Djúp dýfa, mikið atvinnuleysi en skarpur viðsnúningur í fjárfestingu. Þetta er á meðal þess sem kemur fyrir í nýlegum hagspám Íslandsbanka og Seðlabankans. Íslandsbanki gerir ráð rúmlega þriggja prósenta hagvexti á næsta ári, meðal annars vegna stóraukningar í opinberum fjárfestingum á næstu mánuðum. Lengri tíma mun þó taka til að vinna bug á atvinnuleysinu og er búist við því að það verði svipað hátt á þessu og næsta ári.
Tæplega 9 prósenta samdrætti spáð í ár
Þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka var birt í morgun, en hún spáir 8,6 prósenta samdrætti í landsframleiðslu í ár. Þar af er búist við því að tveir þriðju hlutar samdráttarins, eða um 5,7 prósentustig, séu tilkomin vegna minni utanríkisviðskipta, á meðan minni eftirspurn innanlands veldur 2,9 prósenta samdrætti í ofanálag.
Þetta er nokkuð svartsýnni spá en var gefin út í Peningamálum Seðlabanka Íslands í síðasta mánuði, þar sem spáð var 7,1 prósenta samdrætti í landsframleiðslu í ár. Helsti munurinn á hagspánum tveimur er sá að Seðlabankinn spáir meira falli í innflutningi á vöru og þjónustu en Íslandsbanki, sem hefði jákvæð áhrif á landsframleiðslu.
Burtséð frá því er spá Íslandsbanka bjartsýnni en hjá Seðlabankanum að ýmsu leyti. Til að mynda spáir Íslandsbanki helmingi minni samdrætti í einkaneyslu í ár en Seðlabankinn, eða aðeins um rúm þrjú prósent. Einnig er gert ráð fyrir töluvert minna falli í fjárfestingu íbúðarhúsnæðis en í Peningamálum, en í þjóðhagsspá Íslandsbanka segir að íbúðamarkaðurinn hafi reynst mun þróttmeiri í kjölfar COVID-skellsins en búist var við.
Mikil innspýting í fjárfestingu ríkisins væntanleg
Samkvæmt þjóðhagsspánni er búist við að hið opinbera muni leiða áfram vöxtinn í fjármunamyndun á næstu árum, á meðan einkafjárfestingar í íbúðarhúsnæði og atvinnuvegum eru enn að taka við sér.
Íslandsbanki gerir ráð fyrir að opinber fjárfesting muni aukast um u.þ.b. 17 prósent í ár og 11 prósent á næsta ári.
Þetta yrði mikill viðsnúningur frá núverandi tölum, en Landsbankinn greindi frá miklum samdrætti í fjárfestingum hins opinbera það sem af er ári í Hagsjá sem birtist í dag. Samkvæmt Hagsjánni hafa opinberar fjárfestingar dregist saman um rúmlega 14 prósent á fyrri helmingi ársins, ef miðað er við sama tímabil í fyrra og tekið er tillit til óreglulegra fjárfestingarliða.
Samkvæmt Jóni Bjarka Bentssyni, aðalhagfræðingi Íslandsbanka, má þó búast við að opinber fjárfesting aukist töluvert á þessu ári, þrátt fyrir að lítið hafi verið fjárfest á fyrri helmingi ársins. Því til stuðnings nefnir hann að gera megi ráð fyrir að fjöldi fjárfestinga sem dregist hefur verið að fara í á síðustu mánuðum, til dæmis nýr meðferðarkjarni á Landspítalanum, hefjist á næstunni.
Hins vegar bætir Jón Bjarki við að kúfurinn af væntri fjárfestingarinnspýtingu hins opinbera komi ekki að öllu leyti fyrr en á næsta ári.
Atvinnuleysið verður langvinnt
Þrátt fyrir tiltölulega skamman viðsnúning í efnahagslífinu er ekki gert ráð fyrir mikilli breytingu á atvinnuleysi í náinni framtíð. Þjóðhagsspá Íslandsbanka gerir ráð fyrir að atvinnuleysið verði að meðaltali 7,8 prósent í ár og svipað á næsta ári, en fari svo niður fyrir fimm prósent eftir tvö ár.
Í Peningamálum Seðlabankans er einnig spáð svipuðu atvinnuleysi á næstunni og er þar gert ráð fyrir enn hægari viðspyrnu á vinnumarkaði, þar sem spáð atvinnuleysi fyrir árið 2022 verði enn yfir sex prósentum.
Samkvæmt Íslandsbanka mun batinn í ferðaþjónustunni ráða miklu um hversu hratt atvinnuleysið minnkar á næstunni, sökum þess hversu stór og mannaflsfrek hún er. Í Peningamálum er einnig minnst á mikla óvissu í spám um atvinnuleysi, en þar segir að batinn verður hægur þar sem fyrirtæki muni fara varlega í að ráða nýtt starfsfólk.