Atvinnuleysi er samfélagslegt mein og ríkið ætti að bregðast við aukningu þess í yfirstandandi kreppu með sértækum aðgerðum. Þetta er sameiginlegt álit sjö sérfræðinga sem skrifað hafa í vikuritinu Vísbendingu frá því að kórónuveirufaraldurinn náði hingað til lands í mars síðastliðnum.
Ýmsir möguleikar hafa verið nefndir, þar á meðal hefur því verið velt upp hvort ríkið eigi að tryggja lágmarksframboð af lausum störfum eða hvort Seðlabankinn eigi að taka tillit til atvinnuleysis í vaxtaákvörðun sinni. Hins vegar eru greinarhöfundar ósammála um það hvort hækka eigi bætur í grunnkerfi atvinnuleysisbóta.
Samfélagsmein
Í byrjun apríl skrifaði Guðrún Johnsen, doktor í hagfræði og efnahagsráðgjafi VR, um áhrif kreppunnar sem þá var yfirvofandi á vinnumarkaðnum. Hún beindi sérstaklega sjónum sínum að félagslegum afleiðingum atvinnuleysis, sem birtast í aukinni tíðni þunglyndis og alvarlegs kvíða, sem og hærri dánartíðni. Þessi neikvæðu áhrif dreifast svo einnig til fjölskyldumeðlima þeirra sem misst hafa vinnuna, til dæmis eru börn atvinnulausra ólíklegri til að mennta sig.
Daði Már Kristófersson hagfræðiprófessor við HÍ minntist einnig á félagslegar afleiðingar atvinnuleysis í grein sinni sem birtist í Vísbendingu í síðasta mánuði. Þar segir Daði atvinnuleysi vera samfélagsmein og bætti við að neikvæð áhrif þess væru vel þekkt og rannsökuð.
Langvinn áhrif fyrir launþega, skemmri fyrir vinnuveitendur
Samkvæmt Guðrúnu eru áhrif kreppu á launþega sem missa vinnuna mun langlífari en efnahagsleg áhrif hennar á vinnuveitendur. Á meðan atvinnurekendur geta rétt úr kútnum tiltölulega fljótt eftir að kreppan ríður yfir má gæta neikvæðra tekjuáhrifa meðal þeirra sem misst hafa vinnuna árum eða jafnvel áratugum saman.
Katrín Ólafsdóttir, hagfræðilektor við HR og meðlimur peningastefnunefndar Seðlabankans, benti líka á að það gæti teki langan tíma fyrir atvinnuleysið sjálft að lækka á nýjan leik í grein sem hún skrifaði í maí síðastliðnum. Samkvæmt henni munu mörg starfanna sem tapast hafa í þessari kreppu ekki koma aftur í sömu mynd og því muni ný störf ekki finnast strax.
Sértækar aðgerðir nauðsynlegar
Að mati Guðrúnar er mikilvægt að hið opinbera einbeiti sér að sértækum aðgerðum sem beinast að þeim sem á mestri hjálp þurfa að halda í stað almennra aðgerða. Mikilvægt sé að halda sambandi vinnuveitenda og launþega, auk þess sem atvinnuleysisbætur ættu að verða hækkaðar.
Anna Hrefna Ingimundardóttir formaður efnahagssviðs SA tók undir með Guðrúnu í að ráðast ætti í sértækar aðgerðir á vinnumarkaði til að viðhalda sambandi vinnuveitenda og launþega í grein sem hún skrifaði í Vísbendingu í ágúst. Hins vegar er hún ósammála um hækkun atvinnuleysisbóta, sem hún telur geta leitt til aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð, verðbólgu og auknu atvinnuleysi.
Daði Már Kristófersson hagfræðiprófessor við HÍ og varaformaður Viðreisnar kom þó hækkun bóta til varnar og benti á að fjöldi rannsókna sýndu fram á að meintu neikvæðu áhrifin sem gætu fylgt henni eru minni á samdráttartímum.
Hann var hins vegar sama sinnis og Guðrún og Anna Hrefna um að beita eigi tímabundnum sértækum aðgerðum til að sporna gegn áhrifum yfirstandandi kreppu.
Framlengja tekjutengingu
Sumar af tillögum höfundanna hafa nú þegar verið framkvæmdar af ríkisstjórninni. Í grein eftir Guðrúnu sem birtist í Vísbendingu um miðjan júní mældi hún með því að tímabil hlutabótaleiðarinnar og tekjutengdra atvinnuleysisbóta yrði framlengt til að koma í veg fyrir greiðsluvanda íslenskra heimila. Anna Hrefna og Daði Már tóku í sama streng og sögðu þau bæði sterk rök hníga að því að framlengja hlutabótaleiðina, sem kemur í veg fyrir enn frekari uppsagnir.
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra lagði svo fram tillögur um framlengingu hlutabótaleiðarinnar og tekjutengingu atvinnuleysisbóta fyrir ríkisstjórnina, sem samþykktu þær í lok ágústmánaðar.
Hlutverk seðlabanka
Ásgeir Brynjar Torfason doktor í fjármálum velti því upp hvort seðlabankar ættu að líta í meiri mæli til atvinnustigs heldur en verðstöðugleika þegar vaxtastig er ákvarðað í grein sem hann skrifaði í Vísbendingu í maí. Því til stuðnings nefndi hann að atvinnuleysi geti verið dýrkeyptara og verra fyrir samfélagið heldur en lítils háttar sveiflu í verðlagi.
Auk þess sagði hann að meiri líkur væru á verðhjöðnun til skamms tíma heldur en verðbólgu vegna verðþróunar í nágrannaríkjum okkar. Ásgeir benti líka á að tengingin milli launahækkana innanlands og verðbólgu væru óljós, svo mögulegt væri að laun gætu hækkað án þess að verðstöðugleika væri ógnað.
Atvinnuframboðstrygging
Önnur tillaga kom frá Ólafi Margeirssyni doktor í hagfræði, sem færði rök fyrir því að ríkið ætti mögulega að veita svokallaða atvinnuframboðstryggingu. Samkvæmt honum fæli slík trygging í sér að hið opinbera tryggi nægt framboð af atvinnumöguleikum hverju sinni. Hana mætti bera saman við almenna heilbrigðistryggingu, sem tryggi lágmarksframboð af heilbrigðisþjónustu, eða menntakerfið, sem tryggi lágmarksframboð af menntun.
Með slíkri tryggingu yrði séð til þess að verðmætasköpun ætti sér stað þótt eftirspurn eftir vinnu væri lítil meðal einkafyrirtækja. Í stað þess að atvinnulausir eyði tímanum sínum í atvinnuleit eða hverfi af vinnumarkaði gætu þeir eflt hæfni sína og lagt eitthvað af mörkum til samfélagsins með því að mæta í vinnu.
Að mati Ólafs gæti þetta komið í veg fyrir félagslegu vandamálin sem fylgja atvinnuleysinu, auk þess sem komið yrði í veg fyrir undirboð á vinnumarkaði og misnotkun á starfsfólki, sem á sér gjarnan stað þegar lítið er um örugg störf.
Ekki reist í sömu mynd
Til viðbótar við skammtímaaðgerðir til að sporna við auknu atvinnuleysi kallaði Gylfi Zoega hagfræðiprófessor við HÍ og meðlimur peningastefnunefndar Seðlabankans eftir því að skapa þurfi umhverfi sem býr til vel launuð störf hér á landi í grein sem birtist í Vísbendingu í maí.
Samkvæmt Gylfa glímdi ferðaþjónustan, sem lent hefur verst allra atvinnugreina í kreppunni, við of háan kostnað starfsmanna hennar á Íslandi áður ein veiran barst hingað. Kreppan hafi svo afhjúpað veikleika þess að vera með láglaunagrein eins og ferðaþjónustuna í hálaunalandi.
„Eftir misheppnaða einkavæðingu banka og mikinn vöxt ferðaþjónustu er nú lag að skipuleggja fram í tímann hvaða greinum eigi að hlúa að til þess að skapa vel launuð störf í framtíðinni. Endurreisn ferðaþjónustu í sömu mynd og hún hafði fyrir daga farsóttarinnar er varla æskileg,“ skrifaði Gylfi.