Kveður Venstre en hvað svo?

Inger Støjberg er umdeildasti stjórnmálamaður Danmerkur nú um stundir. Eftir að meirihluti á danska þinginu, þar á meðal hennar eigin flokkssystkin, samþykkti að stefna henni fyrir landsdóm sagði hún skilið við flokkinn. Verður utanflokkaþingmaður.

Støjberg var ráðherra innflytjendamála í stjórn Lars Løkke Rasmussen 2015–2019. Hún er fylgjandi harðri stefnu í málefnum flóttafólks og hælisleitenda.
Støjberg var ráðherra innflytjendamála í stjórn Lars Løkke Rasmussen 2015–2019. Hún er fylgjandi harðri stefnu í málefnum flóttafólks og hælisleitenda.
Auglýsing

Skive Folkeblad birti á vefsíðu sinni langt viðtal við Inger Støjberg að morgni 4. febrúar. Þar kom fram að hún hefði ákveðið að segja sig úr Venstre. Þegar viðtalið birtist hafði Støjberg ekki tilkynnt flokksforystunni um ákvörðun sína. Jacob Ellemann-Jensen formaður Venstre fékk sms-skilaboð, frá kunningja sínum á Skive Folkeblad, um úrsögnina 10 mínútum áður en viðtalið birtist. Í viðtali við dagblaðið Politiken sagði hann að úrsögnin hefði ekki komið á óvart en hann hefði hins vegar vonað að Støjberg yrði áfram í Venstre. 

Auglýsing

Inger Støjberg, sem er fædd 1973, bauð sig fyrst fram til þings, Folketinget, árið 1998 en náði þá ekki kjöri. Hún bauð sig aftur fram árið 2001 og hefur setið á þingi síðan. Fyrir Venstre flokkinn, þangað til fyrir þremur dögum. Støjberg var ráðherra innflytjendamála í stjórn Lars Løkke Rasmussen 2015–2019. Hún er fylgjandi harðri stefnu í málefnum flóttafólks og hælisleitenda. 


Tilkynning og kvörtun

Forsaga þess að Inger Støjberg sagði sig úr Venstre (sem er hægri miðjuflokkur) er löng og verður ekki rakin hér í smáatriðum. 

Snýst í stuttu máli um tilkynningu frá ráðuneyti innflytjendamála, dagsettri 10. febrúar 2016. Þar var lagt bann við því að pör, þar sem annar aðilinn væri yngri en 18 ára, byggju saman í búðum hælisleitenda í Danmörku. Án undantekninga. Þótt tilkynningin væri gagnrýnd, meðal annars sagt að hún væri brot á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna stóð ráðherrann fast á sínu, sagði bannið forða barnungum stúlkum úr þvinguðum hjónaböndum. Í apríl 2016 sendi Umboðsmaður þingsins dönsku Útlendingastofnuninni bréf þar sem spurt var um framkvæmd „aðskilnaðarfyrirmælanna“. Umboðsmanni hafði borist kvörtun frá pari sem neytt var til að flytja í sundur, án þess að mál þess væri skoðað sérstaklega. Kvörtunin var kveikjan að rannsókn, sem síðar leiddi til þess að Inger Støjberg verður dregin fyrir landsdóm.


Skýrslan og Landsdómur 

Ríkisstjórn Mette Frederiksen, sem tók við völdum í kjölfar kosninga 5. júní 2019, ákvað haustið 2019 að fram skyldi fara rannsókn á embættisfærslum Inger Støjberg. Þeirri rannsókn lauk með skýrslu sem afhent var þinginu 14. desember í fyrra. Þar kom fram að Inger Støjberg hefði brotið lög með fyrirskipunum sínum varðandi hælisleitendur (tilkynningin frá 10.2. 2016) og auk þess logið að þinginu. Sjálf hefur hún alla tíð neitað að hafa fyrirskipað aðskilnað án þess að hvert mál yrði skoðað sérstaklega. Margir þingmenn nefndu, í umræðum, að málið ætti að fara fyrir Landsdóm (rigsret).

Inger Støjberg hefur setið á þingi frá árinu 2001. Mynd: EPA

 Landsdómur er sérstakur dómstóll, skipaður allt að 15 hæstaréttardómurum og jafnmörgum „leikmönnum“ sem þingið tilnefnir, þeir mega ekki vera starfandi þingmenn. Landsdómur dæmir eingöngu í málum sem varða starfandi, eða fyrrverandi ráðherra. Þingið ákvað, eftir að áðurnefnd skýrsla um embættisfærslu Inger Støjberg lá fyrir, að fá sérstaka ráðgjafarnefnd til að meta hvort mál hennar ætti að fara fyrir Landsdóm. Niðurstaða ráðgjafarnefndarinnar var að svo væri, og 14. janúar lá fyrir að meirihluti þingmanna studdi ákæru. Síðastliðinn þriðjudag, 2. febrúar, ákvað danska þingið, eftir langar umræður og margar ræður, að ákæra Inger Støjberg. Þingmenn á danska þinginu eru 179, 139 studdu ákæruna, 30 voru á móti og 10 kusu ekki. 9 þingmenn Venstre kusu gegn ákæru en þingmenn Venstre eru samtals 41. Meðal þeirra sem kusu gegn ákæru var Lars Løkke Rasmussen fyrrverandi forsætisráðherra en hann sagði skilið við Venstre 1. janúar sl. með yfirlýsingu á Facebook. 


Þvinguð til afsagnar

29. desember í fyrra sagði Inger Støjberg af sér sem varaformaður Venstre. Tveimur dögum fyrr hafði Jakob Ellemann-Jensen sagt að hann myndi styðja ákæru á hendur Inger Støjberg ef svo færi að kosið yrði um það í þinginu. Sem gerðist, eins og áður sagði, síðastliðinn þriðjudag 2. febrúar. 

Í mars 2017 fagnaði Inger Støjberg því sérstaklega að þá hefði hún, síðan hún varð ráðherra eftir kosningarnar 2015, samtals 50 sinnum hert reglur um málefni hælisleitenda og flóttafólks.

Hér er rétt að geta þess að í lok ágúst 2019 sagði Lars Løkke Rasmussen af sér formennsku í Venstre, og sama dag sagði Kristian Jensen af sér sem varaformaður flokksins. Þrem vikum síðar var Jakob Ellemann-Jensen kosinn formaður og Inger Støjberg varaformaður. 


Úrsögn úr Venstre

4. febrúar, tveimur dögum eftir að þingið tók ákvörðun um ákæruna til Landsdóms, sagði Inger Støjberg sig úr Venstre. Í viðtölum við fjölmiðla sagði hún að það hafi verið erfið ákvörðun að segja skilið við flokkinn sem hún hefði stutt frá unglingsárum. Ákvörðunin hefði hinsvegar verið óhjákvæmileg eftir að flokkurinn, með formanninn Jakob Ellemann-Jensen í broddi fylkingar, hefði ákveðið að snúast gegn sér. Hún gagnrýndi formanninn sérstaklega, sagði að undir hans stjórn væri flokkurinn að færast fjær grunngildum sínum. Inger Støjberg nefndi sérstaklega að sú stefna sem hún hefði fylgt, í ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen, að hamla gegn stríðum straumi flóttafólks og hælisleitenda, nyti mikils stuðnings meðal þeirra sem fram til þessa hefðu kosið Venstre. Stefna Jakobs Ellemann- Jensen núverandi formanns væri óljós og hann yrði aldrei forsætisráðherra. Jakob Ellemann-Jensen væri ekki rétti maðurinn til að sameina flokkana á hægri væng danskra stjórnmála, bláu blokkina svonefndu. 

Inger Støjberg tilkynnti að hún hygðist sitja áfram á þingi en yrði, að minnsta kosti fyrst um sinn, utanflokka, løsgænger. 

4. febrúar, tveimur dögum eftir að þingið tók ákvörðun um ákæruna til Landsdóms, sagði Inger Støjberg sig úr Venstre. Mynd: EPA

Högg en líka léttir

Venstre flokkurinn er í vanda staddur. Í skoðanakönnunum að undanförnu hefur fylgi flokksins hrapað. 

Að Inger Støjberg skuli hafa ákveðið að segja skilið við Venstre er áfall fyrir flokkinn. Hún nýtur mikils persónufylgis og skýrir það að hluta minnkandi stuðning kjósenda. Einsog áður var getið yfirgaf Lars Løkke Rasmussen flokkinn í ársbyrjun og situr nú sem utanflokkaþingmaður. Hann nýtur mikils fylgis, og ljóst að brotthvarf hans, og Inger Støjberg, er þungt högg fyrir flokkinn. 

Danskir stjórnmálaskýrendur segja að brotthvarf Inger Støjberg sé líka ákveðinn léttir fyrir Jakob Ellemann-Jensen og Venstre, það geti ekki verið fleiri en einn skipstjóri á hverri skútu. Formaðurinn geri sér jafnframt grein fyrir að margt Venstre fólk lýsi eftir ákveðinni stefnu, varðandi málefni innflytjenda. Það kom því ekki á óvart að sama dag og ákveðið var að stefna Inger Støjberg fyrir landsdóm kynnti Jakob Ellemann- Jensen nýtt útspil flokksins, eins og hann komst að orði.

Auglýsing

Hann sagði að meðal innflytjenda væru allt of margir sem kæmust í kast við lögin vegna afbrota, alltof margir án atvinnu og allt of margir sem ekki virði danskt gildismat. „Danskt samfélag á ekki að aðlaga sig þeim sem hingað flytja, þeir sem kom hingað eiga að laga sig að okkar samfélagi“. 

Stjórnmálaskýrandi dagblaðsins Berlingske sagði að með þessum yfirlýsingum legði formaður Venstre áherslu á að stefna flokksins væri sú sama í málefnum innflytjenda þrátt fyrir að Inger Støjberg sé horfin á braut.


Hvað ætlast Inger Støjberg fyrir?

Eins og áður var nefnt lýsti Inger Støjberg því yfir að hún hygðist sitja áfram á þingi, fyrst um sinn sem utanflokkaþingmaður. Stjórnmálaskýrendur veittu orðum hennar „fyrst um sinn“ sérstaka athygli. Það telja þeir vísbendingu um að hún ætli sér ekki að vera utanflokkaþingmaður nema rétt á meðan hún „taki sólarhæðina“ á þingi. Utanflokkaþingmaður hefur mjög takmörkuð áhrif, því atkvæði hans ræður sjaldnast úrslitum í atkvæðagreiðslum, að minnsta kosti eins og hlutföllin í danska þinginu eru núna. 


Tveir vonbiðlar

Inger Støjberg þarf ekki að hafa áhyggjur af því að vera ein og yfirgefin utan flokka lengur en hún kærir sig um. Tveir flokksformenn hafa þegar biðlað til hennar og boðið hana velkomna í sínar raðir. Vonbiðlarnir eru Kristian Thulesen Dahl formaður Danska Þjóðarflokksins og Pernille Vermund formaður Nýja Borgaraflokksins.

Þessir tveir flokkar eiga það sameiginlegt að vilja takmarka, eða jafnvel stöðva algjörlega, komu hælisleitenda og flóttafólks til Danmerkur. Þessi sjónarmið eru mjög í anda Inger Støjberg og danskir stjórnmálaskýrendur telja víst að hún muni ganga til liðs við annan þessara flokka. Nýi Borgaraflokkurinn er nýliði í dönskum stjórnmálum, stofnaður árið 2015, náði fyrst inn á þing í kosningunum 2019, fékk þá fjóra þingmenn. Stofnandi flokksins og formaður hans er Pernille Vermund. Hún og Inger Støjberg eru góðar vinkonur. Það yrði að líkindum mikil lyftistöng fyrir Nýja Borgaraflokkinn ef atkvæðasegullinn Inger Støjberg bættist í hópinn. Flokkurinn er nú á mikilli siglingu ef svo mætti að orði komast, ef marka má kannanir. Kosningar eru vel að merkja ekki á næsta leiti, fara að óbreyttu fram fyrri hluta árs 2023.

Inger Støjberg nýtur persónufylgis og úrsögn hennar úr Venstre er áfall fyrir flokkinn. Mynd: EPA

Það er hinsvegar ekki vindur í seglum Danska Þjóðarflokksins. Flokkurinn galt afhroð í kosningunum 2019, tapaði 21 þingmanni frá kosningunum 2015 og hefur nú 16 fulltrúa á þingi. Danski Þjóðarflokkurinn var stofnaður árið 1995 og hefur því yfir að ráða mun öflugri „flokksmaskínu“ en Nýi Borgaraflokkurinn. Inger Støjberg hefur oft sagt að á milli sín og Danska Þjóðarflokksins sé góður samhljómur. Það yrði að líkindum búhnykkur fyrir Kristian Thulesen Dahl og Danska Þjóðarflokkinn ef Inger Støjberg myndi bætast í hópinn. Framtíð hennar veltur hinsvegar á niðurstöðu Landsdóms, ekki liggur fyrir hvenær réttarhöldin þar hefjast.


Hér í lokin er rétt að nefna að Landsdómur sé kvaddur saman er ekki daglegt brauð og að sæta ákæru þar er mjög alvarlegt mál. Landsdómur var stofnaður árið 1849 og hefur aðeins fimm sinnum áður verið kallaður saman og kveðið upp dóm. Síðast árið 1995, í tengslum við Tamílamálið svonefnda. 


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorkell Helgason
Kominn er tími á umbætur á kosningakerfinu
Kjarninn 3. ágúst 2021
Minnsti álútflutningur í átta ár
Þrátt fyrir hækkandi álverð á heimsvísu hefur magn útflutts áls minnkað á síðustu mánuðum. Heildarútflutningur á síðasta árshelmingi hefur ekki verið minni síðan árið 2013.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Katrín Baldursdóttir og Símon Vestarr
Katrín Baldursdóttir og Símon Vestarr efst hjá Sósíalistaflokknum í Reykjavík suður
Listi Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður hefur verið kynntur. „Þetta er fjölbreyttur listi og kraftmikill. Fólk sem vill breyta samfélaginu þannig að allir hafi tækifæri til blómstra, hafi öruggt og gott húsnæði og góð laun,“ segir oddvitinn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Sigmundur Ernir ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins
Jón Þórisson, sem hefur ritstýrt blaðinu frá því haustið 2019 ætlar að snúa sér að öðrum störfum. Sigmundur Ernir verður einnig aðalritstjóri Torgs.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Bólusetningin hafi ekki skapað það hjarðónæmi sem vonast var til
Flest smit að undanförnu má rekja til hópatburða en delta afbrigði veirunnar hefur breiðst út á ótrúlegum hraða að sögn sóttvarnalæknis. Til stendur að bjóða þeim sem fengu Janssen bóluefni upp á aðra bólusetningu sem og að bólusetja 12 til 15 ára börn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir
Náttúruspjöll í Vatnajökulsþjóðgarði
Kjarninn 3. ágúst 2021
Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festis segir félagið ekki ætla að reyna fyrir sér í byggingargeiranum.
30 þúsund fermetra uppbygging í stað bensínstöðva
Samkvæmt samkomulagi Festis við Reykjavíkurborg á Festi byggingarrétt á lóðum þar sem til stendur að loka bensínstöðvum N1. Félagið hyggst selja byggingarréttinn í stað þess að byggja. „Það er ekki okkar bissness, það eru aðrir í því,“ segir forstjórinn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Raddir margbreytileikans
Raddir margbreytileikans
Raddir margbreytileikans – 5. þáttur: „Vits er þörf þeim er víða ratar“
Kjarninn 3. ágúst 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar