Ísland er ekki eitt á báti þegar kemur að miklum verðhækkunum á fasteignamarkaði í yfirstandandi kreppu, en verð á fasteignum hefur einnig hækkað töluvert í Danmörku og Noregi, sem og öðrum Vesturlöndum. Danskir og norskir hagfræðingar og fasteignasalar benda á að lágir vextir og ferðatakmarkanir geti mögulega útskýrt þessa þróun og búast við að verð muni hækka enn meira á næsta ári vegna þessara þátta.
Ekki venjulegt í kreppum
Samkvæmt nýlegri skýrslu frá fjármálaráðuneyti Danmerkur hefur lækkun á íbúðaverði sögulega fylgt falli í landsframleiðslu, þar sem annað hvort aðgengi heimila að lánum eða ráðstöfunartekjur þeirra lækka venjulega, en það minnkar eftirspurn eftir nýju húsnæði. Þróunin í ár hafi hins vegar verið öðruvísi, en skýrslan nefnir að hlutabótaleið dönsku ríkisstjórnarinnar hafi komið í veg fyrir meiriháttar tekjufall hjá dönskum fjölskyldum, auk þess sem fjármagnskostnaðurinn af lántöku þeirra hafi haldist lágur vegna lágra vaxta á íbúðalánum.
Ekki danskt fyrirbæri
Skýrsluhöfundar bæta við að verðhækkanir á íbúðamarkaði í núverandi kreppu sé ekki einungis danskt fyrirbæri, þar sem íbúðaverð hefur hækkað hratt á öllum Norðurlöndum, auk Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Bretlands. Mest hefur fasteignaverðið þó hækkað í Hollandi og Bandaríkjunum á fyrstu þremur fjórðungum þessa árs, en hækkunin nam þar um sex prósentum samkvæmt skýrslunni. Í Svíþjóð nam hún rúmum fimm prósentum, en u.þ.b. fjórum prósentum í Danmörku og Noregi á sama tímabili.
Væntingar um frekari verðhækkanir
Samkvæmt danska fjármálaráðuneytinu hefur yfirstandandi efnahagslægð skapað væntingar um að vextir haldist lágir á næstu misserum. Því er búist við því að verð á húsnæði muni hækka „myndarlega“ á næstu tveimur árum. Höfundar skýrslunnar bæta þó við að ekki sé búist við jafnhraðri verðhækkun og hefur átt sér stað á fasteignamarkaðnum á síðustu mánuðum, en telja hins vegar að efnahagsbati næsta árs muni hafa jákvæð áhrif á verð.
Ráðuneytið gerir ráð fyrir að fasteignaverðið muni að minnsta kosti hækka í takt við vaxandi kaupmátt í landinu, eða um tæp þrjú prósent á næsta ári og um rúm tvö prósent árið 2022.
Býst við 4 prósenta verðhækkun í janúar
Hagsmunasamtök norskra fasteignasala, Eiendom Norge, spá enn meiri hækkun á fasteignamarkaðinum í Noregi, en samkvæmt blaðinu Dagens Næringsliv gera þau ráð fyrir 7,5 prósenta verðhækkun á næsta ári. Enn fremur búast samtökin við að janúarmánuður verði sögulega sterkur.
„Janúar er venjulega mánuðurinn þar sem verð hækkar hvað mest, en á næsta ári verður hækkunin örugglega söguleg,“ segir Henning Lauridsen, framkvæmdastjóri Eiendom Norge, í viðtali við Dagens Næringsliv. Sjálfur sér hann fyrir sér að verð muni hækka um fjögur prósent í þeim mánuði.
85 prósenta aukning í hyttusölu
Fasteignamarkaðurinn hefur verið mjög virkur í Noregi, en það sem af er ári hefur fasteignaverð hækkað um tæp átta prósent. Sérstaklega hefur eftirspurn eftir norskum sumarhúsum, eða hyttum, aukist, en fasteignamiðlarar þar í landi segjast ekki hafa upplifað annað eins. Í nóvember síðastliðnum seldust 85 prósent fleiri hyttur heldur en á sama tímabili í fyrra. Það sem af er ári hefur þinglýstum kaupsamningum á sumarhúsum fjölgað um fjórðung.
Vextirnir drifkrafturinn
„Vextir hafa verið megindrifkraftur í húsnæðismarkaðnum árið 2020 og muni líka vera það árið 2021,“ segir Lauridsen og bætir við að samtökin trúa að ferðatakmarkanir og núllvextir á íbúðalánum muni auka eftirspurnina eftir íbúðum í Noregi, sem muni leiða til hærri íbúðaverðs.
Búist er við því að verðhækkanirnar verði mestar í höfuðborginni Osló, en töluvert minni í Bergen, Þrándheimi og Stafangri. Aftur á móti er spáð verðhækkun á fasteignamarkaðnum í Stafangri í fyrsta skiptið síðan árið 2013.
Aðrir norskir greinendur hafa einnig spáð miklum verðhækkunum í Noregi á næstunni. Norski bankinn DNB gerir ráð fyrir átta prósenta hækkun verðs á næsta ári á landinu öllu og að jafnmargar íbúðir verði seldar í 2021 og árið 2019.
Í ljósi væntinga um hærra verð á fasteignamarkaði hefur Seðlabanki Noregs varað við að vextir geti hækkað þar í landi aftur á fyrri hluta næsta árs til að stemma stigu við hana. Hagstofa Noregs býst nú við að stýrivextir þar í landi verði komnir upp í 0,5 prósent um mitt næst ár.