Samanlagður rekstrarhagnaður Reita, Regins og Eikar nam 22 milljörðum króna í fyrra, sem er 6 milljörðum krónum minni en á árinu 2019. Félögin segja að faraldurinn hafi leitt til 4,3 milljarða króna samdráttar í fyrra og búast við að veiran muni einnig draga úr tekjum í ár. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningum fasteignafélaganna sem birtst hafa á vef Kauphallarinnar á síðustu vikum.
400 milljarða eignasafn
Félögin þrjú eru einu fasteignafélögin í Kauphöllinni, en þau sérhæfa sig í fjárfestingum, þróun og útleigu á húsnæði. Samanlagt eignasafn þeirra nemur 400 milljörðum króna, en meirihluti þess er bundinn í húsnæði sem félögin leigja út. Þessi upphæð jafngildir 14 prósentum af landsframleiðslu Íslands í fyrra.
Minni tekjur og lægra virði eigna
Ein helsta tekjulind félaganna eru leigutekjur frá fyrirtækjum, en samkvæmt ársreikningunum leiddi faraldurinn til tölverðs samdráttar í þeim. Í ársreikningi Regins kemur fram að 360 milljónir króna af leigutekjum félagsins frá viðskiptavinum sínum hafi verið felldar niður. Reitir áætla svo að leigutekjur félagsins hafi dregist saman um 935 milljónir króna vegna efnahagslegra áhrifa COVID-19. Hins vegar var áætlaður samdráttur leigutekna hjá Eik vegna veirunnar mun minni, eða um 50 milljónir króna.
Til viðbótar við samdrátt í leigutekjum telja félögin að heimsfaraldurinn hafi haft neikvæð áhrif á aðra rekstrarþætti matsbreytingu fjárfestingareigna, viðskiptakröfur og afskriftir þeirra.
Áætlaður heildarsamdráttur vegna veirunnar virðist vera mestur hjá Regin, en þar býst félagið við að hafa tapað 2,5 milljörðum vegna virðisrýrnunar eigna félagsins og minni leigutekna. Reginn telur aftur á móti að faraldurinn hafi leitt til 1,1 milljarða króna samdráttar hjá félaginu.
Eik telur faraldurinn hafa minnkað tekjur félagsins um rúmlega 655 milljónir króna, en ólíkt hinum tveimur félögunum vegur virðisrýrnun viðskiptakrafna þess þyngst í stað minnkun leigutekna. Einnig bætir félagið við að rekstur Hótels 1919, sem er í eigu félagsins, hafi verið 230 milljónum lakari en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.
Samanlagt telja því félögin að veiran hafi leitt til samdráttar að andvirði 4,3 milljarða króna
Hagnaður og arðgreiðslur hjá Reitum og Eik
Þrátt fyrir þetta mikla tekjutap skiluðu félögin öll hagnaði af rekstri sínum. Rekstrarhagnaður Eikar nam 5,5 milljörðum króna, en hann náði 8 milljörðum hjá Regin og 9 milljörðum hjá Reitum. Samanlagt eru þetta um 22 milljarðar króna, sem er fimmtungi minna en rekstrarhagnaður félaganna árið 2019.
Stjórnir Reita og Eikar hafa báðar samþykkt arðgreiðslur vegna rekstrarniðurstöðu síðasta árs. Hjá Reitum stendur til að greiða 778 milljónir króna í arð, en væntar arðgreiðslur Reita nema 650 milljónum króna. Stjórn Regins ákvað hins vegar að sleppa því að greiða arð í ár, í ljósi óvissunar í þróun efnahagsmála í landinu vegna COVID-19.