Allir stjórnarflokkarnir þrír myndu fá sína verstu niðurstöðu í kosningum frá upphafi ef kosið væri í dag, miðað við stöðu mála samkvæmt síðustu könnun MMR. Vinstri græn eru sá flokkur sem tapar langmest þeirra, en fylgi flokksins er rúmlega helmingur af því sem kom upp úr kjörkössunum haustið 2017.
Þrír frjálslyndu flokkarnir í stjórnarandstöðu eru þeir flokkar sem bæta mestu við sig af fylgi á kjörtímabilinu, og þeir skipta þeirri fylgisaukningu nokkuð bróðurlega á milli sín. Samt blasir við að þeir þurfa að minnsta kosti einn flokk með sér ef þeir ætla að mynda ríkisstjórn.
Svo eru það þeir sem standa í stað, eða eru jafnvel ekki komnir á fullu af stað.
Kjarninn rýnir í hvernig stjórnmálaflokkunum sem mældir eru í könnunum MMR hefur reytt af frá kosningunum í október 2017 og fram til dagsins í dag.
Þeir sem hafa tapað fylgi
Vinstri græn -8,6 prósentustig
Vinstrihreyfingin grænt framboð var stofnuð árið 1999 og bauð fyrst fram í þingkosningunum það sama ár. Þá fékk flokkurinn 9,1 prósent atkvæða undir formennsku Steingríms J. Sigfússonar, sem þótti mikil kosningasigur, enda voru þetta fyrstu kosningarnar sem sameinað framboð vinstrimanna á Íslandi, Samfylkingin, bauð fram líka. Fjórum árum síðar voru Vinstri græn á svipuðum slóðum og fengu 8,8 prósent. Það er enn þann dag í dag versta niðurstaða flokksins í kosningum. Sú besta kom eftir hrunið, árið 2009, þegar 21,7 prósent landsmanna kusu Vinstri græn sem skilaði þeim í fyrstu tveggja flokka meirihlutastjórn vinstriflokka í Íslandssögunni. Helmingur þeirra atkvæða hvarf í næstu kosningum á eftir. Árin 2016 og 2017, undir formennsku Katrínar Jakobsdóttur, styrktist flokkurinn á ný og í síðari kosningunum fékk hann 16,9 prósent atkvæða.
Eftir þær kosningar ákváðu Vinstri græn að mynda umdeilda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, sem fór mjög öfugt ofan í margt stuðningsfólk flokksins sem litið hefur á þá flokka sem helstu pólitísku andstæðinga þeirrar stefnu sem Vinstri græn hafa staðið fyrir.
Sjálfstæðisflokkurinn -3,3 prósentustig
Sjálfstæðisflokkurinn fékk 25,2 prósent atkvæða í kosningunum haustið 2017. Það var næst versta útkoma hans frá upphafi, en flokkurinn fékk áratugum saman að jafnaði 35 til 40 prósent atkvæða.
Eina skiptið sem þessi þaulsetnasti valdaflokkur landsins hafði fengið minna upp úr kjörkössunum var í vorkosningunum 2009, nokkrum mánuðum eftir bankahrunið. Þá var fylgið 23,7 prósent og þótti afhroð, enda hafði Sjálfstæðisflokkurinn fengið 36,6 prósent atkvæða í kosningunum sem haldnar voru tveimur árum áður.
Besta eftirhrunsniðurstaða stærsta flokks landsins kom í kosningunum 2016, þegar 29 prósent landsmanna settu X við D.
Það sem af er kjörtímabili hefur Sjálfstæðisflokkurinn að mestu verið að mælast undir kjörfylgi í könnunum MMR. Lægst mældist fylgi flokksins í nóvember í fyrra, 18,1 prósent. Hæst reis það fyrstu vikurnar eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á þegar það fór í 27,4 prósent.
Í nýjustu könnun MMR, sem birt var ellefu mánuðum fyrir næstu kosningar, mældist fylgið 21,9 prósent. Miðað við þá stöðu hefur Sjálfstæðisflokkurinn tapað 3,3 prósentustigum á kjörtímabilinu og stefnir í síðan verstu niðurstöðu í sögunni, ef kannanir MMR standast.
Flokkur fólksins - 3,1 prósentustig
Flokkur fólksins, undir forystu Ingu Sæland, komst inn á þing með eftirminnilegum hætti á lokametrum síðustu kosningabaráttu. Þar skipti lykilmáli að Inga komst við og flutti mál sitt af mikilli tilfinningu í síðustu leiðtogaumræðum þeirrar baráttu. Flokkurinn hafði mælst með 4,4 prósent fylgi í síðustu könnun MMR, sem birt var daginn fyrir kosningar, en fékk á endanum 6,9 prósent fylgi og fjóra þingmenn. Tveir þeirra voru reknir út Flokki fólksins eftir Klausturmálið, og gengu til liðs við Miðflokkinn.
Flokkurinn hefur hefur einungis einu sinni mælst með yfir fimm prósent fylgi síðastliðið ár í könnunum MMR og í nýjustu könnun fyrirtækisins mælist fylgið 3,8 prósent. Það er afar ósennilegt að slík niðurstaða myndi skila flokknum inn á þing.
Þeir sem hafa bætt við sig
Píratar +4,3 prósent
Voru stofnaðir árið 2012. í stafni á þeim tíma voru Birgitta Jónsdóttir, sem hafði verið kjörin á þing fyrir Borgarahreyfinguna 2009, og Smári McCarthy. Í fyrstu þingkosningum Pírata 2013 rétt skreið flokkurinn á þing með 5,1 prósent atkvæða. Á árinu 2015 fór að bera á ótrúlegri fylgisaukningu flokksins og frá febrúar á því ári fram í mars 2016 raun fylgi Pírata í könnunum MMR úr 12,8 prósent í 38,3 prósent. Þeim gekk hins vegar illa að halda því fylgi og þegar kosið var haustið 2016 fékk flokkurinn á endanum 14,5 prósent. Það var hans besti árangur, og næstum þreföldun á fylgi, en var samt talið vera mikið vonbrigði eftir hinn mikla gang nokkrum mánuðum fyrr.
Á yfirstandandi kjörtímabili hafa Píratar oftast nær verið að mælast sem þriðji stærsti flokkur landsins. Fylgið mældist minnst í október í fyrra hjá MMR, þegar 8,8 prósent sögðust ætla að kjósa flokkinn. Hæst hefur það farið í 15,4 prósent í lok júlí síðastliðins. Því er lægsta fylgið sem Píratar hafa mælst með á kjörtímabilinu nánast það sama og flokkurinn fékk í síðustu kosningum.
Nýjasta könnun MMR sýnir flokkinn með 13,5 prósent fylgi, eða 4,3 prósentustigum meira en Píratar fengu 2017. Það þýðir að enginn annar flokkur hefur bætt við sig jafn miklu fylgi á kjörtímabilinu.
Samfylkingin +3,1 prósentustig
Við stofnun stefndi Samfylkingin að því að verða alvöru mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Í fyrstu kosningunum sem hún bauð fram, árið 1999, fékk hún 26,8 prósent atkvæða. Það var samt sem áður einungis ⅔ af því sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk. Fjórum árum síðar fékk Samfylkingin sína bestu kosningu, þegar 31 prósent landsmanna kusu flokkinn undir forystu Össurar Skarphéðinssonar. Í þeim kosningum munaði einungis 4.999 atkvæðum á Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum.
Flokkurinn var á svipuðum slóðum árin 2007 og 2009, þegar hann rataði í ríkisstjórn eftir kosningar. 2013 varð hins vegar algjört hrun. Samfylkingin tapaði 16,9 prósentustigum milli kosninga og fékk 12,9 prósent. Það er mesta tap flokks milli kosninga í Íslandssögunni. Staðan versnaði enn 2016 þegar Samfylkingin rétt hékk inni á þingi með 5,7 prósent atkvæða og einn kjördæmakjörinn þingmann, Loga Einarsson núverandi flokksformann. Kosningarnar 2017 hífðu flokkinn aðeins upp og gerðu að þriðja stærsta flokki landsins, en fylgið var samt sem áður einungis 12,1 prósent.
Á þessu kjörtímabili hefur Samfylkingin oftast verið að mælast næst stærsti flokkur landsins í könnunum MMR. Lægst seig fylgið í 11,5 prósent í febrúar 2018 en hæst fór það í 19,8 prósent í september sama ár. Nú mælist það 15,2 prósent sem myndi þýða að flokkurinn bætti við sig 3,1 prósentustigi ef kosið yrði í dag.
Viðreisn +3,0 prósentustig
Viðreisn bauð fyrst fram fyrir kosningarnar 2016, undir formennsku Benedikts Jóhannessonar. Uppistaðan í flokknum, sem hafði verið formlega stofnaður fyr á því ári, voru einstaklingar sem yfirgáfu Sjálfstæðisflokkinn í kjölfar þess að ríkisstjórn sem hann sat í afturkallaði aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Einnig var þar þó að finna fólk sem hafði verið virkt í Samfylkingunni eða hafði ekki starfað í stjórnmálaflokkum áður.
Í fyrstu kosningunum fékk flokkurinn 10,5 prósent atkvæða sem þótti mikill sigur, enda nálægt því mesta sem flokkur í fyrstu þingkosningum sínum hafði nokkru sinni náð. Viðreisn fór á endanum í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Bjartri framtíð en sú varð skammlífasta meirihlutastjórn lýðveldissögunnar og sprakk í september 2017. Í kosningunum sem fylgdu í kjölfarið fékk Viðreisn 6,7 prósent atkvæða undir formennsku Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Það þótti varnarsigur, enda mældist fylgi flokksins 3,6 prósent rúmum tveimur vikum fyrir kosningar og raunveruleg hætta á að hann næði ekki inn á þing.
Á þessum kjörtímabili hefur fylgi Viðreisnar verið nokkuð stöðugt, sérstaklega á síðari hluta þess. Minnst mældist það snemma árs 2018, 5,8 prósent. Mest mældist fylgið í janúar síðastliðnum, 12,4 prósent.
Í nýjustu könnun MMR sögðust 9,7 prósent kjósenda ætla að kjósa Viðreisn sem þýðir að flokkurinn hefur bætt við sig þremur prósentustigum á kjörtímabilinu.
Þeir sem standa nánast í stað
Miðflokkurinn +0.7 prósent
Miðflokkurin var stofnaður skömmu fyrir síðustu kosningar og náði besta árangri sem nokkur flokkur hefur náð í fyrstu framboðstilraun til Alþingis, þegar hann fékk 10,9 prósent atkvæða. Flokkurinn var stofnaður í kringum Sigmund Davíð Gunnlaugsson, sem hafði hrakist úr forsætisráðherrastóli ári áður og svo tapað formannskosningum í Framsóknarflokknum.
Miðflokkurinn hefur átt stormasamt fyrsta kjörtímabil, þar sem hann hefur bæði unnið sigra og gengið í gegnum miklar áskoranir. Í sveitarstjórnarkosningunum 2018 gekk flokknum vel víða, náði inn tíu fulltrúum í sveitarstjórnir og myndaði meirihluta í Árborg með Samfylkingu, Framsókn og Á-lista. Miðflokknum tókst líka að vekja mikla athygli, og auka fylgi sitt, þegar umræða um þriðja orkupakkann svokallaða stóð sem hæst, og þingmenn flokksins lögðust í fordæmalaust málþóf til að tefja fyrir innleiðingu hans í íslensk lög. Fyrir um ári síðan var flokkurinn að mælast með sitt mesta fylgi í könnunum MMR, eða 16,8 prósent.
Á hinn bóginn varð Klausturmálið flokknum til mikils álitshnekkis. Eftir að það kom upp í desember 2018 sökk fylgi Miðflokksins í 5,9 prósent.
Í nýjustu könnun MMR mælist Miðflokkurinn með 11,6 prósent, eða rétt yfir því sem flokkurinn fékk haustið 2017.
Framsóknarflokkurinn -0,5 prósent
Hinn hefðbundni valdaflokkur landsins, Framsóknarflokkurinn, hefur gengið í gegnum ákveðna rússíbanareið síðustu árin. Hann beið afhroð í kosningum 2007 eftir 12 ára ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn, og fékk þá 11,7 prósent undir formennsku Jóns Sigurðssonar. Í kosningunum 2009 var nýr og ungur formaður mættur í brúnna, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem fór með flokkinn í aðrar áttir en hann hafði verið í. Undir formennsku hans vann flokkurinn svo mikinn kosningasigur 2013 þegar hann fékk 24,4 prósent atkvæða. Það var besta niðurstaða Framsóknar frá árinu 1979. Sigmundur Davíð varð forsætisráðherra og sat sem slíkur fram á vormánuði 2016, þegar hann var knúinn til að segja af sér vegna Wintris-málsins. Síðar um haustið vann svo Sigurður Ingi Jóhannsson hann í blóðugum formannsslag.
Uppskera Framsóknar í kosningunum 2016 (11,5 prósent) og 2017 (10,7 prósent) var ekki beysin. Um tvær verstu niðurstöður Framsóknar frá stofnun var að ræða. Í síðari kosningunum verður þó að taka tillit til þess að Sigmundur Davíð klauf sig úr flokknum í aðdraganda þeirra og stofnaði Miðflokkinn. Því þótti niðurstaðan ásættanlegur varnarsigur.
Kannanir MMR hafa mest megnis sýnt fallandi fylgi hjá Framsókn á þessu kjörtímabili, ef tímabilið eftir að Klausturmálið svokallaða kom upp er undanskilið. Þá rauk fylgið um tíma upp í 13,5 prósent. Lægst mældist fylgið 6,1 prósent í júní síðastliðnum en það hefur aukist umtalsvert síðustu mánuði, og er nú að mælast 10,2 prósent, eða rétt undir kjörfylgi.
Þeir sem voru ekki með síðast
Sósíalistaflokkur Íslands + 4,6 prósent
Sósíalistaflokkur Íslands hefur verið hluti af mælingum MMR frá því í febrúar í fyrra, enda sýndi flokkurinn skýrt pólitískt erindi með því að ná inn fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur í borgarstjórnarkosningum 2018. Sósíalistar hafa þegar ákveðið að bjóða fram í kosningunum á næsta ári en ekkert liggur fyrir hvernig listar flokksins verða mannaðir. Fylgi hans hefur oftast verið að mælast rétt undir fimm prósentum í könnunum MMR undanfarið og var 4,6 prósent í síðustu könnun fyrirtækisins. Það er ekki útilokað að slíkt fylgi gæti skilað Sósíalistaflokknum kjördæmakjörnum þingmönnum, en það myndi ekki duga til að fá uppbótarþingmenn, enda þurfa flokkar að fá yfir fimm prósent fylgi til þess.