Nú standa yfir valdaskipti í Bandaríkjunum sem munu formlega eiga sér stað með embættistöku Joe Bidens þann 20. janúar n.k. Hart var tekist á í forsetakosningunum, átök sem ekki sér fyrir endann á og keyrði um þverbak í þinghúsinu í Washington DC á miðvikudag. Þessir atburðir endurspegla vel þann klofning sem hefur verið að ágerast í bandarísku samfélagi og hversu mikil skautun er orðin í bandarískum stjórnmálum.
Í þessum atgangi hafa vopnaðar sveitir borgara (e.militias) verið áberandi en uppgangur þeirra hefur ágerst á undanförnum árum. Vígahópar þessir hafa margir orðið uppvísir að því að hóta, hvetja til og beita ofbeldi í mótmælaaðgerðum sem breytast þá enn frekar í ofbeldisfullar óeirðir. Hafa margir lýst áhyggjum sínum af því að lýðræðið sé í hættu og þeir svartsýnustu nefnt möguleika á að borgarastríð geti brotist út. Ljóst er að í landi þar sem skotvopnamenning er jafn djúpstæð og raun ber vitni eru þessar áhyggjur kannski ekki úr lausu lofti gripnar.
Alvarlegur klofningur – Hverjir eru við – hverjir eru þjóðin?
Joe Biden verðandi forseti sagði í ávarpi, þegar hann fordæmdi innrásina í þinghúsið, að þetta væri ekki það sem Bandaríkjamenn stæðu fyrir; „… this does not represent who we are.“ En hverjir eru þessir við? Til þess að þjóðfélög megi vera friðsamleg verður að ríkja almenn sátt um fyrirkomulag hlutanna hjá meginþorra íbúa. Ekki þurfa allir að vera sammála alltaf, en út á það gengur lýðræðið, að tekist er á um leiðir að settu marki.
En alvarlegur klofningur milli ólíkra hópa samfélagsins, hvort sem hann er sprottinn af trú, kynþáttum eða öðrum menningarlegum þáttum, getur haft alvarlegar afleiðingar. Þetta virðist vera raunin í Bandaríkjunum og aukin skautun í stjórnmálum á síðustu 25 árum hefur skapað grundvöll ófriðar og átaka, jafnvel ofbeldisfullra.
Það sem lengi hélt hinu margbrotna bandaríska samfélagi saman var að þangað flykktist fólk hvaðanæva að úr heiminum, með það sameiginlega markmið að láta drauminn rætast um betra líf. Mörgum hefur tekist það og Bandaríkin hafa blómstrað sem öflugasta ríki heims á mörgum sviðum. Fram eftir tuttugustu öld hélt fólk í drauminn, að með dugnaði og vinnusemi væru því allir vegir færir og þannig var það á meðan uppgangur ríkti.
Undanfarna áratugi hafa fleiri og fleiri vaknað upp við vondan draum, þegar störf í iðnaði hurfu sem báru uppi almenna velmegun fjölmennrar millistéttar. „Litli maðurinn“ eða verka- og iðnaðarmenn og eigendur smáfyrirtækja, höfðu ekki lengur sömu tækifæri til að skapa sér og sínum gott líf með dugnaði og atorkusemi. Þetta fyrirkomulag átti í raun ekki lengur við. Það voru nýir tímar, með jafnrétti og breyttum kynjahlutverkum sem ekki allir eru tilbúnir að meðtaka eða kunna að fóta sig í.
Bilið milli ríkra og fátækra jókst og stjórnmálamenn urðu í augum margra hluti af elítu sem hafði misst allt samband við raunveruleikann. Skuldinni hefur verið skellt á alþjóðavæðinguna á öllum sviðum, aukið regluverk og umsvif alríkisins, aðför að kristnum gildum og hefðbundnu fjölskyldumynstri, innflytjendur og útlendinga sem taka störfin o.s.frv. Við þetta bætist að ekki er lengur hægt að sameina þjóðina gegn sameiginlegum óvini, eins og í Kalda stríðinu.
Ábyrgð Trumps er mikil – hellir olíu á eldinn
Þegar svo Donald Trump birtist sem maður fólksins og segist ætla að fara með samfélagið aftur til gömlu tímanna, er engin furða að fólk stökkvi á vagninn. Raunveruleiki margra er núna hvort eð er ömurðin ein, fátækt og vonleysi, og mjög skiljanlegt að fólk flykki sér um slíkan foringja. Þessum hópi finnst hann ekki tilheyra samfélagi elítunnar og er því alveg skítsama um reglurnar, fólk hefur engu að tapa og er jafnvel tilbúið í blóðuga byltingu og borgarastríð.
Þarna er ábyrgð Trumps og félaga mikil því Bandaríki fortíðarinnar eru tálmynd sem getur aldrei orðið að raunveruleika í nútímanum. Forsetinn hefur með endurteknum lygum kynt undir ófriði, skerpt á andstæðum í samfélaginu og hvatt til liðsafnaðar og reynt að höfða til öfgahópa. Þegar forsetinn segir í ræðu við æstan hóp fólks við Hvíta húsið á miðvikudag: „Það er verið að taka landið frá ykkur“ og hvetur fólk til að flykkjast að þinghúsinu, hvar verið sé að innsigla glæpinn, er voðinn vís.
Hvatningarorð Trumps verða í raun herkvaðning því þannig hefur hann talað til fólks. Á vefsvæðum framboðs hans fyrir forsetakosningarnar á síðasta ári, Army For Trump, voru stuðningsmenn hvattir til að skrá sig til að hjálpa forsetanum að halda embættinu. Sjálfboðaliðum var boðið að „víglínunni, til að starfa við hlið „þjálfaðra bardagamanna“ sem styðja myndu fylgjendur til að vinna „á vellinum“ í her Trumps.
Vígasveitir – hreyfingar öfgahægrimanna
Þetta leiðir okkur að vígasveitum í Bandaríkjunum sem tók að vaxa fiskur um hrygg undir lok síðustu aldar og árið 2008, við kjör Baracks Obama, fjölgaði þeim mjög hratt. Þessir hópar byggja á mismunandi hugmyndafræði og markmiðum en fullyrða má að flestir séu lengst úti á hægri jaðrinum í bandarískum stjórnmálum.
Hefðbundnir óvinir eru Alríkislögreglan – FBI og aðrar alríkisstofnanir og liðsmenn taka gjarnan undir rakalausar samsæriskenningar eða öfgakenndustu kenningar almennra stjórnmála. Þeir deila almennt þeirri skoðun að ofríki stjórnvalda í Bandaríkjunum sé ýmist yfirvofandi eða raunverulegt. Slíku verði að mæta með vopnavaldi og að undirbúa þurfi komandi byltingu. Hert skotvopnalöggjöf er því eitur í þeirra beinum.
Þarna eru vígasveitir eins og Three Percenters og Oath Keepers, hvar herþjálfun er grunnþáttur og voru félagar þeirrar síðarnefndu áberandi í óeirðunum á Capitol Hill á miðvikudag. Einnig hópurinn Wolverine Watchmen, en meðlimir hans voru handteknir s.l. sumar vegna áforma um að ræna Gretchen Whitmer ríkisstjóra Michigan-ríkis, taka hana af lífi og koma af stað borgarastríði.
Jafnvel þó starfsemi slíkra vopnaðra sveita sé formlega ólögleg í öllum ríkjum Bandaríkjanna virðast þær þó að mestu geta starfað óáreittar. Það vekur ugg að mikill fjöldi vígamanna eru fyrrum eða núverandi her- og lögreglumenn. Sumar sveitirnar eiga bein tengsl við slíka aðila og liðsmenn eru jafnvel í vinsamlegum samskiptum við bæði óbreytta lögreglumenn og löggæsluyfirvöld.
Rannsóknir hafa sýnt að þar sem slíkt viðgengst þrífast vígasveitirnar betur. Í óeirðum í Kenosha í Wisconsin í ágúst s.l. voru lögreglumenn teknir upp á myndband þar sem þeir færðu hópi vígamanna vatn og þökkuðu þeim framlag þeirra, skömmu áður en 17 ára meðlimur hópsins skaut tvo menn til bana.
En hvað með vinstri-öfgasveitir og BLM?
Ekki er þar með sagt að vopnaðir hópar borgara séu allt hvítir öfgafullir kynþáttahatarar í vígahug sem hatast við stjórnvöld. Vopnaðar sveitir þeldökkra eru til, einnig sveitir hinum megin á pólitíska litrófinu og ekki eru allar vopnaðar sveitir þekktar af ofbeldi. Umræddar vígasveitir eru þó í miklum meirihluta skipaðar hvítum öfgahægrimönnum og margar þeirra skilgreindar sem hættulegar.
Almennt séð eru fordómar á grundvelli kynþáttar algengari lengst til hægri en lengst til vinstri. T.d. eru róttækir hópar sem berjast gegn fasisma og fella má undir hugtakið „Antifa“ frábrugðnir haturshópum á hægri vængnum. Það felst í því að venjulega eru þeir ekki skipulagðir í kringum ofstæki gegn fólki út frá óbreytanlegum einkennum þess, eins og litarhætti eða þjóðerni.
Eru þeldökkir þjóðin? – Refsileysi leyfir árásina á þinghúsið
Í stórum dráttum snýst barátta öfgahægrimanna, sem m.a. ruddust inn í þinghúsið, um að endurheimta einhverskonar „gullöld“ fortíðar þó hún geti verið mismunandi eftir hópum. Barátta þeldökkra og annarra minnihlutahópa, m.a. undir merkjum Black Lives Matters, er að miklu leyti andstæða þessa og gengur út á að betrumbæta það samfélag sem fyrir er. Ekki aðeins til að fá eins og aðrir að njóta þeirra gæða og réttinda sem í boði eru, heldur hreinlega að þurfa ekki að óttast um líf og limi fyrir það eitt að vera til.
Þarna birtist djúpstæður klofningur sem nær mjög langt aftur. Má halda því fram að svartir hafi aldrei orðið fullgildir, viðurkenndir þátttakendur í samfélaginu, þrátt fyrir að margt hafi áunnist. Innrásarfólkið í þinghúsið, að mestu hvítir kynþáttahatarar, eru boðberar gamla tímans, samfélags hvar það hafði yfirburði. Jafnrétti fyrir minnihlutahópa er þeirra tap og verður enn áþreifanlegra þegar hið markaðsdrifna neyslusamfélag, sem það átti þó sinn griðastað í, hefur riðað til falls. Því er það tilbúið til að berjast fyrir stöðu sinni og kerfið virðist taka þátt – með forsetann í fararbroddi.
Í því samhengi vekur viðbúnaður og viðbrögð löggæslu vegna innrásarinnar í þinghúsið upp áleitnar spurningar. Fréttamenn sem hafa fylgst með viðbrögðum lögreglu við mótmælum í Bandaríkjunum undanfarið segja mikinn mun vera á viðbrögðum hennar eftir því hver á í hlut. Handtökur voru tiltölulega fáar þegar æstur múgur hvítra öfgamanna ruddist inn í helgustu vé bandarísks lýðræðis. Lögreglumenn létu taka „sjálfur“ með innrásarmönnum, um leið og þeir hleyptu þeim inn.
Til samanburðar voru fleiri hundruð friðsamra mótmælenda, m.a. undir merkjum Black Live Matters, handtekin þegar þeir mótmæltu morði öfgahægrimanns á 17 ára svörtum pilti í Charlottesville árið 2017. Það sama var upp á teningnum þegar morðinu á George Floyd var mótmælt í Michigan í fyrra.
Því hefur verið haldið fram að innrásin í þinghúsið sé í raun afleiðing af refsileysi og slökum viðbrögðum við ofbeldi og hótunum öfga-hægrihreyfinga undanfarin ár. Í stað þess að fordæma morð á ungum saklausum pilti í Charlottesville kvað Donald Trump gott fólk vera í báðum fylkingum. Hið sama var uppi á teningnum þegar öfgahópar hótuðu eða lögðu á ráðin um ofbeldisverk vegna sóttvarnaráðstafana á síðasta ári – þá studdi Trump öfgamennina.
Trump er ekki hættur – varanlegur klofningur?
Donald Trump fékk meira en 70 milljón atkvæði í forsetakosningunum, næstum helming, þó síðustu atburðir hafi líklega kvarnað eitthvað úr því fylgi. Hann á því gríðarlega stóran hóp stuðningsmanna og af framferði hans að dæma hefur hann ekki sagt sitt síðasta orð.
Það ógnvænlega er að það er ekki vegna hugmyndafræðilegra hugsjóna heldur virðist hvatinn til að hafa áhrif vera til að þjóna hans persónulegu hagsmunum og hégóma. Hann er jú kvenhatari og rasisti sem finnur sig vel í samfélagi fortíðarinnar, á þeim meintu gósentímum þegar hvítir karlar deildu og drottnuðu í heiminum og misrétti og kúgun þjökuðu samfélagið.
Hópurinn sem Trump talar til er merkilega ólíkur innbyrðis; undirmálsfólk sem fátt bíður nema áframhaldandi vonleysi, en einnig þokkalega settir iðnaðar- og athafnamenn ásamt fyrrverandi og núverandi lögreglumönnum og hermönnum. Það sem sameinar þetta fólk er að það finnur sér ekki stað í hinu hnattvædda nútímasamfélagi sem það segir stjórnað af aftengdri vinstri-stjórnmálaelítu.
Ein meginástæða þess að stríðið á Balkanskaga á tíunda áratugnum braust út jafn hratt og varð jafn blóðugt og raun ber vitni, er hversu almenn herþjálfun var meðal ungra manna. Það þýddi að ekki þurfti mikil umsvif eða tíma til að koma hersveitum á fót, aðeins vörubílshlass af skotvopnum, flokk af reiðum ungum mönnum og kominn var viljugur her sem beita mátti í átökum.
Í fáum samfélögum er byssueign og herþjálfun jafn almenn og í Bandaríkjunum. Þegar virkar vopnaðar öfgasveitir hafa náð fótfestu í samfélagi þar sem milljónir manna upplifa að það sé búið að stela frá þeim landinu og möguleikum þeirra til að skapa sér gott líf – magnað upp af samsæriskenningaflóði um eðlufólk og mannætubarnaníðingafélög – geta slæmir hlutir hæglega gerst.