Rík lönd gætu orðið fyrir meiriháttar framleiðslutapi verði bóluefnum gegn COVID-19 ekki dreift jafnt um allan heiminn. Á Íslandi gæti tapið numið allt að 290 þúsund krónum á mann í ár, en ójöfn dreifing bóluefna gæti haft neikvæð áhrif á álframleiðslu.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri rannsókn frá hagfræðingum við Koç-háskóla í Istanbul, háskólanum í Maryland og Harvard-háskóla og var birt á vef Alþjóðaviðskiptaráðsins (e. ICC) fyrr í dag. Samkvæmt rannsókninni er jöfn dreifing bóluefna um allan heim ekki einungis siðferðisleg skylda heimsbyggðarinnar, heldur gæti hún komið í veg fyrir meiriháttar framleiðslutap sem ætti sér stað vegna röskunar á framleiðslukeðju ýmissar vöru og þjónustu.
Enginn er eyland
Í grein sinni leggja höfundarnir áherslu á að hagkerfi heimsins eru opin, þ.e. að þau reiða sig að einhverju leyti á viðskipti við önnur lönd. Þannig geti framleiðslutap í þróunarlöndum sem mögulega hlýst af ströngum sóttvarnaraðgerðum þar haft áhrif á ýmiss konar framleiðslu í iðnríkjum.
Höfundarnir byggja rannsókn sína á haglíkani sem skoðar áhrif ójafnrar dreifingar bóluefna á framboð og eftirspurn eftir vörum og þjónustu í 35 atvinnugreinum og 65 löndum. Mismunandi sviðsmyndir eru skoðaðar, en í þeirri svörtustu er búist við að bólusetning gegn COVID-19 hefjist ekki að neinu ráði í þróunarlöndum í ár. Á sama tíma er gert ráð fyrir að í löndunum þar sem heilbrigðiskerfið hefur takmarkaða getu til að ráða við faraldurinn verði ráðist í harðar sóttvarnaraðgerðir sem hamla framleiðslu.
Í björtustu sviðsmyndinni er svo gert ráð fyrir að bólusetning hefjist í þróunarlöndum á þessu ári, en að einungis verði hægt að bólusetja helming þjóðarinnar í hverju landi.
Samkvæmt þeim er hugsanlegur ávinningur jafnrar dreifingar bóluefna meiri hjá iðnríkjum eftir því sem þau eru opnari. Þeir telja að opin hagkerfi í Evrópu, líkt og Svíþjóð, Noregur og Bretland, gætu tapað allt að fimm prósentum af landsframleiðslu ef þróunarlöndin fá ekki bóluefni gegn veirunni jafnhratt og iðnríkin.
Á Íslandi er búist við því að framleiðslutapið við að hleypa ekki þróunarlöndunum að nemi 0,5 til 3,7 prósentum af landsframleiðslu í ár. Ef gert er ráð fyrir að síðasta þjóðhagsspá Hagstofu gangi upp fyrir árin 2020 og 2021 mætti því búast við að virði framleiðslutapsins hér á landi væri á bilinu 15 til 107 milljarðar íslenskra króna, eða um 40 til 290 þúsund krónur á mann.
Álframleiðsla illa úti
Samkvæmt rannsókninni kemur ójöfn dreifing bóluefna verst niður á fataiðnaðinn í iðnríkjum, sem gæti orðið af tæplega tíu prósentum af framleiðslu sinni. Í þróunarlöndum er svo búist við að fataframleiðsla muni skerðast um fimmtung vegna seinkunar á komu bóluefnis þar, ef miðað er við sviðsmynd þar sem öll lönd fengju bóluefni á sama tíma.
Námuframleiðsla og framleiðsla grunnmálma, meðal annars áls, munu einnig verða fyrir töluvert neikvæðum áhrifum vegna þessa, bæði í þróunarlöndum og í iðnríkjum. Samkvæmt líkaninu sem höfundar rannsóknarinnar styðjast við er búist við að samdrátturinn í þessum atvinnugreinum geti numið sjö til átta prósentum. Mikill munur er þó á samdrætti í atvinnugreinunum milli landa, en höfundarnir benda þó á að hugsanlegt tap er meira í löndum sem reiða sig meira á alþjóðaviðskipti.
Ekki einungis siðferðisleg spurning
Fyrir viku síðan sagði Tedros Ghebreyesus, formaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) heiminn vera á barmi „siðferðisbrests“ vegna ójafnrar dreifingar bóluefna gegn COVID-19 um heiminn, líkt og BBC greindi frá.
Höfundar vísindagreinarinnar benda einnig á siðferðislega ábyrgð ríkari landa á að stuðla að jafnri dreifingu bóluefna, en bæta þó við að rannsókn þeirra sýni að slíkar aðgerðir væru ekki góðgerðarstarfsemi ein og sér, þar sem þeir væru einnig hagkvæmastar fyrir heimsbúskapinn. Iðnríki gætu borið efnahagslegan skaða af því að veita ekki fátækari löndum aðgang að bólusetningum nægilega fljótt.
Vegna fjölda sviðsmynda er matið á væntu framleiðslutapi iðnríkja ef bólusetning hefst ekki á sama tíma í þróunarlöndum mjög breytilegt, en það fer frá 200 milljörðum Bandaríkjadala til 4,5 billjóna Bandaríkjadala. Sama hvaða mælikvarði er notaður benda höfundarnir á að tapið er alltaf talið vera margfalt hærra þeir 38 milljarðar Bandaríkjadala sem ACT, alþjóðlegt samstarf á vegum WHO um dreifingu bóluefna, telur að ríkin þurfi að verja í að dreifa bóluefnunum jafnt um heiminn.