Stríðsleikurinn sem fór úr böndunum

Nýlega voru birt leyniskjöl um atburði sem tengjast heræfingum NATO og Bandaríkjanna árið 1983, þar sem munaði litlu að stigmögnun hefði geta leitt til kjarnorkustríðs.

gallery-1494878319-m-60a3-near-giessen-in-germany-1985.jpeg
Auglýsing

Nýlega var aflétt leynd af leyniskjölum sem hafa leitt í ljós að árið 1983 gerðust alvarlegir atburðir sem margir telja að hefðu hæglega getað leitt til kjarnorkustyrjaldar. Skjölin fjalla um umfangsmikla heræfingu, einskonar stríðsleik, þar sem Bandaríkin og NATO líktu eftir umskiptum frá hefðbundnum hernaði til kjarnorkuátaka í stríði í Evrópu. Í skjölunum kemur fram að helstu leiðtogar Sovétríkjanna töldu stríðsleikinn raunverulegan – að Bandaríkin og NATO væru í raun að fara að hefja kjarnorkuárás á Sovétríkin – og brugðust við með viðeigandi hætti.

Able Archer-heræfingin

Upplýsingar um Able Archer-heræfinguna hafa verið kunnar um nokkurra ára skeið. Sú staðreynd að Sovétmenn vopnuðu flugvélar sínar með kjarnorkusprengjum hefur hins vegar ekki verið gerð opinber fyrr en nú. Þessar nýju upplýsingar sýna að hættan á kjarnorkustríði var raunveruleg en ólíkt öðrum atburðum, svo sem eins og Kúbudeilunni, var næstum engum kunnugt um það á þeim tíma.

Flestir yfirmenn í Bandaríkjaher litu á Able Archer sem dæmigerða heræfingu sem ekki myndi raska ró sovéskra yfirmanna umfram það sem búast mætti við. Æfingin var mun stærri en venjulega. Floti flutningavéla flaug með 19.000 hermenn í 170 ferðum frá Bandaríkjunum til herstöðva í Evrópu. Hún var einnig óvenju raunveruleg. Flutningavélarnar héldu þögn í samskiptum og B-52-sprengjuflugvélum var ekið út á flugbrautir og hlaðnar gervisprengjum sem litu mjög raunverulega út. 

Markmið æfingarinnar var beinlínis að gera hlutina sem raunverulegasta. Herstjórn Bandaríkjanna setti t.d. viðbúnað við kjarnorkustríði á hæsta stig. Sovétmenn fylgdust auðvitað með þessu öllu eins og þeir gerðu almennt og bandarísk yfirvöld gerðu ráð fyrir að þeir myndu gera. En viðbrögð Sovétmanna voru ólík því sem áður hafði þekkst. 

Allir vissu að bandamenn fylgdust með Sovétmönnum og öfugt, og viðbrögð mótaðilans voru gjarnan hluti af æfingunni. Formlegar og óformlegar samskiptaleiðir voru notaðar til að tryggja að mótaðilinn vissi að um æfingu væri að ræða. Það kerfi reyndist þó fjarri því óbrigðult eins og þetta dæmi sýnir.

Auglýsing
Lykilmaðurinn í því að ekki fór illa var Leonard Perroots  yfirmaður leyniþjónustu Bandaríkjahers í Evrópu. Hann varð þess var að ekki var allt með felldu Sovétmegin járntjalds og raunveruleg stigmögnun gæti verið að eiga sér stað. Þegar Perroots tilkynnti yfirmanni sínum, hershöfðingjanum Billy Minter, um „óvenjulegar aðgerðir“ Sovétríkjanna í byrjun Able Archer, ætlaði Minter að bregðast við á hefðbundinn hátt. Perroots ráðlagði honum hins vegar að bíða og sjá. Sovétmenn væru hugsanlega að mislesa tilgang æfingarinnar og frekari stigmögnun af hálfu Bandaríkjamanna, sem var hefðbundin í æfingaskyni, myndi líklega ýta undir frekara hættuástand – og gæti jafnvel hrundið af stað stríði.

Hér verður að hafa í huga að í hinni sérkennilegu lógík kjarnorkufælingarkerfis kalda stríðsins var getan til fyrstu árásar ákveðið lykilatriði (e. First Strike Capability). Það var í raun ákveðinn hvati til þess að verða fyrri til að beita kjarnavopnum, til að ná í reynd að dæma andstæðinginn úr leik strax í upphafi stríðs. 

Þá varð getan til viðbragðs lykilatriði, sem leiddi af sér stefnu „gagnkvæmrar gereyðingar“ (e. Mutually Assured Destruction – MAD). Þannig var dregið úr hvatanum til að verða fyrri til, því sama hvað gerðist þá gæti andstæðingurinn alltaf náð að svara með gjöreyðingarafli kjarnavopna. Til þess að MAD gengi upp varð sá sem var seinni til að vera snöggur til svars. 

Við þessar aðstæður gefst lítill tími til að gaumgæfa valkostina, og í augum Sovétmanna var æfingin í raun áætlun Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra um að gera innrás í Austur-Evrópu – og þar með verða fyrri til að gera kjarnorkuárás á Sovétríkin.    

1983 – stöðug ógn af yfirvofandi kjarnorkustríði – fólk var búið að fá nóg 

Þessir atburðir gerðust einungis um viku áður en kvikmyndin The Day After var sýnd á ABC-sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum, en meira en 100 milljónir manna, á næstum 39 milljónum heimila, horfðu á upphaflegu útsendinguna. Myndin var mjög raunsönn og áhrifarík og fjallar um hvernig núningur á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna stigmagnast hratt og endar með kjarnorkustríði. 

The Day After var frumsýnd í kvikmyndahúsum skömmu síðar hér á landi. Sama dag og myndin var auglýst á áberandi hátt í Morgunblaðinu var á forsíðu vitnað í Geir Hallgrímsson þáverandi utanríkisráðherra sem þá sat öryggismálaráðstefnu í Stokkhólmi: „Heimsbyggðin þarfnast alhliða afvopnunar“. Það endurspeglar vel ríkjandi tíðaranda og það gerðu viðtökur við myndinni einnig, ógnin af kjarnorkustríði var stöðugt yfirvofandi og fólk búið að fá nóg hinu þrúgandi ástandi sem hafið varað í áratugi. Það varð kannski tímanna tákn að myndin var sýnd í ríkissjónvarpi Sovétríkjanna árið 1987 í kjölfar samninga Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um takmörkun kjarnavopna. 

Fátt er svo með öllu illt – Friðarsinninn Reagan

Able Archer-heræfingin hafði þó jákvæðar afleiðingar því Ronald Reagan þáverandi Bandaríkjaforseti tók málið mjög alvarlega. Hann hafði verið herskár frá því hann tók við völdum árið 1981 og aukið þrýsting á Sovétmenn. M.a. með því að senda skipaflota, kafbáta og flugsveitir inn fyrir mörk sovéskra yfirráðasvæða þar sem líkt var eftir árásum. Þessar aðgerðir áttu að ýta undir vænisýki Sovétmanna og kalla fram viðbrögð, sem þær og gerðu. 

En þegar Reagan las skýrslu um Able Archer og hversu tæpt hafði þar verið teflt varð honum ljós sú staðreynd að Sovétmenn virtust allt eins gera ráð fyrir því að Bandaríkin væru viljug til að hefja stríð með kjarnorkuvopnum. Þann 18. nóvember 1983, viku eftir að Able Archer lauk, skrifaði Reagan í dagbók sína: „Mér finnst Sovétmenn vera svo varnarsinnaðir, svo vænisjúkir, að án þess að vera með nokkra linkind ættum við að gera þeim ljóst að enginn hér hefur neitt slíkt í hyggju.“Ronald Reagan, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. Mynd: Wikicommons.

Sama dag hitti Reagan utanríkisráðherra sinn, George Shultz, til að ræða það að koma á beinni samskiptaleið við Moskvu, á fundi sem mikil leynd hvíldi yfir. Tveimur mánuðum síðar, 16. janúar 1984, flutti Reagan sjónvarpsávarp þar sem vikið var frá fyrri yfirlýsingum um Sovétríkin sem „heimsveldi hins illa“. Lykillína ávarpsins var: „Ef sovéska ríkisstjórnin vill frið, þá verður friður [...] við skulum byrja núna.“

Líklega var það ekki bara á Vesturlöndum sem fólk var komið með nóg af vígbúnaðarkapphlaupinu og ógninni sem því fylgdi. Ári seinna tók við völdum í Sovétríkjunum maður sem var sama sinnis, Mikhaíl Gorbatsjev. Eftirleikinn þekkja flestir og stórveldin tóku í kjölfarið stór skref í átt til afvopnunar og eitt það fyrsta var leiðtogafundurinn í Reykjavík 1986 – fyrir að verða 35 árum síðan. Samningar um allsherjarfækkun kjarnavopna voru undirritaðir og senn lauk því ástandi ógnarjafnvægis sem hafði þjakað heimsbyggðina um áratugaskeið. 

Var þá kyrrt um sinn – en ekki lengi

Eftir lok kalda stríðsins nálguðust Rússar Vesturlönd jafn og þétt með nánara samstarfi m.a. um öryggis- og varnarmál, t.d. hvað varðaði að tryggja öryggi kjarnorkuherafla Sovétríkjanna sálugu. Andrúmsloftið súrnaði þó smám saman, sérstaklega eftir að Vladimír nokkur Pútín varð yfirmaður Rússnesku leyniþjónustunnar (FSB) í júlí 1998. Dró nú fljótt úr samstarfsviljanum og ljóst varð að Rússar ætluðu ekki að láta kippa sér inn í vestrænt samstarf með einu handtaki. Eftir að þeir gáfust upp á því sem þeir túlkuðu sem yfirgang af hálfu vestrænna ríkja varð mikill viðsnúningur í samskiptunum. 

Þrátt fyrir hörku Rússa í Téténíu og Georgíu og óvenjulegan framgang í öðrum fyrrum Sovétlýðveldum og Varsjárbandalagsríkjum, héldu margir á Vesturlöndum í vonina um varanlegan eftir-kaldastríðsfrið. Þegar Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014 hrukku því sumir í kút, andrúmsloftið breyttist og ljóst var að hafinn var nýr kafli í sögunni – að einhverju leyti afturhvarf til gamalla tíma. 

Þrátt fyrir þá spennu sem ríkti í samskiptum við Rússa reyndi Obama að halda áfram á braut kjarnorkuafvopnunar. Í þjóðaröryggisstefnunni sem Hvíta húsið birti í desember 2017 var áfram dregið úr hlutverki kjarnorkuvopna eins og kostur var. Það urðu hins vegar talsverð umskipti í kjarnorkumálum Bandaríkjanna með valdatöku Donalds Trumps. Kjarnorkuvopnabúr Bandaríkjanna var grundvöllur að stefnu hans, að sögn til að viðhalda friði og stöðugleika og koma í veg fyrir yfirgang gagnvart Bandaríkjunum.

Ný tækni – nýtt vopnakapphlaup og ógnarjafnvægi?

Þó ekki sé hægt að tala um nýtt vígbúnaðarkapphlaup eins og á tímum kalda stríðsins hefur verið mikil þróun í kjarnorkuvopnatækni. Nú tala sumir um möguleika á beitingu kraftminni kjarnorkuvopna sem bjóða upp á meiri nákvæmni og þar með afmarkaðri afleiðingar. Þetta er rökstutt með því að fælingarmátturinn sé meiri sem geri heiminn í raun öruggari en ella. Aðrir hafa bent á að þessu sé þveröfugt farið, að vegna þess hversu nákvæmlega megi beita slíkum vopnum verði freistingin meiri til þess að beita þeim í hernaði.

Talsmenn fyrir notkun slíkra áhrifaminni kjarnorkuvopna fullyrða að slík aðferðafræði sé hluti af stríðsáætlunum Rússa og að þeir búi yfir fjölda minni kjarnorkuvopna. Stjórn Trumps hélt því fram að þróun kjarnorkuvopna með takmarkaða virkni væri sérstaklega mikilvæg vörn gegn Rússum – sem hefðu þann skilning að Bandaríkin myndu hika við að nota sitt öfluga vopnabúr til að bregðast við takmörkuðum kjarnorkuárásum. 

Bandaríkjamenn byrjuðu því árið 2019 að smíða kjarnavopn með minni virkni sem ætlað var að styrkja stöðuna gagnvart Rússum. Þarna er um að ræða litlar flaugar, með sprengiafl upp á 5 til 7 kílótonn, sem skjóta mætti frá kafbátum. Til samburðar getur ein Trident flaug sem skotið er úr kafbáti borið átta 100 kílótonna kjarnaodda. Hefðbundnar langdrægar flaugar enn meira og sprengjan sem varpað var á Hiroshima var um 15 kílótonn.

Hins vegar hafa gagnrýnendur áhyggjur af því að hinn nýi kjarnaoddur gæti raunverulega aukið líkurnar á kjarnorkustríði. Í fyrsta lagi verði honum líklega skotið með sömu Trident-eldflaug og notuð er til að skjóta meira en 100 sinnum öflugri sprengjum. Ekki sé hægt að búast við því að Rússar muni sitja rólegir og segja: við skulum bíða með að sjá hvað þetta er stór sprengja áður en við bregðumst við – nú já, þetta er víst bara lítið sveppský. 

Af hverju er þetta sérstakt áhyggjuefni nú? – Óútreiknanlegir Rússar

Grundvallaratriði þegar rætt er um möguleika á kjarnorkustríði er óvissan um fyrirætlanir óvinarins, hvað hyggst hann fyrir, hvað heldur hann að ég hyggist gera, hvað heldur hann að ég viti um hvað hann ætlar sér?

Þessi óvissa var það sem olli því að heimurinn rambaði á barmi kjarnorkustríðs í tvígang, fyrst í Kúbudeilunni árið 1962 og svo aftur með Able Archer árið 1983. Þess vegna gerðu menn sér ljósa hættuna af slíkri óvissu og reyndu að koma á greiðari samskiptaleiðum. Nú þegar ríki eins og Rússland beinlínis gerir út á upplýsingaóreiðu, misvísandi upplýsingar og vantraust er voðinn vís. 

Að sögn NATO hafa Rússar haldið áfram að þróa og koma upp meðaldrægum eldflaugum sem eru hreyfanlegar og illgreinanlegar. Þær geta náð til evrópskra borga með litlum fyrirvara, með hefðbundnum sprengjuhleðslum eða kjarnaoddum. Rússar hafa því ekki sýnt vilja til að uppfylla INF-sáttmálann um slíkar flaugar sem var undirritaður af Reagan og Gorbatsjov árið 1987. Hann útrýmdi bæði kjarnorku- og hefðbundnum skot- og stýriflaugum á jörðu niðri, með drægni á bilinu 500 til 5.500 kílómetra. Þessar nýju deilur við Rússa leiddu til þess að sáttmálinn féll úr gildi árið 2019.

Rússar hafa einnig sýnt að þeir eru reiðubúnir að beita hervaldi gegn nágrönnum sínum en hersveitir þeirra eru í Úkraínu, Georgíu og Moldóvu, gegn vilja viðkomandi ríkisstjórna. Þeir hafa einnig sýnt af sér ógnandi hegðun, þar með talið netárásir, upplýsingaóreiðu-herferðir og tilraunir til að hafa afskipti af lýðræðisferlum, og viðhafa einnig ógagnsæi þegar kemur að heræfingum.

Bandaríkjamenn snúa við blaðinu

Óútreiknanleikinn er ekki endilega alltaf bara hjá Rússum. Á meðan Donald Trump gegndi forsetaembætti gerði hann út á að vera óútreiknanlegur og spurði beinlínis: „Af hverju getum við ekki notað kjarnorkuvopnin okkar?“ 

Hins vegar hefur Joe Biden endurvakið stefnu sem var við lýði á meðan hann gegndi embætti varaforseta í valdatíð Barracks Obama. Það er stefna sem rímar við viðbrögð Ronalds Reagans þegar hann áttaði sig á hættunni af Able Archer, og reyndi að rjúfa störukeppni stórveldanna sem hafði næstum leitt af sér kjarnorkustríð.

Bandaríkin og Rússland náðu nýlega samkomulagi um framlengingu START-sáttmálans sem rann út í febrúar. Sáttmálinn var upphaflega samþykktur eftir lok kalda stríðsins árið 1991 en hefur verið endurbættur í áranna rás. Joe Biden sagðist ætla að nota hið endurnýjaða samkomulag sem ramma fyrir framtíðarsamninga um kjarnorkuvopn. 

Kálið er ekki sopið þó í ausuna sé komið því þrátt fyrir góðan samningsvilja Bidens eru sjónarmiðin á heimavelli mörg sem þarf að sætta. Linkind í utanríkismálum er jafnan illa séð í bandarískum stjórnmálum og Rússar eru ekki þeir einu sem við er að eiga þegar kjarnorkuvopn eru annars vegar. Orð eru þó til alls fyrst og líklega hefur heimurinn eitthvað fjarlægst nýtt kalt stríð og ógnarjafnvægi með nýjum stjórnvöldum í Washington.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira eftir höfundinnBjarni Bragi Kjartansson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar