Mynd: Bára Huld Beck

Fjárlögin á mannamáli

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti fjárlagafrumvarp vegna ársins 2021 í vikunni. Þau segja til um hvernig þjóðarheimilið er rekið. Í hvað erum við að eyða, hverjir borga mest fyrir það og þau nýju verkefni sem verið er að ráðast í. Í þeim að finna rammann utan um samfélagið sem við lifum í. Og sá rammi hefur breyst umtalsvert á síðustu mánuðum vegna yfirstandandi heimsfaraldurs.

Hver er stóra mynd­in?

Heild­ar­tekjur rík­is­sjóðs verða um 772 millj­arðar króna á næsta ári. Það um þremur millj­örðum krónum meira en áætl­aðar tekjur hans á árinu 2020. Tekj­urnar í ár hafa verið end­ur­metnar og lækkað um 140 millj­arða króna frá því sem reiknað var með þegar fjár­lög fyrir árið 2020 voru sam­þykkt. 

Áætl­aður halli á árinu 2020 eða 269,2 millj­arðar króna og á næsta ári er hann áætl­aður 264,2 millj­arðar króna. Því stefnir í rúm­lega 533 millj­arða króna halla á tveimur árum. 

Hann verður ekki fjár­magn­aður með nið­ur­skurði eða nýjum skatta­hækk­un­um, heldur lán­um. Útgjöld munu hald­ast nán­ast þau sömu, fara úr 1.038 millj­örðum króna í 1.036 millj­arða króna.

Hverjir fá mest?

Fram­lög til heil­brigð­is­­mála verða aukin um 15,3 millj­­arða króna á árinu 2021 en þar vega þyngst fram­­kvæmdir við nýjan Lands­­spít­­ala. Alls er áætlað að tæp­lega sjö millj­­arðar króna fari í þær á árinu. Alls munu 268,8 millj­arðar króna fara til heil­brigð­is­ráðu­neyt­is­ins úr rík­is­sjóði.

Auglýsing

Þá stendur til að auka fram­lög til félags-, hús­næð­is- og trygg­inga­­mála umtals­vert. Þau eiga að vera tæp­lega 270 millj­arðar króna á næsta ári sem mun gera það að verkum að þetta verður dýr­asti mála­flokkur rík­is­ins á næsta ári. Alls er um að ræða 26 pró­sent af 1.038 millj­arða króna gjöldum rík­is­sjóðs. Helsta ástæða þess að þessi mála­flokkur mun kosta svona miklu meira á næsta ári er að gert er ráð fyrir að kostn­aður við atvinnu­leys­is­bætur hækki alls um 23 millj­arða króna og verði 50 millj­arðar króna.

Fram­lag úr rík­is­sjóði til þeirra mála­flokka sem heyra undir mennta- og menn­ing­ar­mála­ráðu­neytið er áætlað 112,2 millj­arðar króna. Þau aukast um tæp­lega sex millj­arða króna milli ára.  

Sam­tals er rúm­lega 60 pró­sent af öllum útgjöldum rík­is­sjóðs vegna vel­ferð­ar-, heil­brigð­is- og mennta­mála. 

Fram­lög til fjár­fest­inga á næsta ári verða 111 millj­arðar króna. Stærsta ein­staka verk­efnið sem fær fé er bygg­ing nýs Land­spít­ala en gert er ráð fyrir tæp­lega tólf millj­arða króna fram­lagi til fram­kvæmd­anna 2021.

Hver borgar fyrir tekjur rík­is­sjóðs?

Ein­stak­lingar og fyr­ir­tæki

Skatt­tekjur hríð­falla á næsta ári. Ein­stak­lingar munu greiða 180,7 millj­arða króna í tekju­skatt og skatt­greiðslu. Til við­bótar borgum við auð­vitað virð­is­auka­skatt af flestu. Á næsta ári er búist við að virð­is­auka­skatts­tekj­urnar verði 233 millj­arðar króna og að við fáum að greiða 5,3 millj­arða króna í við­bót í stimp­il­gjöld. 

Tekju­skattur sem leggst á lög­­að­ila, fyr­ir­tæki og félög lands­ins, er nú áætl­aður 55,2 millj­arðar króna og dregst umtals­vert sam­an. 

Landsmenn borga sjálfir fyrir rekstur ríkissjóðs með sköttunum sínum.
Mynd: Bára Huld Beck

Þá munu tekjur rík­is­sjóðs vegna trygg­inga­gjalds aukast um 7,4 millj­arða króna, þrátt fyrir að gjaldið verði lækkað enn á ný um 0,25 pró­sentu­stig um kom­andi ára­mót, og verða 94,5 millj­arðar króna á næsta ári.

Sér­stakt gjald á banka

Bankar lands­ins borga líka sinn skerf til rík­is­ins til við­bótar við hefð­bundnar skatt­greiðsl­ur, þótt það fram­lag fari lækk­andi. Þar skiptir mestu að áætlað er að banka­skatt­ur­inn verði lækk­aður niður í 0,145 pró­sent skulda í árs­lok 2020. Gjöld á banka­starf­semi munu skila 4,1 millj­arði króna í rík­is­kass­ann á næsta ári. 

Veiði­gjöld

Svo eru það auð­vitað útgerð­ar­fyr­ir­tæk­in. Þau borga rík­is­sjóði sér­stök veiði­gjöld umfram aðra skatta fyrir afnot af fisk­veið­i­­auð­lind­inni.

Ný lög um veið­i­­­gjald tóku gildi í byrjun árs 2019 þar sem meðal ann­­ars var settur nýr reikni­stofn sem bygg­ist á afkomu við veiðar hvers nytja­­stofns. Sam­kvæmt þeim er veið­i­­gjaldið nú ákveðið fyrir alm­an­aksár í stað fisk­veið­i­­ár­s. Sam­kvæmt fjár­lögum árs­ins 2021 eiga þau að vera tæp­lega 4,7 millj­arðar króna. Þau voru 11,3 millj­arðar króna árið 2018. 

Þeir sem eiga mikið af pen­ingum

Rúm­lega tvö þús­und fram­telj­endur afla að jafn­aði tæp­lega helm­ings allra fjár­magnstekna á Íslandi. Um er að ræða, að minnsta kosti að hluta, rík­asta eitt pró­sent lands­ins sem á nægi­lega mikið af við­bót­ar­pen­ingum sem það getur látið vinna fyrir sig til að skapa tekj­ur.

Auglýsing

Rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dóttur hækk­aði fjár­magnstekju­skatt í byrjun árs 2018, úr 20 í 22 pró­sent. For­sæt­is­ráð­herra sagði við það til­efni að þessi hækkun væri liður í því að gera skatt­kerfið rétt­lát­ara.

Þessi hækkun skilar þó ekki mik­illi tekju­aukn­ingu fyrir rík­is­sjóð. Í fjár­lögum yfir­stand­andi árs voru tekjur af fjár­magnstekju­skatti áætl­aðar 32,5 millj­arðar króna. Eftir kór­ónu­veiru­far­ald­ur­inn hefur þessi tekju­stofn hríð­lækk­að. Sam­kvæmt fjár­laga­frum­varpi árs­ins 2021 er áætlað að hann skili 25,2 millj­örðum króna. 

Bif­reið­ar­eig­end­ur, drykkju­fólk og þeir sem enn reykja

Alls eru áætl­aðar tekjur rík­is­sjóðs vegna elds­neyt­is­gjalda 32,2 millj­arðar króna á næsta ári. Þar munar mestu um olíu­gjaldið sem á að skila 11,5 millj­örðum króna, og hækkar um 2,5 pró­sent í byrjun næsta árs.

Reyk­ing­ar­fólk og áfeng­is­neyt­endur fá áfram sem áður að borga sinn skerf til sam­neysl­unn­ar. Álögur á það fólk hækka enn og aft­ur. Bæði áfeng­is- og tóbaks­gjöld munu hækka um 2,5 pró­sent um kom­andi ára­mót. Félag atvinnu­rek­enda reikn­aði það út nýverið að ríkið taki til sín 94,1 pró­sent af útsölu­verði vod­kaflösku í versl­unum Vín­búð­ar­inn­aro g 54,1 pró­sent af verði með­al­bjór­dós­ar. 

Allir sem flytja inn eða fram­­leiða áfengi hér á landi til sölu eða vinnslu ber að greiða áfeng­is­­gjald. Einnig þeir sem flytja áfengi með sér eða fá það sent erlendis frá, til eigin nota. Áfeng­is­­gjald er greitt af neyslu­hæfu áfengi sem í er meira en 2.25 pró­­sent af vín­­anda að rúm­­máli. Þessu gjaldi er velt út í verð­lag og því hækkar það útsölu­verð til neyt­enda. Tekjur rík­­is­­sjóðs vegna áfeng­is­gjalds voru 18,6 millj­­arðar króna árið 2018. Áætlað er að þær verði 20,3 millj­arðar króna á næsta ári, þrátt fyrir mik­inn sam­drátt í komu ferða­manna. 

Tóbaks­gjaldið mun skila rúm­lega sex millj­örðum króna í rík­is­kass­ann, sem er 150 millj­ónum krónum meira en reiknað var með að það myndi skila á þessu ári. 

Óreglu­legu tekj­urnar

Ríkið hefur alls­konar aðrar tekjur en skatta. Þar ber auð­vitað hæst arð­greiðslur frá fyr­ir­tækjum sem ríkið á, sér­stak­lega bönk­unum og Lands­virkj­un. Slíkar arð­greiðslur hafa hríð­fallið vegna kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins og munu skila 6,8 millj­örðum króna á næsta ári, eða 27 millj­örðum krónum minna en í ár. 

Reykingar taka ekki einungis toll af heilsunni. Þær verða sífellt meiri byrði á veskinu líka.
Mynd: EPA

Ríkið mun líka inn­heimta 6,4 millj­arða króna í vaxta­tekjur og 31,6 millj­arða króna vegna sölu á vöru og þjón­ustu. Inni í þeirri sölu eru til að mynda inn­rit­un­ar­gjöld í háskóla og fram­halds­skóla, sala á vega­bréfum og öku­skír­teinum og greidd gjöld vegna þing­lýs­inga, svo dæmi séu tek­in.

Þá fær ríkið um fjóra millj­arða króna vegna sekta og skaða­bóta og 692 millj­ónir króna vegna sölu á eign­um.

Hvað er nýtt?

Á meðal þess sem sem má telja til nýj­unga í fjár­laga­frum­varp­inu er að fram­lög til nýsköp­un­ar­mála á næsta ári verða 25 millj­arðar króna, og sem er fimm millj­arða króna hækkun sam­an­borið við áætluð útgjöld yfir­stand­andi árs. 

Útgjöld til upp­lýs­inga­tækni­verk­efna hækka líka um 2,3 millj­arða króna og munar þar mestu um fram­lög til verk­efna­stof­unnar Staf­rænt Íslands, sem vinnur að staf­væð­ingu opin­berrar þjón­ustu í sam­starfi við stofn­anir rík­is­ins.

Fram­lög til umhverf­is­mála verða nálægt 24 millj­örðum króna sem er aukn­ing um 3,4 millj­arða króna. Þyngst vega aukin fram­lög til ofan­flóða­sjóðs til að efla ofan­flóða­varn­ir.

Í fjár­laga­frum­varp­inu er líka gert ráð fyrir að frí­tekju­mark erfða­fjár­skatts verði hækkað en áætlað er að við það muni álögur minnka um 500 millj­ónir króna árið 2021 sem á að gagn­ast eigna­minni dán­ar­búum best. 

Þá er verið að leggja loka­hönd á end­ur­skoðun stofns fjár­magnstekju­skatts sem eiga að lækka tekjur rík­is­ins um 2,1 millj­arð króna. Það verður gert með því að miða skatt­stofn fjár­magnstekna við raun­á­vöxtun í stað nafn­á­vöxt­un­­ar.

Auglýsing

Nýir skatta­styrkir til að styðja við félög sem starfa í þágu almanna­heilla í svoköll­uðum þriðja geira munu kosta rík­is­sjóð um 2,1 millj­arð króna.

Þá stendur til að skera niður fram­lög til Rík­is­út­varps­ins um 310 millj­ónir króna og að nýta hluta inn­heimts útvarps­gjalds í annað en rekstur þess. 

Hvernig stendur rekstur rík­is­sjóðs?

Líkt og áður sagði verður hall­inn á tveimur árum 533 millj­arðar króna og gert er ráð fyrir að skuldir hins opin­bera fari úr því að vera 28 pró­sent af af vergri lands­fram­leiðslu í lok síð­asta árs í 48 pró­sent í lok árs 2021. Gert er ráð fyrir að skulda­söfn­unin stöðv­ist við 59 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu árið 2025 og taki svo að lækka á grunni hag­vaxt­ar­getu sem lögð er til grund­vallar í fjár­mála­á­ætlun rík­is­stjórn­ar­innar sem gildir út árið 2025. 

Til sam­an­burðar má nefna að hall­inn á rekstri rík­is­sjóðs árið 2008, þegar banka­hrunið varð, nam 194 millj­örðum króna. Mesti tekju­af­gangur sög­unnar varð árið 2016, þegar að tekjur voru 302 millj­örðum króna meiri en útgjöld í kjöl­far þess að slitabú fall­inna fjár­mála­fyr­ir­tækja greiddu stöð­ug­leika­fram­lög í rík­is­sjóð. 

Sú kreppa sem við erum að takast á við vegna kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins er því sögu­leg og dýpri en nútíma íslenskt sam­fé­lag hefur tekið á við áður.

Góðu frétt­irnar eru þær að hröð nið­ur­greiðsla skulda á síð­ustu árum, sér­stak­lega vegna greiðslna frá slita­búum föllnu bank­anna vegna stöð­ug­­leika­­samn­ing­anna sem und­ir­­rit­aðir voru árið 2015, gera ríkið vel í stakk búið til takast á við þessa stöðu. Þegar skuld­­irnar voru sem mest­­ar, árið 2011, voru þær 86 pró­­sent af lands­fram­­leiðslu en voru, líkt og áður sagði, 28 pró­sent í lok árs 2019. Til við­bótar við almenna skulda­nið­ur­greiðslu hefur rík­is­sjóður á und­an­förnum árum greitt háar fjár­hæðir inn á ófjár­magn­aðar líf­eyr­is­skuld­bind­ing­ar.

Nei­kvæðir raun­vextir og lækk­andi ávöxt­un­ar­krafa á rík­is­skulda­bréf gerir lán­tökur nú um stundir hins vegar eft­ir­sókn­ar­verða fyrir rík­is­sjóð. Pen­ingar eru nán­ast eins ódýrir og þeir verða. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar