Pexels - Open source myndasöfn

Umfram eigið fé Íslandsbanka er tæplega 58 milljarðar króna

Kannað verður hvort það sé hagkvæmt að greiða út það eigið fé sem Íslandsbanki á umfram kröfur Fjármálaeftirlitsins áður en að bankinn verður seldur. Það er rétt tæplega þriðjungur af öllu eigin fé bankans, sem er alls 182,6 milljarðar króna. Eigendur Arion banka hafa það sem markmið að greiða sér út eins mikið umfram eigið fé og hægt er út úr bankanum.

Bankasýsla ríkisins mun kanna hvort hagkvæmt sé að greiða umfram eigið fé Íslandsbanka til ríkisins áður en bankinn verður seldur. Alls var umfram eigið fé Íslandsbanka, miðað við lágmarks eiginfjárkröfur Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands að viðbættum 0,5 prósent lágmarks stjórnendaauka, 57,6 milljarðar króna í lok september síðastliðins, eða rétt tæpur þriðjungur af öllu eigin fé bankans, sem var 182,6 milljarðar króna á þeim tímapunkti.

Þetta kemur fram í kynningu sem Bankasýslan hélt fyrir fjárlaganefnd í síðustu viku. 

Í kynningunni segir að útgreiðsla á umfram eigin fé geti verið „veigamikil rök nýrra fjárfesta að eignast hlut í banka, sem hefur jafnmikið eigið fé og Íslandsbanki.“ Þar er þó bent á að ef 25 prósent hlutur í Íslandsbanka verði seldur, og ríkissjóður haldi eftir 75 prósent hlut, þá mun ríkissjóður áfram fá 75 prósent af öllum arðgreiðslum eða arði sem skapast vegna endurkaupa á hlutabréfum. Því væri ekki verið „að gefa“ umfram eigið fé bankans með sölu á fjórðungshlut.

Auglýsing

Ákvörðun um hversu stór hlutur í Íslandsbanka verði seldur liggur ekki fyrir, en búist er við að hann verði að lágmarki 25 prósent, sem er lágmarksviðmið Kauphallar Íslands vegna nýskráningar félags á markað. Heimild er í fjárlögum til að selja bankann í heild sinni. Söluferlið hófst á ný í desember í fyrra og ef áformin ganga eftir á að skrá Íslandsbanka á markað í maí á þessu ári. Verð og umfang mun ekki liggja fyrir fyrr en útboðslýsing verður birt í aðdraganda þeirrar skráningar.

Ýmsir hafa lýst yfir áhyggjum af því að fyrirkomulag á sölu Íslandsbanka muni laða að fjárfesta með skammtímamarkmið varðandi kaupin, en ekki áform um að reka banka til lengri tíma í arðsömum rekstri. Þær áhyggjur komu meðal annars fram á vettvangi fjárlaganefndar. Þau skammtímamarkmið séu meðal annars að geta „tappað af“ það eigin fé sem sé til í bankanum umfram þá 17 prósent eiginfjárkröfu sem Fjármálaeftirlitið gerir. 

Getur dregið úr getu til að takast á við útlánatöp

Áhættan sem getur verið af því að lækka eigið fé bankanna um og er að þeir lendi í vandræðum við að mæta útlánatöpum viðskiptavina sinna. Það á sérstaklega við núna þegar kórónuveirufaraldurinn geisar, með tilheyrandi efnahagslegum áhrifum á ýmsar geira. Þau áhrif hérlendis eru að uppistöðu á ferðaþjónustugeirann, en Íslandsbanki hefur verið nokkuð stórtækur í að lána til hans í uppgangi síðustu ára. 

Jón Gunnar Jónsson er forstjóri Bankasýslu ríkisins.
Mynd: Skjáskot

Í níu mánaða uppgjöri bankans í fyrra kom fram að 20 prósent lána til fyrirtækja séu í frystingu vegna COVID-19 áhrifa (það er ekki verið að greiða af þeim sem stendur) eins og stendur, eða alls 120,3 milljarðar króna. Þá eru 17,5 milljarðar króna af lánum til einstaklinga í frystingu og samtals eru því útlán upp á tæplega 138 milljarða króna í þeirra stöðu að ekki er verið að greiða af þeim. 

Íslandsbanki hefur fært varúðarniðurfærslu upp á 1,9 milljarða króna vegna þessa. Guðrún Johnsen, hagfræðingur og lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, hefur gagnrýnt að til standi að selja bankann við þessar aðstæður. Óvissa um virði eigna auki líkur á því að ríkið fái ekki raunvirði út úr sölunni á Íslandsbanka. 

Bankasýslan reiknar sig niður á 19 milljarða 

Bankasýslan rekur í kynningu sinni það sem hún telur mögulegar arðgreiðslur fyrir sölu á Íslandsbanka, og kemst að þeirri niðurstöðu að líklegast sé að hægt yrði að greiða út 19 milljarða króna af umfram eigin fénu. 

Það er rökstutt með því að draga þyrfti frá 17,1 milljarð króna af eigin fé sem þyrfti að fjármagna með víkjandi skuldabréfi. Það væri að mati Bankasýslunnar of dýr aðgerð miðað við vaxtakostnað á markaði og því ólíkleg. Þá telur Bankasýslan að draga þyrfti 21,5 milljarða króna frá á grundvelli varúðarsjónarmiða. 

Auglýsing

Einn hinn kerfislegu mikilvægu banka er nú þegar skráður í Kauphöll, Arion banki. Stefnumótun hans fer fram á forsendum einkafjárfesta, bæði erlendra skammtímasjóða og innlendra fjárfesta. Innan hans hefur verið mótuð stefna um útgreiðslu umfram eigin fjár sem er mun beinskeyttari en sú varfærna stefna sem Bankasýslan lýsir í kynningu sinni. 

Svigrúm til að greiða út allt að 80 milljarða

Þegar Arion banki var skráður á markað á fyrri hluta ársins 2018 lá fyrir að markmið ráðandi hluthafa væri að greiða sér út eins mikið af eigin fé hans og hægt væri, á sem skemmstum tíma. 

Í fjárfestakynningu sem Kvika vann fyrir Kaupþing á þessum tíma kom fram að svigrúm væri til að greiða út allt að 80 milljarða króna, eða þriðjung alls eigin fjár Arion banka, á tiltölulega skömmum tíma með ýmsum hætti. Það væri hægt að gera í gegnum breytingu á fjármögnun bankans, með því að draga úr útlánum hans, með því að minnka kostnað í gegnum uppsagnir á starfsfólki, með því að hrinda í gang umfangsmikilli endurkaupaáætlun á hlutabréfum í bankanum og svo auðvitað í gegnum arðgreiðslur. 

Þá átti að selja undirliggjandi eignir sem væru ekki hluti af kjarnastarfsemi Arion banka.

Í byrjun árs 2020 hafði flest í þeirri leikáætlun gengið eftir. Eigið fé Arion banka hafði lækkað úr 225,7 milljörðum króna í 190 milljarða króna frá lokum árs 2017 og fram til loka árs 2019, eða um tæpa 36 milljarða króna. 

Til viðbótar töldu greiningaraðilar að bankinn geti búið þannig um hnútanna að það losni um tugi milljarða króna til útgreiðslu þegar árið 2020 er á enda, aðallega með því að minnka útlán sín. Til stóð að minnka þau um 20 prósent á síðasta ári. Í afkomuspá sem Hagfræðideild Landsbankans vann um uppgjör Arion banka í aðdraganda birtingu ársreiknings hans fyrir árið 2019 var því spáð að arðgreiðslur bankans gæti orðið 50 milljarðar króna á tólf mánuðum. Kórónuveirufaraldurinn kom í veg fyrir að þau áform gengu eftir samkvæmt þeirri tímalínu sem lagt var upp með. Samhliða því að Seðlabanki Íslands réðst í að veita bönkunum miklar tilslakanir til að þeir gætu aðstoðað í baráttunni við efnahagslægðina sagði Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, að það væri algjörlega ótækt af Arion banka að íhuga arðgreiðslur eða endurkaup á bréfum við ríkjandi aðstæður.

Með of mikið eigið fé

Þegar Arion banki greindi frá uppgjöri fyrir fyrstu níu mánuði síðasta árs var haft eftir Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka, að bankinn væri í þeirri stöðu að vera með of mikið eigið fé sem nær ómögu­legt væri að ávaxta í takti við þau markmið sem stjórn bankans hafði sett honum, en þau snúast meðal annars um að arðsemi eigin fjár sé tíu prósent eða meiri. Hún var 4,7 prósent á fyrstu þremur ársfjórðungum síðasta árs.

Auglýsing

Á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 jókst eiginfjárgrunnur Arion banka um tæpa 30 milljarða króna og heildar eigið fé bankans í lok september nam 192 milljörðum króna. 

Fyrir liggur að til þess að ná fram markmiðum stjórnar um arðsemi eigin fjár, og orða bankastjórans um möguleika Arion banka að ávaxta þetta mikla eigin fé, að til standi að greiða að minnsta kosti hluta af umfram eigið fé út til hluthafa þegar slíkt verður í boði.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar