Frá því fyrsta smitið af kórónuveirunni var greint hér á landi þann 28. febrúar hafa 3.079 greinst með COVID-19, yfir 140 verið lagðir inn á sjúkrahús og tíu látist. Í gær greindust 99 smit innanlands sem er mesti fjöldi á einum sólarhring frá því þriðja bylgja faraldursins hófst um miðjan september. Fjórir liggja nú á gjörgæsludeild Landspítalans vegna sjúkdómsins.
221 dagur er liðinn frá því að COVID-19 greindist í fyrsta sinn hér á landi. Og 195 dagar eru síðan metfjöldi nýrra smita greindist: 106 tilfelli af COVID-19 greindust á einum sólarhring. Fjöldinn fór aldrei aftur yfir 100 í fyrstu bylgju faraldursins. Flest urðu þau 99 eftir þetta og það gerðist þann 1. apríl.
„Við erum ekkert að grínast með þetta,“ hafði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarna sagt nokkrum dögum fyrr. Á daglegum upplýsingafundum var hamrað á sömu skilaboðunum: Samstaðan ein mun skila árangri. Allir verða að gæta að sér, þvo sér vel um hendur og spritta og halda tveggja metra fjarlægð við næsta mann.
Upplýsingafundirnir eru ekki eins tíðir í dag. Þeir eru nú yfirleitt tvisvar sinnum í viku. Á þá mætir þríeykið enn og flytur okkur sömu skilaboð: Gætið að ykkur. Við verðum að standa saman.
Ýmislegt hefur breyst frá fyrstu bylgjunni. Sóttkví hefur verið stytt, hún er ekki lengur fjórtán dagar heldur lýkur eftir sjö daga með sýnatöku. Fólk er líka almennt styttri tíma í einangrun enda stöðugt verið að afla nýrrar þekkingar um sjúkdóminn. Fleiri sýni eru tekin nú en í fyrstu bylgjunni og 1 metra regla hefur tekið við af tveggja metra reglunni.
En að sama skapi erum við komin á svipaðar slóðir að mörgu leyti. Samkomur hafa aftur verið takmarkaðar við 20 manns. Háskóla- og framhaldsskólanemar sitja flestir við tölvur sínar heima í stað þess að mæta í byggingar skóla sinna. Húsnæði líkamsræktarstöðva eru lokuð og sóttvarnalæknir hvetur fólk til að vinna heima. Undanþágur frá samkomutakmörkunum hafa verið veittar þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum, svo sem matvælafyrirtækjum.
Í fyrstu bylgju faraldursins greindust 1.810 með kórónuveiruna. Í þriðju bylgjunni, sem hófst að mati vísindafólks við Háskóla Íslands þann 11. september, eða á 25 dögum hafa 879 greinst. Það er 223 færri en á jafn mörgum dögum í upphafi fyrstu bylgjunnar.
„Þetta er allt öðruvísi en í vor,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í gær. Hann tekur undir með Thor Aspelund líftölfræðingi sem sagði í viðtali við Kjarnann í síðustu viku að þriðja bylgjan væri óútreiknanlegri en sú fyrsta. Erfiðara sé að ná utan um faraldurinn nú en þá. „Það er viðbúið að það muni ekki takast að keyra veiruna jafn mikið niður og okkur tókst í vor vegna þess að veiran hefur náð að grafa sig meira niður í samfélaginu. Þetta er allt öðruvísi en þetta var í vor.“