Miðvikudaginn 4. nóvember síðastliðinn varð Kim Lindsø, eins og svo oft áður, litið út um gluggann á skrifstofu sinni, skammt frá Nýhöfninni. Úr skrifstofunni blasir sundið sem skilur að Amager og meginland Sjálands við. Handan sundsins er hús danska utanríkisráðuneytisins, og ennfremur bryggjan þar sem Gullfoss lá ætíð þegar hann kom til Kaupmannahafnar, um áratugaskeið. Hvorki voru það þó Gullfoss eða utanríkisráðuneytið sem flugu í gegnum huga Kim Lindsø þegar hann leit út um gluggann.
Á bryggjukantinum voru um það bil tíu manns, allir í hettupeysum, með það sem Kim Lindsø sýndist vera brjóstmynd, á litlum handvagni. „Hvad er nu det her for noget hugsaði ég,“ sagði Kim síðar í blaðaviðtali. Hann fékk þó ekki tækifæri til að velta því mikið fyrir sér, því skyndilega lét hettufólkið styttuna gossa í sjóinn, en einn úr hópnum var með símann á lofti til að mynda „viðburðinn“. Varla var styttan lent í sjónum þegar einhverjir úr hópnum komu auga á Kim Lindsø í glugganum, æptu upp og tók þá allur hópurinn til fótanna.
Kim Lindsø klóraði sér í kollinum yfir því sem hann hafði séð en ákvað síðan að réttast væri að láta lögregluna vita.
Auður stallur stofnandans
Það tók ekki langan tíma að finna út hvað það var sem sturtað var í höfnina því þennan sama dag kom í ljós að brjóstmynd af Friðriki V var horfin af stalli sínum í samkomusalnum á Charlottenborg, þar sem Fagurlistaskólinn er til húsa. Þegar Kim Lindsø var sýnd mynd af styttunni sem saknað var taldi hann engan vafa leika á að hún væri sú sem hann hefði séð sturtað fram af bryggjukantinum .
Ástæða þess að brjóstmyndin hefur verið á áberandi stalli í samkomusalnum er ekki tilviljun. Friðrik V (1723 – 1766) stofnaði nefnilega Fagurlistaskólann árið 1754, á þrjátíu og eins árs afmæli sínu. Fyrsti rektor skólans var Frakkinn Jacques Saly (1717 – 1776). Skólinn hefur frá upphafi verið til húsa í Charlottenborgarhöllinni við Kóngsins Nýjatorg. Höllin var reist á árunum 1672 til 82 og hét upphaflega Gyldenløves Palæ. Árið 1700 keypti Charlotte Amalie, ekkja eftir Kristján V, höllina sem síðan hefur borið nafn hennar. Gegnum tíðina hafa margir af þekktustu myndlistarmönnum Dana stundað nám við skólann. Sæmundur Hólm (1749 -1821) var fyrsti Íslendingurinn sem stundaði nám við Akademíuna, eins og skólinn er iðulega kallaður, en þangað hafa margir úr hópi þekktustu myndlistarmanna Íslendinga sótt menntun sína. Margir kunnir íslenskir arkitektar hafa sömuleiðis stundað þar nám. Myndlistardeild Akademíunar er enn til húsa á Charlottenborg en arkitektadeildin er flutt út á Kristjánshöfn.
Styttan ónýt eftir að liggja í sjónum
Styttan, eða réttara sagt leifarnar af henni, voru auðfundnar. Þegar þær höfðu verið hífðar upp á bryggjuna sást að styttan, sem er úr gifsi, hafði ekki haft gott af dvölinni á sjávarbotni, var svo að segja ónýt. Á myndbandi sem tekið var upp þegar styttunni var kastað í sjóinn sást að þegar hún skall í sjónum datt höfuðið af. Leifarnar af því fundust líka á botninum.
Grunurinn beindist strax að „innanhússfólki“
Grunur lögreglu og forsvarsmanna Akademíunar beindist strax að nemendum skólans. Sá grunur var staðfestur þegar myndband af atburðinum var lagt á netið. Samhliða myndbandsbirtingunni var birt yfirlýsing frá hópnum. Þar kom fram að tilgangurinn með því að kasta styttunni í sjóinn væri að vekja athygli á og mótmæla þrælasölu og þrælahaldi Dana fyrr á tímum.
Seglskipið Friderich er talið vera meðal fyrstu skipa sem fluttu þræla frá Gana til Dönsku Vestur-Indía. Skip þetta var í eigu U.F. Gyldenløve, en hann byggði höllina sem hýsir Akademína. Hluti grjótsins sem notað var í höllina kom frá eyjunni St. Thomas, hafði verið notað sem ballest í „þrælaskipið“. Áðurnefndri yfirlýsingu nemenda fylgdu engin nöfn.
Deildarstjóri hringir
Þrátt fyrir mikla eftirgrennslan tókst lögreglu ekki að komast að hverjir hefðu fjarlægt styttuna af stallinum og kastað henni í sjóinn.
Síðastliðinn fimmtudag, þann 19. nóvember, hringdi síminn á ritstjórnarskrifstofu dagblaðsins Politiken. Í símanum var kona sem sagðist heita Katrine Dirckinck-Holmfeld og vera deildarstjóri í Akademíunni. Hún hefði fjarlægt styttuna af stallinum í samkomusalnum og kastað henni í sjóinn. Hún hafði sömuleiðis skrifað rektor skólans og samstundis verið send heim, um óákveðinn tíma. Hún vildi ekki upplýsa hverjir hefðu aðstoðað sig við að kasta styttunni í sjóinn.
Uppákoman hafði ákveðinn tilgang
Í viðtali við Politiken og í fréttaskýringaþættinum Deadline í danska sjónvarpinu, DR, sagðist Katrine Dirckinck-Holmfeld ekki líta á uppákomuna (happening var orðið sem hún notaði) sem skemmdarverk. Uppákoman hefði þjónað ákveðnum tilgangi, sem sé að vekja athygli á þeirri staðreynd að Danir hefðu aldrei gert upp við þennan svarta blett, þrælatímabilið, í sögu sinni.
Þá var spurt hvort rétta leiðin til að gera upp við þennan tíma í sögu Danmerkur væri að eyðileggja listaverk eftir fyrsta rektor Akademíunnar. Katrine Dirckinck-Holmfeld sagðist vita að umrædd stytta væri afsteypa, ein fjölmargra slíkra. Þar að auki væri þessi afsteypa hvorki sérlega gömul né verðmæt „kannski 60 til 70 ára“. Og þannig séð ekki sérlega merkileg.
Hvorki gömul né verðmæt
Ofangreind ummæli vöktu athygli. Margir, meðal annars stjórnmálamenn og listfræðingar höfðu sagt styttuna ómetanlegt listaverk. Forsvarsmenn á Akademíunni gátu í fyrstu ekki svarað til um aldur og verðmæti styttunnar. Þegar sérfræðingar höfðu skoðað styttuna, eða það sem eftir var af henni, kváðu þeir upp úrskurð sem staðfesti ummæli Katrine Dirckinck-Holmfeld.
Styttan væri afsteypa, gerð einhverntíma eftir 1950. Til væru margar slíkar, frá mismunandi tímum, og árið 2017 hefði ein verið seld á uppboði í Kaupmannahöfn fyrir 18 þúsund krónur danskar (390 þúsund íslenskar). Frumgerðina hefði höfundurinn, Jacques Saly, haft með sér heim til Frakklands árið 1774, þegar hann lét af störfum sem rektor við Akademíuna.
Forsvarsmönnum Akademíunnar var létt þegar þessar nýju upplýsingar lágu fyrir. Sama gildir um marga aðra, t.d. stjórnmálamenn, sem höfðu haft uppi stór orð um „þennan glæp“ eins og sumir þeirra orðuðu það.
Hins vegar sé engan veginn hægt að afsaka gjörðir deildarstjórans og þeirra sem tóku þátt í „uppákomunni“. Þess má geta að málið var strax eftir að upp um það komst kært til lögreglu.
Flytja mörg verk á öruggari staði
Þótt Katrine Dirckinck-Holmfeld hafi ekki viljað upplýsa um aðstoðarfólkið, virðist ekki leika vafi á að það hafi allt verið nemendur við Akademíuna. Í dagblaðinu Berlingske sagði nemandi, sem ekki vildi láta nafns síns getið, að hópurinn sem kastaði kóngsstyttunni í hafið, myndi ekki láta staðar numið. Þessi yfirlýsing varð til þess að fjölmörg listaverk, söguleg og verðmæt, sem verið hafa í húsakynnum Akademíunnar hafa nú verið flutt í örugga geymslu. Talsmaður skólans sagði þetta gert í öryggisskyni.
Innan Akademíunnar hafa um langt skeið staðið miklar deilur, meðal annars um stjórnun skólans og kennsluhætti.