Reykvíkingar með félagsþjónustu höfuðborgarsvæðisins á herðunum
Íbúar í Reykjavík borga hver og einn sjö sinnum hærri fjárhæð í fjárhagsaðstoð til þeirra sem þurfa á slíkri að halda en íbúar á Seltjarnarnesi. Þeir greiða tvöfalt meira fyrir alla veitta félagsþjónustu en íbúar í Kópavogi og Garðabæ. Og draga líka vagninn þegar kemur að uppbyggingu á húsnæði fyrir lágtekjuhópa.
Á árinu 2019 fóru 26 prósent af þeim skatttekjum sem Reykjavíkurborg innheimti í að standa undir ýmiskonar félagsþjónustu. Ekkert hinna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu kemst nálægt því að nota jafn mikið af innheimtum skatttekjum sínum í þann málaflokk. Mosfellsbær kemst næst því, þar fór 20 prósent af innheimtum skatttekjum í félagsþjónustu. Í Kópavogi (14 prósent) og Garðabæ (15 prósent) var hlutfallið hins vegar lægst.
Þetta má lesa út úr lykiltölum úr rekstri sveitarfélaga á árinu 2019 sem Samband íslenskra sveitarfélaga birti í lok nóvember.
Þar kemur fram að hver íbúi í Reykjavík greiddi 256 þúsund krónur í fyrra í kostnað vegna félagsþjónustu sem borginn veitti. Um er að ræða fjárhagsaðstoð til þeirra sem þurfa á slíkri að halda, þjónustu við börn og unglinga, þjónustu við fatlað fólk og aldraða og ýmislegt annað sem fellur undir málaflokkinn.
Það er mun meira en íbúar allra nágrannasveitarfélaga höfuðborgarinnar greiddu. Mosfellsbær kemst næst því að axla álíka hluta af félagslegu þjónustunni en kostnaður á hvern íbúa þar var 219 þúsund krónu í fyrra. Hver íbúi í Kópavogi borgar um helming þess sem íbúi í Reykjavík borgar í félagsþjónustuna, eða 130 þúsund krónur á ári. Íbúi í Garðabæ borgar litlu meira, eða 136 þúsund krónur.
Reykjavík er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem innheimtir hámarksútsvar, 14,52 prósent. Hafnarfjörður, Kópavogur og Mosfellsbær eru ekki langt undan, þau rukka 14,48 prósent í útsvar, en í Garðabæ og á Seltjarnarnesi er útsvarsprósentan 13,7 prósent.
Það þýðir á mannamáli að íbúar í Reykjavík borga hærra hlutfall af launum sínum í skatta til að standa undir rekstri sveitarfélagsins en þeir sem búa í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar. Stór ástæða þess er sú að Reykjavík axlar langstærstan hluta þess kostnaðar sem fellur til vegna félagslegrar þjónustu sem sveitarfélögum er gert að veita.
Sjö sinnum hærri fjárhæð vegna fjárhagsaðstoðar
Það er sama hvar er drepið niður, Reykjavík er alltaf að veita langmestu félagslegu þjónustuna. Mest sláandi er munurinn þegar kemur að fjárhagsaðstoð sem sveitarfélögin veita íbúum. Sveitarfélögum er skylt að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Í Reykjavík getur fjárhagsaðstoð til einstaklings verið allt að 207.709 krónur á mánuði og hjón eða sambúðarfólk getur fengið samtals allt að 332.333 krónur á mánuði. Í öðrum sveitarfélögum eru greiðslur að jafnaði lægri. Það þýðir að það borgar sig beinlínis fyrir þá sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda að flytja sig til Reykjavíkur. Þar af leiðandi eru mun fleiri sem þurfa á henni að halda búsettir þar en í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar.
Hver íbúi í Reykjavíkurborg borgaði 21 þúsund krónur með sköttum sínum í fjárhagsaðstoð í fyrra. Á sama tíma greiddi íbúi á Seltjarnarnesi þrjú þúsund krónur vegna fjárhagsaðstoðar og hver íbúi í Garðabæ greiddi fjögur þúsund krónur. Með öðrum orðum borgaði hver Reykvíkingur sjö sinnum meira fyrir félagslega framfærslu þeirra íbúa borgarinnar sem þurftu á henni að halda en íbúar á Seltjarnarnesi gerðu.
Mosfellsbær, það sveitarfélag Kragans svokallaða sem kemst næst Reykjavík í hlutfallslegri eyðslu í félagslega þjónustu, stendur sig vel þegar kemur að kostnaði við fatlaða. Kostnaður vegna hennar tekur til útgjalda vegna stuðningsþjónustu, ferðaþjónustu fatlaðra, frekari liðveislu, búsetu, skammtímavistunar fyrir fatlaða, dagþjónustu og annarrar þjónustu fyrir fatlaða. Hver íbúi í Mosfellsbæ greiðir 139 þúsund krónur á ári vegna þessarar þjónustu. Íbúar í Reykjavík greiða næst mest á mann, eða 108 þúsund krónur og íbúar í Hafnarfirði greiða 100 þúsund. Íbúar í Kópavogi greiða minnst, eða 60 þúsund krónur hver, og íbúar Seltjarnarness koma þar skammt á eftir með 76 þúsund krónur hver.
Þegar kemur að kostnaði vegna þjónustu við aldrað fólk, sem felur í sér útgjöld vegna dvalar- og hjúkrunarheimila, dagdvalar, stuðningsþjónustu, tómstundastarf og annarrar þjónustu við aldraða íbúa, standa Mosfellsbær (59 þúsund krónur á íbúa) og Reykjavík (56 þúsund krónur á íbúa) áfram upp úr. Minnstur er kostnaðurinn vegna þjónustu við aldraða í Garðabæ (17 þúsund krónur á íbúa) og í Hafnarfjarðarbæ (18 þúsund krónur á íbúa).
36 prósent íbúa en byggja 73 prósent almennra íbúða
Reykjavík dregur líka vagninn í uppbyggingu á húsnæði fyrir þá hópa sem eru með lægstu tekjurnar. Síðar þegar birtar voru tölur um félagslegt húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, fyrir tveimur árum síðan, voru þrjár af hverjum fjórum slíkum á höfuðborgarsvæðinu í Reykjavík. Kjarninn hefur ítrekað kallað eftir uppfærðum tölum um félagslegar íbúðir frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun síðan þá, en án árangurs.
Kjarninn greindi síðan frá því fyrir um mánuði síðan að íslenska ríkið hafi alls úthlutað 15,3 milljörðum króna í stofnframlög vegna almennra íbúða á landinu öllu frá árinu 2016, þegar lög um slík framlög voru sett.
Þar af hafa 11,2 milljarðar króna farið í framlög vegna uppbyggingar á íbúðum í Reykjavík sem nýtt hafa verið til annað hvort að kaupa eða byggja alls 1.923 íbúðir.
Allt í allt þá hafa verið veitt stofnframlög úr ríkissjóði til að byggja 2.625 íbúðir á landinu öllu, sem þýðir að 73 prósent af almennu íbúðunum sem hafa annað hvort verið keyptar, byggðar eða eru í byggingu eru í Reykjavík.
Alls búa 133.109 manns í höfuðborginni, eða 36 prósent landsmanna. Það þýðir að Reykjavík er að taka á sig næstum tvöfaldan hluta af uppbyggingu almenna íbúðakerfisins en hlutfall íbúa borgarinnar segir til um.
Lög um almennar íbúðir voru samþykkt sumarið 2016. Hið nýja íbúðakerfi er tilraun til að endurreisa einhvern vísi að félagslega húsnæðiskerfinu sem var aflagt undir lok síðustu aldar með þeim afleiðingum að félagslegum íbúðum fækkaði um helming milli áranna 1998 og 2017.
Markmið þeirra laga var að bæta húsnæðisöryggi þeirra sem eru undir ákveðnum tekju- og eignarmörkum með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði. Þannig sé stuðlað að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu þeirra sem leigja húsnæðið og fari að jafnaði ekki yfir 25 prósent af tekjum þeirra.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars