Landsframleiðsla er talin hafa dregist saman um 7,7 prósent í fyrra, samkvæmt nýútgefnum Peningamálum Seðlabanka Íslands. Þetta er minni samdráttur en bankinn bjóst við í fyrrahaust, þrátt fyrir að fjárfesting hins opinbera hafi verið langt undir væntingum. Aftur á móti virðist neysla og fjárfesting einstaklinga og fyrirtækja hafa verið kröftugri en áður var spáð.
Hvað varð um fjárfestinguna?
Líkt og Kjarninn fjallaði um í síðustu viku niðurfærði Íslandsbanki spá sína um opinberar fjárfestingar á tímabilinu 2020-2022, þar sem ekki var ráðist í jafnmörg fjárfestingarverkefni í fyrra og áður var búist við. Nú telur bankinn að heildarumfang opinberra fjárfestinga á tímabilinu verði 38 milljörðum krónum minna en þeir töldu í september síðastliðnum.
Svipaðan mun má sjá í Peningamálum, þar sem búist var við fimmtungsaukningu í opinberum fjárfestingum í lok fyrrasumars, en taldi hana svo einungis munu aukast um þrjú prósent í lok nóvember. Nú telur bankinn að fjárfestingar hins opinbera hafi dregist saman um 7 prósent.
Samkvæmt Seðlabankanum eru vísbendingar um að tafir hafi orðið umfram áætlanir á fjárfestingu ríkis og sveitarfélaga á fyrri helmingi ársins. Fjárhagsáætlanir stærstu sveitarfélaganna gefa til kynna að fjárfesting hafi svo gengið betur á seinni helmingi ársins þó að mörg sveitarfélög hafi í reynd skorið fjárfestingu mikið niður á meðan önnur bættu í.
Bankinn segir að hliðrun í tíma á fjárfestingaráætlunum stjórnvalda sé meginástæðan fyrir þessari miklu minnkun, en bætir við að samdráttur í fjárfestingum sé þvert á áætlanir þeirra.
Einstaklingar og fyrirtæki til bjargar
Þrátt fyrir minni fjárfestingar hins opinbera er Seðlabankinn nú bjartsýnni á stöðu heildarfjárfestingar í hagkerfinu en hann var áður, þökk sé minni samdrætti í atvinnuvega- og íbúðafjárfestingu. Sérstaklega minnist bankinn á fjárfestingu í atvinnuvegum utan stóriðju, skipa og flugvéla, sem dróst minna saman en stóriðjufjárfestingar.
Einkaneysla dróst líka minna saman en áður var ætlað, sérstaklega síðsumars og í byrjun haustsins. Samkvæmt Peningamálum gefur þetta til kynna að heimilin hafi í meira mæli gengið á þann sparnað sem þau söfnuðu upp í kjölfar farsóttarinnar.
Aftur á móti telur Seðlabankinn að neyslan hafi minnkað töluvert í fyrrahaust, samhliða þriðju bylgju faraldursins og sóttvarnarráðstöfunum sem henni fylgdi. Hins vegar er talið að neyslan hafi aukist aftur á ný á síðustu vikum ársins, eftir því sem smitum fækkaði og létt var á ýmsum takmörkunum. Bankinn áætlar að einkaneysla hafi dregist saman um 4,4 prósent í fyrra miðað við árið 2019, sem er heilu prósentustigi minni samdráttur en hann taldi áður.
Vegna minni samdráttar í neyslu og fjárfestingu einkaaðila telur Seðlabankinn því að landsframleiðsla hafi dregist saman um 7,7 prósent í fyrra, en ekki 8,5 prósent líkt og hann spáði í síðasta hefti Peningamála fyrir þremur mánuðum síðan.
Erfið viðspyrna fram undan
Þrátt fyrir jákvæðari áætlanir um árið 2020 er Seðlabankinn ekki bjartsýnni um viðspyrnuna sem er fram undan í efnahagslífinu. Nýjasta hefti Peningamála gerir ráð fyrir komu um 700 þúsund ferðamanna til landsins í ár, en það er nokkuð minna en bankinn spáði fyrir þremur mánuðum síðan. Spáin rímar þó vel við nýjustu þjóðhagsspá Íslandsbanka, þar sem einnig er gert ráð fyrir að 700 þúsund ferðamenn komi hingað í ár.
Búist er við að slakað verði smám saman á sóttvörnum er líður á árið þótt gert sé ráð fyrir að takmarkanir verði við lýði í einhverri mynd fram á síðasta fjórðung ársins. Því er talið að einkaneyslan verði nokkuð hæg að taka við sér, sérstaklega á fyrri helmingi ársins. Bankinn spáir því að landsframleiðslan aukist um 2,5 prósent í ár, sem er svipuð spá og birtist í síðasta hefti Peningamála.