagsins að reiða sig á eftirlaunasjóði launafólks.“
Vildu sterkara orðalag
Í umræðunum var minnt á að erfitt væri að segja til um hvernig málarekstur fyrir Félagsdómi myndi enda. Verkalýðshreyfingin gæti allt eins tapað málinu og með yfirlýsingunni fengist ákveðin viðurkenning á afstöðu hennar.
Einhverjir fundarmanna töldu að orðalagið í yfirlýsingunni þyrfti að vera sterkara og að Icelandair þyrfti að gangast við því að hafa brotið lög í henni, í stað þess að hafa hagað sér „í bága við góðar samskiptareglur sem aðilar vinnumarkaðarins vilja viðhafa“. Samkvæmt fundargerðinni sagði lögfræðingur ASÍ að orðalag yfirlýsingarinnar næði yfir lögbundnar og ólögbundnar reglur og hefðir og venjur.
Drífa sagði, eftir umræður um hvort að yfirlýsingin sem Icelandair var tilbúið að senda út tengdist hlutafjárútboði félagsins sem hófst í gærmorgun og mögulegri þátttöku lífeyrissjóða í því, að það væri rétt.
Yfirlýsingin kæmi til núna vegna hlutafjárútboðsins. Í fundargerðinni er haft eftir forseta ASÍ að hún ætlaði ekki að skipta sér af því sem lífeyrissjóðir gera, enda væri það ekki hennar hlutverk. „Það væri hennar mat að dómstólaleiðin sé alltaf áhættusöm og rétt að leita lausna í samskiptum og samningum og síður fyrir dómstólum. Þá greindi hún frá því að hún hefði verið í sambandi við formann LÍV/VR [Ragnar Þór Ingólfsson, sem sagði sig úr miðstjórn ASÍ fyrr á þessu ári] og upplýst hann um stöðuna og hann væri sammála því að freista þess að fá sameiginlega yfirlýsingu.“
Umboð til að ganga frá báðum yfirlýsingunum
Að því loknu voru greidd atkvæði um lítillega breytta yfirlýsingu. Helstu breytingarnar voru þær að SA yrðu gerð meðsek Icelandair í orðalagi hennar og að í stað orðalagsins „góðar samskiptareglur sem aðilar vinnumarkaðarins vilja viðhafa“ myndi koma „reglur um samskipti aðila vinnumarkaðarins“.
Sá fyrirvari var þó settur á þær breytingar að forseti ASÍ myndi freista þess að ná þeim í gegn en að hún hefði „slaka til að undirrita yfirlýsinguna samkvæmt því sem var birt upphaflega“. Því voru báðar yfirlýsingarnar samþykktar og forseta ASÍ veitt umboð til þess að ganga frá undirritun á annarri hvorri.
Tíu miðstjórnarmenn samþykktu tillögu Drífu, tveir sátu hjá og eitt atkvæði var greitt á móti. Annar þeirra sem sat hjá var Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfjarða. Hann gerði grein fyrir því að „hann sæti hjá eingöngu þar sem hann vildi að textinn frá miðstjórn væri endanlegur en ekki hægt að ganga til baka í fyrri texta“.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, var sú eina sem greiddi atkvæði á móti tillögunni og óskaði sérstaklega eftir því að því yrði komið á framfæri við Icelandair að hún sem 2. varaforseti ASÍ og formaður Eflingar væri ekki samþykk.
Reglulegur miðstjórnarfundur innan ASÍ fór síðan fram eftir hádegið í gær. Samkvæmt heimildum Kjarnans var mikill hiti á þeim fundi vegna þess að yfirlýsingin sem lögð var fram á aukafundinum um morguninn hefði lekið út. Þar var rætt hvort miðstjórnarmeðlimir myndu kjósa aftur um yfirlýsinguna, en samkvæmt heimildum Kjarnans verður ekki af því. Því er umboð forseta ASÍ um að ganga frá þeim á forsendum morgunfundarins enn í fullu gildi.
Enn sem komið er hefur hvorug yfirlýsingin verið undirrituð, hvorki sú upprunalega né sú breytta.
Tilbúnir að ganga lengra þegar þá vantar pening
Hlutafjárútboð Icelandair Group, þar sem félagið ætlar að safna að minnsta kosti 20 milljörðum króna í nýtt hlutafé, hófst í gærmorgun. Á meðal þeirra fjárfesta sem helstar vonir eru bundnar við að taki þátt í útboðinu eru lífeyrissjóður verzlunarmanna og Gildi lífeyrissjóður. Stéttarfélögin VR og Efling skipa stjórnarmenn í báða sjóðina, en forsvarsmenn þeirra beggja hafa gagnrýnt Icelandair harðlega undanfarið.
Lífeyrissjóðirnir sem um ræðir funduðu í gær og í morgun til að taka ákvörðun um hvort þeir myndu taka þátt í útboðinu eða ekki. Ekkert hefur verið opinberað um afstöðu þeirra enn sem komið er.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, fagnaði lendingu í málum ASÍ og Icelandair í samtali við Kjarnann í gær. VR skipar helming stjórnarmanna í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og er með stjórnarformennsku þar sem stendur.
Ragnar Þór sagði að hlutafjárútboð Icelandair stæði mjög tæpt og það útskýrði sáttarhönd Icelandair í deilunni. „Það hlýtur að vera lýsandi fyrir stemninguna innan félagsins og meðal stjórnenda. Maður skynjar það og les úr þessari miklu óvissu sem er í kringum hlutafjárútboðið og í kringum framtíð félagsins. Allajafna hefði ég ekki talið – miðað við framgang félagsins og stjórnenda Samtaka atvinnulífsins hingað til – að við ættum von á þessum mikla sáttatón. En svo þegar vantar peninga þá eru menn tilbúnir til að ganga lengra en þeir væru annars líklegir til að gera.“
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði