Nú í janúar hafa 90 manns greinst með virkt smit af kórónuveirunni innanlands en 146 í landamæraskimun sem er næst mesti fjöldi í einum mánuði síðan hún hófst. Á þeim 333 dögum sem liðnir eru síðan fyrsta smitið greindist innanlands hafa 78 dagar verið án smita, þar af þrír í janúar. Einn þeirra var fyrsti dagur ársins en þá voru engin sýni tekin. Lengsta smitlausa tímabilið frá upphafi faraldursins var í júlí en þá liðu 20 dagar án þess að nokkur greindist með veiruna innanlands.
Síðustu sjö daga hafa aðeins þrettán innanlandssmit greinst og hafa svipaðar tölur ekki sést síðan í júlí. Síðustu sex daga hafa allir verið í sóttkví við greiningu en slíkt er ákveðinn mælikvarði á litla útbreiðslu smits í samfélaginu.
6.000 manns hafa nú greinst með COVID-19 á Íslandi. 29 eru látnir. Í gær höfðu 4.820 fengið seinni skammt bóluefnis og eru því að fullu bólusettir. Vonast er til að búið verði að bólusetja 30 þúsund manns fyrir marslok.
Frá því landamæraskimun hófst um miðjan júní hafa 667 ferðamenn greinst með virkt smit. Í júní og júlí greindust fáir, samtals 25 manns, en stökk varð í ágúst er 72 greindust. Þann 19. ágúst var tekin upp tvöföld sýnataka á landamærunum og í september greindust þar aðeins 47 með virkt smit.
Staðan snöggbreyttist svo í október. Þriðja bylgja faraldursins var hafin og 1.959 manns greindust með veiruna innanlands. Á landamærunum var einnig mesti fjöldi virkra smita í einum mánuði eða 168.
Sá fyrsti sem greindist með kórónuveiruna hér á landi var karlmaður á fimmtugsaldri sem hafði verið á ferðalagi um Norður-Ítalíu. Smit sem greindust svo í kjölfarið var einnig flest hægt að tengja við skíðaferðalög í Ölpunum. Í mars og apríl, í fyrstu bylgju faraldursins, greindust samtals 1.797 tilfelli COVID-19 en aðeins átta í maí eftir harðar samkomutakmarkanir vikurnar á undan. Útlitið var einnig gott í júní og þá greindust aðeins tólf innanlands og sex í landamæraskimun sem þá hafði verið tekin upp.
Í lok júní kom upp lítið hópsmit í tengslum við Íslending sem hafði greinst neikvæður við komuna til landsins en fengið einkenni nokkrum dögum síðar og reyndist í annarri sýnatöku smitaður. Þá hófst umræða um tvöfalda sýnatöku við landamærin, því orðið var ljóst að fólk getur verið einkennalaust og ekki greinst í nokkra daga eftir að fá veiruna í sig, en hún varð þó ekki að veruleika fyrr en eftir miðjan ágúst.
Græna og bláa afbrigðið
Á milli þessara tveggja atburða, smitsins í lok júní og tvöföldu skimunarinnar, komust tveir stofnar veirunnar á flug innanlands. Annar þeirra, kallaður græna afbrigðið, kom af stað annarri bylgjunni í ágúst. Ekki er enn vitað hvenær eða hvernig það afbrigði komst inn í landið.
Meira er vitað um bláa afbrigðið sem varð drifkrafturinn í þriðju bylgjunni og þeirri verstu hingað til. Það barst til landsins fyrir miðjan ágúst, líklega með ferðamönnum frá Frakklandi.
Á síðustu vikum hafa um fjörutíu manns greinst með hið svokallaða breska afbrigði veirunnar á landamærunum og að minnsta kosti sjö innanlands. Allt tengist það fólk þeim sem greinst hafa í landamæraskimun. Það afbrigði hefur því ekki, enn sem komið er, breiðst út í samfélaginu en rannsóknir benda til að það sé mun meira smitandi en eldri afbrigði veirunnar. Hefur það m.a. valdið usla í Danmörku, Bretlandi, Hollandi og víðar. Fleiri skæð afbrigði hafa einnig látið á sér kræla síðustu vikur, m.a. eitt sem kennt er við Suður-Afríku og annað sem kennt er við Brasilíu.
Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir voru spurð að því á upplýsingafundi almannavarna á mánudag hvers vegna frekari tilslakanir væru ekki gerðar á samkomum fólks í ljósi þess að staðan í faraldrinum innanlands væri mun betri en við höfum séð í lengri tíma. Þórólfur svaraði því til að frekar nýlega hefði verið slakað á, samkomutakmarkanir færðar í tuttugu manns í stað tíu og ýmis starfsemi heimiluð á ný, og að afleiðingarnar af því ættu enn eftir að koma í ljós. Þá væri faraldurinn í mikilli uppsveiflu erlendis og bráðsmitandi afbrigði á kreiki. Enn væru margir að greinast við landamærin sem endurspeglaði stöðu faraldursins í mörgum nágrannalöndum okkar.
Alma sagði að við værum nú reynslunni ríkari. Það hefði sýnt sig að lítið þyrfti til að koma af stað nýrri bylgju eins og við sáum um miðjan september er þriðja bylgjan hófst. Ekki tókst að ráða niðurlögum hennar fyrr en í lok nóvember.