Á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 sóttu 514 einstaklingar um alþjóðlega vernd á Íslandi. Haldist sú þróun sem verið hefur að meðaltali á árinu áfram mun fjöldi umsókna verða sá minnsti í ár frá árinu 2015, þegar þær voru 354 talsins.
Kórónuveirufaraldurinn spilar þar hlutverk enda sóttu einungis tíu manns um vernd hérlendis í apríl og maí, á meðan að Ísland var að mestu lokað fyrir umheiminum vegna fyrstu bylgju hans sem gekk þá yfir. Jafnvel þótt að fjöldi umsækjenda yrði sá sami og í september, þegar 80 sóttu um vernd, hvern þeirra mánaða sem eftir lifa ársins þá myndi fjöldi umsækjenda samt áfram verða sá lægsti síðan 2015.
Þetta má lesa út úr tölum sem verndarsvið Útlendingastofnunar birtir mánaðarlega.
Flestir sóttu um vernd komu frá Venesúela en í gildi eru tilmæli frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um það að þeir sem komi þaðan séu í þörf fyrir vernd. Alls hafa 102 einstaklingar þaðan sótt um vernd á Íslandi það sem af er ári, eða um 20 prósent allra umsækjenda. Næst flestir koma frá Írak, en þeir sem koma þaðan og óska eftir hæli hérlendis fá flestir vernd. Alls hafa 79 Írakar sótt eftir vernd á Íslandi á fyrstu níu mánuðum ársins 2020. Það þýðir að 35 prósent allra umsækjenda koma frá þessum tveimur löndum.
Mikil fjölgun umsókna árið 2016
Sprenging varð í umsóknum um vernd á Íslandi á árinu 2016, þegar þeim fjölgaði úr 354 í 1.132. Það er enn metár í fjölda umsókna. Þrátt fyrir að fjöldi umsókna það árið hefði aukist svona mikið fengu einungis 111 flóttamenn vernd hérlendis á því.
Staðan var svipuð árið eftir, 2017. Þá voru umsóknirnar 1.096 og 135 manns fengu alþjóðlega vernd. Stór hluti þess hóps sem sóttist eftir vernd hérlendis á þessu ári voru frá ríkjum sem flokkuð eru sem örugg, og þá sérstaklega frá Albaníu (þaðan sem 290 manns komu og sóttu um vernd) og Georgíu (þaðan sem 276 komu og sóttu um vernd). Einungis þrír úr hvorum hópnum fyrir sig hlaut vernd hérlendis á árinu 2017.
Á árinu 2018 hélt sú þróun áfram að færri, alls 800, umsóknir bárust um vernd en fleirum, alls 160, var veitt slík.
Í fyrra voru umsóknirnar 867 en 376 fengu jákvæða niðurstöðu í efnismeðferð hjá Útlendingastofnun.
Kostnaður ríkisins stöðugur milli ára
Vert er að taka fram að á hverju ári fyrir sig hefur einnig nokkur fjöldi fengið alþjóðlega vernd eða mannúðarleyfi eftir meðferð mála hjá kærunefnd útlendingamála. Það sem af er árinu 2020 hafa 52 einstaklingar hlotið slíka vernd.
Kostnaður ríkisins við það sem er kallað „útlendingamál“ í ár er áætlaður um fjórir milljarðar króna. Það er mjög svipuð upphæð og kostnaðurinn hefur verið undanfarin ár.
Í fjárlagafrumvarpi ársins 2021 er reiknað með að kostnaðurinn verði rétt undir fjórum milljörðum króna á næsta ári og muni haldast á þeim slóðum út árið 2023.
Aldrei fleiri kvótaflóttamenn
Til viðbótar tekur Ísland við svokölluðum kvótaflóttamönnum. Það er sá hópur sem Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna óskar eftir að þjóðir heims taki á móti vegna stríðsástands í heimalandi þeirra.
Íslendingar hafa tekið á móti kvótaflóttamönnum frá 13 löndum: Ungverjalandi, Júgóslavíu, Víetnam, Póllandi, Krajina, Kosovo, Kólumbíu, Írak, Afganistan, Simbabve, Úganda, Kamerún og Sýrlandi. Meðal íslenskra sveitarfélaga sem tekið hafa á móti flóttafólki eru Ísafjörður, Hornafjörður, Blönduós, Fjarðarbyggð, Dalvík, Siglufjörður, Akureyri, Reykjanesbær, Akranes, Hafnarfjörður, Kópavogur og Reykjavík. Nýlega bættist Garðabær, Seltjarnarnes og Mosfellsbær við.
Ísland tók á móti 765 kvótaflóttamönnum frá árinu 1956 til loka árs 2019. Á 63 árum tókum við því á móti um tólf á ári að meðaltali. Langmest aukningin hefur verið á allra síðustu árum og í ár átti að taka við 85 alls, sem er metfjöldi. Það met var bætt enn frekar í september þegar ríkisstjórn Íslands samþykkti að Ísland taki á móti alls 15 flóttamönnum frá Lesbos á Grikklandi, með áherslu á sýrlenskar fjölskyldur í viðkvæmri stöðu. Því fór fjöldi kvótaflóttamanna sem tekið var á móti hérlendis í fyrsta sinn í þriggja stafa tölu á árinu 2020.