„Núna fer að aukast hitinn og vandamálin og viðfangsefnin hvað varðar COVID verða flóknari. Við þurfum að skoða málið enn þá heildrænna. Við þurfum að geta átt opið, einlægt og gegnsætt samtal um hliðaráhrif aðgerðanna á íslenskt samfélag. Við þurfum að fá að spyrja heimskulegra spurninga án þess að óttast ofsafengin viðbrögð og án ótta við þöggun.“
Þetta sagði Sara Elísa Þórðardóttir, varaþingmaður Pírata, undir liðnum störf þingsins á Alþingi í gær.
Hún sagði enn fremur að gott og mikilvægt væri að vera bjartsýn og vongóð en „við þurfum líka að vera raunsæ. Það er á ábyrgð stjórnvalda og hlutverk þeirra að setja fram langtímasviðsmyndir með viðbragðsáætlunum. Óvissan er óskaplega þungbær fyrir mjög marga. Það þarf að vinna í átt að því að eyða eins mikilli óvissu og ótta og hægt er um framtíðina fyrir þjóðina.“
Veirufrítt samfélag í besta falli tálsýn
Sara sagði að Íslendingar byggju nú við hörðustu sóttvarnaaðgerðir í lýðveldissögu Íslands. „Borgara- og mannréttindi, ferðafrelsi og atvinnufrelsi hafa verið og eru enn stórskert. Á opnum velferðarnefndarfundi í gærmorgun kom fram í máli Þórólfs Guðlaugsson sóttvarnalæknis að bóluefni við COVID er ekkert endilega á næsta leiti og eins er ekkert víst að það verði eins áhrifaríkt og vonir standa til.“
Á sama tíma stæðu Íslendingar frammi fyrir þeirri staðreynd að þó nokkrar líkur væru á að það myndi koma fleiri bylgjur. Veirufrítt samfélag væri í besta falli tálsýn og efnahagshöggið með tilheyrandi atvinnuleysi hefði nú þegar skapað alvarlegt ástand.
„Eins er ljóst að það eru þeir sem minnst hafa á milli handanna sem koma til með að verða verst úti og þola mestar afleiðingar hertra aðgerða. Við stöndum í raun í auknum mæli frammi fyrir flóknum og risastórum spurningum sem tengjast siðfræði lífs og dauða,“ sagði hún.
Þurfum að fara yfir málin með gagnrýnum hætti
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tók undir hugleiðingar Söru í ræðu sinni undir sama lið á Alþingi í gær. „Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að vera meðvituð um það að við erum að grípa til mjög harðra sóttvarnaráðstafana þar sem eru miklar takmarkanir á svigrúmi fólks og miklu meiri en við höfum kynnst áður í lýðveldissögunni, eins og háttvirtur þingmaður Sara Elísa Þórðardóttir nefndi.
Við viðurkennum auðvitað að farsótt og alvarlegur inflúensufaraldur kallar á aðgerðir af hálfu hins opinbera. Það er eðlilegt og heimilt að sóttvarnayfirvöld grípi til ákveðinna aðgerða af því tilefni en það þýðir hins vegar ekki að heimilt sé að gera hvað sem er. Þar verður að vanda til verka og við þurfum að fara yfir það með gagnrýnum hætti,“ sagði hann.