Undir lok janúarmánaðar þegar kórónuveiran var farin að valda töluverðum usla í Kína vöruðu sérfræðingar við því að hún gæti haft alvarlegar afleiðingar á efnahagslífið þar í landi. Hlutabréfamarkaðir í Austur-Asíu hrundu þar sem fjárfestar bjuggust við miklum samdrætti í efnahagi Kínverja ef ekki væri hægt að stöðva útbreiðslu veirunnar.
Nú er málunum öfugt háttað. Á meðan efnahagskreppa ríkir á heimsvísu vegna faraldursins er spáð öruggum hagvexti í Kína í ár. Þökk sé harkalegum sóttvarnaraðgerðum, sveigjanleika í framleiðslu og aukinni fjárfestingu hins opinbera hefur landið náð að snúa útbreiðslu kórónuveirunnar sér í hag, þvert á væntingar í byrjun árs.
Sér á báti
Í hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), sem kom út í síðustu viku, kemur sérstaða Kína glögglega fram, en þar er spáð því að landsframleiðslan muni aukast um tvö prósent á þessu ári, eftir að tekið er tillit til verðbólgu. Þetta eru mun jákvæðari tölur en mælast í flestum löndum heimsins, en AGS spáir því að heimsframleiðsla dragist saman um rúm fjögur prósent í ár.
Á mynd hér að neðan sést hvernig kínverskar hagtölur stinga í stúf við önnur af helstu hagkerfum heimsins, þar sem búist er við fjögurra til ellefu prósenta samdrætti á árinu. Á næsta ári er svo búist við að landsframleiðsla í Kína muni aukast um rúm átta prósent, sem er einnig töluvert meiri hagvöxtur en spáð er annars staðar.
Fyrr í dag birtust svo hagvaxtartölur fyrir nýliðinn ársfjórðung í Kína, þar sem hagvöxtur nam tæpum fimm prósentum á ársgrundvelli. Það eru svipaðar hagvaxtartölur og mældust í fyrra, áður en veiran náði að breiða sér út um allan heim.
Harkalegar aðgerðir
Í skýrslu AGS sem og umfjöllun New York Times um málið eru nefndar margar ástæður á bak við velgengni Kínverja. Á meðal þeirra eru harkalegar og umdeildar sóttvarnaraðgerðir sem gerðu þeim kleift að ná tökum á útbreiðslu veirunnar tiltölulega fljótt. Á meðal þessara aðgerða voru ströng útgöngubönn sem sett voru á í ýmsum borgum, auk smitrakningar í gegnum farsímanotkun og fjöldaskimanir í kjölfar lítilla hópsmita.
Forskot á hin löndin
Með því að koma böndum á kórónuveiruna tiltölulega snemma var kínverskt efnahagslíf komið aftur í tiltölulega eðlilegt horf mun fyrr en í Evrópu eða Bandaríkjunum, þar sem fyrsta bylgja faraldursins skall á á vormánuðum. Með þessu gátu Kínverjar brugðist við stóraukinni eftirspurn eftir ýmsum vörum, til dæmis heilbrigðisbúnaði og raftækjum fyrir heimavinnu, með mun skjótari hætti en önnur iðnríki sem sættu mörg hver framleiðslutakmörkunum sökum harðra sóttvarnaraðgerða.
Með sveigjanlegri framleiðslu náðu Kínverjar því að koma í veg fyrir mikið fall í útflutningi, sem nemur um það bil 17 prósentum af vergri landsframleiðslu þeirra. Á sama tíma hefur viðskiptaafgangur landsins aukist, þar sem innflutningur hefur ekki aukist jafnhratt og útflutningur.
Grettistak í fjárfestingu
Kínversk yfirvöld voru meðvituð um forskotið sem útbreiðsla veirunnar gaf þeim og ákváðu í mars að nýta það til að greiða fyrir erlendri fjárfestingu í landinu, samkvæmt skýrslu frá ráðgjafafyrirtækinu Horizon. Einnig réðust þarlend stjórnvöld í miklar innviðaframkvæmdir í landinu í sumar, sem voru fjármagnaðar með lánum. Að mati AGS er aukningin í fjárfestingum aðalástæða þess hversu fljótt kínverskt efnahagslíf komst á fullt skrið aftur.
Til viðbótar við aukna fjárfestingu hafa kínversk stjórnvöld ráðist í ýmsar aðrar efnahagsaðgerðir til þess að koma hjólum efnahagslífsins aftur í gang, til að mynda með skattaafsláttum, lánum með ríkisábyrgð og lágum vöxtum.
Einkaneyslan eykst
Hröðum viðsnúningi í Kína má því að mestu leyti þakka miklum útflutningi og efnahagsaðgerðum hins opinbera. Framan af hafði einkaneyslan þó staðið á sér þar í landi, en samkvæmt frétt New York Times hefur hún einnig verið að sækja í sig veðrið á síðustu vikum. Hins vegar hefur aukningin verið meðal efnaðra, á meðan neysla kínversku millistéttarinnar hefur verið seinni að taka við sér.