Mynd: Bára Huld Beck

Fjárlögin á mannamáli

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti fjárlagafrumvarp vegna ársins 2021 í vikunni. Þau segja til um hvernig þjóðarheimilið er rekið. Í hvað erum við að eyða, hverjir borga mest fyrir það og þau nýju verkefni sem verið er að ráðast í. Í þeim að finna rammann utan um samfélagið sem við lifum í. Og sá rammi hefur breyst umtalsvert á síðustu mánuðum vegna yfirstandandi heimsfaraldurs.

Hver er stóra myndin?

Heildartekjur ríkissjóðs verða um 772 milljarðar króna á næsta ári. Það um þremur milljörðum krónum meira en áætlaðar tekjur hans á árinu 2020. Tekjurnar í ár hafa verið endurmetnar og lækkað um 140 milljarða króna frá því sem reiknað var með þegar fjárlög fyrir árið 2020 voru samþykkt. 

Áætlaður halli á árinu 2020 eða 269,2 milljarðar króna og á næsta ári er hann áætlaður 264,2 milljarðar króna. Því stefnir í rúmlega 533 milljarða króna halla á tveimur árum. 

Hann verður ekki fjármagnaður með niðurskurði eða nýjum skattahækkunum, heldur lánum. Útgjöld munu haldast nánast þau sömu, fara úr 1.038 milljörðum króna í 1.036 milljarða króna.

Hverjir fá mest?

Fram­lög til heil­brigð­is­mála verða aukin um 15,3 millj­arða króna á árinu 2021 en þar vega þyngst fram­kvæmdir við nýjan Lands­spít­ala. Alls er áætlað að tæplega sjö millj­arðar króna fari í þær á árinu. Alls munu 268,8 milljarðar króna fara til heilbrigðisráðuneytisins úr ríkissjóði.

Auglýsing

Þá stendur til að auka fram­lög til félags-, hús­næð­is- og trygg­inga­mála umtalsvert. Þau eiga að vera tæplega 270 milljarðar króna á næsta ári sem mun gera það að verkum að þetta verður dýrasti málaflokkur ríkisins á næsta ári. Alls er um að ræða 26 prósent af 1.038 milljarða króna gjöldum ríkissjóðs. Helsta ástæða þess að þessi málaflokkur mun kosta svona miklu meira á næsta ári er að gert er ráð fyrir að kostnaður við atvinnuleysisbætur hækki alls um 23 milljarða króna og verði 50 milljarðar króna.

Framlag úr ríkissjóði til þeirra málaflokka sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið er áætlað 112,2 milljarðar króna. Þau aukast um tæplega sex milljarða króna milli ára.  

Samtals er rúmlega 60 prósent af öllum útgjöldum ríkissjóðs vegna velferðar-, heilbrigðis- og menntamála. 

Framlög til fjárfestinga á næsta ári verða 111 milljarðar króna. Stærsta einstaka verkefnið sem fær fé er bygging nýs Landspítala en gert er ráð fyrir tæplega tólf milljarða króna framlagi til framkvæmdanna 2021.

Hver borgar fyrir tekjur ríkissjóðs?

Einstaklingar og fyrirtæki

Skatttekjur hríðfalla á næsta ári. Einstaklingar munu greiða 180,7 milljarða króna í tekjuskatt og skattgreiðslu. Til viðbótar borgum við auðvitað virðisaukaskatt af flestu. Á næsta ári er búist við að virðisaukaskattstekjurnar verði 233 milljarðar króna og að við fáum að greiða 5,3 milljarða króna í viðbót í stimpilgjöld. 

Tekju­skattur sem leggst á lög­að­ila, fyr­ir­tæki og félög lands­ins, er nú áætlaður 55,2 milljarðar króna og dregst umtalsvert saman. 

Landsmenn borga sjálfir fyrir rekstur ríkissjóðs með sköttunum sínum.
Mynd: Bára Huld Beck

Þá munu tekjur ríkissjóðs vegna tryggingagjalds aukast um 7,4 milljarða króna, þrátt fyrir að gjaldið verði lækkað enn á ný um 0,25 prósentustig um komandi áramót, og verða 94,5 milljarðar króna á næsta ári.

Sérstakt gjald á banka

Bankar landsins borga líka sinn skerf til ríkisins til viðbótar við hefðbundnar skattgreiðslur, þótt það framlag fari lækkandi. Þar skiptir mestu að áætlað er að bankaskatturinn verði lækkaður niður í 0,145 prósent skulda í árslok 2020. Gjöld á bankastarfsemi munu skila 4,1 milljarði króna í ríkiskassann á næsta ári. 

Veiðigjöld

Svo eru það auðvitað útgerðarfyrirtækin. Þau borga ríkissjóði sérstök veiðigjöld umfram aðra skatta fyrir afnot af fisk­veiði­auð­lind­inni.

Ný lög um veiði­gjald tóku gildi í byrjun árs 2019 þar sem meðal ann­ars var settur nýr reiknistofn sem bygg­ist á afkomu við veiðar hvers nytja­stofns. Samkvæmt þeim er veiði­gjaldið nú ákveðið fyrir alm­an­aksár í stað fisk­veiði­ár­s. Samkvæmt fjárlögum ársins 2021 eiga þau að vera tæplega 4,7 milljarðar króna. Þau voru 11,3 milljarðar króna árið 2018. 

Þeir sem eiga mikið af peningum

Rúmlega tvö þúsund framteljendur afla að jafnaði tæplega helmings allra fjármagnstekna á Íslandi. Um er að ræða, að minnsta kosti að hluta, ríkasta eitt prósent landsins sem á nægilega mikið af viðbótarpeningum sem það getur látið vinna fyrir sig til að skapa tekjur.

Auglýsing

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hækkaði fjármagnstekjuskatt í byrjun árs 2018, úr 20 í 22 prósent. Forsætisráðherra sagði við það tilefni að þessi hækkun væri liður í því að gera skattkerfið réttlátara.

Þessi hækkun skilar þó ekki mikilli tekjuaukningu fyrir ríkissjóð. Í fjárlögum yfirstandandi árs voru tekjur af fjármagnstekjuskatti áætlaðar 32,5 milljarðar króna. Eftir kórónuveirufaraldurinn hefur þessi tekjustofn hríðlækkað. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2021 er áætlað að hann skili 25,2 milljörðum króna. 

Bifreiðareigendur, drykkjufólk og þeir sem enn reykja

Alls eru áætlaðar tekjur ríkissjóðs vegna eldsneytisgjalda 32,2 milljarðar króna á næsta ári. Þar munar mestu um olíugjaldið sem á að skila 11,5 milljörðum króna, og hækkar um 2,5 prósent í byrjun næsta árs.

Reykingarfólk og áfengisneytendur fá áfram sem áður að borga sinn skerf til samneyslunnar. Álögur á það fólk hækka enn og aftur. Bæði áfengis- og tóbaksgjöld munu hækka um 2,5 prósent um komandi áramót. Félag atvinnurekenda reiknaði það út nýverið að ríkið taki til sín 94,1 prósent af útsöluverði vodkaflösku í verslunum Vínbúðarinnaro g 54,1 prósent af verði meðalbjórdósar. 

Allir sem flytja inn eða fram­leiða áfengi hér á landi til sölu eða vinnslu ber að greiða áfeng­is­gjald. Einnig þeir sem flytja áfengi með sér eða fá það sent erlendis frá, til eigin nota. Áfeng­is­gjald er greitt af neyslu­hæfu áfengi sem í er meira en 2.25 pró­sent af vín­anda að rúm­máli. Þessu gjaldi er velt út í verð­lag og því hækkar það útsölu­verð til neyt­enda. Tekjur rík­is­sjóðs vegna áfeng­is­gjalds voru 18,6 millj­arðar króna árið 2018. Áætlað er að þær verði 20,3 milljarðar króna á næsta ári, þrátt fyrir mikinn samdrátt í komu ferðamanna. 

Tóbaksgjaldið mun skila rúmlega sex milljörðum króna í ríkiskassann, sem er 150 milljónum krónum meira en reiknað var með að það myndi skila á þessu ári. 

Óreglulegu tekjurnar

Ríkið hefur allskonar aðrar tekjur en skatta. Þar ber auðvitað hæst arðgreiðslur frá fyrirtækjum sem ríkið á, sérstaklega bönkunum og Landsvirkjun. Slíkar arðgreiðslur hafa hríðfallið vegna kórónuveirufaraldursins og munu skila 6,8 milljörðum króna á næsta ári, eða 27 milljörðum krónum minna en í ár. 

Reykingar taka ekki einungis toll af heilsunni. Þær verða sífellt meiri byrði á veskinu líka.
Mynd: EPA

Ríkið mun líka innheimta 6,4 milljarða króna í vaxtatekjur og 31,6 milljarða króna vegna sölu á vöru og þjónustu. Inni í þeirri sölu eru til að mynda innritunargjöld í háskóla og framhaldsskóla, sala á vegabréfum og ökuskírteinum og greidd gjöld vegna þinglýsinga, svo dæmi séu tekin.

Þá fær ríkið um fjóra milljarða króna vegna sekta og skaðabóta og 692 milljónir króna vegna sölu á eignum.

Hvað er nýtt?

Á meðal þess sem sem má telja til nýjunga í fjárlagafrumvarpinu er að framlög til nýsköpunarmála á næsta ári verða 25 milljarðar króna, og sem er fimm milljarða króna hækkun samanborið við áætluð útgjöld yfirstandandi árs. 

Útgjöld til upplýsingatækniverkefna hækka líka um 2,3 milljarða króna og munar þar mestu um framlög til verkefnastofunnar Stafrænt Íslands, sem vinnur að stafvæðingu opinberrar þjónustu í samstarfi við stofnanir ríkisins.

Framlög til umhverfismála verða nálægt 24 milljörðum króna sem er aukning um 3,4 milljarða króna. Þyngst vega aukin framlög til ofanflóðasjóðs til að efla ofanflóðavarnir.

Í fjárlagafrumvarpinu er líka gert ráð fyrir að frítekjumark erfðafjárskatts verði hækkað en áætlað er að við það muni álögur minnka um 500 milljónir króna árið 2021 sem á að gagnast eignaminni dánarbúum best. 

Þá er verið að leggja lokahönd á endurskoðun stofns fjármagnstekjuskatts sem eiga að lækka tekjur ríkisins um 2,1 milljarð króna. Það verður gert með því að miða skattstofn fjármagnstekna við raunávöxtun í stað nafnávöxt­un­ar.

Auglýsing

Nýir skattastyrkir til að styðja við félög sem starfa í þágu almannaheilla í svokölluðum þriðja geira munu kosta ríkissjóð um 2,1 milljarð króna.

Þá stendur til að skera niður framlög til Ríkisútvarpsins um 310 milljónir króna og að nýta hluta innheimts útvarpsgjalds í annað en rekstur þess. 

Hvernig stendur rekstur ríkissjóðs?

Líkt og áður sagði verður hallinn á tveimur árum 533 milljarðar króna og gert er ráð fyrir að skuldir hins opinbera fari úr því að vera 28 prósent af af vergri landsframleiðslu í lok síðasta árs í 48 prósent í lok árs 2021. Gert er ráð fyrir að skuldasöfnunin stöðvist við 59 prósent af vergri landsframleiðslu árið 2025 og taki svo að lækka á grunni hagvaxtargetu sem lögð er til grundvallar í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem gildir út árið 2025. 

Til samanburðar má nefna að hallinn á rekstri ríkissjóðs árið 2008, þegar bankahrunið varð, nam 194 milljörðum króna. Mesti tekjuafgangur sögunnar varð árið 2016, þegar að tekjur voru 302 milljörðum króna meiri en útgjöld í kjölfar þess að slitabú fallinna fjármálafyrirtækja greiddu stöðugleikaframlög í ríkissjóð. 

Sú kreppa sem við erum að takast á við vegna kórónuveirufaraldursins er því söguleg og dýpri en nútíma íslenskt samfélag hefur tekið á við áður.

Góðu fréttirnar eru þær að hröð niðurgreiðsla skulda á síðustu árum, sérstaklega vegna greiðslna frá slitabúum föllnu bank­anna vegna stöð­ug­leika­samn­ing­anna sem und­ir­rit­aðir voru árið 2015, gera ríkið vel í stakk búið til takast á við þessa stöðu. Þegar skuld­irnar voru sem mest­ar, árið 2011, voru þær 86 pró­sent af lands­fram­leiðslu en voru, líkt og áður sagði, 28 prósent í lok árs 2019. Til viðbótar við almenna skuldaniðurgreiðslu hefur ríkissjóður á undanförnum árum greitt háar fjárhæðir inn á ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar.

Neikvæðir raunvextir og lækkandi ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf gerir lántökur nú um stundir hins vegar eftirsóknarverða fyrir ríkissjóð. Peningar eru nánast eins ódýrir og þeir verða. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar