Fjölþáttaógnir (e. hybrid threats) og fjölþáttahernaður (e. hybrid warfare) verða sífellt meira áberandi og eru gjarnan nefnd í sömu andrá og netógnir (e. cyber threats). Fjölþáttahernaður hefur verið stundaður frá fyrstu tíð en internetið hefur gjörbreytt aðstæðum og gert fleirum mögulegt að stunda slíkan hernað og valda slíkum ógnum á fjölbreyttari máta, m.a. með dreifingu falsfrétta. Nú er kosningabaráttan fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum í algleymingi og svo virðist að erlend ríki, sér í lagi Rússland, gangi lengra í því að reyna að hafa áhrif á niðurstöður þeirra en nokkru sinni fyrr. Spyrja má í því samhengi: Hver er staða þessara mála á Íslandi, hefur eitthvað sambærilegt verið að gerast eða gæti gerst hér á landi og eru stjórnvöld að gera eitthvað til að efla viðbúnað vegna fjölþáttaógna?
Hvað eru fjölþáttaógnir?
Mikilvægt er að greina á milli fjölþáttaógna og netógna því netið er bara eitt af tækjunum sem beitt er í nútíma fjölþáttahernaði; til að brjótast inn í hin ýmsu kerfi, spilla með veirum eða dreifa áróðri og fölsuðum upplýsingum. Með sífellt þróaðri tækni má ná til þeirra aðila og hópa sem áróðurinn beinist að með beinskeyttari aðferðum sem áður voru óhugsandi. Fjölþáttahernaður getur síðan auðvitað einnig beinst að samskiptakerfunum sjálfum sem og öðrum kerfum samfélagsins.
Fjölþáttahernaður hefur í raun verið til frá upphafi vega, t.d. í formi njósna, áróðurs, blekkinga og skemmdarverka, ýmist til að grafa undan ríkjandi stjórnvöldum í landi andstæðinga, eða ná undirtökum í átökum og völdum í eigin landi. Þannig má sá fræjum tortryggni, magna upp óvissu um hvað sé satt og rétt og raska þannig pólitískri samheldni. Það getur síðan torveldað ákvarðanatöku sem aftur getur hindrað rétt viðbrögð við hættuástandi eða árásum. Ógnirnar þurfa ekki endilega að vera beinar eða virðast hættulegar og kunna að líta vel út á yfirborðinu T.d. eins og efnahagslegur stuðningur, sem í raun gæti falið í sér þvinganir þar sem eitthvað hangir á spýtunni. Kjarni málsins er að fjölþáttaógnir útmá línur á́ milli friðar, hættuástands og stríðs sem gerir þær viðsjárverðari og hættulegri en sýnist í fyrstu.
Stjórnmálin á tímum upplýsingaóreiðunnar
Svo virðist sem hið gríðarlega upplýsingaflæði sem Internetið býður upp á hafi gefið því sem kalla mætti staðleysustjórnmál aukið vægi, þar sem fyrst og fremst er höfðað til tilfinninga og skautað framhjá staðreyndum og smáatriðum. Gott dæmi um þetta er slagorðið „Make America Great Again“. Þar er vísað til fortíðar sem böðuð er dýrðarljóma alls þess góða sem var en ekki minnst á allt það slæma sem sem einnig var til staðar.
Tilfinningar eru útgangspunktur á kostnað álits sérfræðinga, sem gjarnan er vísað er á bug með þeim rökum að þeir séu einangraðir í sínum fræðaheimi. Þetta andrúmsloft nærir það sem kallast staðfestingarskekkja, sem er sú tilhneiging að leita einungis skýringa sem styðja fyrirframgefnar ályktanir. Þegar fólk hefur meðtekið rangar upplýsingar verður því eðlilega erfitt að leiðrétta þær, sérstaklega ef þessar röngu upplýsingar styðja sjónarmið sem þegar hefur verið haldið fram. Þetta er sá jarðvegur sem upplýsingaóreiðan þrífst í.
Nútíma fjölþáttaógnir eru því langt í frá bundnar við milliríkjaátök og hefðbundin stríð því fjölþáttahernaði má beita árum saman á skilgreindum friðartímum. Vel skipulagðar fjölþáttaárásir, sem nýta sér internetið til að skapa upplýsingaóreiðu, setja fram staðreyndir sem eru svo trúverðugar að nánast er vonlaust fyrir hinn almenna borgara að greina þær og véfengja. Falsfréttir og falskar upplýsingar hafa heldur ekki einungis bein áhrif, vegna þess að um leið og þær eru orðnar viðteknar má nota það í pólitískum tilgangi – t.d. að afneita ýmsum óþægilegum staðreyndum á þeim forsendum að þær séu falsfréttir, eða „fake news“.
Bandaríkin auðvelt skotmark
Bandaríkin eru kannski að fá allan yfirganginn á undanförnum áratugum í bakið því þau hafa setið undir umfangsmiklum fjölþáttaárásum undanfarin ár, sem er hugsanlega eina raunhæfa leiðin til að klekkja á hinu öfluga herveldi. Kenningar um fjölþáttahernað gera einmitt ráð fyrir því að grundvallaratriði til að verjast slíkum árásum séu seigla og samheldni samfélagsins fremur en vopnaviðbúnaður. Ríki eins og Rússland og Kína sem eru í stöðugri valdsamkeppni við Bandaríkin hagnast því augljóslega á því að skapa óreiðu og ringulreið í bandarísku samfélagi. Ef vel tekst til líta keppinautarnir betur út í augum umheimsins og hálfur sigur er unninn.
Rússar og Kínverjar og jafnvel Íranir reka því öflugar áróðursvélar sem dæla út ósönnum fréttum í þeim tilgangi að grafa undan trúverðugleika bandarísks stjórnkerfis og draga fram veikleika samfélagsins. Yfirvöld í Bandaríkjunum gáfu nýlega út ákærur á hendur sex rússneskum leyniþjónustumönnum vegna umfangsmikilla og skaðlegra netárása. Rússar reyndu með kerfisbundnum hætti að hafa áhrif á bandarísku forsetakosningarnar árið 2016 og ef ætlunin var að ýta undir kjör Donalds Trumps þá bendir margt til þess að það hafi tekist. Allt bendir til þess að þeir hafi haldið uppteknum hætti og reynt að hafa áhrif á kosningarnar sem nú standa yfir.
Nú hafa þeir einbeitt sér að því að grafa undan Joe Biden með því að dreifa ósannindum í gegnum samfélagsmiðla og hefur jafnframt orðið talsvert ágengt í að valda glundroða og ágreiningi í bandarísku samfélagi.
Tilbúnar falsfréttir
Þegar óeirðir vegna morðsins á George Floyd stóðu sem hæst, sem endurspeglaði mikinn klofning í bandarísku samfélagi, birtist frásögn á netinu af mótmælendum að brenna biblíur. Þetta var gripið feginshendi á lofti af innsta kjarna framboðs Donalds Trumps, enda fylgdi með myndband sem studdi frásögnina og sýndi hversu siðspilltir og öfgafullir andstæðingarnir væru. Hið sanna í málinu var hinsvegar að einhverjir höfðu notað eina, kannski tvær biblíur til að kveikja elda því skömmu áður höfðu trúarsamtök verið á svæðinu og dreift bílfarmi af þeim til mótmælenda.
Ástæður fyrir biblíubrennunni voru ekki tryllt guðleysi eða heift í garð trúaðra heldur voru biblíurnar nærtækar þegar kveikja átti eld – án þess að hér sé verið að hvetja til ofbeldisfullra mótmæla með íkveikjum. Þessi frásögn átti uppruna sinn hjá rússnesku fréttaveitunni Ruptly sem er fjármögnuð af rússneskum stjórnvöldum. Myndbandið sem fylgdi með var vandlega klippt saman þannig að skilja mætti að biblíubrennan væri miðpunktur mótmælanna, sem er mjög fjarri sannleikanum.
Það vekur síðan athygli að svo virðist sem Donald Trump hafi með stefnu sinni og framkomu gert sitt til auka þann skaða sem beiting fjölþáttaaðgerða t.d. Rússa hefur valdið. Ætla mætti að hlutverk þjóðarleiðtoga væri einmitt að hvetja til stillingar, þétta raðirnar heima fyrir með því að telja kjark í fólk og styðja þær stofnanir sem berjast gegn slíkum árásum. Trump hefur hins vegar lagt sig fram um að draga úr trausti almennings til dómsmála- og utanríkisráðuneytisins og leyniþjónustunnar, vanvirt forystu hersins, ógnað prentfrelsi og sett fram efasemdir um heilindi dómstóla. Nú síðast hefur hann vegið að grundvallaratriði lýðræðisins með því að efast um lögmæti komandi kosninga og neita að skuldbinda sig til friðsamlegra valdaskipta.
Er Ísland stikkfrí?
Íslendingar eru væntanlega ekki stikkfrí þegar kemur að fjölþáttaógnum þó smæð og einsleitni samfélagsins gæti gert þær auðveldari viðfangs en ella, en að sama skapi viðkvæmari. Þjóðaröryggisstefnan tiltekur ekki fjölþáttaógnir sérstaklega en á vettvangi Þjóðaröryggisráðs er þó fylgst með málaflokknum. Athygli vekur að Ísland á ekki aðild að Evrópsku öndvegissetri gegn fjölþáttaógnum (The European Centre of Excellence for Countering Hybrid Threats) eins og öll hin Norðurlöndin. Því var komið á fót árið 2016 til að styðja aðildarríkin í þeirri viðleitni að sporna gegn fjölþáttaógnum. Líklega er aðalástæðan fjárskortur en samkvæmt heimildum er unnið að því að Ísland gerist aðili að setrinu.
Íslenskum stjórnvöldum er ekki kunnugt um að erlend ríki hafi reynt að hafa áhrif á niðurstöður kosninga á Íslandi með beinum hætti. Utanríkisráðuneytið á þó í reglulegum samskiptum við bandalags- og nágrannaþjóðir um fjölþáttaógnir og upplýsingaóreiðu. Þar eru metnar helstu leiðir sem erlend ríki kynnu að beita til að hafa áhrif á kosningar á Íslandi. Samt sem áður er enginn innan stjórnkerfisins sem hefur það hlutverk að greina misnotkunartækni við vísvitandi dreifingu rangra eða misvísandi upplýsinga á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Þó hafa verið lagðar fram þingsályktunartillögur um að koma á fót starfshópi til að leggja til leiðir að því hvernig kortleggja megi dreifingu upplýsingaóreiðu á Íslandi og auka upplýsingalæsi.
Eftir að COVID-19 faraldurinn gaus upp var ljóst að dreifing rangra og misvísandi upplýsinga var alþjóðlegt vandamál sem mikilvægt var að brugðist yrði við hér sem annars staðar. Var því stofnaður vinnuhópur til að kortleggja hugsanlegar birtingarmyndir og umfang upplýsingaóreiðu vegna COVID-19 hér á landi og jafnframt að gera tillögur að aðgerðum til þess auðvelda aðgengi að traustum heimildum og upplýsingum. Hópurinn skilaði nýverið greinargóðri skýrslu um málið þar sem einnig er fjallað um upplýsingaóreiðu í víðu samhengi. Hópurinn hefur m.a. haft samstarf við Vísindavef Háskóla Íslands um birtingu réttra upplýsinga um faraldurinn og einnig má nálgast ýmsar upplýsingar sem teknar eru saman á vefsvæði hópsins.
Aðför að tjáningarfrelsi og ritskoðun?
Það sem flækir málið er að hér er tekist á um grundvallaratriði eins og tjáningarfrelsi; hver ætlar að meta hvað eru réttar og rangar upplýsingar? Ætlum við að hafa upplýsingalögreglu? Erum við hugsanlega komin hættulega nálægt einhverjum Orwellískum heimi? Þetta eru réttmætar spurningar sem mikilvægt er að svara eða a.m.k. hafa til hliðsjónar þegar fjallað er um þessi mál. Grundvöllur lýðræðisins er frjáls skoðanaskipti og rétt að staldra við þegar ríkið stofnar nefnd eða starfshópa sem mögulega eiga að fara að skilgreina hvað má segja og hvað ekki. Bent hefur verið á að ef bull og vitleysa nái að sannfæra fólk þá sé það frekar til merkis um að eitthvað sé að í samfélaginu, að lýðræðið sjálft standi höllum fæti, sem geri fólki ókleift að gera greinarmun þar á.
Þó ákveðnar meginreglur um tjáningarfrelsi verði alltaf að vera í forgrunni má telja víst að stefna og aðgerðir stjórnvalda feli ekki í sér ritskoðun. Vandamálið eða ógnin er ekki mismunandi skoðanir og sjónarmið, sem einhverjum kann að þykja óæskileg eða hættuleg og þurfi að kveða niður. Ógnin felst fremur í því þegar rangar upplýsingar eru settar fram með skipulegum hætti, jafnvel á vélrænan en mjög trúverðugan hátt, til að valda skaða, grafa undan öryggi, lýðræði eða tryggja óverðskulduð völd og sérhagsmuni. Það hlýtur að vera keppikefli allra sem vilja tryggja opið og réttlátt lýðræðissamfélag að koma í veg fyrir, eða í það minnsta upplýsa um slíkt með einhverjum skynsamlegum ráðum.
Eru íslensk stjórnvöld að taka við sér?
Ljóst er að geta til greiningar og aðgerða til að bregðast við á þessu sviði er nokkuð sem stjórnvöld verða að huga að með markvissari hætti en gert hefur verið hingað til. Viss skref hafa þó verið tekin, m.a. með stofnun Þjóðaröryggisráðs og starfshópa á vegum þess. Vísbendingar eru því um að stjórnvöld séu sér meðvituð um þetta en mikilvægt er að nálgast þessi mál sem m.a. fjalla um grundvallarþátt í lýðræðinu, tjáningarfrelsið, með opinni umræðu svo hún lendi ekki í skotgröfum lituð tortryggni eða ótta.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, átti í vikunni fund með öðrum varnarmálaráðherrum Norðurlanda ásamt forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Þar var skýrsla Björns Bjarnasonar m.a. til umræðu og voru netöryggismál og fjölþáttaógnir ofarlega á baugi: „Það kemur æ betur í ljós hversu mikilvægt innlegg í öryggismálasamstarf Norðurlanda skýrsla Björns Bjarnasonar er. Hún dregur fram þær miklu öryggisáskoranir sem blasa við okkur vegna fjölþáttaógna, og þar með talið netógna, falsfrétta og misvísandi upplýsinga, sem hafa aukist mikið undanfarin ár samhliða örri tækniþróun, hraðari tengingum og sjálfvirknivæðingu. Þetta kallar á bætta ástandsvitund, aukið viðnámsþol og viðbragðsgetu.“
Af þessum orðum ráðherrans má ráða að mögulega sé tíðinda að vænta hvað varðar viðbúnað Íslendinga þegar kemur að fjölþáttaógnum.