Flestir þekkja málsháttinn „oft veltir lítil þúfa þungu hlassi“. Hann á vel við upphaf atburðarásar sem endaði með afsögn Inger Støjberg sem varaformanns Venstre sl. þriðjudagskvöld.
„Litla þúfan“ var stuttorð fréttatilkynning, sem danska innflytjendaráðuneytið sendi frá sér 10. febrúar 2016.
Í tilkynningunni var lagt bann við því að pör, þar sem annar aðilinn, væri yngri en 18 ára, byggju saman í búðum hælisleitenda í Danmörku. Án undantekninga.Tilkynningin var, eins og áður sagði, stuttorð, og danska Útlendingastofnunin fékk aldrei nein fyrirmæli, né leiðbeiningar, um hvernig þessu banni skyldi framfylgt. Ýmsir urðu til að gagnrýna bannið sem sagt var brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Inger Støjberg, ráðherra innflytjendamála, stóð fast á sínu og sagði bannið gert í þeim tilgangi að forða barnungum stúlkum úr þvinguðum hjónaböndum.
Umdeild harðlínukona
Inger Støjberg var fyrst kjörin á þing fyrir Venstre (sem er hægri miðjuflokkur) árið 2001 og varð strax nokkuð áberandi innan flokksins. Hún var um skeið ráðherra atvinnumála í ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen sem hafði tekið við forsætisráðuneytinu af Anders Fogh Rasmussen þegar sá síðarnefndi sagði af sér þingmennsku árið 2009. Stjórn Venstre féll í kosningunum árið 2011. Á næstu árum var mikill straumur flóttafólks til Evrópu, einkum frá Sýrlandi og Eritreu. Mörg hundruð þúsund manns leituðu eftir landvistarleyfi í löndum Evrópusambandsins en stjórnmálamenn stóðu nær ráðþrota gegn vandanum.
Eftir þingkosningar í Danmörku árið 2015 varð Inger Støjberg ráðherra innflytjendamála í ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen. Hún taldi að flóttafólk og hælisleitendur hefðu alltof greiðan aðgang að Danmörku „flóttamannagáttirnar galopnar“ eins og hún komst að orði. Inger Støjberg vildi harðari stefnu, en fylgt var í ríkisstjórn Helle Thorning-Schmidt, á árunum 2011 – 2015, og lét ekki sitja við orðin tóm. Í mars árið 2017 fagnaði hún því sérstaklega, með rjómatertu, að síðan hún varð ráðherra, eftir kosningarnar 2015, hefði hún 50 sinnum hert reglur um málefni hælisleitenda og flóttafólks. Tilkynningin frá 10. febrúar 2016 var liður í þessari hertu stefnu.
Að ganga, eða ekki að ganga, í takt
Í lok ágúst árið 2019 sagði Lars Løkke Rasmussen af sér sem formaður Venstre. Kristian Jensen varaformaður sagði af sér sama dag.
Þessir tveir höfðu átt erfitt með að finna „samvinnutaktinn“ og skyndilegt brotthvarf þeirra kallaði á nýja forystu í flokknum. Á flokksþingi Venstre þrem vikum síðar var Jacob Ellemann- Jensen kjörinn formaður og Inger Støjberg varaformaður. Ekki voru allir trúaðir á að þau tvö gætu unnið saman, en Venstre fólk vonaði hið besta. Lars Løkke hafði áður en til afsagnar hans kom viðrað þá hugmynd að rétt væri að flokkarnir á hægri væng stjórnmálanna, bláa blokkin svonefnda, íhuguðu samstarf við flokkana vinstra megin miðjunnar, rauðu blokkina.
Skýrslan og Landsdómur
Í nýrri skýrslu (14.12.2020) vegna embættisfærslna Inger Støjberg kom fram að hún hefði brotið lög með fyrirskipunum sínum varandi málefni hælisleitenda (tilkynningin frá 10.febrúar 2016) og auk þess logið að þinginu. Margir þingmenn vilja að málið fari fyrir landsdóm (rigsret) sem er dómstóll sem dæmir eingöngu í málum sem varða starfandi, eða fyrrverandi, ráðherra. Þingið ákvað á endanum að fá sérstaka ráðgjafarnefnd til að meta hvort leggja skuli mál Inger Støjberg fyrir landsdóm. Jacob Ellemann- Jensen lýsti jafnframt yfir að yrði niðurstaða ráðgjafarnefndarinnar sú að málið eigi erindi fyrir landsdóm muni hann styðja það. Þessi yfirlýsing formannsins undirstrikaði ágreining formanns og varaformanns.
Nýársbomban frá Lars Løkke Rasmussen
Vegna kórónuveirunnar var minna um flugelda og gamlárskvöldsbombur í Danmörku en venjan er. En Lars Løkke Rasmussen bætti það upp svo um munaði.
Að kvöldi nýársdags kastaði hann, á Facebook, stórri bombu inn í danskt samfélag. Þar lýsti hann yfir að hann segði sig úr Venstre og yrði þingmaður utan flokka. „Atburðir seinustu daga hafa sannfært mig um að ég eigi ekki lengur samleið með flokknum sem ég hef tilheyrt í 40 ár. Þetta var ekki auðveld ákvörðun en sú rétta”. Hann nefnir einnig nauðsyn þess að Venstre horfi ekki einungis til hægri í dönskum stjórnmálum, en slíkum hugmyndum hafði Jacob Ellemann- Jensen algjörlega hafnað.
Nýr flokkur?
Danskir stjórnmálaskýrendur segja að þótt mjög óvenjulegt sé að fyrrverandi flokksformenn og forsætisráðherra segi sig úr stjórnmálaflokki sem þeir hafa helgað pólitískt líf sitt, hafi ákvörðun Lars Løkke Rasmussen ekki komið beinlínis á óvart. Christine Cordsen, stjórnmálaskýrandi DR, danska útvarpsins, telur ómögulegt að spá hvað Lars Løkke Rasmussen ætlist fyrir. Ljóst sé að úrsögn hans úr Venstre valdi mörgum þar á bæ miklum áhyggjum. Ef hann ákveði að stofna nýjan flokk geti það haft mikil áhrif á gengi Venstre í næstu kosningum. „Áhyggjur flokksmanna voru þó ærnar fyrir” segir Christine Cordsen. Hans Engell, fyrrverandi formaður danska Íhaldsflokksins og núverandi stjórnmálaskýrandi TV2 sjónvarpsstöðvarinnar, segir brotthvarf Lars Løkke Rasmussen úr Venstre þungt högg fyrir flokkinn og bætir við „enginn veit hvað Inger Støjberg ætlast fyrir”.
Kjörtímabilið í Danmörku er fjögur ár. Síðast var kosið 5. júní 2019 og að óbreyttu fara næstu þingkosningar fram árið 2023.