Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur til að allt að 35 prósent hlutur í Íslandsbanka verði seldur í fyrirhuguðu hlutafjárútboði og skráningu bankans á markað. Að lágmarki eigi að selja 25 prósent. Þá leggur meirihlutinn til að hámark verði sett á hlut hvers tilboðsgjafa, til dæmis 2,5 til 3,0 prósent, af heildarhlutafé Íslandsbanka.
Þetta kemur fram í umsögn sem nefndin hefur sent til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, og vegna greinargerðar hans um söluferlið og er dagsett í gær, 20. janúar.
Meirihlutinn samanstendur af Óla Birni Kárasyni, formanni nefndarinnar, og félögum hans í Sjálfstæðisflokknum þeim Brynjari Níelssyni og Bryndísi Haraldsdóttur. Aðrir stjórnarþingmenn í nefndinni, þeir Willum Þór Þórsson úr Framsóknarflokki og Ólafur Þór Gunnarsson úr Vinstri grænum, eru líka hluti af meirihlutanum. Hinir fjórir nefndarmennirnir, sem koma úr stjórnarandstöðuflokkum, skila allir sérstökum athugasemdum hver og einn.
Í athugasemdum meirihluta nefndarinnar segir að ekki verði annað séð enn að tillaga Bankasýslu ríkisins um sölu á hluta eignar Íslandsbanka sé „varfærin og sett fram við aðstæður sem ætla m á að séu hagstæðar til að taka fyrsta skref í að draga úr áhættu ríkisins af stórum eignarhlutum í fjármálakerfinu.“
Skynsamlegt kunni að vera að stefna að skráningu Íslandsbanka á erlenda markaði í náinni framtíð samhliða frekari sölu á eignarhlutum ríkisins. „Nauðsynlegt er að auka áhuga erlendra fjárfesta á hlutabréfum íslenskra fyrirtækja með skráningu í öðrum löndum.“
Viðreisn vill selja minna og Samfylkingin skilur ekki tímasetninguna
Í athugasemdum Jóns Steindórs Valdimarssonar, þingmanns Viðreisnar, er lagt til að einungis verði seldur 25 prósent hlutur og að 2,5 prósenta þak verði sett á það sem hver og einn tilboðsgjafi megi kaupa. Ekki verði tekin nein ákvörðun um frekari sölu hluta í bankanum fyrr en að loknu mati á frumútboðinu og í framhaldi af því nýrri tillögu frá Bankasýslu ríkisins.
Ekkert land sé að selja ríkiseignir um þessar mundir þó að staða á mörkuðum sé víða góð og skuldir ríkja um allan heim hafi aukist gríðarlega. Oddný segir að ef íslensk stjórnvöld telji að hagkvæmt sé að selja vel stæðan banka sem skilað hafi góðum arði í ríkissjóð, til að greiða niður skuldir á neikvæðum raunvöxtum, hafi þau ekki reiknað dæmið til enda. „Við undirbúning á sölu Íslandsbanka þarf að taka tillit til stöðu efnahags- og atvinnumála. Það hefur ekki verið gert. Slakur undirbúningur og mikil pressa að hálfu stjórnvalda á sölu hluta ríkisins í Íslandsbanka við óvissu og fordæmalausar samfélagslegar og efnahagslegar aðstæður er ekki traustvekjandi.“
Ekki sannfærandi rök fyrir ábata og athugasemdir við ráðstöfun söluandvirðis
Smári McCarthy, fulltrúi Pírata í nefndinni, segir í athugasemdum sínum að þar sem hvorki fjármála- og efnahagsráðherra, meirihluti nefndarinnar, né í raun nokkur annar hafi fært sannfærandi rök fyrir því að ábatinn af sölu Íslandsbanka nú sé mikill sé eðlilegt að bíða með söluferli en nýta þess í stað vorið til að meta hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi til að ábati af slíkri aðgerð verði mikill.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, myndar fjórða minnihluta í nefndinni. Hann gerir fyrst og fremst athugasemd við að Íslandsbanki sé einkavæddur án þess að leitast hafi verið við að nýta það einstaka tækifæri sem sé til staðari til að koma á heilbrigðara fjármálakerfi á Íslandi. „Auk þess hlýtur það að vekja spurningar að ráðast í bankasölu í núverandi efnahagsástandi. Með því er fyrst og fremst vísað til þeirrar óvissu sem er ríkjandi.“
Sigmundur Davíð segir að verði sala nú til þess að lífeyrissjóðir eignist áhrifamikinn hlut í Íslandsbanka verði þeir mjög umsvifamiklir á íslenskum fjármálamarkaði sem viðskiptavinir bankanna, keppinautar þeirra og áhrifamiklir eigendur tveggja stórra banka. „Ljóst er að fjárfestingaþörf lífeyrissjóðanna er mikil en samkeppnismál eru eitt þeirra meginatriða sem huga þarf að við uppbyggingu íslenska fjármálakerfisins.“
Hann gerir einnig að umtalsefni hvernig farið verður með það fjármagn sem mun fást fyrir Íslandsbanka. „Það á ekki hvað síst við í ljósi þess að fyrir skömmu lagði ríkisstjórnin fram þingsályktunartillögu þar sem opnað var á þann möguleika að nýta afrakstur af sölu Íslandsbanka í framkvæmdir við svo kallaða Borgarlínu (auk samgönguframkvæmda sem óvissa ríkir um). Þessi áform fara illa saman við þau rök að selja þurfi bankann nú til að létta á skuldastöðu ríkissjóðs auk þess sem lánakjör íslenska ríkisins eru nú með allra besta móti. Stöðugleikaframlögin voru hugsuð til að styðja við íslenskt efnahagslíf og tryggja heilbrigt fjármálakerfi, ekki sem peningar sem eyða mætti í óhagkvæm gæluverkefni.“