Mynd: Bára Huld Beck

Skekkja í kosningakerfi getur ráðið úrslitum um hvaða ríkisstjórn verður mynduð

Mikill stöðugleiki hefur verið í fylgi flestra þeirra flokka sem eiga nú þegar fulltrúa á Alþingi síðustu mánuði. Miðflokkurinn og Flokkur fólksins hafa dalað en Sósíalistaflokkurinn er að bæta við sig fylgi og mælist nú með yfir sex prósent stuðning. Þetta er niðurstaða nýjustu kosningaspárinnar fyrir komandi þingkosningar.

Fylgi flokka hreyf­ist lítið á milli kosn­inga­spáa Bald­urs Héð­ins­sonar og Kjarn­ans fyrir kom­andi þing­kosn­ing­ar. Rík­is­stjórn­ar­flokk­arnir þrír – Sjálf­stæð­is­flokk­ur, Vinstri græn og Fram­sókn­ar­flokkur – bæta við sig 0,4 pró­sentu­stigum á milli spáa og eru nú með 48,4 pró­sent fylg­i. 

Rík­is­stjórn byggð á Reykja­vík­ur­mód­el­inu – sam­starfi þeirra fjög­urra flokka sem starfa saman í meiri­hluta í höf­uð­borg lands­ins og næst stærsta stjórn­valdi þess – nýtur nán­ast sama stuðn­ings. Sam­an­lagt fylgi Vinstri grænna, Pírata, Sam­fylk­ingar og Við­reisnar mælist 47,5 pró­sent. 

Ef Við­reisn yrði skipt út fyrir Fram­sókn­ar­flokk í slíku sam­starfi, en reynt var að mynda slíka rík­is­stjórn í fyrstu stjórn­ar­mynd­un­ar­við­ræð­unum sem fram fóru eftir síð­ustu kosn­ing­ar, hefði sú rík­is­stjórn 48,9 pró­sent stuðn­ing. Af þeim rík­is­stjórnum sem eru lík­legar að geta verið mynd­aðar eins og sakir standa, bæði út frá fylgi og mögu­legum sam­starfsvilja, þá nýtur sú rík­is­stjórn mest fylgis sam­kvæmt kosn­inga­spánni, þó mun­ur­inn sé vel innan allra eðli­legra skekkju­marka. 

Niðurstöður kosningaspárinnar 26. ágúst 2021

Misvægi í gild­andi kosn­inga­kerfi hefur þó skilað því í und­an­förnum kosn­ingum að núver­andi stjórn­ar­flokkar hafa fengið fleiri þing­sæti en atkvæða­skipt­ing sagði til um. Til að laga þessa skekkju þarf að fjölga jöfn­un­ar­sæt­um. Reynt var að gera það með fram­lagn­ingu Pírata um að sex kjör­dæma­kjörnir þing­menn yrðu í öllum kjör­dæmum en að jöfn­un­ar­menn­irnir yrðu 27. Það frum­varp náði ekki í gegn og því eru líkur á að ein­hverjir flokkar fái fleiri þing­menn en þeir eigi að fá í kosn­ing­unum eftir rúmar fimm vik­ur, og aðrir færri en atkvæða­magn þeirra segir til um.

Miðað við núver­andi stöðu mála er ekki ólík­legt að skekkjan geti ráðið úrslitum um hvaða rík­is­stjórn verði mynduð eftir kosn­ing­ar. 

Stöð­ug­leiki í fylgi gæti leitt til óstöð­ug­leika í stjórn­málum

Gengi ann­arra flokka en þeirra sem hafa verið nefndir hér að ofan getur ráðið miklu um hvernig leikar fara, jafn­vel þó þeir séu ólík­legir til að vera kandídatar í rík­is­stjórn. Sós­í­alista­flokkur Íslands er sá flokkur sem hefur tekið til sín mest fylgi á kjör­tíma­bil­inu og mælist nú með 6,1 pró­sent stuðn­ing, og mælist þar með í fyrsta sinn yfir sex pró­sent múr­num í kosn­ings­pánni. Hann er að upp­lifa fylg­is­aukn­ingu í kjöl­far þess að flokk­ur­inn kynnti fram­boðs­lista sína og hefur verið allra flokka dug­leg­astur að reka fjöl­breytta kosn­inga­bar­áttu í netheimum fram til þessa, þrátt fyrir að vera sá seini sem er að mæl­ast með eitt­hvað fylgi sem nýtur ekki hárra rík­is­styrkja.

Auglýsing

Það er aðeins minna en Mið­flokk­ur­inn, sem mælist með 6,6 pró­sent en tölu­vert meira en Flokkur fólks­ins, sem mælist með 4,4 pró­sent, þrátt fyrir að vera sá flokkur sem aug­lýsir mest allra flokka um þessar mund­ir. Báðir þessir flokkar hafa verið að tapa fylgi und­an­farnar vikur og mán­uði.

Nái Sós­í­alista­flokk­ur­inn, Mið­flokk­ur­inn og Flokkur fólks­ins manni inn á þing, sem er alls ekki ósenni­legt, mun það lík­lega hafa umtals­verð áhrif á það hvernig þing­manna­fjöld­inn skipt­ist. 

Athygl­is­vert er að skoða þróun á fylgi ann­arra flokk­anna frá því í apríl og fram til dags­ins í dag. Þar sést að litlar breyt­ingar hafa orðið á fylgi flestra þeirra. Mik­ill stöð­ug­leiki virð­ist vera í fylgi flokka, sem gæti leitt af sér óstöð­ug­leika í stjórn­mál­unum í heild, í ljósi þess að erfitt gæti orðið að mynda starf­hæfa rík­is­stjórn. 

Þróun fylgis framboða í kosningaspánni
Kosningaspáin er unnin í aðdraganda kosninga til Alþingis 2021.
B C D F M P S V Aðrir

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hefur á þessu tíma­bili farið úr því að mæl­ast með 25,8 pró­sent fylgi í að vera nú með 24 pró­sent. Vinstri græn hafa bætt við sig svip­uðu og Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hefur tapað á því tíma­bili, eða 1,4 pró­sentu­stigi, og mæl­ast með 13,5 pró­sent fylgi. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn stendur hins vegar í stað með 10,9 pró­sent fylgi, sem er nán­ast nákvæm­lega það sama og flokk­ur­inn fékk í kosn­ing­unum 2017. 

Píratar og Sam­fylk­ing hafa skipt um stöðu sem stærsti flokk­ur­inn á því sem stundum er kallað frjáls­lynda miðja íslenskra stjórn­mála. Í apríl voru Píratar að mæl­ast með ell­efu pró­sent fylgi en Sam­fylk­ingin með 12,6 pró­sent.

Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, mun leiða lista hans í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Mynd: Bára Huld Beck

Nú eru Píratar með sama fylgi og Sam­fylk­ingin hafði þá en hún hefur dalað um 0,7 pró­sentu­stig. Þriðja aflið á þess­ari frjáls­lyndu miðju, Við­reisn, stendur nán­ast í stað á tíma­bil­inu og mælist með 9,5 pró­sent fylg­i. 

Breyt­ingar á loka­sprett­inum höfðu ráð­andi áhrif

Nið­ur­staða kosn­inga er sann­ar­lega ekki alltaf í takt við kann­an­ir. Dag­inn fyrir þing­kosn­ing­arnar 2017 stefndi allt í fjög­urra flokka rík­is­stjórn frá miðju til vinstri á Íslandi, sam­kvæmt nið­ur­stöðum kosn­inga­spár­inn­ar. Sam­an­lagt fylgi Vinstri grænna og Sam­fylk­ing­ar­innar mæld­ist sam­an­lagt um 35 pró­sent sam­kvæmt síð­ustu kosn­inga­spá Kjarn­ans, sem byggði á gerðum skoð­ana­könn­unum dag­anna á und­an, og flokk­arnir tveir virt­ust geta valið úr tvo af þremur öðrum flokk­um: Píröt­um, Fram­sókn­ar­flokki eða Við­reisn, til að mynda rík­is­stjórn sem væri með 34 til 35 þing­menn. 

Kappræður milli forsvarsmanna allra framboða sem mældust inni fóru fram daginn fyrir kosningarnar 2017.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Þegar talið var upp úr köss­unum dag­inn eftir hafði staðan breyst umtals­vert. Vinstri græn og Sam­fylk­ing náðu ekki sam­an­lögðu fylgi yfir 30 pró­sent. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn fékk aðeins meira en hann hafði mælst með (síð­asta kosn­inga­spáin sagði hann vera með 23,7 pró­sent fylgi en það reynd­ist vera 25,3 pró­sent) en sú aukn­ing var nán­ast innan skekkju­marka. Mestu skipti að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn fékk mun fleiri atkvæði en kann­anir höfðu sýnt (mæld­ist með 7,5 pró­sent en fékk 10,7 pró­sent) og Flokkur fólks­ins, sem hafði varla mælst inni í kosn­inga­bar­átt­unni náði að bæta vel við sig á loka­sprett­in­um, aðal­lega vegna frammi­stöðu flokks­for­manns­ins Ingu Sæland í sjón­varp­s­kapp­ræð­um, og náði inn fjórum þing­mönn­um.

Auglýsing

Mjög skyndi­lega blasti við allt önnur staða en kann­anir höfðu sýnt nær alla kosn­inga­bar­átt­una. En var hægt að mynda fjög­urra flokka félags­hyggju­stjórn Vinstri grænna, Sam­fylk­ing­ar, Fram­sókn­ar­flokks og Pírata en hún myndi hafa minnsta mögu­lega meiri­hluta, 32 þing­menn.

For­víg­is­menn þess­ara flokka hitt­ust á heim­ili Sig­urðar Inga Jóhanns­sonar í kjöl­far kosn­ing­anna en þeim var slitið 6. nóv­em­ber af Fram­sókn­ar­flokkn­um, sem gaf þá skýr­ingu að meiri­hlut­inn væri of naum­ur. Í kjöl­farið mynd­uðu Vinstri græn og Fram­sókn rík­is­stjórn með Sjálf­stæð­is­flokki. Það er almenn skoðun innan þeirra flokka sem tóku þátt í við­ræð­unum heima hjá Sig­urði Inga, en röt­uðu ekki í rík­is­stjórn, að eftir á að hyggja hafi hugur ekki fylgt máli hjá Vinstri grænum og Fram­sókn­ar­flokki í þeim. Einn kall­aði þær „leik­rit“ sem sett var upp til að búa til rétt­læt­ingu fyrir stjórn­ar­sam­starfi með Sjálf­stæð­is­flokkn­um.

Auglýsing

Þær kann­anir sem liggja til grund­vallar nýj­ustu kosn­inga­spánni eru eft­ir­far­andi:

  • Þjóð­ar­púls Gallup 29. júlí-15. ágúst (43,2 pró­sent)
  • Þjóð­ar­púls Gallup 30. jún­í-28. júlí (vægi 22,5 pró­sent)
  • Skoð­ana­könnun Mask­ínu í sam­starfi við Frétta­stofu Stöðvar 2, Bylgj­unnar og Vísis 13 – 26. júlí (11,3 pró­sent)
  • Skoð­ana­könnun Pró­sent í sam­starfi við Frétta­blaðið 15-23. júlí (vægi 13,3 pró­sent)
  • Skoð­ana­könnun MMR í sam­starfi við Morg­un­blaðið 24. júní - 6. júlí (vægi 9,7 pró­sent)

Hvað er kosn­­inga­­spá­in?

Fyrir hverjar kosn­ingar um allan heim birta fjöl­miðlar gríð­ar­legt magn af upp­lýs­ing­um. Þessar upp­lýs­ingar eru oftar en ekki töl­fræði­leg­ar, byggðar á skoð­ana­könn­unum þar sem fólk hefur verið spurt hvernig það upp­lifir stjórn­málin og hvað það getur ímyndað sér að kjósa. Stjórn­mála­fræð­ingar og fjöl­miðlar kepp­ast svo við að túlka nið­ur­stöð­urnar og veita almenn­ingi enn meiri upp­lýs­ingar um stöð­una í heimi stjórn­mál­anna.

Allar þessar kann­anir og allar mögu­legar túlk­anir á nið­ur­stöðum þeirra kunna að vera rugl­andi fyrir hinn almenna neyt­anda. Einn kannar skoð­anir fólks yfir ákveðið tíma­bil og annar kannar sömu skoð­anir á öðrum tíma og með öðrum aðferð­um. Hvor könn­unin er nákvæm­ari? Hverri skal treysta bet­ur? Svarið er oftar en ekki óljóst því vand­inn er að hinn almenni kjós­andi hefur ekki for­sendur til að meta áreið­an­leika hverrar könn­un­ar.

Þar kemur kosn­inga­spáin til sög­unn­ar.

Kosn­­­inga­­­spálíkan Bald­­­urs Héð­ins­­­sonar miðar að því að setja upp­­­lýs­ing­­­arnar sem skoð­ana­kann­­­anir veita í sam­hengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­­inga. Nið­ur­stöður spálík­ans­ins eru svo birtar hér á Kjarn­anum reglu­lega í aðdrag­anda kosn­inga.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar