Katrín Jakobsdóttir

Stjórnmálaflokkarnir sýna á spilin í upphafi kosningabaráttu

Í gær hófst síðasta þing yfirstandandi kjörtímabils, og með því kosningabarátta sem mun fara fram við óvenjulegar aðstæður vegna kórónuveirufaraldurs sem ógnar heilbrigði og efnahag þjóðarinnar. Í stefnuræðu forsætisráðherra, og umræðum um hana, voru dregnar meginlínur um það hvernig framtíðarsýn flokkarnir sem sitja á Alþingi boða.

Katrín Jakobsdóttir: Hugmyndir það sem gerir samfélagið að því sem það er

Stefnuræða forsætisráðherra var kosningabarátturæða. Eðlilega varði hún umtalsverðum tíma í að ræða kórónuveirufaraldurinn, afleiðingar hans og það sem stjórnvöld hafi gert til að stemma stigu við þeim afleiðingum, jafn heilsufarslegum og efnahagslegum.

Í ræðunni varði hún líka þann árangur sem ríkisstjórnin telur sig hafa náð á ýmsum öðrum sviðum, og lagði sérstaklega áherslu á þá málaflokka sem Vinstri græn hafa skilgreint sig út frá, en hafa verið gagnrýnd fyrir að sinna ekki af festu í ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. 

Katrín sagði að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem kynnt hafði verið þá um morguninn, sýndi „staðfastan vilja stjórnvalda til að verja þann árangur sem náðst hefur í uppbyggingu heilbrigðis- og velferðarkerfis og nýja sókn í menntun, rannsóknum og nýsköpun. Í fjárfestingaátaki stjórnvalda eru fjölbreyttar fjárfestingar; samgöngumannvirki, byggingar, þekkingargreinar, skapandi greinar og grænar fjárfestingar. Ríkissjóði verður beitt af fullum þunga til að skapa viðspyrnu fyrir almenning og atvinnulíf í landinu. Þetta verður græn viðspyrna.“

Mikil umræða hefur verið um það á meðal umhverfisverndarsinna sem taka virkan þátt í starfsemi þrýstihópa um aðgerðir til að takast á við loftlagsvandann og frekari verndun náttúru Íslands að Vinstri græn standi ekki undir græna hluta nafns síns. Andrés Ingi Jónsson, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, greindi til að mynda frá því í vikunni að hann og fleiri fyrrverandi flokksmenn væru að kanna grundvöll fyrir nýjum framboði þar sem kallað yrði eftir „róttækum breytingum í umhverfis- og jafnréttismálum.“

Katrín talaði þess vegna um að „metnaðarfull aðgerðaráætlun“ í loftlagsmálum stjórnvalda hefði verið kynnt í sumar sem muni skila „meiri árangri en alþjóðlegar skuldbindingar okkar krefjast af okkur samkvæmt Parísarsamkomulaginu.“ Hún sló fleiri tóna fyrir þá kjósendur Vinstri grænna sem flestar kannanir á kjörtímabilinu sýna að ætli sér ekki að kjósa flokkinn aftur. Miðhálendisþjóðgarður, réttlátara skattkerfi, jafnréttismál og félagslegar húsnæðisáherslur, nýsköpun og stjórnarskrárbreytingar eru allt mál sem bar á góma. 

Auglýsing

Í niðurlagi stefnuræðu sinnar beindi forsætisráðherra sjónum sínum að komandi kosningum, sem fara fram eftir tæpt ár og sagði að lesa mættu kunnuglega spádóma um að allt muni nú leysast upp í karp um keisarans skegg. „Allt verði hér undirlagt í hefðbundnum átökum um völd undir neikvæðustu formerkjum stjórnmálaátaka. En gleymum því ekki heldur að á bak við átökin og skoðanaskiptin eru ólíkar stefnur og hugmyndir. Þessar ólíku hugmyndir geta styrkt hver aðra eða kveikt nýjar. Hugmyndirnar eru það sem gerir samfélagið okkar að því sem það er.“

Bjarni Benediktsson: Vill opna landið fyrir ákveðnum hópi fólks

Líkt og kannski er hægt að búast við, þegar flokkar sem eru afar ólíkir í orði sitja saman í ríkisstjórn, voru áherslur í ræðu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, töluvert aðrar en hjá forsætisráðherra. Hann ræddi ekkert um umhverfis- og loftlagsmál, jafnréttismál, stjórnarskrá eða félagslegar áherslur. 

Öll hans ræða snerist með einum eða öðrum hætti um kórónuveirufaraldurinn, að mestu um efnahagslegar afleiðingar hans og þær leiðir sem Bjarni vill fara til að koma efnahag landsins aftur í gang. Þótt að um tímabundið ástand væri að ræða þá væri ekki þar með sagt að sá veruleiki sem myndi blasa við eftir það yrði sá sami sem var áður. „Mig langar til að segja hér að hann eigi beinlínis ekki að verða það. Það sem ég vil fá aftur er næg vinna, óheft samskipti og heilsufarslegt öryggi.[...]það sem ég vil að breytist er fjölbreytni atvinnulífsins. Fleiri stoðir, áhersla á þekkingu og atvinnugreinar sem eru ekki eins viðkvæmar fyrir sveiflum náttúrunnar — jafnvel dyntum náttúrunnar — og þær sem við treystum svo mjög á nú. Ég vil sjá veg rótgróinna stoða sem mestan, að ferðaþjónusta blómstri, útvegurinn afli vel og álframleiðslan verði greidd sanngjörnu eins og allt sem kemur úr orkufrekum iðnaði og standist um leið alþjóðlega samkeppni. Við viljum að allt þetta verði aftur eins og það hefur verið og geti orðið til framtíðar.“

Bjarni talaði líka um að vilja opna landið fyrir ákveðnum hópi fólks. Þeir sem hann vill laða til landsins eru sérfræðingar sem vilji „gjarnan koma, búa hér, deila þekkingu sinni með samfélaginu, fá þá hingað til að vinna með okkur að framtíð landsins.“ 

Formaður Sjálfstæðisflokksins eyddi stórum hluta ræðu sinnar í að ræða erfiða stöðu fyrir atvinnurekendur. Fólk sem hefði verið lengi í rekstri en sjái faraldurinn kippa fótunum undan sér. „Það er mikilvægt að taka þannig utan um samfélagið, bæði fólk og fyrirtæki, að þau komist hratt á fæturna aftur þegar glaðnar til.[...]Án atvinnulífsins verður engin viðspyrna. Án atvinnulífsins eru engin störf, hvorki núna né til að snúa aftur í.“Bjarni lagði í máli sinu áherslu á að ríkisstjórnin væri að lækka skatta og tryggja skattalegar ívilnanir til að örva fjárfestingu. „Þetta gerum við best með beinum stuðningi, með lægri álögum, með því að láta ríkissjóð bera auknar byrðar, með grænum lausnum, nýjum hugmyndum og með því að taka höndum saman um að koma sterkari út úr vandanum.“

Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur áður talað um að það verði að líta á kórónuveirukreppuna sem tækifæri til að uppfæra Ísland. Hann hélt sig við það þema í ræðu sinni í gær og lauk henni með því að segja að sú uppfærsla þyrfti að skila tæknivæddara, skilvirkara, grænna, sanngjarnara og kraftmeira samfélagi. „Það verður Ísland í uppfærslu 2.0.“

Sigurður Ingi Jóhannsson: „Ræðan mín er ónýt“

Staða Framsóknarflokksins samkvæmt könnunum er slæm. Raunveruleg hætta er á að flokkurinn gæti verið í baráttu um að halda sér inni á þingi. Í síðustu birtu könnun mældist flokkurinn með næst minnsta fylgi sem hann hefur mælst með í könnun Gallup, eða 6,7 prósent. 

Orðrómur hefur verið um það lengi að Lilja Alfreðsdóttir ætli sér að gera atlögu að formennsku í flokknum á komandi flokksþingi, en Sigurður Ingi hefur þegar gefið það út að hann ætli sér að leiða flokkinn í gegnum næstu kosningar. Nýleg könnun Zenter, sem sýndi að traust á Sigurð Inga sé að aukast á meðal kjósenda á meðan að sá hópur sem treysti Lilju best allra ráðherra hefur helmingast, þótt hún njóti enn meira trausts en Sigurður Ingi, dregur enn úr líkum á formannsslag. 

Sigurður Ingi flutti eftirminnilegustu ræðu gærkvöldsins. Í henni voru ekki settar fram skýrar hugmyndafræðilegar áherslur eða ítarlegur vegvísir að þeim áfangastað sem Framsóknarflokkurinn stefnir að. Þess í stað nýtti Sigurður Ingi hana til að skerpa á staðsetningu flokksins í hinu pólitíska litrófi, sem stjórntækur og miðjusækin flokk málamiðlana. 

Ræðan hófst með eftirfarandi hætti: „Virðulegi forseti. Formaður Miðflokksins fór í ræðu sinni yfir að stefna ríkisstjórnarinnar væri stefna Vinstri grænna. Formaður Samfylkingarinnar kom svo upp og sagði að þessi stefna væri hægri stefna Sjálfstæðisflokksins. Svarið liggur auðvitað í augum uppi: Stefna þessarar ríkisstjórnar er stefna Framsóknarflokksins.“ Hann uppskar hlátur í þingsal og gott veður á samfélagsmiðlum. 

Sigurður Ingi hélt áfram og sagði að formaður Samfylkingarinnar hefði sagt í sinni ræðu: vinna, vöxtur, velferð. „Þetta eru kjörorð framsóknarstefnunnar og Samfylkingin er að taka þau upp. Þegar hann lýsti síðan hvaða áform þyrfti að fara í í fjárfestingarátakinu var hann lýsa fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar. Það er rétt hjá formanni Samfylkingarinnar að allur heimurinn er að fara í þá átt. Ræða mín er ónýt því að ég þurfti að byrja á þessu.“

Formaður Framsóknarflokksins fór síðan yfir aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirufaraldursins með jákvæðum formerkjum og sendi einföld skilaboð um hvert verkefni eftirstandandi kjörtímabils væri. „Það er atvinna, atvinna, atvinna sem málið snýst um.“

Í kjölfarið sló hann tóna sem hljóma vel á landsbyggðinni, þar sem Framsókn sækir sinn styrk að uppistöðu. Hann fagnaði fyrirhuguðum framkvæmdum við veginn um Teigskóg og öðrum stórframkvæmdum, talaði um lambakjöt og mikilvægi íslenskra vara. 

Sigurður Ingi endaði ræðuna á að verja ríkisstjórnina sem hann situr í og sagði hana breiða í eðli sínu. „Þar koma saman ólíkir kraftar sem endurspegla að miklu leyti skoðanir þjóðarinnar. Hún hefur verið einbeitt í því að horfa á sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar og vinna að sátt í samfélaginu. Hún er á réttum tíma á réttum stað.“

Logi Einarsson: Boðaði teikningar að nýrri ríkisstjórn

Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum hvert formaður Samfylkingarinnar stefnir þegar kemur að myndun ríkisstjórnar eftir næstu kosningar. Sérstaklega þar sem hann hefur ítrekað verið mjög opinskár um það á opinberum vettvangi. Logi Einarsson ætlar ekki í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki og hann vill að Samfylkingin myndi ríkisstjórn með öðrum umbótaflokkum sem ráðist í kerfisbreytingar á íslensku samfélagi. Hryggjarstykkið í þeirri hugmynd eru, auk Samfylkingarinnar, Píratar og Viðreisn en annað hvort Vinstri græn eða Framsókn þyrftu líkast til að vera með til að draumsýnin gæti gengið upp. Jafnvel báðir flokkarnir. 

Ræða Loga í gær var ítrekun á þessari sýn. Þar sagðist hann líta á það sem hlut­verk Sam­fylk­ing­ar­innar að leiða saman þau öfl sem væru  til­búin að fylkja sér um vinnu, vel­ferð og græna fram­tíð „og mynda græna félags­hyggju­stjórn að ári, sem getur varðað nýja leið[...]Átök íslenskra stjórn­mála næsta árið munu  og þurfa að snú­ast um hvert skal stefna. Rétta leiðin , ábyrga leið­in, felst í því að ráð­ast strax í kraft­mikla græna fjár­fest­ing­ar­á­ætl­un, aðgerðir sem vinna gegn hamfarahlýnun en skapa um leið atvinnu og verð­mæta­sköpun fyrir okkur öll.“ 

Logi sagði að hann væri sann­færður um að hægt væri að skapa betra og sterkara vel­ferð­ar­sam­fé­lag á Íslandi þar sem ekk­ert barn færi svangt að sofa, hús­næð­isör­uggi væri jafn sjálf­sagt og aðgangur að vatni eða lofti, þar sem gjald­mið­ill­inn væri stöðugri og mat­ar­k­arfan ódýr­ari. „Þar sem atvinnu­laus­ir, öryrkjar og fátækt fólk búa ekki við nístandi óvissu frá degi til dags. Þar sem hvers kyns mis­munun er hafn­að, vel­ferð inn­flytj­enda tryggð og börnum á flótta veitt skjól. Sam­fé­lag sem ein­kenn­ist af mannúð og sjálf­bærni, jöfn­uði og frelsi. Þannig sam­fé­lag sköpum við ekki nema með rétt­lát­ari skatt­byrði, minni ójöfn­uði, heil­brigð­ari og fjöl­breytt­ari vinnu­mark­að­i.“

Auglýsing

Á tímum lofts­lags­ham­fara og heims­far­ald­urs hafi Íslend­ingar ekki efni á því að leyfa hug­mynda­fræði Sjálf­stæð­is­flokks­ins og fjár­mála­stefnu hægri­manna að ráða för, Það væri ein­fald­lega of mikið í húfi.

Í ræðu sinni sagði Logi einnig að sjaldan eða aldrei hefði mik­il­vægi rík­is­valds­ins og sterkrar almanna­þjón­ustu birst jafn skýrt og í kór­ónu­veiru­far­aldr­in­um. „Full­yrð­ingar hægri­manna um að reglu­lít­ill mark­aður greiði sjálfur úr öllum vanda­málum og skili rétt­mætum gæðum til almenn­ings dæma sig nú end­an­lega sjálf­ar.“

Íslend­ingar stæðu and­spænis gríð­ar­lega flóknum verk­efnum sem yrðu ekki öll leyst á stuttum tíma. „En fyrsta skrefið er að skipta um kúrs, snúa skút­unni frá hægri og hrista af okkur gam­al­dags kreddur um það hvernig rík­is­fjár­mál virka og hvernig verð­mæti verða til.“

Lausnir jafn­að­ar­stefn­unn­ar, sem byggja á sam­spili opin­berra umsvifa og einka­fram­taks, væru mik­il­vægastar í bar­átt­unni við far­ald­ur­inn. Hann boð­aði svo að Sam­fylk­ingin myndi leggja fram, á næstu dög­um, heild­stæða áætlun um hvernig Ísland getur brot­ist út úr atvinnu­leysiskrepp­unn­i. 

Á meðal meg­in­á­hersla þar yrðu stór­auknar aðgerðir í bar­átt­unni gegn hamfarahlýnun. „Við núver­andi aðstæður dugar nefni­lega ekk­ert minna en raun­veru­leg græn atvinnu­bylt­ing.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir: Úrslitabarátta í einu stærsta deilumáli stjórnmála

Formaður Viðreisnar, sem var nýlega endurkjörin í embætti og örugg á fleti innan síns flokks, byrjaði ræðu sína á því að kalla stefnuræðu forsætisráðherra varnarræðu ríkisstjórnarinnar uppfulla af réttlætingu yfir því að ráðherrarnir fóru þvert gegn eigin yfirlýsingum í upphafi faraldursins, um að gera meira en minna.

Hún sagði að bráðavandi heimila og lítilla fyrirtækja væri núna. „Við upplifum að allt samræmi vantar á milli sóttvarnaráðstafana og efnahagsráðstafana. Ef stóru skrefin verða ekki stigin strax þá er ríkisstjórnin að bjóða þjóðinni upp á langvarandi kreppu. Það er óboðleg forgangsröðun. Þótt ríkisstjórnin telji það lögmál að vera alltaf einu skrefi á eftir veirunni þarf það ekki að vera svo. Í þessari, nú þriðju bylgju er enn skortur á plani og samtali, skýrri sýn sem þjóðin öll skilur. Veikleikar stjórnarinnar, sem reist var á þeirri einu hugsun að halda hlutum óbreyttum, verða augljósir þegar óvæntar aðstæður og áskoranir koma upp. Ríkisstjórn kyrrstöðunnar, ríkisstjórn lægsta samnefnarans er ekki best til þess fallin að bregðast hratt og örugglega við. Hvað þá stíga stór skref.“

Allt þetta er í takti við áður spiluð stef Viðreisnar, sem skilgreinir sig sem kerfisbreytingaflokk sem geti dregið íslenskt samfélag inn í frjálslyndari, alþjóðlegri og sanngjarnari framtíð. 

Hún þrengdi svo stefið í baráttu milli sérhagsmuna, sem Þorgerður Katrín segir ríkisstjórnina og önnur afturhaldsöfl standa fyrir, og almannahagsmuna, sem hún segir Viðreisn standa fyrir. „Við blasir úrslitabarátta í einu stærsta deilumáli stjórnmálanna. Hvernig á auðlindaákvæði í stjórnarskrá að líta út? Stjórnarflokkarnir og Miðflokkurinn hafa lofað útgerðinni að koma ákvæði án tímabindingar veiðiréttar í gegn. Tillagan sem nú liggur fyrir er merkingarlaus, breytir engu, hún tryggir ekki þjóðareignina. Ef eitthvað er eykur hún líkur á að sameign þjóðar verði séreign fárra.“

Þorgerður Katrín sagði að það þyrfti að ræða gjaldmiðlamál og það að íslenska krónan væri bara fyrir suma, en ekki alla. Hún talaði aflátsbréfaskrif þingmanna Sjálfstæðisflokksins í „ríkisstyrkt Morgunútgerðablað til að firra sig ábyrgð á útgjaldaþenslu síðustu ára“, gagnrýndi Vinstri græn fyrir að standa ekki í lappirnar í hvalveiði-, sjávarútvegskerfis- og flóttamannamálum og sagði að þeim sýndarveruleika um að breytingar væru að eiga sér stað á vakt sitjandi ríkisstjórnar yrði að ljúka. „Að ári getur þjóðin valið að framlengja í lífi ríkisstjórnar kyrrstöðunnar, hugsanlega með stuðningi Miðflokksins. Eða að mynda ríkisstjórn fyrir fjöldann þar sem miðja stjórnmálanna verður kjölfestan og frjálslyndið þráðurinn. Og skilin eru skörp á milli fortíðarflokkanna sem engu vilja breyta og þeirra flokka sem þora að fara í umbætur á íslensku stjórnkerfi, íslensku samfélagi, flokka sem eru engum háðir, eru frjálsir.“

Halldóra Mogensen: Ríkisstjórnin skilur ekki framtíðina

Píratar eru ekki með flokksformann og því skipta þeir með sér verkum með öðrum hætti en hinir flokkarnir. Af þeim átta sem töluðu fyrir hönd flokka í fyrstu umferðinni í gær var Halldóra Mogensen sú eina sem er ekki formaður síns flokks.

Ræða hennar átti margt sameiginlegt með því sem formenn Samfylkingar og Viðreisnar töluðu um í sínum ræðum, að það þyrfti að horfa til breyttrar framtíðar. Ráðherrar og þingmenn ríkisstjórnarflokkanna tali hins vegar helst um það hvernig skuli halda sem fastast í fortíðina og úrelta hugmyndafræði. „Ástæðan fyrir því að flokkarnir sem mynda ríkisstjórnina vilja frekar ræða fortíðina en framtíðina er einföld, þau skilja ekki framtíðina.“

Halldóra lagði svo fram pólitíska sýn Píratar á kosningavetri. meginstefið þar er að hugmyndafræði flokksins grundvallist á því að valdið eigi heima hjá almenningi. Þær snúast um að undirbúa þjóðfélagið fyrir tækniframfarir sem munu hafa gríðarleg áhrif á líf allra. „Við þurfum því í alvöru að fara að ræða lausnir eins og borgaralaun, sem eru ekki bara svarið við óstöðugu efnahagsástandi og vélvæðingu starfa, heldur efnahagslegt loforð stjórnvalda um að öllum skuli tryggð afkoma, skilyrðislaus grunnframfærsla, til að vaxa og dafna á eigin forsendum.“

Hún sagði Pírata líka skilja að  áskoranir í loftslagsmálum krefjast metnaðarfullra aðgerða og hugrekkis til að framkvæma þær og fjármagna að fullu. „Samfélagsleg ábyrgð og sjálfbærni fyrirtækja verða aldrei leiðarstef án þess að umhverfis- og samfélagsskaði þeirra verði metinn til fjár. Ef þú mengar þá borgar þú. Ný hagræn hugsun og sjálfbærnihvatar í stað fortíðarþrár mengandi stórfyrirtækja eru lykillinn að því að koma hér á alvöruvelsældarhagkerfi.“

Píratar hafa lagt mikla áherslu á að ákvörðunum og hegðun í stjórnsýslu og stjórnmálum fylgi ábyrgð. Sú afstaða hefur oft leitt til mikilla átaka á þinginu. Halldóra dró sannarlega ekki úr þeim áherslum í ræðu sinni í gær. Hún sagði að valdhafar þyrftu að sæta ábyrgð, að styrkja þyrfti rétt einstaklinga gegn valdbeitingu stjórnvalda og auka þarf aðkomu fólks að ákvörðunartöku. „Án slíks aðhalds er leiðin greið fyrir alls konar litla einræðisherra í búningi sterkra leiðtoga til að fóta sig, eins og sjá má víða í kringum okkur. Þess vegna berjumst við fyrir nýrri stjórnarskrá. 

Auglýsing

Halldóra gagnrýndi svo ríkisstjórnina fyrir viðbrögð hennar við efnahagslegum afleiðingum kórónuveirufaraldursins og sagði að í þeim hafi falist að leita til peningaaflanna í landinu. „Helstu ráðgjafar ríkisstjórnarinnar voru ýmist fulltrúar stórfyrirtækja eða fulltrúar samtaka stórfyrirtækja, lobbíistar sem geta með dags fyrirvara bara pantað blaðamannafund við ráðherrabústaðinn og 25 milljarða úr ríkissjóði. Lobbíistar sem hafa selt stjórnvöldum skaðlega vúdú-hagfræði þar sem fyrirtæki eru alltaf í forgrunni, aldrei fólk.“

Lokaorð Halldóru voru ákall til kjósenda um að velja flokka sem setja hagsmuni almennings ofar hagsmunum stórfyrirtækja, sem gera fólki kleift að grípa tækifærin og skapa sína eigin framtíð.  „Velja flokka sem bera virðingu fyrir þjóðinni og veita henni stjórnarskrána sem hún valdi sér sjálf, flokka sem skilja framtíðina og vilja framtíðina.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson: „Líklega óhugnanlegasta þingmál sem ég man eftir í seinni tíð“ 

Miðflokkurinn sker sig úr þeim flokkum sem mælast í skoðanakönnunum með nægjanlegt fylgi til að fá fulltrúa á Alþingi í næstu kosningum. Flokkurinn er að móta sér nokkuð skýra sýn ýmsum málaflokkum sem á sér ekki hliðstæðu í stefnuskrám annarra stærri flokka. 

Hún snýst meðal annars um að ráðast gegn útþenslu kerfisins, gegn sérfræðingaveldi þess og gegn Borgarlínuverkefninu.

Í ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins, voru ýmis menningarmál í forgrunni og þar virtist hann vera að biðla til Sjálfstæðisflokksins, en gagnrýna bæði Vinstri græn og sinn gamla flokk, Framsóknarflokkinn. Hann gagnrýndi harkalega þær pólitísku áherslur sem ríkisstjórnin væri að sýna við lok kjörtímabilsins og sagðist skorta orð til að lýsa undrun á því hvert hún væri að stefna.

Síðan hófst upptalning. 

Hún hófst á því að hann tók fyrir frumvarp til laga um breytingu á lögum um kynrænt sjálfræði, þar sem til stendur að æta við ákvæði sem  fjallar um breytingar á kyneinkennum barna með ódæmigerð kyneinkenni. Sigmundur Davíð var myrkur í máli og sagði þetta „líklega óhugnanlegasta þingmál sem ég man eftir í seinni tíð.“ Sigmundur Davíð sagði að í málinu ætlaði ríkisstjórnin að banna foreldrum og læknum að nýta nútímalækningar. Það væri aðför að framförum og vísindum. „Þetta er aðför að frelsi foreldra. Þetta er aðför að frelsi heilbrigðisstarfsfólks og þetta er aðför að réttindum barna. Ég trúi því ekki að Sjálfstæðisflokkurinn hleypi þessu máli í gegn. Það hafa reyndar verið mörg mál sem ég hélt að sá flokkur gæti ekki samþykkt en hann gerði það nú samt. Þriðji flokkurinn mun svo væntanlega gera það sem ætlast er til af honum.“

Því næst tók hann fyrir móttöku fylgdarlausra barna úr hópi þeirra sem sækja um vernd á Íslandi. Sigmundur Davíð sagði að þegar hann hefði verið forsætisráðherra, á árunum 2013-2016, hefði hann kynnt sér þessi mál mjög vel með samtölum við þá sem störfuðu á vettvangi. „Það sem stóð upp úr í ráðgjöf þessa fólks var að alls ekki mætti setja sérreglur um fylgdarlaus börn vegna þess að með því væri verið að stuðla að því að börn yrðu send ein af stað í hættuför. Hér sem fyrr byggist stefnan bara á orðanna hljóða, ímynd en ekki raunverulegum afleiðingum. Staða innflytjendamála er raunar í algjörum ólestri af sömu ástæðum.“

Í kjölfarið gerði gagnrýndi hann stjórnarfrumvörp um lögleiðingu fíkniefna, því sem hann kallaði „tilraun til að vega að starfi íslenskrar leigubílstjóra á sama tíma og þeir hafa orðið fyrir verulegri tekjuskerðingu“ og að nú ætti að „rústa íslenskri nafnahefð sem hefur varðveist frá landnámi.“ Sigmundur Davíð ítrekaði einnig andstöðu sína gagnvart lögþvingaðri sameiningu sveitarfélaga. Undir lok ræðu sinnar sneri Sigmundur Davíð sér að loftlagsmálum og sagði að iðnaðurinn sem rekinn væri hér á landi með umhverfisvænni orku væri langstærsta framlag Íslands í þeim málaflokki. „Þrátt fyrir það er íslensk stóriðja í uppnámi og engin merki um að ríkisstjórnin ætli að bregðast við. Vandinn er enn meiri í landbúnaði. Sótt er að greininni úr mörgum áttum og atvinnugrein sem hefur verið undirstaða byggðar á Íslandi frá landnámi er í verulegri hættu. Á sama tíma eyðir ríkisstjórnin tugum milljarða í verkefni á borð við borgarlínu og stofnanavæðingu loftslagsmála.“

Inga Sæland: Fátækt og grímulaus hagsmunagæsla

Formaður Flokks fólksins hélt sig við vera málsvari þeirra sem verst hafa það í samfélaginu. Fátækt var meginntak ræðu hennar og Inga Sæland sagði að gjáin milli ríkra og fátækra væri sífellt að verða gleiðari. 

Það væri í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og Vinstri grænna sem  Inga sagði að stundaði grímulausari hagsmunagæslu en nokkur önnur ríkisstjórn hefði nokkru sinni gert. „Við erum nýbúin að horfa upp á það að um hábjartan dag tókst á sekúndubroti að slengja fram 25 milljarða kr. loforði þegar Samtök atvinnulífsins fóru í fýlu og kreistu ríkisstjórnina. Ég veit ekki hvernig þeir fóru að því, kannski þurftu þeir ekki einu sinni að hafa fyrir því. Kannski eru þeir bara allir svona rosalega nánir, 25 milljarðar á einum degi. En það kostaði blóð, svita og tár að draga fram 25 milljarða kr. sem var skipt á níu hjálparstofnanir til að gefa fátæku fólki að borða.“

Inga sagði að henni væri virkilega misboðið. „Hér kemur hver silkihúfan, með fullri virðingu, fram á fætur annarri og talar um komandi kosningar og hér er haldin hver kosningaræðan á fætur annarri. Ég óttast að það sem kemur upp úr kjörkössunum í september að ári liðnu komi til með að gefa landsmönnum nákvæmlega það sama, þessum hópi sem Flokkur fólksins er að berjast fyrir, og við höfum séð kjörtímabil eftir kjörtímabil: Fátækt.“

Formaðurinn lauk ræðu sinni á því að rifja upp þingræðu Katrínar Jakobsdóttur frá 13. september 2017, þar sem hún, þá óbreyttur þingmaður og ekki orðin forsætisráðherra, að það að láta fátækt fólk bíða eftir réttlæti, það þýddi það sama og að neita því um réttlæti.„ Og hvað er það sem við horfum upp á í dag? Við horfum upp á nákvæmlega það að þegar þessi ágæti þingmaður situr nú við stýri forsætisráðherra í þessari ríkisstjórn þá láta þau fátækt fólk bíða eftir réttlæti.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar