Allt frá byrjun heimsfaraldursins á fyrstu mánuðum síðasta árs hafa miklar verðhækkanir átt sér stað hér á landi. Verðbólgan er með því mesta sem mælist í allri Evrópu og hefur hækkað hraðast af þeim öllum á tímabilinu. Fjármálaráðherra bendir á að ræða þurfi áhrif nýlegra launahækkana á verðbólguna en samkvæmt Seðlabankanum stafar verðbólgan fyrst og fremst af veikingu krónunnar.
Mesta hækkunin eftir COVID-19
Líkt og Kjarninn hefur greint frá mældist verðbólga hér á landi einungis hærri í Tyrklandi og Póllandi af öllum þeim 33 Evrópulöndum sem Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, fylgist með. Verðbólgan í þessum löndum hefur hins vegar verið há í langan tíma, til að mynda var hún svipuð í Póllandi á sama tíma í fyrra. Verðhækkanir hafa því aukist hraðast hér á landi í kjölfar heimsfaraldursins af öllum löndunum sem Eurostat mælir. Samkvæmt mælingum Hagstofu hefur hún mælst yfir fjórum prósentum á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs.
Ráðherra nefnir húsnæðisverð og launahækkanir
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var spurður út í verðbólguna í viðtali við fréttastofu RÚV fyrir helgi. Þar sagði hann áhyggjuefni að liður húsnæðiskostnaðar væri að hækka í vísitölu neysluverðs. Hann sagði það einnig vera nauðsynlegt að skoða undirliggjandi áhrifaþætti verðbólgunnar og velti því upp hversu mikinn þátt launahækkanir síðustu mánaða hefðu á hana.
„Kaupmáttur launa hefur aldrei í sögunni verið hærri en einmitt nú og launahækkanir hafa verið töluverðar,” sagði Bjarni í viðtalinu. “Við þurfum að spyrja okkur að hvaða marki launabreytingar í landinu eru að þrýsta á verðbólguaukningu og ræða það í fullri alvöru.”
Vægi launabreytinga óljóst
Á síðasta ári hækkaði launavísitala Hagstofu um 10,3 prósent. Það er mesta hækkun sem mælst hefur milli ára á þessari öld, en einungis má finna sambærilega þróun þegar laun hækkuðu um 10,1 prósent árið 2007 og um slétt 10 prósent árið 2002.
Hins vegar er óljóst hversu mikið þessi hækkun vísitölunnar hefur áhrif á verðþróun. Í síðasta hefti Peningamála benti Seðlabankinn á að þrátt fyrir að launavísitalan hefði hækkað umtalsvert hækkuðu staðgreiðsluskyld laun á vinnustund aðeins um 1,8 prósent á fyrstu tíu mánuðum síðasta árs.
Í Peningamálum bætti Seðlabankinn einnig við að skýringin á hækkun meðallauna á almenna vinnumarkaðnum á þriðja fjórðungi síðasta árs væri sú að lágláunastörfum hefði fækkað, en að sú hækkun hafi ekki sést á vinnumarkaðnum í heild sinni, þar sem öfug þróun átti sér stað hjá opinberum störfum.
Húsnæði þrýstir ekki vísitölunni upp
Sömuleiðis virðist meiri húsnæðiskostnaður heldur ekki vera meginástæða verðbólgunnar. Líkt og sést í tölum Hagstofu væri verðbólgan meiri ef húsnæðisverð væri ekki tekið með í reikninginn, sem þýðir að sá kostnaður hefur ekki aukist jafnhratt og verð á öðrum hlutum.
Líkt og Kjarninn hefur áður greint frá hækkaði íbúðaverð töluvert á síðasta ári, eða um 7,7 prósent á höfuðborgarsvæðinu. Ástæða þessarar miklu hækkunar eru fyrst og fremst umfangsmiklar vaxtalækkanir í kjölfar yfirstandandi kreppu, sem hafa gert fleirum kleift að fjárfesta í íbúðum með húsnæðisláni. Aftur á móti hefur leiguverð lækkað töluvert á sama tíma, líkt og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun greindu frá í síðasta mánuði. Á milli janúarmánaða 2020 og 2021 lækkaði vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu um 1,9 prósent, en sú lækkun hefur neikvæð áhrif á mælingu Hagstofu á húsnæðiskostnað.
Krónan er aðalástæðan
Samkvæmt síðustu þremur heftum Peningamála Seðlabankans virðist meginþungi undanfarinna verðhækkana frekar liggja í veikara gengi krónunnar. Með veikari krónu hækkar verð vöru og þjónustu í öðrum gjaldmiðlum. Þannig leiðir gengisveiking til verðhækkunar á innfluttum vörum, en Seðlabankinn sagði þessa þróun vera meginskýringuna á aukinni verðbólgu í ágúst og í nóvember á síðasta ári.
Í síðasta riti peningamála sem birtist í janúar sagði Seðlabankinn einnig að meginþungi verðhækkana á fjórðungnum fælist í hækkun á innfluttri vöru, einkum fatnaði, ýmsum heimilisbúnaði og tómstundavörum. Þó bætir bankinn við að það virðist sem dregið hefði úr áhrifum gengislækkunar krónunnar að undanförnu, enda hækkaði gengið í nóvember og desember síðastliðnum.
Uppfært 10. mars: Setningin um að laun á vinnustund hafi verið nær óbreytt í fyrra samkvæmt Hagstofu var tekin í burtu, þar sem Hagstofa hefur breytt tölunum sínum. Samkvæmt nýjum tölum hafa laun á vinnustund hækkað um 5,6 prósent.