Þegar bóluefnið lendir mun enn þurfa að sannfæra marga

Breskir ráðamenn stíga nú fram og segjast tilbúnir að láta bólusetja sig í beinni útsendingu til að auka tiltrú á bóluefnum. Ný dönsk samanburðarrannsókn sýnir mismikinn bólusetningarvilja á milli ríkja og að traust í garð yfirvalda ráði miklu þar um.

Bóluefni Pfizer og BioNTech fer í dreifingu í Bretlandi í næstu viku. Risastór áfangi. En munu nægilega margir vilja láta bólusetja sig?
Bóluefni Pfizer og BioNTech fer í dreifingu í Bretlandi í næstu viku. Risastór áfangi. En munu nægilega margir vilja láta bólusetja sig?
Auglýsing

Þær óvæntu fregnir bárust frá Bretlandi í gær að heimild hefði verið veitt til þess að byrja að sprauta fyrstu skömmtunum af bóluefninu frá Pfizer og BioNTech í fólk. Ráðamenn lýstu því yfir að bólusetningar forgangshópa gætu hafist strax í næstu viku.

Bretland verður því að líkindum fyrsta landið á Vesturlöndum sem byrjar að gefa þegnum sínum bóluefni gegn kórónuveirunni. Lyfjastofnun Evrópu hefur gefið út að niðurstöðu varðandi bóluefni Pfizer sé að vænta fyrir lok árs, en bólusetningar á Íslandi eru háðar samþykki þaðan, enda Ísland í samfloti með Evrópusambandinu varðandi kaup og dreifingu bóluefna.

Það virðist bjartara framundan í glímunni við veiruna vegna þeirra fregna sem hafa borist af bóluefnaþróun undanfarnar vikur, en þó gæti vantraust almennings gagnvart bóluefnum reynst mikil þraut. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að þjóðir heims eru afar mismóttækilegar fyrir því að láta bólusetja sig gegn COVID-19.

samanburðarrannsókn sem unnin var við Árósaháskóla í Danmörku sýnir að um 79 prósent Dana myndu nær örugglega eða vafalaust þiggja bóluefni gegn COVID-19 yrði þeim boðið það, en samanburður rannsakenda við önnur vestræn ríki varpar þó ljósi á að viljinn er ekki alls staðar svona mikill.

Auglýsing

Niðurstöður dönsku rannsóknarinnar, sem rétt er að taka fram að eru alveg glænýjar og hafa ekki enn verið ritrýndar, sýna fram á að hlutfall þeirra sem segjast ekki viljugir til þess að þiggja bólusetningu er víðast hvar yfir 10 prósent og sumstaðar töluvert hærra.

Ónægur vilji til að hægt væri að ná hjarðónæmi í sumum ríkjum

Spurningin sem lögð var fyrir þátttakendur í þessari rannsókn til þess að mæla vilja þeirra til bólusetningar var eftirfarandi: „Ef heilbrigðisyfirvöld ráðleggja fólki eins og mér að þiggja samþykkt bóluefni gegn kórónuveirunni, mun ég fara að þeirra ráðum.“ 

Fólk gat svo valið um hvort það væri sammála eða ósammála þessari fullyrðingu, á skalanum 1-5, þar sem 1 þýddi mjög ósammála og 5 þýddi mjög sammála. 

Í ljós kom að einungis um 38 prósent Ungverja gáfu til kynna vilja til þess að láta bólusetja sig gegn COVID-19, 41 prósent Frakka og 48,5 prósent Bandaríkjamanna.

Hlutfallið slefaði síðan yfir 50 prósent í Svíþjóð og var 54 prósent í bæði Þýskalandi og á Ítalíu. Í Bretlandi var hlutfallið 65 prósent, samkvæmt dönsku rannsókninni, sem notaðist við samræmdar spurningalistakannanir í þessum átta löndum. Kannanirnar voru framkvæmdar á tímabilinu frá september og fram í nóvember.

Danir voru viljugastir til þess að láta bólusetja sig af þeim átta þjóðum sem voru til skoðunar í samanburðarrannsókninni.

Það verkefni virðist því bíða yfirvalda víða að reyna að auka traust þeirra sem í dag eru með efasemdir um bóluefni og fá þau inn í þann hóp sem segist næstum viss eða alveg viss um að vilja láta bólusetja sig gagnvart COVID-19, verði mælt með því. 

Hlutfall ónæmra þar enda að vera töluvert hærra en það hlutfall sem segist vilja láta bólusetja sig í þessum löndum til að hjarðónæmi myndist og veiran hætti að valda ama. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur bent á að um 60 prósent íbúa á Íslandi þyrftu að vera ónæmir fyrir veirunni til að hjarðónæmi næðist. Það að einungis rúm 40 prósent Frakka segist vera tilbúin að láta bólusetja sig er því vandamál.

Bólusetningar í beinni?

Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, mætti í viðtal í morgunþáttinn Good Morning Britain til þeirra Piers Morgan og Susanne Reid í gærmorgun, skömmu eftir fréttirnar af samþykki Pfizer-bóluefnisins í Bretlandi höfðu borist fólki til vitundar.

Í viðtalinu spurði Piers Morgan, sem er einn þekktasti sjónvarpsmaður Breta, heilbrigðisráðherrann að því hvort hann væri reiðubúinn að láta bólusetja sig í beinni útsendingu í þættinum í næstu viku. Þóttist Morgan þess fullviss að bólusetning heilbrigðisráðherrans í beinni myndi hafa „mikil áhrif“ og senda rétt skilaboð út í samfélagið.

„Við þyrftum að fá þetta samþykkt, því það er auðvitað forgangsraðað eftir læknisfræðilegri þörf og sem betur fer ert þú sem heilbrigður miðaldra maður ekki efstur á lista. En ef við fáum þetta samþykkt og fólki finnst þetta ásættanlegt þá er ég til í þetta. [...] Ef það getur sannfært einhvern annan um að sannfæra einhveja um þeir ættu að láta bólusetja sig þá tel ég það þess virði,“ sagði heilbrigðisráðherrann.


Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, sagði einnig frá því á blaðamannafundi í gær að hún væri til í að láta bólusetja sig í sjónvarpsútsendingu, ef talið væri að það myndi fá fleiri til að undirgangast bólusetningu. Blaðafulltrúi Boris Johnsons forsætisráðherra steig einnig fram í þessari umræðu í Bretlandi í gær og lét hafa eftir sér að ekki væri ekki útilokað að Boris væri til í að láta bólusetja sig í sjónvarpinu.

Það hljómar kannski undarlega að þetta sé í umræðunni í Bretlandi nú, en spurning er hvort nánasta framtíð hér á landi beri það í skauti sér að landsþekkt fólk úr framlínunni eins og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra eða Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir muni mæta til Gísla Marteins eitthvert föstudagskvöldið og láta bólusetja sig í beinni, til þess að auka tiltrú þjóðarinnar. 

Traust er nefnilega lykilatriði þegar kemur að því hvort fólk vilji láta bólusetja sig eður ei.

Niðurstöður dönsku rannsóknarinnar gefa til kynna að hjá þeim sem skorti vilja til þess að láta bólusetja sig gegn COVID-19 séu þrír þættir helst einkennandi; lítið traust til yfirvalda, trú á samsæriskenningar og litlar áhyggjur af sjúkdómnum sjálfum. Þetta eru meginstefin, þrátt fyrir að einhverjar breytur hafi mismikið vægi á milli landa. 

Hvað með Ísland?

Ísland kemur vel út þegar horft er til þessara þriggja þátta sem danska rannsóknin dregur fram. Hér á landi hefur traust til heilbrigðisyfirvalda verið í hæstu hæðum nær allt frá því að veiran fór að láta á sér kræla, trú á samsæriskenningar er lítt útbreidd og einungis lítill hluti almennings telur of mikið gert úr heilsufarslegum afleiðingum veirunnar.

Traust á yfirvöldum er lykilþáttur þegar kemur að bólusetningarvilja, samkvæmt dönsku rannsókninni. Íslendingar hafa treyst þríeykinu Víði, Þórólfi og Ölmu vel í þessum faraldri. Mynd: Almannavarnir.

Þetta, auk þess að að rannsóknir undanfarinnar ára hafa sýnt fram á að nær allir hér á landi hafi trú að bólusetningar séu áhrifaríkar til að koma í veg fyrir sjúkdóma, sýnir að ef til vill verður lítil þörf á því að ráðherrar eða læknar láti bólusetja sig í beinni hjá Gísla Marteini, svo að við hin öðlumst trú og traust.

Þó kom fram í rannsókn sem alþjóðlega fyrirtækið Wellcome Trust lét gera árið 2018 að um 40 prósent aðspurðra Íslendinga væru í einhverjum vafa um öryggi bóluefna. Sóttvarnalæknir sagði við það tækifæri, í tilkynningu á vef landlæknis, að þörf væri á betri upplýsingagjöf til almennings um öryggi bóluefna.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Einstök lönd geta ekki „bólusett sig út úr“ faraldrinum
Þrjú ríki heims hafa bólusett yfir 70 prósent íbúa. Ísland er eitt þeirra. Hlutfallið er undir 1,5 prósenti í Afríku. Ef ekki næst að koma því í 10 prósent bráðlega verður það „ör á samvisku okkar allra“ enda nóg til af bóluefnum, segir sérfræðingur WHO.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Fékk „bakteríuna“ eftir Söngvakeppni sjónvarpsins
„Lögin hafa orðið til á yfir 20 ára tímabili og er því nokkur breidd í þessu hjá mér; allt frá stígandi ballöðum til eins konar rokkóperu,“ segir Pétur Arnar Kristinsson sem blásið hefur til söfnunar fyrir útgáfu fyrstu breiðskífu sinnar.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Smári McCarthy er að hætta á þingi og ætlar í kjölfarið að láta reyna á sitt eigið hugvit í tengslum við loftslagsbreytingar.
„Flokkarnir voru að þvælast fyrir hvorum öðrum“ og niðurstaðan varð núll
Smára McCarthy fráfarandi þingmanni Pírata finnst sem undanfarin fjögur ár hafi litast af því að lítið ráðrúm hafi verið til þess að ræða pólitík, þar sem stjórnarflokkarnir eru ósammála um mörg grundvallarmálefni.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Það er fremur fátítt að sólarhringsúrkoma í Reykjavík mælist meira en 20 mm eða meiri að sumarlagi.
Rignir af meiri ákefð nú en áður?
Fátt bendir til þess að Ísland sleppi alfarið við aftakaúrkomu sem nágrannaríki okkar hafa upplifað á síðustu árum, skrifar Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og veltir fyrir sér getu fráveitukerfa til að taka við meiriháttar vatnsflaumi.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Norska kvennaliðið í strandhandbolta að loknu Evrópumeistaramótinu í Búlgaríu á dögunum.
Bikiní- og stuttbuxnadeilan
Nýafstaðið Evrópumeistaramót í strandhandbolta vakti mikla athygli víða um heim. Það var þó ekki keppnin sjálf sem dró að sér athyglina heldur deilur um klæðnað. Nánar tiltekið klæðnað norska kvennalandsliðsins.
Kjarninn 1. ágúst 2021
Joe Biden forseti Bandaríkjanna tilkynnti í apríl að viðskiptaþvingunum yrði beitt á Rússland vegna njósnanna.
Brotist inn í tölvupósta bandarískra saksóknara
Óttast er að viðkvæmum gögnum hafi verið stolið er brotist var inn í tölvur tæplega þrjátíu embætta saksóknara í Bandaríkjunum á síðasta ári. Bandarísk yfirvöld telja Rússa standa að baki árásinni.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eftir helgi verða breytingar á ferðatakmörkunum til Bretlands.
Fagna ákvörðun Breta um að bólusettir sleppi við sóttkví
„Hvenær ætla Bandaríkin að svara í sömu mynt?“ spyrja Alþjóða samtök flugfélaga sem fang ákvörðun Breta um að aflétta sóttkvíarkröfum á bólusetta farþega frá Bandaríkjunum og ESB-ríkjum.
Kjarninn 31. júlí 2021
Eggert Gunnarsson
Hamfarakynslóðin
Kjarninn 31. júlí 2021
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar