Tekst Biden að endurnýja kjarnorkusamkomulagið við Íran?

Bandaríkjastjórn vinnur nú að því að ganga aftur inn í kjarnorkusamkomulagið við Íran um leið Joe Biden reynir að gera utanríkisstefnuna faglegri. Spurningin er hvort Bandaríkin séu föst í gömlu fari sem muni verða Biden fjötur um fót.

Kona á gangi fyrir framan veggmynd í Teheran þar sem valdatafli Bandaríkjanna er mótmælt.
Kona á gangi fyrir framan veggmynd í Teheran þar sem valdatafli Bandaríkjanna er mótmælt.
Auglýsing

Eftir valdaskiptin í Bandaríkjunum bíða nýs forseta mörg krefjandi verkefni. Líklega er endurnýjun aðildar Bandaríkjanna að Kjarnorkusamkomulaginu við Íran, sem Donald Trump dró Bandaríkin út úr árið 2018, með þeim flóknari. Formlega er samkomulagið enn í gildi og hafa helstu þjóðarleiðtogar heims hvatt til þess að svo verði áfram. Yfirvöld í Íran segja boltann vera hjá Bandaríkjamönnum, hafa kallað eftir afnámi viðskiptaþvingana sem Trump-stjórnin endurvakti, og sagst reiðubúin til að leggja sitt af mörkum. Ný bandarísk stjórnvöld hafa sagt að þá verði Íran umsvifalaust að fylgja ákvæðum samkomulagsins í einu og öllu.

Kalt stríð um forystu í Mið-Austurlöndum – Arabar eða Persar?

Þrátt fyrir að Íranir hafi ekki farið með beinum ófriði gegn neinu nágrannaríkja sinna í Mið-Austurlöndum hefur hegðun þeirra verið ýmsum þyrnir í augum. Mikilvægur þáttur er langvarandi og undirliggjandi valdabarátta á svæðinu milli tveggja póla, Arabaríkja og hins persneska Írans. Það er öflugt ríki að upplagi og hefur alla burði til að vera leiðandi ríki en hefur átt við ramman reip að draga vegna viðskiptaþvingana undanfarna áratugi. Að sama skapi hafa Íranir talið sig geta sameinað múslima á svæðinu.

Auglýsing

Þetta hugnast fáum ríkjum Mið-Austurlanda, síst af öllum Ísraelsmönnum. Bandaríkin eru tryggir bandamenn Ísraels og Bandaríkjamenn fyrirgefa jafnframt seint að hafa verið hent öfugum út úr Íran í byltingunni árið 1979. Stuðningur Írans við ýmsa hópa eins og Hamas og Hezbollah, sem skilgreindir eru sem hryðjuverkasamtök af Bandaríkjunum og fleiri vesturveldum, auðveldar ekki málin.

Trump-stjórnin sá sér leik á borði til að skerpa á þessari valdabaráttu og hefur stært sig af því að hafa tekið skref í átt til friðar í Mið-Austurlöndum. Það hafi hún gert með því að sameina Arabaríkin gegn þeirri ógn og óstöðugleika sem Íran hafi skapað, með tilburðum í átt að yfirráðum á svæðinu og þróun kjarnavopna.

Donald Trump skrifar undir forsetatilskipun í Hvíta húsinu í maí árið 2018 og gerði kjarnorkusamkomulagið við Íran að engu. Mynd: EPA

Á hinn bóginn hefur verið bent á að þetta friðarsamkomulag, sem Bandaríkjastjórn kaus að nefna Abraham-samkomulagið, sé síst til þess fallið að koma á friði. Til að byrja með var enginn ófriður á milli Sameinuðu Furstadæmanna, Barein og Ísrael. Enfremur er stórvarasamt að safna Arabalöndum og Ísrael saman í lið, á þeim forsendum að óvinir óvina þinna séu vinir þínir. Að einangra Íran og Palestínu-Araba gagnvart þessu meinta friðarbandalagi, m.a. með vopnvæðingu Arabaríkja, skapar því meiri spennu og ójafnvægi. Það kemur í veg fyrir að ríkin sjálf nái að þróa eðlileg samskipti, án íhlutunar, eins og Íranir hafa sjálfir kallað eftir.

Kjarnorkusamkomulagið frá 2015

Barack Obama hafði forgöngu um kjarnorkusamkomulagið sem samþykkt var árið 2015. Samkvæmt því skuldbundu Íranir sig til að skera niður búnað til auðg­unar úrans, m.a. þannig að þeir gætu ekki fram­leitt hráefni sem nota má í kjarn­orku­vopn. Jafnframt var áskilið að öll starf­semi í Íran sem byggði á friðsamri notkun kjarn­orku yrði að vera undir eft­ir­liti Alþjóða kjarn­orku­mála­stofn­un­ar­inn­ar (IAEA). Í staðinn yrði viðskiptaþvingunum aflétt í áföng­um.

Almennt má segja að samkomulagið hafi verið til hagsbóta fyrir alla aðila. Hvað sem fólki finnst um þá ógn sem stafar af Íran í Mið-Austurlöndum eru flestir líklega á því að betra sé að hafa virkt samkomulag í gildi þótt gallað kunni að vera. Talsverðrar tortryggni gætti þó meðal helstu andstæðinga Írana og því var haldið fram að með samkomulaginu væri verið að gera þeim kleift að þróa kjarnorkuvopn. Íranir fullyrtu á móti að auðgun þeirra á úrani væri eingöngu til orkuframleiðslu.

Hassan Rouhani forseti Írans á ríkisstjórnarfundi í byrjun febrúar. Mynd: EPA

Eftir að Bandaríkjamenn sögðu sig frá samkomulaginu árið 2018 hafa Íranir brotið gegn mörgum ákvæðum þess. Íran er samt sem áður ennþá í samstarfi við IAEA og veitir eftirlitsmönnum aðgang samkvæmt einni aðhaldssömustu eftirlitsáætlun sem nokkurt ríki hefur sætt.

Alþjóðadómstóllinn í Haag úrskurðaði nýlega að hann gæti tekið fyrir mál sem Íran höfðaði gegn Bandaríkjunum, í því skyni að binda enda á refsiaðgerðir sem Trump-stjórnin setti aftur á árið 2018. Dómurinn hafði þá dæmt Íran í hag og Washington svarað með því að falla frá samkomulaginu.

Íranir vilja endurvekja samkomulagið

Nú þegar ljóst er að ný stjórnvöld í Washington eru opin fyrir því að ganga til samninga á ný hafa Íranir sett þrýsting á Bandaríkjastjórn til að bæta samningsstöðu sína. Þeir hafa m.a. hótað að hindra kjarnorkueftirlit í næsta mánuði og auka enn frekar framleiðslu eldsneytis sem auðga mætti til smíði kjarnorkuvopna. Áður höfðu þeir lagt hald á olíuskip Suður-Kóreumanna, bandarísks bandamanns, og enn einn bandarískur ríkisborgari hefur verið handtekinn sakaður um njósnir.

Íranir hafa þó sýnt samningsvilja og Mohammad Javad Zarif utanríkisráðherra segir þá alltaf hafa tekið það skýrt fram að þeir séu opnir fyrir viðræðum á heiðarlegum grunni. Hann segir að það hafi verið Bandaríkjamenn sem riftu samkomulaginu einhliða án nokkurrar ástæðu og gagnrýnir jafnframt vestræna stjórnmálamenn og sérfræðinga, sem verður tíðrætt um að halda þurfi Íran í skefjum. Hann segir þessa aðila eiga að hætta að enduróma gamla þreytta frasa og hafa í huga að Íran hefur lögmætar áhyggjur af öryggi sínu og hafi réttindi og hagsmuni – rétt eins og hvert annað fullvalda ríki.

Andstaða á Bandaríkjaþingi

Demókratar hafa nú meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings svo formlega ætti að vera hægt að koma málinu þar í gegn. Joe Biden hefur jafnframt kallað eftir samstöðu þeirra Evrópuríkja sem að málum koma, ólíkt fyrirrennara hans sem lék einleik í málinu.

Hin nýja stjórn í Washington hefur strax gert tilslakanir til að sýna fram á sáttavilja og losa um spennu í samskiptum ríkjanna. M.a. var flugmóðurskipinu USS Nimitz siglt út úr Persaflóa þar sem það hafði verið um skeið. Málið er þó ekki einfalt því margir þingmenn á Bandaríkjaþingi hafa litið fyrra samkomulag hornauga og talsverður stuðningur er við harðlínustefnu gagnvart Íran.

Joe Biden forseti Bandaríkjanna Mynd: EPA

Jim Inhofe sem tilheyrir íhaldssamasta armi Repúblikanaflokksins segir þingið muni gera Biden erfitt fyrir. Hann segir fyrri samning hálfgerða gjöf til Íransstjórnar – stjórnar sem styður hryðjuverkasamtök um allan heim, veiti Al-Qaeda skjól og hverrar stuðningsmenn hrópi á útrýmingu og dauða Ísraels og Bandaríkjanna. Samkomulagið aflétti meiriháttar refsiaðgerðum gegn Íran en takmarkaði aðeins kjarnorkustarfsemi að hluta – og þær takmarkanir byrja að renna út árið 2025.

Hann segir að af þessum ástæðum hafi hann og margir samstarfsmenn hans á þingi eindregið stutt Donald Trump, þegar hann dró Bandaríkin út úr samkomulaginu árið 2018 eftir að viðræður um lagfæringar fóru út um þúfur.

Biden innleiðir fagmennsku – en dugar það til?

Joe Biden hefur tekið til hendinni við að gera bandaríska utanríkisþjónustu faglegri, leitað liðsinnis stofnana og fræðimanna og skipað reynda sérfræðinga í mikilvægar stöður. Nýskipaður utanríkisráðherra, Antony Blinken, hefur mikla reynslu af diplómatískum samskiptum, starfaði áður sem aðstoðarráðherra undir stjórn Baracks Obama og gjörþekkir m.a. samningaferlið við Íran.

Svo vitnað sé í alþjóðafræðinginn Stephen M. Walt segir hann hið vaska teymi fagmanna, sem Biden hefur nú skipað, vera hóp frjálslyndra alþjóðasinna sem flestir séu hallir undir hinn bandaríska „exceptionalisma“. Einhverjir þeirra kunni að vera brenndir af slæmri reynslu undanfarinna áratuga en þó virðist margir enn við sama heygarðshornið. Þeir séu hlynntir fjölþjóðlegri þátttöku, sérstaklega með hefðbundnum bandamönnum, en þeir telji einnig að það sé hlutverk Bandaríkjanna að vera í forystu og bandamanna að fylgja þeim eftir.

Walt leggur til að gott væri að byrja á því að viðurkenna að einskauts-tímabilinu (e. unipolar) með yfirburðum Bandaríkjanna sé lokið og heimurinn sé í því sem kalla mætti misvægt valdaástand. Þar séu Bandaríkin og Kína tvö leiðandi veldi en önnur ríki einnig þátttakendur með eigin hagsmuni að veði. Í þessum margslungna skekkta heimi ættu allir að hafa einhverja möguleika en ekkert land geti fengið allt sem það vill.

Auglýsing

Hann segir tíma til kominn að hverfa frá þeirri „allt eða ekkert“-stefnu sem hefur hamlað bandarískum erindrekstri í langan tíma. Allt of oft hafi nálgun Bandaríkjanna gagnvart andstæðingum (og stundum bandamönnum) verið að setja fram óraunhæfar kröfur og grípa síðan til refsiaðgerða sé ekki farið að þeim. Þetta hafi verið raunin í misheppnaðri „hámarksþrýstings“-herferð gegn Íran.

Líklegt að Bandaríkin gangi aftur inn í samkomulagið

Hvernig sem tekst til með að uppfæra utanríkisstefnu Bandaríkjanna og hverjar sem yfirlýsingarnar eru, er líklegt að Bandaríkin muni ganga aftur inn í samkomulagið í einhverri mynd – uppfært eða nýtt frá grunni. Það mun taka einhvern tíma fyrir ríkin að setjast að samningaborðinu, tíma sem þau munu væntanlega nýta til að skapa sér betri samningsstöðu.

Um leið og við sjáum harðorðar yfirlýsingar á báða bóga er jafnframt athyglisvert að sjá inn á milli skilaboð um breytta stefnu. Það á t.d. við um að Bandaríkin eru hætt stuðningi við hernaðaraðgerðir Sádi-Arabíu í Jemen, en þær hafa löngum haft á sér yfirbragð proxí-stríðs milli Sáda og Íran. Þó almennum stuðningi við Sáda verði haldið áfram felur þessi breyting engu að síður í sér jákvæð skilaboð til Teheran.

Á þessari stundu er ekki ljóst hver næstu skref verða. Íranir hafa kvartað sáran undan þeim viðbótar þvingunum á olíuviðskipti sem Trump-stjórnin beitti eftir að hún féll frá samkomulaginu 2018. Til að byrja með gæti ein leiðin til sátta verið að Bandaríkin afléttu einhverjum þessara þvingana, gegn því að Íran snúi til baka frá aukinni framleiðslu á meira auðguðu úrani.

Hvað sem segja má um afskipti Bandaríkjanna af málefnum annarra ríkja er það sérstakt fagnaðarefni fyrir heimsbyggðina að Bandaríkin snúi aftur að samningaborðinu. Það er mikilvægt að þetta öflugasta ríki heims styðji á ný samningsbundnar lausnir í milliríkjadeilum og fjölþjóðlega nálgun á stærstu áskoranir samtímans. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Davíð Helgason, einn stofnenda og fyrrum forstjóri Unity.
Segir Ísland geta orðið „einhvers konar tilraunasetur fyrir framtíðina“
Frumkvöðullinn og milljarðamæringurinn Davíð Helgason flytur til Íslands í sumar og ætlar að fjárfesta í fyrirtækjunum sem vinna gegn loftslagsvandanum. Að hans mati er margt sem gerir landið að góðum fjárfestingarkosti.
Kjarninn 18. maí 2021
Palestínumennirnir fimm fyrir utan húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði í dag.
„Við viljum frekar deyja á götunni á Íslandi en að fara aftur til Grikklands“
„Íslensk yfirvöld hlusta ekkert á okkur. Þó að þau viti hvernig ástandið er í okkar heimalandi og þær áhyggjur sem við höfum. Ég meina, húsin sem við bjuggum í hafa sum verið jöfnuð við jörðu.“ Þetta segir Palestínumaður sem er lentur á götunni á Íslandi.
Kjarninn 18. maí 2021
Fasteignaverð hækkar meira með hverjum mánuðinum sem líður, þar sem eftirspurn er mikil og minna er um nýbyggingar.
Ekki meiri hækkun síðan árið 2017
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 13,7 prósent í apríl á ársgrundvelli, miðað við vísitölu Þjóðskrár. Vísitalan hefur ekki hækkað jafnmikið milli ára síðan í desember 2017.
Kjarninn 18. maí 2021
Þröstur Ólafsson
Var þanþolið rofið?
Kjarninn 18. maí 2021
„Þegar mikil eftirspurn er eftir húsnæði getur fyrirvari um ástandsskoðun fasteignar talist kauptilboði til frádráttar,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögunni.
Ástandsskýrslur fylgi öllum seldum fasteignum
Nýsamþykkt þingsályktunartillaga felur ráðherra að móta frumvarp um ástandsskýrslur fasteigna. Slíkum skýrslum er ætlað að auka traust í fasteignaviðskiptum en ábyrgð vegna galla sem ekki koma fram í ástandsskýrslum mun falla á matsaðila.
Kjarninn 18. maí 2021
Allir hljóta að hafa skoðun á vegferð Ísraelsmanna að mati Hönnu Katrínar Friðriksson þingmanns Viðreisnar.
„Við Íslendingar höfum sterka rödd á alþjóðavettvangi“
Íslensk stjórnvöld þurfa að láta í sér heyra og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama vegna átaka milli Ísraels og Palestínu að mati þingmanna Viðreisnar og Framsóknarflokks. Þó svo að íslenska þjóðin sé fámenn hafi hún sterka rödd og hana þurfi að nota.
Kjarninn 18. maí 2021
Samkvæmt ASÍ og BSRB er skuldasöfnun ríkisins ekki áhyggjuefni þegar vextir eru lágir
Gagnrýna „afkomubætandi ráðstafanir“ og vilja breyta fjármálareglum
Sérfræðingahópur á vegum ASÍ og BSRB varar stjórnvöld við að beita niðurskurði í yfirstandandi kreppu og segir að fjármálareglur hins opinbera þurfi að vera sveigjanlegri í nýrri skýrslu um efnahagsleg áhrif faraldursins.
Kjarninn 18. maí 2021
Græni miðinn er aftur kominn upp á gafl Hafnarborgar.
Listaverk sem fjarlægt var af bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði komið upp á nýjan leik
Listaverk þeirra Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar var fjarlægt af gafli Hafnarborgar fyrr í þessum mánuði að beiðni bæjaryfirvalda. Listaverkið er nú aftur komið upp en líklega hafa bæjaryfirvöld látið undan þrýstingi fagfélaga að mati listamannanna.
Kjarninn 18. maí 2021
Meira eftir höfundinnBjarni Bragi Kjartansson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar