Gasleiðslan, sem gengur undir nafninu Nord Stream 2, og er að stærstum hluta í eigu rússneska fyrirtækisins Gazprom, liggur frá Vyborg í Rússlandi til Lubmin skammt frá Greifswald í Þýskalandi, 1200 kílómetra leið. Lengstan hluta leiðarinnar liggur leiðslan (þvermál hennar er 120 sentimetrar) á botni Finnlandsflóa og Eystrasalts, samhliða Nord Stream 1.
Nord Stream fyrirtækið var stofnað árið 2005 í þeim tilgangi að leggja gasleiðslu frá Rússlandi til Þýskalands. Áður en Nord Stream 1 leiðslan var tekin í notkun haustið 2011 fór stærstur hluti þess gass sem Rússar vinna, og selja úr landi, um Úkraínu. Samskipti Rússa og Úkraínumanna eru, og hafa lengi verið, mjög stirð. Úkraínumenn kaupa gas af Rússum og borga ekki alltaf á gjalddaga.
Rússar áttu hinsvegar ekki hægt um vik að þrýsta á um greiðslur, því þá hótuðu Úkraínumenn að loka fyrir streymið til Vestur-Evrópu. Þetta þótti Rússum vægast sagt óþægilegt en með tilkomu Nord Stream 1 urðu þeir ekki jafn háðir Úkraínumönnum varðandi gasflutninginn. Nord Stream 1 annaði hins vegar ekki flutningi alls þess gass sem Rússar vilja selja, og Þjóðverjar kaupa, og þess vegna hófst undirbúningur lagningar annarrar leiðslu, Nord Stream 2, nánast á sömu stundu og Nord Stream 1 var komin í gagnið.
Um danskt hafsvæði
Eins og áður var getið liggur Nord Stream 1 um Finnlandsflóa og Eystrasalt til Þýskalands. Til að komast hjá því að leggja lykkju á leið leiðslunnar þurftu Rússar að fá leyfi Dana til leggja hana um danskt hafsvæði skammt undan Borgundarhólmi, rúmlega 100 kílómetra leið. Það leyfi veittu Danir árið 2009, þá hafði danska Orkumálastofnunin í greinargerð til þingsins kveðið upp úr með að Dönum bæri að heimila lagningu leiðslunnar í samræmi við 79. grein Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Málið kom þess vegna aldrei til kasta danska þingsins, Folketinget. Orkumálastofnunin veitti heimildina. Margir hafréttarsérfræðingar lýstu sig í kjölfarið ósammála túlkun Orkumálastofnunarinnar, sögðu það algjörlega í valdi Dana að ákveða hvort Rússum væri heimilt að leggja leiðsluna svo nálægt landi við Borgundarhólm, vel innan 12 sjómílna frá ströndinni. Urgur var í mörgum dönskum þingmönnum sem stóðu frammi fyrir orðnum hlut, en fengu engu breytt. Þetta var í tíð Lars Løkke Rasmussen og flokks hans, Venstre.
Nord Stream 2
Þegar undirbúningur Rússa vegna Nord Stream 2 hófst höfðu orðið stjórnarskipti í Danmörku. Nýja stjórnin var undir forystu sósíaldemókrata og forsætisráðherrann var Helle Thorning-Schmidt. Vitað var að innan stjórnar hennar voru mjög skiptar skoðanir um Nord Stream 2. Rússar hófu eins og áður sagði undirbúning nýju leiðslunnar árið 2011 og þá var gert ráð fyrir að hún kæmist í gagnið árið 2018, ef tilskilin leyfi fengjust. Rússar lögðu mikla áherslu á að fá samþykki þeirra ríkja sem í hlut eiga fyrir lagningu leiðslunnar sem auk Danmerkur og Rússlands eru Finnland, Svíþjóð og Þýskaland. Vel gekk að útvega leyfin, sem eru veitt í nokkrum áföngum, framkvæmdaleyfi, rekstrarleyfi o.s.frv.
Þótt Danir hafi samþykkt að Rússum væri heimilt að hefja framkvæmdir drógu þeir mjög lengi að samþykkja notkun þess hluta leiðslunnar sem liggur um danskt hafsvæði við Borgundarhólm. Rússar höfðu reyndar ákveðinn mótleik uppi í erminni færi svo að Danir myndu synja um leyfið. Þeir hefðu þá þurft að leggja lykkju á leið leiðslunnar, og krækt út fyrir dönsku lögsöguna. Vegna þess að þeir höfðu þegar fengið framkvæmdaleyfið byrjuðu þeir hins vegar að leggja leiðsluna í dönsku lögsögunni, þótt notkunarleyfið vantaði.
Vegna viðskiptaþvingana Bandaríkjamanna gagnvart Rússum seinkaði öllu verkinu og á þessari stundu er óljóst hvenær gasið getur farið að streyma um leiðsluna, Nord Stream 2.
Danir nota Rússagasið og stjórnin kúvendir
Sl. mánudag (28.9) greindi dagblaðið Berlingske frá því að hluti þess gass sem kemur með Nord Stream frá Rússlandi endi í eldavélum og kynditækjum á dönskum heimilum. Þessar fréttir komu mörgum á óvart því Mette Frederiksen forsætisráðherra og Dan Jørgensen orku- og loftslagsráðherra hafa lengi mælt gegn því að lönd Evrópusambandsins verði háð rússagasinu. Samkvæmt upplýsingum frá danska Ørsted orkufyrirtækinu kemur nú allt að helmingur þess gass sem Danir nota frá Rússum. Ein ástæða þess er að eitt helsta gasvinnslusvæði Dana, Tyra svæðið í Norðursjó, er lokað vegna endurnýjunar og verður svo fram til ársins 2022. Til er gamall samningur milli Ørsted og rússneska orkufyrirtækisins Gazprom um kaup á gasi frá Rússlandi.
Hver sem ástæðan er hefur danska stjórnin skyndilega snúið við blaðinu og fyrir þremur dögum (1.10) tilkynnti danska Orkumálastofnunin að Rússum hefði verið tilkynnt að þeim væri heimilt að dæla gasi um leiðsluna þegar hún verður tilbúin, án þess að krækja fram hjá danskri lögsögu. Danskir stjórnmálaskýrendur, að minnsta kosti sumir, undrast þessa kúvendingu stjórnarinnar en hafa sett sama sem merki milli leyfisveitingarinnar og umfjöllunar Berlingske sl. mánudag.
Merkel hefur í hótunum
Í Þýskalandi hafa skoðanir um samstarf við Rússa á sviði orkumála lengi verið skiptar, og sá ágreiningur ekki bundinn við tiltekna stjórnmálaflokka. Innan Kristilegra demókrata, flokks Angelu Merkel kanslara hefur ríkt mikill ágreiningur varðandi Nord Stream 2 og samstarf við Rússa. Margir háttsettir menn í flokknum vilja fara sér hægt og jafnvel gera hlé til að endurmeta samstarfið við Rússa.
Þjóðverjar vita vel að gassalan skiptir Rússa miklu, tekjur af henni eru um það bil helmingur útflutningstekna ríkisins. Munar sannarlega um minna. Angela Merkel kanslari hefur iðulega sagt að ekki eigi að blanda saman samningum um gasviðskipti og pólitískum ágreiningsefnum.
En nú er skyndilega komið annað hljóð í Merkel strokkinn. Og á því er skýring: Alexei Navalní. Þýsk stjórnvöld krefjast fullnægjandi skýringa frá Rússum á því sem þau kalla morðtilraunina á stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní. Hann veiktist skyndilega um borð í flugvél, á leiðinni frá Tomsk í Síberíu til Moskvu. Nær dauða en lífi var hann fluttur til Berlínar, en rússneskir læknar höfðu fyrst þvertekið fyrir að hann yrði fluttur úr landi. Þýskir læknar hafa fullyrt, eftir ítarlegar rannsóknir að Alexei Navalní hafi verið byrlað eitur, taugaeitrið Novisjok. Rússnesk stjórnvöld hafa harðneitað að hafa nokkuð með málið að gera, en ekki leggja allir trúnað á þær fullyrðingar. Þar á meðal Angela Merkel.
Rússar skilja fyrr en skellur í tönnum og þegar kanslari Þýskalands er farinn að tala um ekkert sé útilokað, þar á meðal að taka mál Alexei Navalní upp á vettvangi Evrópusambandsins, vita ráðamenn í Kreml að alvara er á ferðum. Ekki er á þessari stundu vitað hverju fram vindur. Blaðamaður þýska vikuritsins Spiegel sagði eitthvað á þá leið að „nú stæði yfir stóra störukeppnin.“ Hann vildi ekki spá neinu um niðurstöðuna en sagði nokkuð ljóst að „í Kreml svæfu menn ekki rótt nú um stundir.“