Mynd: EPA

Algjör óvissa um hver sigraði í forsetakosningunum í Bandaríkjunum

Donald Trump gekk mun betur en skoðanakannanir höfðu gefið til kynna og lýsti yfir sigri í nótt. Enn á þó eftir að telja milljónir atkvæða sem munu ráða því hvernig kjörmenn lykilríkja skiptast milli hans og Joe Biden, sem sjálfur hefur lýst því yfir að hann telji sig líklegri sigurvegara. Það gæti dregist út vikuna að fá niðurstöðu í talningu atkvæða. Það er einfaldlega allt í háaloft í Bandaríkjunum.

Kosningarnar í Bandaríkjunum sem fóru fram í gær virðast ætla að draga enn skýrar fram en áður að Bandaríkin eru klofin þjóð. Kannanir, og vigtun á könnunum, bentu allar eindregið til þess að Joe Biden, frambjóðandi demókrata, myndi sigra í flestum af sveifluríkjunum svokölluðu, en þar er um að ræða ríkið sem talið er að geti farið á hvorn veginn sem er. 

Nú að morgni miðvikudags er ljóst að gengi Donald Trump, sitjandi forseta, var mun betra en kannanir gerðu ráð fyrir. Hann sigraði til að mynda í Florída, Ohio og Texas, sem voru allt ríki sem demókratar voru að minnsta kosti vongóðir um að sigra. 

Þrátt fyrir að Trump hafi lýst yfir sigri á blaðamannafundi sem hann hélt fyrir skemmstu þá fer því fjarri að niðurstaða liggi fyrir. Þvert á móti er ólíklegt að sigurvegari verði krýndur fyrr en í fyrsta lagi síðar í dag, miðvikudag, og mögulega ekki fyrr en í lok viku. Þá er gengið út frá því að frambjóðendurnir tveir muni sætta sig við þá niðurstöðu sem talning eftirstandandi atkvæða í nokkrum sveifluríkjum mun skila, sem er ósennilegt í ljósi þess að Trump hefur þegar lýst því yfir að hann vilji að talningu verði hætt. 

Það þarf 270 kjörmenn til að verða forseti Bandaríkjanna. Eins og staðan er núna hefur Biden tryggt sér 238 og Trump 213. Það þýðir að 87 eru enn í pottinum. Og ógjörningur er að giska á með skynsamlegum rökum hvernig þau ríki sem hafa ekki lokið talningu munu fara. 

Auglýsing

Eina sem liggur fyrir er að upp er komin fordæmalaus staða í Bandaríkjunum. Staða sem margir þar vestra óttuðust einna mest. Staða þar sem algjör óvissa ríkir sem stendur um hver sé réttkjörinn forseti landsins.

Nokkur sveifluríki ekki komin með niðurstöðu

Af sveifluríkjunum er enn ekki komin endanleg niðurstaða í Nevada, Georgíu, Norður-Karólinu og „bláa veggnum“ í miðvesturríkjunum: Michigan, Wisconsin og Pennsylvaníu. 

Biden hefur þegar tryggt sér fleiri kjörmenn en Hillary Clinton gerði árið 2016 (hún fékk alls 232). Þar skiptir mestu að hann sigraði í Arizona, sem Trump vann fyrir fjórum árum. Þá hefur Biden náð í að minnsta kosti einn af fimm kjörmönnum Nebraska-ríkis, en Clinton fékk engan þar.

Eina sveifluríkið sem á eftir að verða „kallað“, sem kaus ekki Trump fyrir fjórum árum, er Nevada sem er með sex kjörmenn. Þar er staðan sú að Biden er líklegri en það eitt og sér mun augljóslega ekki duga honum til sigurs. Til þess að vinna þyrfti Biden að sigra í að minnsta kosti tveimur hinna ríkjanna sem eftir eru. 

Georgía í kastljósinu

Í nótt leit lengi vel út fyrir að Norður-Karólína og Georgía myndu áfram styðja Trump en eftir því sem leið að lokum talningar þar breyttist sú staða og varð mun jafnari. Eins og stendur er búið að telja 95 prósent atkvæða í Norður-Karolínu, sem hefur 15 kjörmenn, og þar er Trump með 1,4 prósentustiga  forystu. Spálíkan The New York Times, sem tekur tillit til eðlis þeirra atkvæða sem á eftir að telja, segir að yfirgnæfandi líkur séu á því að Trump sigri það ríki. Þann varnagla verður þó að slá að öll póstatkvæði sem voru send í síðasta lagi á kjördag verða talin í Norður-Karolínu og sú talning má standa yfir til 12. nóvember. Það þarf því ekki að vera að niðurstaða í ríkinu liggi fyrir alveg strax.

Auglýsing

Í Georgíu er staðan enn flóknari. Þar er búið að telja 92 prósent atkvæða og Trump er með tveggja prósentustiga forskot. Spálíkan The New York Times segir hins vegar að eðli þeirra atkvæða sem á eftir að telja þar sé þannig að meiri líkur séu á sigri Biden. Ástæðan er sú að stór hluti þeirra atkvæða sem á eftir að telja eru frá svæðinu í kringum stórborgina Atlanta, þar sem demókratar eru sterkari en repúblikanar. Talið er líklegt að tilkynnt verði um sigurvegara í Georgíu síðar í dag, en þar eru heilir 16 kjörmenn undir. 

„Blái veggurinn“

Þá er eftir „Blái veggurinn“ svokallaði, ríkin þrjú í miðvesturríkjum Bandaríkjanna sem Trump tókst að hirða af demókrötum fyrir fjórum árum sem leiddi til sigurs hans, þrátt fyrir að flestar skoðanakannanir hefðu bent til þess að hann myndi tapa. 

Í Michigan eru 16 kjörmenn. Flestar skoðanakannanir bentu til þess að Biden myndi vinna ríkið næstum örugglega, en það hefur sannarlega ekki reynst raunin. Þar var búist við því að fyrstu tölur myndu sýna Trump með umtalsvert forskot, sökum þess að atkvæði sem greidd voru á kjördag myndu vigta meira inn, en að svo myndi draga saman með frambjóðendunum eftir því sem fleiri póstatkvæði yrðu talin. Það hefur gengið eftir og munurinn nú, þegar þetta er skrifað, er kominn niður í tæplega fimm prósentustig þegar enn á eftir að telja rúmlega fimmtung atkvæða. Búist er við því að tilkynnt verði um sigurvegara í Michigan að kvöldi miðvikudags. 

Joe Biden er enn sannfærður um að hann sigri í forsetakosningunum þegar öll atkvæði hafa verið talin.
Mynd: EPA

Í Wisconsin eru tíu kjörmenn og þar er búið að telja 89 prósent atkvæða. Eins og stendur er Biden með 0,3 prósentustiga forskot í ríkinu. Þar hófst talning á utankjörfundaratkvæðum ekki fyrr en að morgni miðvikudags á staðartíma og enn á eftir að telja meira af atkvæðum í sýslum sem Hillary Clinton vann 2016 en þeim sem Trump vann það árið. Því er ógjörningur að spá fyrir um hver niðurstaðan verður þar sem stendur. 

Þá stendur eftir Pennsylvanía, það ríki sem líklegast þótti til að ráða úrslitum í kosningunum. Biden mældist með forystu þar í aðdraganda þeirra en hún var minni en í hinum miðvesturríkjunum. Kjörmennirnir sem í boði eru þar eru sömuleiðis fleiri, eða 20 talsins. Þar mátti ekki byrja að telja þau atkvæði sem greidd voru í gegnum póstkosningu fyrr en á kjördag og sumar sýslur byrja ekki á því fyrr en í dag, en stuðningsmenn Biden eru taldir mun líklegri til að hafa nýtt sér þá leið til að kjósa en stuðningsmenn Trump, sem mættu frekar á kjörstað og voru taldir fyrst. Trump mælist nú með 13 prósentustiga forystu í Pennsylvaníu og er næsta víst að sú staða mun breytast eftir því sem fleiri atkvæði eru talin. Hvort það dugi Biden mun líklega ekki koma í ljós fyrr en í lok viku. 

Biden telur sig líklegan á meðan að Trump lýsti yfir sigri

Joe Biden lýsti því yfir í nótt að hann væri fullviss um að sigra í miðvesturríkjunum og yrði þar með næsti forseti Bandaríkjanna. Hann væri jákvæður um að það yrði niðurstaðan þegar öll atkvæði hefðu verið talin. Í tísti sem hann sendi frá sér fyrir nokkrum klukkutímum sagði Biden að það væri hvorki hans né Trump að segja til um hver væri sigurvegari kosninganna. Það væri hlutverk kjósenda. 

Þrátt fyrir að enn eigi eftir að telja milljónir atkvæða þá lýsti Trump yfir sigri þegar hann kom fram í nótt. Í ræðu sinni krafðist hann þess að fleiri atkvæði yrðu talin í Arizona-ríki, sem hann virðist hafa tapað, en að talning yrði stöðvuð í þeim ríkjum þar sem hann mældist með forystu. Trump sagði það vera svik við bandarísku þjóðina hversu lengi það tæki að telja atkvæði og að niðurstaða ætti að liggja fyrir á kosninganótt. Það hefur aldrei verið þannig að lokaniðurstaða í forsetakosningum liggi fyrir á kosninganótt þótt að oftar en ekki sé hægt að ganga út frá því hver vinni miðað við þau atkvæði sem næst að telja þá. Trump sagði líka að hann myndi fara með niðurstöður kosninganna fyrir hæstarétt Bandaríkjanna, en þar eru nú sex dómarar skipaðir af repúblikönum en þrír sem skipaðir hafa verið af demókrötum.

Trump tísti í nótt að hann væri með stórt forskot en að „þeir“ væru að reyna að stela kosningunum. „Við munum aldrei leyfa þeim að gera það. Atkvæði geta ekki verið greidd eftir að kjörstöðum lokar!“. Twitter merkti stöðuuppfærsluna sem efni sem gæti innihaldið misvísandi eða rangar upplýsingar um kosningarnar og faldi hana á bakvið þá merkingu.

Auglýsing

Ýmsar leiðir enn í boði

Það er því ljóst að niðurstöður kosninganna mun ekki liggja fyrir strax. Haldi Trump þeim ríkjum sem hann vann 2016 og talningu er ekki lokið þá verður hann áfram forseti Bandaríkjanna næstu fjögur árin. Biden á hins vegar nokkrar leiðir að því að vinna. 

Donald Trump lýsti yfir sigri í ávarpi þrátt fyrir að það eigi enn eftir að telja milljónir atkvæða.
Mynd: EPA

Bæði AP fréttastofan og Fox News hafa „kallað“ Arizona og sagt að Biden vinni það ríki. Gengið er út frá því hér að það haldi. Þá verður þessi eini kjörmaður sem Biden vann í Nebraska allt í einu afar mikilvægur, enda getur hann dugað Biden til sigurs svo lengi sem að hann vinni líka í Nevada, Michigan og Wisconsin, sem þýðir að Trump getur unnið Pennsylvaníu og Georgíu, en samt tapað. Þá myndi Biden fá 270 kjörmenn en Trump 268, og varaforsetinn fyrrverandi því sigra með minnsta mögulega mun.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar