Stjórnarkreppa í kortunum eftir kosningar
Allt bendir til þess að það verði erfitt að mynda ríkisstjórn að óbreyttu. Þeir flokkar sem geta hugsað sér að starfa saman ná ekki nægjanlegum styrk til að gera það þannig að góður meirihluti yrði að baki hinnar nýju ríkisstjórnar. Þetta er niðurstaða fyrstu kosningaspárinnar fyrir komandi þingkosningar.
Ríkisstjórnarflokkarnir þrír – Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn og Framsóknarflokkur – mælast með samtals 48 prósent fylgi samkvæmt fyrstu kosningaspá Baldurs Héðinssonar og Kjarnans fyrir komandi þingkosningar. Það gæti dugað til þess að flokkarnir nái næfurþunnum meirihluta eftir kosningar ef nægilega mikið af atkvæðum falla niður dauð. Það stendur þó tæpt samkvæmt spánni þar sem Flokkur fólksins, sá flokkur sem mælist með minnsta fylgið, gæti vel náð inn manni með sín 4,5 prósent og er ekki langt frá fimm prósent þröskuldinum sem þarf til að fá úthlutað jöfnunarmenn.
Ríkisstjórn byggð á Reykjavíkurmódelinu – samstarfi þeirra fjögurra flokka sem starfa saman í meirihluta í höfuðborg landsins og næst stærsta stjórnvaldi þess – nýtur nánast sama stuðnings. Samanlagt fylgi Vinstri grænna, Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar mælist 47,9 prósent.
Þá er möguleiki á því að mynda fjögurra flokka ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokks, Samfylkingar og Pírata sem myndi njóta stuðnings með 49,4 prósent.
Sporin hræða þegar kemur að myndun ríkisstjórnar með minnihluta kjósenda á bakvið sig. Slík var síðast mynduð í byrjun árs 2017 eftir margra mánaða stjórnarkreppu. Að þeirri ríkisstjórn stóðu Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð, flokkar sem hlutu samtals 46,7 prósent atkvæða í kosningunum í október 2016. Stjórnin, sem kennd var við forsætisráðherrann Bjarna Benediktsson, var ein sú óvinsælasta sem setið hefur hérlendis og nokkrum mánuðum eftir að hún tók við sögðust einungis 31,4 prósent landsmanna vera ánægðir með hana. Hún sprakk í september 2017 og varð fyrir vikið skammlífasta meirihlutastjórn lýðveldissögunnar.
Kosningaspáin er vegin niðurstaða skoðanakannana á stuðningi við stjórnmálaflokka og framboða í aðdraganda kosninga á Íslandi. Kjarninn hefur birt spár sem byggja á módeli Baldurs Héðinssonar stærðfræðings í öllum kosningum sem farið hafa fram á Íslandi frá árinu 2014. Nánar má lesa um kosningaspána, aðferðafræði og skýringar neðst fréttaskýringunni.
Á Sjálfstæðisflokkur ekki leið til valda án Vinstri grænna?
Að óbreyttu virðast einu fjögurra flokka ríkisstjórnirnar sem gætu notið stuðnings meirihluta þjóðarinnar, miðað við stöðu mála í kosningaspánni, vera núverandi stjórnarflokkar með styrkingu. Samfylking, Píratar og Sósíalistaflokkur Íslands hafa þegar útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og því blasir við að sú styrking þyrfti að verða sótt til Viðreisnar, Miðflokks eða Flokks fólksins.
Viðmælendur Kjarnans innan þings eru sammála um að ósennilegt verði að teljast að Vinstri græn myndu samþykkja að styrkja sitjandi ríkisstjórn með flokki sem skilgreinir sig til hægri í stjórnmálum og því ekki líklegt að Viðreisn komi sem fjórða hjólið undir vagninn að óbreyttu. Þorsteinn Pálsson, einn helsti hugmyndafræðingur Viðreisnar í dag og ráðgjafi forystu flokksins, skrifar auk þess í vikulegum pistli sínum í Fréttablaðinu í gær að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi talað mjög skýrt í þá veru að þeir muni ekki undir neinum kringumstæðum fallast á málamiðlanir gagnvart Viðreisn að því er varðar gjaldmiðilsmál, tímabundinn nýtingarrétt auðlinda í þjóðareign og ný skref í Evrópusamvinnu. „Þetta þýðir að Sjálfstæðisflokkurinn á engan raunhæfan kost á setu í ríkisstjórn nema VG eigi þar hlut að máli og fari með forystu. Eftir síðustu kosningar var það frjálst val, en nú er það þvinguð staða.“
Segir Reykjavíkurmódelið ekki ganga upp á Alþingi
Þorsteinn virðist í pistlinum ekki spenntur fyrir Reykjavíkurmódelinu og segir að sér sýnist það ekki ganga upp á Alþingi. Raunhæfasta ríkisstjórn Viðreisnar virðist þannig vera fjögurra flokka stjórn flokksins með Vinstri grænum, Framsókn og Samfylkingu. Flokkarnir þurfu þó að hressast eigi hún að vera möguleiki. Samanlagt fylgi þeirra er 45,6 prósent samkvæmt kosningaspánni.
Bæði Miðflokkurinn og Flokkur fólksins róa svo lífróður fyrir pólitískri tilveru sinni á þingi. Sá fyrrnefndi er enn litaður af afleiðingum Klausturmálsins svokallaða og er að reyna að endurnýja ásýnd sína með nýju fólki í forystu. Sá síðarnefndi situr á stórum kosningasjóði, hefur bætt nýju fólki í forystu sína, farið í uppfærslu á ímynd sinni og auglýsir af áfergju til að ná athygli kjósenda.
Tveir stjórnarflokkar undir kjörfylgi
Samkvæmt kosningaspánni þá er Sjálfstæðisflokkurinn stærstur allra flokka með 23,6 prósent fylgi, sem er undir kjörfylgi hans í síðustu kosningum. Fylgi flokksins hefur verið nokkuð stöðugt frá því í vor, en hæst fór það í 25,8 prósent í apríl og lægst í 23,4 prósent í byrjun júní.
Vinstri græn yrðu næst stærsti flokkur landsins ef kosið yrði í dag, en 13,1 prósent kjósenda segjast styðja flokkinn. Það er umtalsvert undir því sem Vinstri græn fengu í kosningunum 2017 þegar 16,9 prósent kjósenda kusu flokkinn. Eini stjórnarflokkurinn sem mælist yfir kjörfylgi nú um stundir er Framsóknarflokkurinn sem nýtur stuðnings 11,3 prósent kjósenda. Hann fékk 10,7 prósent í síðustu kosningum.
Píratar stærstir andstöðuflokka
Sá stjórnarandstöðuflokkur sem flestir hyggjast kjósa samkvæmt kosningaspánni eru Píratar sem mælast með 12,6 prósent fylgi og bæta við sig 3,4 prósentustigum frá síðustu kosningum að óbreyttu. Samfylkingin stendur nánast í stað með 12,4 prósent fylgi, sem er nánast alveg það sama og flokkurinn fékk 2017. Viðreisn mælist með 9,8 prósent fylgi sem er meira en flokkurinn fékk 2017 en minna en hann fékk 2016.
Miðflokkurinn mælist með 6,4 prósent stuðning og Sósíalistaflokkur Íslands, sem hefur nú kynnt þrjá af sex framboðslistum sínum og er að bjóða fram til þings í fyrsta sinn, mælist með 5,7 prósent fylgi. Flokkur fólksins rekur lestina hjá þeim níu flokkum sem mælast með eitthvað handbært fylgi, en 4,5 prósent landsmanna segjast ætla að kjósa þann flokk. Miðað við þessa niðurstöðu er ljóst að flokkarnir á þingi yrðu að minnsta kosti átta og mögulega níu ef kosið yrði nú.
Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni eru eftirfarandi:
- Þjóðarpúls Gallup 30. júlí (vægi 38,4 prósent)
- Skoðanakönnun Prósent í samstarfi við Fréttablaðið 15-23. júlí (vægi 23,9 prósent)
- Skoðanakönnun Maskínu í samstarfi við Fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis 13 – 26. júlí (20,3 prósent)
- Skoðanakönnun MMR í samstarfi við Morgunblaðið 24. júní - 6. júlí (vægi 17,4 prósent)
Hvað er kosningaspáin?
Fyrir hverjar kosningar um allan heim birta fjölmiðlar gríðarlegt magn af upplýsingum. Þessar upplýsingar eru oftar en ekki tölfræðilegar, byggðar á skoðanakönnunum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upplifir stjórnmálin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórnmálafræðingar og fjölmiðlar keppast svo við að túlka niðurstöðurnar og veita almenningi enn meiri upplýsingar um stöðuna í heimi stjórnmálanna.
Allar þessar kannanir og allar mögulegar túlkanir á niðurstöðum þeirra kunna að vera ruglandi fyrir hinn almenna neytanda. Einn kannar skoðanir fólks yfir ákveðið tímabil og annar kannar sömu skoðanir á öðrum tíma og með öðrum aðferðum. Hvor könnunin er nákvæmari? Hverri skal treysta betur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vandinn er að hinn almenni kjósandi hefur ekki forsendur til að meta áreiðanleika hverrar könnunar.
Þar kemur kosningaspáin til sögunnar.
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar hér á Kjarnanum reglulega í aðdraganda kosninga.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars